Úrskurður yfirskattanefndar

  • Sambýlisfólk
  • Vaxtabætur

Úrskurður nr. 695/1998

Gjaldár 1997

Lög nr. 75/1981, 63. gr. 3. mgr. (brl. nr. 122/1993, 5. gr.), 69. gr. C-liður  

Kærandi og sambýliskona hans uppfylltu ekki skilyrði fyrir samsköttun í árslok 1996. Fékk því ekki staðist að ákvarða kæranda vaxtabætur gjaldárið 1997 eftir reglum sem giltu um hjón og sambýlisfólk sem uppfyllti skilyrði samsköttunar.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi hóf sambúð þann 5. júlí 1996 samkvæmt skráningu í þjóðskrá Hagstofu Íslands. Hann taldi fram til skatts og var skattlagður sem einstaklingur gjaldárið 1997. Við álagninguna voru honum ekki ákvarðaðar neinar vaxtabætur.

Með kæru til skattstjóra, dags. 13. ágúst 1997, mótmælti kærandi því að honum hefðu ekki verið ákvarðaðar vaxtabætur við álagningu opinberra gjalda árið 1997 og krafðist þess að álagningin yrði leiðrétt. Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 12. nóvember 1997. Í úrskurði sínum rakti skattstjóri ákvæði 4. og 7. mgr. C-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og 12. gr. reglugerðar nr. 177/1996, um greiðslu vaxtabóta á árinu 1996. Tók skattstjóri fram að kærandi hefði verið skráður í sambúð samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá 1. desember 1996 og við útreikning vaxtabóta honum til handa giltu því framangreind laga- og reglugerðarákvæði. Frá vaxtagjöldum í reit 87 á skattframtali kæranda bæri því að draga frá vaxtatekjur sambýliskonu að fjárhæð 17.736 kr. og 6% af tekjuskattsstofni þeirra beggja, eða 258.847 kr. Kæmi því ekki til ákvörðunar vaxtabóta þar sem stofn til útreiknings þeirra skertist um hærri fjárhæð en tilfærð vaxtagjöld á skattframtali kæranda hefðu numið. Kvað skattstjóri kæru kæranda samkvæmt framansögðu tilefnislausa og vísaði henni frá.

Með kæru, dags. 24. nóvember 1997, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi og að kæranda verði ákvarðaðar vaxtabætur vegna ársins 1996 sem einstaklingi. Í kæru kæranda segir m.a. svo:

„Í úrskurði skattstjóra er vísað til þess að kærandi hafi 1. desember 1996 verið skráður í sambúð með A og hafi ákvæði 4. og 7. mgr. C-liðar 69. gr. l. nr. 75, 1981 um útreikning vaxtabóta til sambýlisfólks, sem uppfyllir skilyrði fyrir samsköttun, sbr. 3. mgr. 63. gr. laganna, því átt við.

Eins og fram kemur á meðfylgjandi vottorði Hagstofu Íslands (fskj. 10) hófst sambúð kæranda og sambýliskonu hans þann 5. júlí 1996 og hafði því staðið í tæpt hálft ár í lok gjaldársins 1996. Þau uppfylltu því hvorki skilyrði 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75, 1981 um samfellda sambúð í „a.m.k. eitt ár“ né skilyrði um þungun konunnar eða barneignir. Höfðu kærandi og sambýliskona hans því engan lögvarðan rétt á að óska eftir að telja fram til skatts saman og vera skattlögð sem hjón, sem þó hefði verið mun hagstæðara fyrir þau. Voru þau og skattlögð í sitt hvoru lagi og barst sitt hvor álagningar- og innheimtuseðillinn. Er tilvísun skattstjóra til ákvæða um vaxtabætur sambýlisfólks, sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. 63. gr. laganna, því haldlaus og óhjákvæmilegt að ákvarða kæranda vaxtabætur sem einstaklingi, enda hefur hann verið skattlagður sem einstaklingur í samræmi við lög og reglur. Ekki getur komið til álita að beita reglum um einstaklinga við ákvörðun skatts kæranda en ákvæðum um sambýlisfólk við ákvörðun bóta honum til handa.“

Með bréfi, dags. 13. febrúar 1998, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Samkvæmt 4. mgr. C-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skal við útreikning vaxtabóta hjá hjónum eða sambýlisfólki, sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. 63. gr. laganna í lok tekjuárs, miðað við samanlagðar tekjur beggja.

Samkvæmt 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981 eiga karl og kona, sem búa saman í óvígðri sambúð og eiga sameignlegt lögheimili, rétt á að telja fram og vera skattlögð sem hjón, sem samvistum eru, ef þau hafa átt barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í a.m.k. eitt ár, enda óski þau þess bæði skriflega við skattyfirvöld.

Ljóst er af gögnum málsins að kærandi og sambýliskona hans uppfylltu ekki skilyrði 3. mgr. 63. gr. í lok árs 1996. Að mati ríkisskattstjóra ber því að ákvarða kæranda vaxtabætur sem einstaklingi.“

II.

Í 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 5. gr. laga nr. 122/1993, um breytingar í skattamálum, er kveðið á um það að karl og kona, sem búi saman í óvígðri sambúð og eigi sameiginlegt lögheimili, eigi rétt á að telja fram og vera skattlögð sem hjón, sem samvistum eru, ef þau hafi átt barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hafi varað samfleytt í a.m.k. eitt ár, enda óski þau þess bæði skriflega við skattyfirvöld.

Samkvæmt 7. mgr. C-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 9. gr. laga nr. 122/1993, um breytingar í skattamálum, skal skipta vaxtabótum til helminga milli hjóna. Sama gildir um sambýlisfólk sem uppfyllir skilyrði fyrir samsköttun, sbr. 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, í lok tekjuársins, enda þótt það óski ekki eftir að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein. Í 4. mgr. C-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981 er mælt fyrir um ákvörðun vaxtabóta með tilliti til tekna og eigna skattaðila, svo sem þær eru nánar skilgreindar í ákvæðinu. Er í því sambandi m.a. kveðið á um það að „hjá hjónum eða sambýlisfólki, sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. 63. gr. í lok tekjuárs, skal við útreikning miðað við samanlagðar tekjur beggja að teknu tilliti til frádráttar samkvæmt framansögðu“.

Fram er komið í málinu að kærandi og sambýliskona hans uppfylltu ekki skilyrði samsköttunar samkvæmt 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981 í árslok 1996, en skráð sambúð þeirra hófst hinn 5. júlí 1996, sbr. fyrirliggjandi vottorð Hagstofu Íslands, dags. 20. nóvember 1997. Fékk því ekki staðist að ákvarða kæranda vaxtabætur gjaldárið 1997 eftir reglum sem giltu um hjón og sambýlisfólk sem uppfyllti skilyrði fyrir samsköttun. Með vísan til þess og kröfugerðar ríkisskattstjóra er fallist á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja