Úrskurður yfirskattanefndar
- Álag vegna staðgreiðsluskila
Úrskurður nr. 643/1998
Staðgreiðsla opinberra gjalda árið 1997
Lög nr. 45/1987, 28. gr. 6. mgr.
Vegna mistaka starfsmanns kæranda láðist að inna skilaskylda staðgreiðslu opinberra gjalda og staðgreiðslu tryggingagjalds af hendi á gjalddaga. Kröfu kæranda um niðurfellingu álags var hafnað þar sem kærandi var ekki talinn hafa fært fram gildar ástæður sér til afsökunar.
I.
Málavextir eru þeir að kærandi stóð skil á staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjalds vegna mars 1997 hinn 16. apríl 1997, en eindagi greiðslna þessara var 15. sama mánaðar, sbr. 3. mgr. 29. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald. Kærandi tjáði skattstjóra í bréfi, dags. 16. apríl 1998, að vegna mistaka afleysingamanns gjaldkera kæranda hefði kæranda láðst að greiða staðgreiðslu og tryggingagjald á eindaga. Fór kærandi fram á að fallið yrði frá álagsbeitingu þar sem kærandi hefði ekki áður verið of seinn í skilum.
Skattstjóri hafnaði beiðni kæranda með úrskurði þann 11. maí 1998. Kvað hann atvik ekki með þeim hætti að kæranda hefði verið ómögulegt eða illgerlegt að sjá svo um að tilskilin greiðsla yrði innt af hendi innan settra tímamarka. Kærandi teldist því eigi hafa fært fram gildar ástæður sér til afsökunar, sbr. 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.
Kærandi hefur skotið úrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 13. maí 1998. Gerir hann kröfu um að ekki komi til sérstakra álagsgreiðslna. Kveður kærandi að í 55 ára sögu félagsins hafi skattar og gjöld ávallt verið greidd innan tilskilins greiðslufrests.
Með bréfi, dags. 29. maí 1998, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
II.
Í 1. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, er boðið að launagreiðandi skuli sæta álagi til viðbótar skilaskyldri staðgreiðslu samkvæmt lögunum ef greiðsla er eigi innt af hendi á tilskildum tíma. Samkvæmt 6. mgr. 28. gr. laganna má fella niður álag ef launagreiðandi færir gildar ástæður sér til málsbóta og skal skattstjóri meta það í hverju tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi. Samkvæmt 1. gr. og C-lið 2. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 111/1990, um breyting á þeim lögum, tekur staðgreiðsla opinberra gjalda samkvæmt lögunum til tryggingagjalds nema annað sé tekið fram. Samkvæmt þessu og eins og háttað er tengslum laga þessara og laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, verður að telja að ákvæði 28. gr. laga nr. 45/1987 gildi um tryggingagjald að undanskildu því álagi sem tilgreint er í 1. tölul. 2. mgr. þessarar lagagreinar, sbr. lokamálslið 1. mgr. 10. gr. laga nr. 113/1990. Niðurfellingarheimild 6. mgr. 28. gr. tekur því til dráttarvaxta vegna vanskila tryggingagjalds í staðgreiðslu (álags), sbr. 2. tölul. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987.
Fyrir liggur að lagaskilyrði voru til beitingar álags skv. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 þar sem kærandi innti skilaskylda staðgreiðslu opinberra gjalda og staðgreiðslu tryggingagjalds ekki af hendi á gjalddaga. Fram er komið í málinu af kæranda hálfu að greiðsludrátturinn hafi stafað af mistökum starfsmanns hans sem láðst hafi að greiða staðgreiðsluna á gjalddaga. Verður ekki talið að kærandi hafi fært fram gildar ástæður sér til afsökunar þannig að efni séu til að taka kröfu um niðurfellingu álags til greina, sbr. 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987. Er kröfu kæranda því hafnað.