Úrskurður yfirskattanefndar

  • Lán tengd atvinnurekstri
  • Söluhagnaður lausafjár
  • Málsmeðferð áfátt

Úrskurður nr. 755/1998

Gjaldár 1993-1995

Lög nr. 75/1981, 10. gr., 31. gr. 1. tölul. 1. mgr.  

Fallist var á kröfu kæranda þess efnis að lán frá Byggðastofnun yrðu talin tilheyra atvinnurekstri hans. Var í því sambandi m.a. vísað til lögbundins hlutverks Byggðastofnunar. Þá var ákvörðun skattstjóra um skattlagningu söluhagnaðar vegna sölu kæranda á tilgreindum lausafjármunum ómerkt með úrskurði yfirskattanefndar, m.a. af þeim sökum að ákvörðun skattstjóra á fjárhæð söluhagnaðar var talin bersýnilega röng og andstæð lögum.

I.

Með kæru, dags. 7. október 1997, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði skattstjóra, dags. 29. september 1997, vegna endurákvörðunar hans á opinberum gjöldum kæranda gjaldárin 1993, 1994 og 1995, sbr. tilkynningu skattstjóra, dags. 1. september 1997. Kærandi rekur útgerð. Skattstjóri gerði eftirfarandi breytingar á skattframtölum kæranda umrædd ár:

1. Í ársreikningum kæranda vegna áranna 1992, 1993 og 1994 voru tilgreindar eftirstöðvar tveggja lána frá Byggðastofnun og vaxtagjöld vegna þeirra færð til gjalda í rekstrarreikningi með 301.677 kr. árið 1992, 356.807 kr. árið 1993 og 134.707 kr. árið 1994. Skattstjóri féllst ekki á að umrædd lán tilheyrðu atvinnurekstri kæranda, færði eftirstöðvar lánanna á persónuframtal hans og felldi niður gjaldfærslu vaxtagjalda vegna þeirra í rekstrarreikningi. Kom fram af hálfu skattstjóra að nefnd lán hefðu verið tilgreind á persónuframtali kæranda árið 1992. Hefðu lánin verið tryggð með veði í húseign kæranda á A en veðið verið flutt á bát kæranda í nóvember 1992.

Af hálfu kæranda er komið fram að lán frá Byggðastofnun hafi verið tekin vegna hlutafjáraukningar í hlutafélaginu B á árinu 1991 og vegna mistaka verið færð á einkaframtal kæranda árið 1992. Tilgangur lántökunnar hafi verið sá að tryggja rekstur B hf. þar til …veiðar hæfust á ný, sem vilyrði hafi verið gefið fyrir af hinu opinbera á þeim tíma. Lánin hafi upphaflega verið tryggð með veði í húseign kæranda vegna þess að ekki hafi verið laust veð í bátnum á þeim tíma sem lánin voru tekin. Til endurgreiðslu lánanna hafi verið stofnaður viðskiptareikningur hjá Byggðastofnun sem fái 10% af aflaverðmæti bátsins. Það hljóti að tengjast útgerð … að fjárfesta í B í því skyni að tryggja rekstur stöðvarinnar á meðan á tímabundnu …veiðibanni standi, en á þeim tíma sem til umræddra lána var stofnað hafi verið talið að veiðibannið væri aðeins tímabundið.

2. Skattstjóri færði kæranda til tekna á skattframtali árið 1994 söluhagnað 200.000 kr. vegna sölu hans á loftkondens og frystipressu á árinu 1993. Kvaðst skattstjóri líta svo á að sala umrædda muna félli undir ákvæði 20. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem munanna hefði verið aflað í því skyni að selja þá aftur.

Umboðsmaður kæranda hefur greint frá því að í tilefni gjaldþrots B hf. hafi kærandi og C yfirtekið kaupleigusamning við Glitni hf. á árinu 1993, en þeir hafi borið sjálfskuldarábyrgð á efndum samningsins. Hafi Glitni hf. verið greiddar alls 1.630.000 kr., sem fengnar hafi verið að láni hjá Íslandsbanka hf., og munirnir síðan verið seldir þann 13. september 1993 til D hf. fyrir 2.122.000 kr. Hafi D hf. greitt kæranda og C 200.000 kr. hvorum um sig og tekið yfir greiðslu á afborgunum af skuldabréfi hjá Íslandsbanka hf. Kærandi og C beri ábyrgð á efndum skuldabréfsins þar til það sé að fullu greitt. Hér sé því um það að ræða að hluthafar í gjaldþrota félagi hafi leyst til sín umrædda muni og selt þá aftur. Umrædd tæki séu alls ótengd rekstri kæranda. Kveður umboðsmaður kæranda tilgang kaupanna þannig ekki hafa verið að selja tækin aftur með hagnaði heldur aðeins að koma í veg fyrir fjárhagslegt tjón vegna sjálfskuldarábyrgðar. Vísar hann um meðferð söluhagnaðar til 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981.

II.

Með bréfi, dags. 23. desember 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.

III.

Um kærulið 1:

Kærandi tilgreindi tvö lán frá Byggðastofnun að eftirstöðvum samtals 1.958.968 kr. í skuldahlið persónuframtals síns árið 1992. Af hálfu kæranda er því haldið fram að hér hafi verið um mistök að ræða og í athugasemdadálk á skattframtali hans árið 1993 kom fram að umrædd lán hefðu verið „færð inn í efnahag rekstrar“ miðað við 1. janúar 1992. Umboðsmaður kæranda hefur greint frá tildrögum lántökunnar. Er bent á af hans hálfu að tilgangur með töku lánanna hafi verið sá að auka hlutafé í B hf. með það fyrir augum að tryggja rekstur …stöðvar félagsins á meðan á …veiðibanni stjórnvalda stæði, sbr. kæru umboðsmanns til yfirskattanefndar, dags. 7. október 1997. Í kærunni kemur jafnframt fram að mistök hafi ráðið því að hlutabréf kæranda í B hf. voru færð til eignar á persónuframtali hans árið 1992.

Í bréfi skattstjóra, dags. 21. október 1996, þar sem kæranda var boðuð hin kærða breyting á skuld- og gjaldfærslu lána frá Byggðastofnun, kom það eitt fram af hálfu skattstjóra að umrædd lán tilheyrðu ekki atvinnurekstri kæranda, án þess að sú ályktun væri rökstudd nánar. Lágu þó fyrir skattstjóra þær skýringar umboðsmanns kæranda að lánin hefðu verið tekin með það að markmiði að tryggja hagsmuni útgerðar kæranda af áframhaldandi …veiðum og -vinnslu, sbr. bréf umboðsmanns, dags. 5. mars 1996. Í endurákvörðun skattstjóra, dags. 1. september 1997, er á það bent að samkvæmt upplýsingum frá Byggðastofnun hefðu hin umþrættu lán upphaflega verið tryggð með veði í húseign kæranda á A, en frekari rökstuðning skorti alveg. Verður ekki talið að fyrrgreindur háttur á veðtryggingu lánanna hafi einn og sér gefið skattstjóra tilefni til hinnar kærðu breytingar.

Þegar þetta er virt og litið er til skýringa kæranda, sem ekki eru efni til að draga í efa, og jafnframt horft til lögbundins hlutverks Byggðastofnunar, þykir ekki varhugavert að byggja á því að umrædd lán tilheyri atvinnurekstri kæranda. Er krafa kæranda um þetta kæruatriði því tekin til greina.

Um kærulið 2:

Samkvæmt gögnum málsins keypti kærandi ásamt C kælikerfi og loftkondens af Glitni hf. með afsali, dags. 20. apríl 1993. Tæki þessi seldu þeir D hf. með kaupsamningi, dags. 13. september 1993, fyrir 2.122.000 kr., sbr. fyrirliggjandi kaupsamning, dags. sama dag, og greinargerð um kaup og sölu eigna (RSK 3.02). Skattstjóri byggði á því að um skattskyldan söluhagnað væri að ræða og taldi að fjárhæð hans næmi 200.000 kr. að hlut hvors seljanda um sig. Skattstjóri krafði kæranda ekki um uppgjör og útreikning söluhagnaðar. Þá er ljóst að skattstjóri hefur ákvarðað fjárhæð söluhagnaðar sem útborgunarhluta í viðskiptum þessum, þ.e. 400.000 kr. eða 200.000 kr. að hlut hvors um sig. Þessi ákvörðun skattstjóra er bersýnilega röng og andstæð lögum. Að þessu athuguðu er ákvörðun skattstjóra um skattlagningu söluhagnaðar ómerkt.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja