Úrskurður yfirskattanefndar

  • Vaxtabætur
  • Rökstuðningur skattstjóra

Úrskurður nr. 687/1998

Gjaldár 1997

Lög nr. 75/1981, 69. gr. C-liður, 96. gr. 3. mgr.   Lög nr. 28/1985   Stjórnsýslulög nr. 37/1993, 22. gr. 1. mgr.  

Fyrir sölu á húseign sinni á árinu 1996 greiddu kærendur upp allar veðskuldir er hvíldu á eigninni, en salan átti rót sína að rekja til ráðstafana samkvæmt lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Skattstjóri lækkaði tilfærð vaxtagjöld í skattframtali kærenda árið 1997 á þeim forsendum að einungis væri heimilt að færa vaxtagjöld og afborganir sem tilheyrðu árinu 1996 í skattframtalið, en ekki greiðslur sem greiddar væru umfram ákvæði skuldabréfa. Yfirskattanefnd staðfesti þá ákvörðun skattstjóra þar sem nefndin taldi ekki unnt í ljósi afdráttarlauss orðalags lagaákvæða um vaxtabætur að verða við kröfu kærenda, hvað sem liði tildrögum að sölu húseignar þeirra og söluskilmálum.

I.

Málavextir eru þeir að með kaupsamningi, dags. 17. apríl 1996, seldu kærendur húseign sína að A. Á sama ári festu þau kaup á fasteign að B og er kaupsamningur vegna þeirrar eignar dagsettur 23. maí 1996. Skattframtali kærenda árið 1997 fylgdu greinargerðir um kaup og sölu eigna (RSK 3.02) þar sem grein var gerð fyrir viðskiptum þessum. Í greinargerð vegna sölu eignar að A kom fram að öllum áhvílandi skuldum hefði verið aflétt af eigninni samkvæmt ákvæði þar að lútandi í kaupsamningi. Þá kom fram að kaupendur eignarinnar væru X-bær og Ofanflóðasjóður og að eignin hefði verið seld í samræmi við lög nr. 151/1995, um breytingar á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum nr. 28/1985, sbr. lög nr. 50/1995. Skattframtali kærenda fylgdu greinargerðir um vaxtagjöld (RSK 3.09) vegna eignanna. Samkvæmt greinargerðunum námu vaxtagjöld 981.160 kr. vegna A og 335.907 kr. vegna B, en í greinargerð vegna fyrri eignarinnar kom fram að eftirstöðvar lána væru 0 kr. Samkvæmt þessu færðu kærendur alls 1.317.067 kr. í reit 87 á skattframtali sínu árið 1997.

Með bréfi, dags. 9. júní 1997, krafði skattstjóri kærendur um gögn til staðfestingar tilfærðum vaxtagjöldum vegna A. Benti skattstjóri á að aðeins vaxtagjöld sem tilheyrðu árinu 1996 færðust í reit 87 á skattframtali. Umbeðin gögn bárust skattstjóra með bréfi kærenda, dags. 13. júní 1997. Í bréfinu kom fram að ríkisstjórn Íslands hefði tekið þá ákvörðun að kaupa skyldi upp tiltekinn fjölda húsa í X-bæ vegna snjóflóðahættu og hefði X-bær ásamt Ofanflóðasjóði framkvæmt þau kaup. Húseign kærenda að A hefði fallið undir þessi kaup og hafi verið gert að skilyrði fyrir kaupunum að öllum áhvílandi skuldum yrði aflétt af eigninni fyrir afhendingu. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar hefði því orðið þess valdandi að allar eftirstöðvar lána hefðu í raun verið gjaldfelldar á árinu 1996. Kváðust kærendur líta þannig á að ekkert val hefði staðið til að haga greiðslu lánanna á annan veg en gert hefði verið og því yrði að túlka ákvörðun ríkisstjórnarinnar um kaup eignarinnar svo að heimilt hefði verið að færa vexti og verðbætur til gjalda á árinu 1996.

Með bréfi, dags. 24. júlí 1997, tilkynnti skattstjóri kærendum með vísan til 3. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að tilfærð vaxtagjöld í reit 87 á skattframtali þeirra árið 1997 hefðu verið lækkuð um 895.521 kr. Kvað skattstjóri einungis heimilt að færa vaxtagjöld og afborganir er tilheyrðu árinu 1996 á greinargerð um vaxtagjöld, en ekki greiðslur sem greiddar væru umfram ákvæði skuldabréfa. Kom fram að skattstjóri hefði áætlað kærendum vaxtagjöld af lánum vegna A með 85.944 kr.

Kærendur mótmæltu ofangreindri breytingu skattstjóra með kæru til hans, dags. 21. ágúst 1997. Í kærunni sagði m.a. svo:

„Eftir að snjóflóð höfðu fallið á Súðavík og Flateyri árið 1995 fór á stað mikil umræða um aðrar byggðir á Vestfjörðum þar sem hætta gæti verið á að snjóflóð féllu og varð það hverfi sem A er í mjög í þeirri umræðu, ekki síst þar sem margítrekað á vetrum hafði íbúum verið gert að rýma hús sín ýmist í skamman eða langan tíma, þessi umræða varð ekki aðeins þess valdandi að eigendur húsanna fýsti ekki að búa á þessu svæði lengur, heldur líka útilokaði hún sölu húsanna á hinum almenna sölumarkaði húseigna, eini mögulegi kaupandinn varð því ofanflóðasjóður. Þannig var í raun búið að svipta okkur undirrituð þeim rétti að selja eign okkar á frjálsum markaði, og okkur gert að ganga að kauptilboði ofanflóðasjóðs með þeim skilyrðum sem kaupandi hafði sjálfur sett sér um kaupin þar með talið að öllum áhvílandi skuldum skyldi aflétt, geta má nærri um hvort slíkt skilyrði hafi verið okkur hagstætt þar sem fjárhagsstaða okkar var þannig að okkur var ókleift að kaupa nýja eign án þess að á henni væru fyrir áhvílandi skuldir, þar með lokast sjálfkrafa sá möguleiki sem annars hefði verið á veðflutningi milli eigna.“

Skattstjóri hafnaði kröfum kærenda með kæruúrskurði, dags. 27. október 1997. Tók skattstjóri fram að viðkomandi lán hefðu verið tekin á árunum 1982 til 1986 vegna kaupa á A og væri lánstími þeirra frá 15 til 25 ár. Kærendur hefðu því verið að greiða lánin upp áður en lánstíma þeirra lauk. Til vaxtagjalda teldust ekki áfallnar verðbætur á lán kærenda sem greidd væru á lánstíma umfram ákvæði viðkomandi skuldabréfa, sbr. lokamálslið 2. mgr. C-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Kvað skattstjóri ekki skipta máli í þessu sambandi hver keypti eign.

Með kæru, dags. 25. nóvember 1997, hafa kærendur skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Í kærunni er ítrekað að kærendum hafi verið gert skylt að selja ofanflóðasjóði húseign sína að A þar sem eignin hafi fallið undir svokallað rautt svæði við endurmat á eignum á snjóflóðahættusvæðum sem farið hafi fram í kjölfar þeirra hörmunga sem áttu sér stað á Flateyri og Súðavík á árinu 1995. Kemur fram að eignin hafi verið afhent kaupanda hinn 31. desember 1996 og kærendur búið í henni allt til 31. október 1996. Þau hafi hins vegar borið allan kostnað af eigninni til 31. desember 1996. Í kærunni kemur fram svohljóðandi kröfugerð af hálfu kærenda:

„Á grundvelli þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem fyrir liggja hjá skattstjóra, meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, laga um tekju- og eignarskatt nr. 75/1981 og þeirrar staðreyndar að kærendur telja sig hafa orðið fyrir mjög mikilli íþyngjandi ákvörðun þegar opinberir aðiljar settu húseignina A inná hættusvæði og gerðu þannig í raun ómögulegt að selja eignina öðrum en ofanflóðasjóði, þá gerum við þá kröfu að yfirskattanefnd taki til endurákvörðunar þá lækkun sem skattstjóri gerir á vaxtagjöldum vegna A tímabilið 17.04.1996 til 31.12.1996.

Til samanburðar má geta þess að vaxtagjöld vegna A á árinu 1995 (framtal 1996) námu kr. 179.848.-“

Með bréfi, dags. 12. desember 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

II.

Eins og kærendur hafa rakið á sala þeirra á húseigninni að A á árinu 1996 rót sína að rekja til ráðstafana sem mælt er fyrir um í lögum nr. 28/1985, um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, eins og þeim hefur verið breytt með lögum nr. 151/1995, sbr. einnig reglugerð nr. 145/1996, um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Samkvæmt 4. gr. fyrirliggjandi kaupsamnings um eignina, dags. 17. apríl 1996, skuldbinda kærendur sig til að aflétta áhvílandi veðskuldum af eigninni áður en til greiðslu kaupverðs kemur, en samkvæmt 3. gr. samningsins skal kaupverð greiðast innan 20 daga frá undirritun hans, að því frátöldu að 10% af kaupverðinu skulu ávallt standa eftir ógreidd þar til eignin hefur verið afhent kaupanda. Fram er komið að kærendur greiddu upp allar veðskuldir er hvíldu á eigninni.

Samkvæmt ákvæðum C-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, teljast ekki til vaxtagjalda uppsafnaðar áfallnar verðbætur á lán skuldara sem hann greiðir á lánstíma umfram ákvæði viðkomandi skuldabréfs. Hvað sem líður tildrögum að sölu eignarinnar að A og söluskilmálum miðað við það sem að framan er rakið verður ekki talið unnt í ljósi afdráttarlauss orðalags þessa ákvæðis að fallast á kröfu kærenda. Ber því að staðfesta úrskurð skattstjóra, enda þykja engin efni til að breyta áætlun hans á fjárhæð vaxtagjalda vegna A miðað við fyrirliggjandi gögn málsins.

Það athugist að í tilkynningu skattstjóra, dags. 24. júlí 1997, er ekki vísað til lagareglna varðandi lækkun tilfærðra vaxtagjalda, sbr. 3. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja