Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðaviðskipti
  • Söluhagnaður lausafjár

Úrskurður nr. 656/1998

Gjaldár 1997

Lög nr. 75/1981, 15. gr.  

Með tilliti til umfangs bifreiðaviðskipta kærenda á árinu 1996 og framlagðra gagna málsins voru kærendur ekki talin hafa sýnt fram á að þau hefðu ekki stundað viðskiptin í hagnaðarvon, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981. Var ákvörðun skattstjóra um að fara með söluhagnað kærenda af viðskiptunum eftir 1. mgr. 15. gr. sömu laga því látin standa óhögguð, en fallist var á kröfu þeirra um lækkun söluhagnaðar vegna útgjalda af viðskiptunum og endurbóta á hinum seldu bifreiðum.

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 13. maí 1997, skoraði skattstjóri á kærendur að láta í té gögn og upplýsingar er vörðuðu bifreiðaviðskipti kærenda á árinu 1996, en skattstjóri kvað liggja fyrir að kærendur hefðu keypt og selt bifreiðar á því ári án þess að þeirra viðskipta væri getið í skattframtali kærenda árið 1997. Fór skattstjóri fram á tilgreiningu kaupverðs hverrar bifreiðar, einkennisnúmer, tegund, árgerð, nafn kaupanda og dagsetningu viðskipta. Þá óskaði skattstjóri eftir því að lögð yrði fram greinargerð fyrir áföllnum kostnaði ásamt kvittunum vegna bifreiðaviðskiptanna og afrit af kaupsamningum eða afsölum. Kvað skattstjóri skattlagningu hagnaðar af sölu lausafjármuna fara eftir ákvæðum 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með bréfi, dags. 11. júní 1997, lagði umboðsmaður kærenda fram lista yfir keyptar og seldar bifreiðar á árinu 1996, þar sem m.a. var getið um kaupverð, kostnað og söluverð.

Með bréfi skattstjóra, dags. 24. júlí 1997, tilkynnti hann um svofelldar breytingar á skattframtali kærenda árið 1997:

„Til tekna á skattframtali yðar færist hagnaður af sölu bifreiða kr. 951.028 í samræmi við ákvæði 1. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, en ljóst þykir að bifreiða hafi verið aflað í þeim tilgangi að selja þær aftur með hagnaði, sbr. kaup yðar á tjónabifreiðum af tryggingafélögum.

Umbeðin gögn til staðfestingar á útlögðum kostnaði hafa ekki verið lögð fram og verður því ekki fallist á að draga frá tekjum kostnað skv. yfirliti.“

Umboðsmaður kærenda kærði álögð opinber gjöld gjaldárið 1997 til skattstjóra með kæru, dags. 27. ágúst 1997. Kvað hann að rökstuðningur yrði sendur fljótlega.

Skattstjóri vísaði kæru umboðsmanns kærenda frá með kæruúrskurði, dags. 3. nóvember 1997, þar sem rökstuðningur kærunnar hefði ekki borist.

Umboðsmaður kærenda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 20. nóvember 1997. Rökstuðningur fyrir þeirri kæru barst í kjölfar bréfaskipta með bréfi, dags. 12. mars 1998. Þar segir:

„1. Afrit reikninga vegna standsetningar og viðgerða á seldum bifreiðum, sundurliðað á hverja selda bifreið. Komið hefur í ljós að kostnaður er hærri en skv. áður sendri sundurliðun eða kr. 381.654 í stað kr. 314.428.

2. Ný sundurliðun yfir kaup og sölu bifreiða. Á áður sendri sundurliðun láðist að gefa upp sölu á bifreiðinni A, en hún var seld á árinu 1996 á kr. 40.000. Bifreiðin B, kaupverð kr. 250.000 er hinsvegar óseld í árslok 1996 og óskast hún færð sem eign á framtali. Þá eru kostnaðarliðir leiðréttir á skýrslunni sbr. ofanritað.

3. Gögn yfir kaup og sölur bifreiðanna, þ.e. þau sem fyrir hendi eru en því miður hefur ekki tekist að finna þau öll.

Samkvæmt framanrituðum gögnum eru tekjur af kaupum og sölu bifreiða kr. 559.374.

Vonum að framangreind gögn og upplýsingar þyki fullnægjandi svar.

Því er hins vegar mótmælt að hér sé um atvinnurekstur að ræða og er þess krafist að söluhagnaður verði ekki skattlagður sbr. 2. mgr. 15. gr. skattalaga. Til vara er krafist að söluhagnaður verði lækkaður úr kr. 951.028, sbr. bréf skattstjóra dags. 24. júlí 1997, í framangreinda upphæð kr. 559.374.“

Með bréfi, dags. 10. júlí 1998, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Kærandi hefur nú lagt fram ný gögn og upplýsingar sem skattstjóri hefur ekki tekið afstöðu til en óskaði eftir með bréfi sínu dags. 13. maí 1997. Er því með vísan til þeirra lagaraka er liggja að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, þess krafist að kærunni verði vísað til skattstjóra til uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.“

II.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, telst hagnaður af sölu lausafjár sem ekki er heimilt að fyrna, að fullu til skattskyldra tekna á söluári. Hagnaður í þessu sambandi telst mismunur á stofnverði viðkomandi eignar og söluverði að teknu tilliti til verðbreytinga samkvæmt ákvæðum 26. gr. laganna. Í 2. mgr. 15. gr. segir að hagnaður manns af slíkri sölu teljist þó ekki til tekna, enda geri hann líklegt að salan falli ekki undir atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi hans eða að eignarinnar hafi ekki verið aflað í þeim tilgangi að selja hana aftur með hagnaði.

Skattstjóri hefur ekki byggt á því að sala á fólksbifreiðum þeim sem um ræðir í málinu hafi fallið undir atvinurekstur eða sjálfstæða starfsemi kærenda, en talið að þeirra hafi verið aflað til að selja þær aftur með hagnaði, sbr. 1. mgr. 15. gr. nefndra laga.

Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram af hálfu kærenda að þau telji umrædd bifreiðaviðskipti ekki lið í atvinnustarfsemi sinni og hafi því ekki talið hagnað af viðskiptunum til rekstrartekna og útgjöld vegna þeirra ekki til rekstrargjalda. Telja kærendur að með því að ekki sé um atvinnurekstur að ræða beri að fella viðbótartekjur samkvæmt ákvörðun skattstjóra niður.

Eins og að framan er rakið ber það undir kærendur að sýna fram á að umræddar bifreiðar hafi ekki verið keyptar með það í huga að selja þær aftur með hagnaði. Ekkert það sem fram hefur komið þykir geta stutt slíka niðurstöðu. Er þá fyrst og fremst litið til umfangs þessara viðskipta á umræddu ári, en jafnframt sýnast framlögð gögn frekar bera með sér að kærendur hafi stundað viðskiptin í hagnaðarvon. Kærendur virðast t.d. í flestum tilvikum hafa eignast umræddar bifreiðar við bein kaup, þ. á m. á uppboðum, en ekki tekið þær uppí önnur viðskipti. Að þessu virtu verður ákvörðun skattstjóra um að fara með söluhagnað kærenda af bifreiðaviðskiptum kærenda samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981 látin standa óhögguð, en telja verður að í henni felist hin almenna regla um meðferð söluhagnaðar af lausafé sem ekki er heimilt að fyrna og fellur ekki undir atvinnurekstur. Er kröfum kærenda að því er tekur til tekjufærslu hagnaðar af bifreiðaviðskiptum hafnað.

Við útreikning á hinum umdeilda söluhagnaði hefur skattstjóri byggt á upplýsingum um kaup- og söluverð umræddra bifreiða, en synjað kröfu kærenda að tekið verði tillit til útgjalda vegna bifreiðaviðskiptanna og endurbóta á bifreiðunum.

Með kæru til yfirskattanefndar hafa kærendur lagt fram gögn um þennan kostnað. Lýtur varakrafa kærenda að því að fallist verði á lækkun söluhagnaðar um þá fjárhæð sem þar er gerð grein fyrir. Eins og málið er vaxið verður ekki orðið við kröfu ríkisskattstjóra um að vísa þessum þætti kærunnar til nýrrar meðferðar skattstjóra. Með því að engar athugasemdir hafa komið fram af hálfu ríkisskattstjóra efnislega um varakröfu kærenda þykir bera að taka hana til greina þó þannig að ekki er fallist á þá breytingu frá fyrri greinargerð er lýtur að bifreiðinni A, en gögn málsins bera sér að hún var í eigu kærenda í árslok 1996. Söluhagnaður lækkar því úr 951.028 kr. í 569.374 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja