Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Innskattur
  • Eignayfirfærsla við eigendaskipti á fyrirtæki
  • Málshraði

Úrskurður nr. 598/1998

Gjaldár 1993

Virðisaukaskattur 1992

Lög nr. 50/1988, 12. gr. 4. mgr., 29. gr. 1. mgr.   Stjórnsýslulög nr. 37/1993, 10. gr.  

Í máli þessu var deilt um hvort sala hlutafélags til annars hlutafélags á tækjum og innréttingum í matvöruverslun fyrrnefnda félagsins hefði átt sér stað í sambandi við eigendaskipti á fyrirtæki eða hluta þess í skilningi 4. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988. Yfirskattanefnd hafnaði því og benti á að eftir kaup umræddra muna hefði kaupandi leigt þá öðrum aðila sem haldið hefði áfram rekstri matvöruverslunar þeirrar sem seljandi munanna hefði áður rekið. Þá var tekið fram í úrskurði yfirskattanefndar að engum eða óverulegum eigna- og stjórnunartengslum væri til að dreifa á milli þeirra félaga sem í málinu greindi. Var kærandi talinn eiga rétt á innskattsfrádrætti vegna viðskiptanna.

I.

Málavextir eru þeir að í kjölfar bréfaskipta og skýrslutöku af framkvæmdastjóra kæranda, sem er hlutafélag, endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1993 og virðisaukaskatt hans árið 1992, sbr. endurákvörðun, dags. 17. júlí 1996. Þær breytingar sem skattstjóri gerði og hér skipta máli eru eftirfarandi:

1. …

2. …

3. Skattstjóri lækkaði innskatt kæranda á uppgjörstímabilinu janúar-febrúar 1992 um 4.427.711 kr. vegna kaupa kæranda samkvæmt reikningi, dags. 27. febrúar 1992, á tækjum og innréttingum af Þ hf. Kvað skattstjóri verða að líta á viðskipti þessi sem yfirtöku á rekstri í skilningi 4. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og því væri óheimilt að telja eignayfirfærslu umræddra verðmæta til skattskyldrar veltu samkvæmt nefndu ákvæði. Í bréfi, dags. 19. apríl 1996, þar sem skattstjóri boðaði kæranda umrædda lækkun innskatts, gerði skattstjóri svofellda grein fyrir nánari forsendum þessarar breytingar:

„Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum í málinu er Þ hf. hætt rekstri matvöruverslunarinnar í X. Reksturinn var seldur Ö hf. sem rekur matvöruverslun á sama stað, en [kærandi] hefur samkvæmt framlögðum gögnum í málinu keypt innréttingar, tæki og önnur áhöld matvöruverslunarinnar af Þ hf. [Kærandi] leigir svo Ö hf. þau tæki sem keypt voru af Þ hf. skv. fyrirliggjandi leigusamningi (fylgiskjal nr. 6). [Kærandi] framleigir einnig Ö hf. húsnæðið í X, sbr. fylgiskjal nr. 6. Rekstur sem áður var í einu lagi er því nú á vegum tveggja félaga. Ö hf. sem sér um rekstur matvöruverslunar í X og [kæranda] sem á flest tæki og innréttingar verslunarinnar að undanskildum búðarkössum og tölvukerfi. [Kærandi] leigir svo Ö hf. húsnæðið, tækin og innréttingarnar sem enn eru í sama húsnæði og þau voru notuð af fyrri eiganda. Þann 12. desember 1994 voru tæki og innréttingar matvöruverslunarinnar í X seldar Ö hf. án virðisaukaskatts. Sjá fylgiskjöl nr. 10 og 11 fyrir aftan meginmál. Eftir þann tíma falla tækin og innréttingarnar alveg inn í rekstur Ö hf. Frá og með sama tíma leigir Ö hf. húsnæðið í X beint af eiganda húsnæðisins.

Í skýrslutöku 20. desember 1995 af aðaleiganda [kæranda], B, kemur fram að [kærandi] hafi leigt Ö hf. húsnæði og tæki í Z áður en kom til viðskipta félaganna í X. Þar hafi Ö hf. verið með matvöruverslun eins og í X. Jafnframt kemur fram að [kærandi] hafi tekið þátt í minnkun verslunarinnar í X og að Ö hf. hafi séð um breytingar á kassaborðum, kassakerfinu og vegna tölvulagna. Sjá fylgiskjal nr. 1 fyrir aftan meginmál. Samsvarandi upplýsingar komu fram í skýrslutöku 23. janúar 1996 (misritaðist sem 19. desember 1995 við skýrslutöku) af framkvæmdastjóra Ö hf., D, sjá fylgiskjal nr. 2 fyrir aftan meginmál.

Í skýrslutöku af D kom einnig fram að verslun Ö hf. í X opnaði í byrjun apríl 1992. Undirbúningur að opnun verslunarinnar hófst hins vegar í lok febrúar 1992 eða um sama leyti og [kærandi] kaupir tæki og innréttingar í X, sjá fylgiskjal 3. Fyrir liggur einnig skv. bókhaldi [kæranda] og skýrslutöku af B að [kærandi] sá um breytingu og standsetningu á verslun Ö hf. í X. Skv. framangreindu virðist [kærandi] og Ö hf. hafa haft með sér náið samstarf um undirbúning opnunar á verslun Ö hf. í X.

Með hliðsjón af framangreindu verður því ekki annað séð skv. framkomnum upplýsingum í málinu en að [kærandi] sé að taka yfir hluta af rekstri Þ hf. Samkvæmt 12. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt má ekki telja til skattskyldrar veltu eignayfirfærslu vörubirgða, véla og annarra rekstrarfjármuna þegar yfirfærsla á sér stað í sambandi við eigendaskipti á fyrirtæki eða hluta þess og hinn nýi eigandi hefur með höndum skráðan eða skráningarskyldan rekstur samkvæmt lögum þessum. Við slíka sölu skal seljandi tilkynna skattyfirvöldum um eigendaskipti og söluandvirði eigi síðar en átta dögum eftir að eignayfirfærslan fór fram.

Líta verður á ofangreind viðskipti sem yfirtöku á rekstri samkvæmt áðurnefndu ákvæði 12. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt hvort sem félögin eru eitt, tvö eða fleiri sem kaupa og óháð því hvernig þau skipta með sér verkum.“

II.

Með kæru, dags. 14. ágúst 1996, mótmælti umboðsmaður kæranda framangreindum breytingum skattstjóra á áður álögðum opinberum gjöldum og virðisaukaskatti félagsins.

Í kærunni vék umboðsmaður kæranda að viðskiptum félagsins við Þ hf. á árinu 1992 og mótmælti því að um yfirtöku á rekstri hefði verið að ræða. Kvað umboðsmaður þau tæki, sem kærandi hefði keypt, hafa verið notuð í matvöruverslunarrekstri, en starfsemi kæranda væri fólgin í leigu áhalda og tækja til skattskylds aðila. Sú túlkun skattstjóra að tækin hefðu áfram verið notuð í samskonar rekstri þótt svo að tvö sjálfstæð hlutafélög og þar að auki ótengd með öllu hafi staðið að rekstrinum fengi ekki staðist. Vísaði umboðsmaður máli sínu til stuðnings til álits ríkisskattstjóra nr. 275/1991. Þá benti umboðsmaður á að í athugasemdum við 12. gr. í frumvarpi því sem orðið hefði að lögum nr. 50/1988 kæmi fram að forsenda fyrir undanþágu 4. mgr. greinarinnar væri að skattyfirvöldum væri tilkynnt um eigendaskipti innan átta daga frá því að sala fór fram.

Skattstjóri tók kæru umboðsmanns kæranda til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 9. júní 1997.

Vegna þess þáttar málsins, sem snýr að höfnun innskatts að fjárhæð 4.427.711 kr. vegna viðskipta kæranda við Þ hf. á árinu 1992, kvað skattstjóri liggja fyrir að umrætt hlutafélag hefði hætt rekstri matvöruverslunar í X við sölu rekstursins til Ö hf. Kærandi, sem verið hefði með skráningarskyldan rekstur, hefði keypt tæki, innréttingar og önnur áhöld matvöruverslunarinnar af Þ hf. og leigt þau tæki til Ö hf., sem séð hafi um rekstur matvöruverslunarinnar. Að teknu tilliti til þess sem komið hefði m.a. fram við skýrslutökur yrði ekki annað séð en að kærandi og Ö hf. hefðu haft með sér náið samstarf um opnun á verslun Ö hf. í X og umrædd tæki og innréttingar hefðu verið notuð í rekstri matvöruverslunarinnar. Yrði ekki annað séð en að kærandi hefði yfirtekið hluta af rekstri Þ hf. með því að kaupa umrædd tæki og innréttingar, sem notuð hefðu verið á sambærilegan hátt í rekstri kæranda og áður hefði verið í rekstri Þ. Viðskipti félaganna heyrðu því undir ákvæði 4. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og kærandi gæti ekki sneitt hjá ákvæðinu með því að tilkynna ekki um eigendaskipti innan átta daga frá því að eignayfirfærsla hefði farið fram. Staðfesti skattstjóri því niðurstöðu sína um hin umþrættu viðskipti kæranda og Þ hf.

III.

Með kæru, dags. 7. júlí 1997, sbr. rökstuðning í bréfi, dags. 20. október 1997, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar.

Að því er varðar breytingar á virðisaukaskatti kæranda gerir umboðsmaður þá aðalkröfu í kæru sinni til yfirskattanefndar að úrskurði skattstjóra verði hnekkt að því er þær breytingar varðar þar sem úrskurðurinn sé of seint fram kominn. Bendir umboðsmaður á að frestur skattstjóra til uppkvaðningar kæruúrskurðar samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, hafi runnið út hinn 15. september 1996.

Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram svofelld varakrafa af hálfu umboðsmanns kæranda í virðisaukaskattsþætti málsins:

„ …

Þeirri ákvörðun skattstofu að ætla að fella niður innskattsfrádrátt vegna kaupa á áhöldum og tækjum af Þ hf. er mótmælt. Hér á eftir verða tilgreind þau atriði og helstu rök gegn ákvörðun skattstofu.

Í fyrsta lagi vil ég vitna í álit frá virðisaukaskattsdeild Ríkisskattstjóraembættisins nr. 275/1991, en í það álit er mjög oft vitnað þegar fyrirspurnum er beint til skattstofu. Við yfirlestur þess verður ekki annað séð en að sala sú sem hér er um deilt falli beint undir það álit. Þar kemur ljóslega fram að í engu má breyta út af fyrra ferli seljanda. Sendibílstjórinn sem selur bifreið sína til matvöruverslunar verður að innheimta virðisaukaskatt af viðskiptunum þó svo að hann hætti rekstri og bifreiðin verði notuð á sambærilegan hátt í rekstri verslunarinnar, þ.e.a.s. til sendiferða fyrir matvöruverslunina. Sama á við um viðskipti umbjóðanda míns, tækin voru í matvöruverslunarrekstri en rekstur umbjóðanda míns er leigusala til skattskylds aðila.

Í öðru lagi vil ég nefna úrskurð yfirskattanefndar nr. 230/1994. Í þennan úrskurð vitnar skattstofa í úrskurði sínum þann 9. júní 1997. Kjarninn í þeim úrskurði er að, „kaupandi annað hvort heldur áfram rekstri fyrirtækisins eða notar hina keyptu rekstrarfjármuni á annan sambærilegan hátt við atvinnustarfsemi sína.“ Sambærilegur háttur í þessu tilfelli er ekki til staðar þar sem áður var um að ræða verslunarrekstur en eftir sölu var um að ræða leigusölu sem er allt annar rekstur. Sú túlkun skattstofu að tækin séu áfram í samskonar rekstri fæst því ekki staðist.

Í þriðja lagi vil ég nefna Hæstaréttarúrskurð nr. 238/1995. Umbjóðandi minn neitaði á sínum tíma að fullnusta greiðslu þá sem honum bar samkvæmt reikningi þeim sem Þ h.f. gerði honum vegna áhaldanna. Þetta var gert á þeim forsendum að ekki lá fyrir endanlegur úrskurður skattyfirvalda vegna frádráttarbærni innskatts samkvæmt reikningi þar um. Þ h.f. rak mál þá fyrir dómstólum og fékk umbjóðanda minn dæmdan fyrir Hæstarétti til þess að fullnusta greiðslu. Með því að dæma á þennan hátt teljum við að Hæstiréttur sé að viðurkenna að krafan sé rétt fram borin með virðisaukaskatti ella hefði Hæstiréttur dæmt að kröfuna skyldi greiða án virðisaukaskatts.

Að öllu þessu virtu er það krafa mín fyrir hönd umbjóðanda míns að þér fallið frá umræddri breytingu þar sem umræddur frádráttur er byggður á reikningi sem uppfyllir kröfu reglugerðar nr. 192/1993 um innskatt.“

Með bréfi, dags. 20. febrúar 1998, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Varðandi aðalkröfu kæranda vill ríkisskattstjóri benda á að almennt valda tafir á afgreiðslu mála ekki ógildi ákvörðunar, sbr. nýlegan úrskurð yfirskattanefndar nr. 522/1997. Með vísan til þess og annarra úrskurða yfirskattanefndar, sem gengið hafa varðandi svipuð tilvik, er þess krafist að kæran verði tekin til efnislegrar meðferðar þrátt fyrir þær tafir sem orðið hafa á afgreiðslu málsins hjá skattstjóra.

Varðandi þann hluta er tekur til virðisaukaskatts:

Varðandi varakröfu kæranda þá er það krafa ríkisskattstjóra að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

IV.

Kröfur sínar í máli þessu styður kærandi bæði formlegum og efnislegum rökum. Rétt þykir að víkja fyrst að þeirri formkröfu kæranda að fella beri hinn kærða úrskurð úr gildi að því er varðar breytingar á virðisaukaskatti kæranda þar sem skattstjóri hafi ekki gætt ákvæða 1. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, um frest til að leggja úrskurði á kærur. Er þessi málsástæða kæranda bundin við breytingar skattstjóra á virðisaukaskatti hans. Samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skyldi skattstjóri hafa úrskurðað kæru kæranda innan 30 daga frá lokum þess 30 daga kærufrests sem kveðið var á um í 1. málslið 1. mgr. þessarar lagagreinar. Nú gildir um úrskurðarfrest skattstjóra ákvæði 3. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 7. gr. laga nr. 149/1996.

Skattstjóri boðaði kæranda hinar kærðu breytingar á virðisaukaskatti hans með bréfi, dags. 19. apríl 1996. Með því bréfi afturkallaði skattstjóri jafnframt áður sent boðunarbréf sitt, dags. 15. nóvember 1994. Skattstjóri hratt hinum boðuðu breytingum í framkvæmd með endurákvörðun, dags. 17. júlí 1996. Í framhaldi af kæru kæranda, dags. 14. ágúst 1996, kvað skattstjóri upp kæruúrskurð hinn 9. júní 1997. Samkvæmt þessu fór skattstjóri verulega fram úr þeim lögmælta 30 daga fresti sem hann hafði til að úrskurða kæruna eða hátt í níu mánuði. Í kæruúrskurði skattstjóra koma ekki fram skýringar á þessum drætti og ekki liggur fyrir að frestur hafi verið framlengdur, sbr. 118. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 5. mgr. 49. gr. laga nr. 50/1988. Samkvæmt framangreindu hefur skattstjóri brotið gegn ákvæði um úrskurðarfrest í lokamálslið 1. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988. Með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands frá 12. mars 1948 (H 1948:149) og dóma Héraðsdóms Reykjavíkur frá 18. nóvember 1994 í málinu nr. E-1739/1994 (Eimskipafélag Íslands hf. gegn íslenska ríkinu) og 18. mars 1998 í málinu nr. E-5852/1996 (Íslenska útvarpsfélagið hf. gegn íslenska ríkinu) verður hins vegar ekki talið að það valdi ógildingu á ákvörðun skattstjóra þótt dregist hafi fram yfir lögmæltan frest að hann úrskurðaði um kæru kæranda. Er kröfu kæranda þar að lútandi því hafnað.

Víkur þá að efnisþætti málsins. … Að síðustu hefur umboðsmaður mótmælt lækkun innskatts vegna kaupa kæranda á tækjum og innréttingum af Þ hf. á árinu 1992. Hér verður fjallað um hvern þessara fjögurra kæruliða fyrir sig.

Víkur þá að þeim þætti málsins sem varðar viðskipti kæranda og Þ hf. á árinu 1992. Deilt er um hvort ákvæði 4. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, taki til þeirra viðskipta, svo sem skattstjóri og ríkisskattstjóri halda fram, eða hvort um sé að ræða viðskipti er falli undir 3. mgr. 11. gr. laganna, svo sem byggt er á af hálfu kæranda. Samkvæmt fyrrnefndu lagaákvæði má ekki telja eignayfirfærslu vörubirgða, véla og annarra rekstrarfjármuna til skattskyldrar veltu þegar yfirfærslan á sér stað í sambandi við eigendaskipti á fyrirtæki eða hluta þess og hinn nýi eigandi hefur með höndum skráðan eða skráningarskyldan rekstur samkvæmt lögunum. Við slíka sölu skal seljandi tilkynna skattyfirvöldum um eigendaskipti og söluandvirði eigi síðar en átta dögum eftir að eignayfirfærsla fór fram, sbr. 2. málslið málsgreinarinnar. Samkvæmt síðarnefndu lagagreininni telst sala eða afhending véla, tækja og annarra rekstrarfjármuna til skattskyldrar veltu skráðs aðila. Taka lagaákvæðin í 3. mgr. 11. gr. og 4. mgr. 12. gr. til sams konar verðmæta, en meðferð virðisaukaskatts við afhendingu þeirra fer eftir því hvort um er að ræða almenn viðskipti eða eignayfirfærslu í tengslum við eigendaskipti á fyrirtæki eða hluta þess. Vegna ákvæðis 3. mgr. 15. gr. laganna, þar sem hugtakið innskattur er skilgreint, skiptir sköpum um rétt kæranda til frádráttar innskatts vegna kaupa hans á umræddum tækjum og vörubirgðum hvort virðisaukaskattur hafi með réttu fallið til við kaupin eða ekki.

Þau viðskipti aðila, sem deilt er um í málinu, felast í sölu Þ hf. til kæranda samkvæmt sölureikningi, dags. 27. febrúar 1992, á tækjum og innréttingum í matvöruverslun fyrrnefnda félagsins í X í Reykjavík. Er reikningurinn að fjárhæð 22.500.000 kr. og er virðisaukaskattur innifalinn í söluverði, alls 4.428.000 kr. Sölureikningnum fylgdi tækjalisti sem er meðal gagna málsins. Þar kemur fram að um er að ræða djúpfrysta, mjólkurkæli, veggkæli, ávaxtakæli, ávaxtaborð á gólfi, allar hillur og hillurekka, innkaupavagna og körfur, vogir, pökkunarvélar, peningaskáp, faxtæki, ljósritunarvél, símkerfi, tölvu með stimpilklukkukerfi, vöruvagna, skrifborð, vélritunarborð, stóla, afgreiðslukassa í verslun, kallkerfi, öryggiskerfi, kæliskáp við kjötborð, kjúklingaofn, ryksugu, kæliskáp, frystiskáp, eldhúsinnréttingu, skúringavél og pressur. Fram er komið að kaupverð hinna seldu muna var greitt með afsali fyrir þremur íbúðum að … og …, sbr. kauptilboð, dags. 27. febrúar 1992, sem er meðal gagna málsins.

Fyrir liggur í málinu að Þ hf. er hætt rekstri matvöruverslunar í X. Annað félag, Ö hf., hefur rekið matvöruverslun á sama stað frá því á árinu 1992. Kærandi leigði Ö hf. tæki þau og innréttingar, sem keypt voru af Þ hf., allt til ársins 1994, en þá voru munirnir seldir Ö hf. Liggur fyrir sölureikningur vegna þessa, dags. 12. desember 1994. Á sama tíma framleigði kærandi Ö hf. húsnæðið að X. Í bréfi umboðsmanns kæranda til skattstjóra, dags. 29. nóvember 1994, er gerð grein fyrir tilgangi með kaupum kæranda á tækjum og innréttingum matvöruverslunarinnar í X. Kveður umboðsmaður markmiðið með kaupunum hafa verið að leigja tækin og innréttingarnar aftur til skamms tíma og hafi framkvæmd þessi fyrst og fremst verið gerð til að liðka fyrir sölu á fasteignum kæranda, sem erfiðlega hafi gengið að selja, en alls ekki í því skyni að taka á neinn hátt þátt í rekstri, enda hafi það ekki verið gert. Þá kom fram í skýrslutöku af framkvæmdastjóra Ö hf. að ráðstafanir þær, sem í málinu greinir, væru m.a. tilkomnar vegna þeirrar stefnu Ö hf. að fjárfesta sem minnst.

Ákvæði 4. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þykir verða að skýra svo að það geti ekki átt við nema í þeim tilvikum þegar seljandi hættir rekstri fyrirtækis eða hættir rekstri afmarkaðs rekstrarþáttar (hluta fyrirtækis) og kaupandi annað hvort heldur áfram rekstri fyrirtækisins eða notar hina keyptu rekstrarfjármuni á annan sambærilegan hátt við atvinnustarfsemi sína. Fyrir liggur í máli þessu að starfsemi kæranda felst í útleigu atvinnuhúsnæðis, sbr. m.a. skráningu í tölvukerfi virðisaukaskatts. Hin umdeildu viðskipti félagsins við Þ hf. og eftirfarandi útleiga tækja og innréttinga ásamt húsnæðinu að X til Ö hf. geta því út af fyrir sig talist eðlilegur þáttur í reglulegri starfsemi félagsins. Óumdeilt er að kærandi hélt ekki áfram rekstri matvöruverslunar þeirrar, sem samningsaðili hans, Þ hf., hafði áður rekið í X, heldur var það Ö hf. sem tók við rekstri verslunarinnar. Er þannig m.a. komið fram í málinu að Ö hf. og Þ hf. gerðu með sér samkomulag um kaup hins fyrrnefnda félags á lager hins síðarnefnda, sbr. svar framkvæmdastjóra kæranda við spurningu 2 við skýrslutöku hjá skattstjóra þann 20. desember 1995. Þá niðurstöðu sína, að viðskipti kæranda og Þ hf. falli undir ákvæði 4. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, hefur skattstjóri m.a. byggt á því að kærandi og Ö hf. hafi haft með sér náið samstarf um opnun matvöruverslunarinnar að X á árinu 1992 og því að kærandi hafi á sama tíma leigt Ö hf. húsnæði undir matvöruverslun að Z. Umrætt samstarf, sem vissulega var fyrir hendi eftir því sem gögn málsins bera með sér, breytir því þó ekki að líta verður svo á að Ö hf. sé sá aðili sem raunverulega tók yfir rekstur Þ hf. í X, en ekki kærandi, enda hafa verið gefnar skýringar á þessu samstarfi sem ekki er ástæða til að draga í efa. Ekki er óeðlilegt að kærandi og Ö hf. hafi haft með sér samstarf um opnun matvöruverslunarinnar að X, enda hafði kærandi augljósa hagsmuni af því að vel tækist til í þeim efnum í ljósi skráðrar starfsemi félagsins. Ágreiningslaust er að engum eða óverulegum eigna- og stjórnunartengslum er til að dreifa á milli þeirra félaga, sem í málinu greinir.

Með vísan til þess, sem hér að framan hefur verið rakið, verður ekki talið að skattstjóri hafi sýnt fram á að ákvæði 4. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, taki til þeirra viðskipta kæranda og Þ hf. sem í málinu greinir. Að svo vöxnu er krafa kæranda varðandi þetta kæruatriði tekin til greina og lækkun skattstjóra á innskatti félagsins uppgjörstímabilið janúar-febrúar 1992 felld úr gildi.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja