Úrskurður yfirskattanefndar

  • Sambýlisfólk
  • Vaxtabætur

Úrskurður nr. 770/1998

Gjaldár 1997

Lög nr. 75/1981, 63. gr. 3. mgr. (brl. nr. 122/1993, 5. gr.), 69. gr. C-liður   Reglugerð nr. 327/1997, 10. gr.  

Talið að við ákvörðun vaxtabóta sambýlisfólks, sem uppfyllti skilyrði fyrir samsköttun í lok tekjuárs, bæri að miða við samanlagðar tekjur beggja að teknu tilliti til frádráttarliða, enda þótt ekki væri óskað samsköttunar.

I.

Málavextir eru þeir að kærendur hófu sambúð þann 26. október 1995 samkvæmt skráningu í þjóðskrá Hagstofu Íslands. Þau töldu fram til skatts og voru skattlögð sem einstaklingar gjaldárið 1997. Vaxtabætur voru ákvarðaðar kærendum sameiginlega eftir reglum sem giltu um hjón og sambýlisfólk sem uppfyllti skilyrði fyrir samsköttun, sbr. 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með kæru til skattstjóra, dags. 18. ágúst 1997, mótmæltu kærendur álagningu opinberra gjalda árið 1997. Í kærunni kom fram að kærendur hefðu ekki óskað eftir samsköttun samkvæmt 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981 og samkvæmt því væri óheimilt að leggja saman tekjur þeirra beggja þegar vaxtabætur væru ákvarðaðar. Í 4. mgr. C-liðar 69. gr. sömu laga væri hvergi að finna heimild til að beita samlagningu tekna sambýlisfólks sem ekki hefði óskað samsköttunar. Kröfðust kærendur þess að kæranda A yrðu ákvarðaðar 233.015 kr. í vaxtabætur án nokkurrar skerðingar.

Skattstjóri hafnaði kröfu kærenda með kæruúrskurði, dags. 25. nóvember 1997. Í forsendum úrskurðarins rakti skattstjóri ákvæði 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Tók skattstjóri fram að samkvæmt 4. mgr. C-liðar 69. gr. sömu laga skyldi skerða vaxtagjöld um 6% af tekjum beggja sambúðaraðila og samkvæmt 7. mgr. C-liðar 69. gr. bæri að skipta vaxtabótum til helminga milli sambýlisfólks sem uppfyllti skilyrði fyrir samsköttun í lok tekjuárs, enda þótt það óskaði ekki eftir að vera skattlagt samkvæmt 3. mgr. 63. gr. laganna. Kvað skattstjóri leiða af efni framangreindra lagagreina að horfa bæri til tekna beggja sambúðaraðila sem uppfylltu skilyrði 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981 í árslok við ákvörðun vaxtabóta þeirra. Benti skattstjóri á að sú túlkun hefði verið staðfest í úrskurðum yfirskattanefndar, t.d. úrskurðum nefndarinnar nr. 60/1996 og 610/1996.

Með kæru, dags. 10. desember 1997, hafa kærendur skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi og kæranda A ákvarðaðar vaxtabætur með 233.015 kr. án þess að dregin verði frá bótunum fjárhæð sem svarar til 6% af tekjuskattsstofni kærenda beggja. Í kærunni kemur fram svohljóðandi rökstuðningur fyrir kröfu kærenda:

„Við teljum okkur hafa sýnt fram á að ekki sé heimilt að túlka 4. mgr. C-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981 svo að heimilt sé að beita samlagningu tekna sambýlisfólks sem ekki hefur óskað samsköttunar. Í tilvitnaðri lagagrein segir svo m.a.: Hjá hjónum eða sambýlisfólki, sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. 63. gr. í lok tekjuárs, skal við útreikning miðað við samanlagðar tekjur beggja að teknu tilliti til frádráttar samkvæmt framansögðu. Ljóst er að við uppfylltum þau skilyrði sem lögum samkvæmt eru sett fyrir samsköttun en jafnframt er ljóst að við uppfyllum ekki það skilyrði í lokamálslið greinarinnar að hafa bæði óskað þess skriflega við skattyfirvöld að vera samsköttuð. Í umræddri lagagrein eru skýr fyrirmæli um það hvernig útreikningi vaxtabóta skuli háttað. Þau lagafyrirmæli að draga skuli frá bótum 6% af tekjum hjóna eða sambýlisfólks eru íþyngjandi og ber því að túlka þröngt. Fyrirmæli 7. mgr. C-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981 lúta að því hvernig deila skuli vaxtabótum milli hjóna eða sambúðarfólks eftir að þær hafa verið reiknaðar í samræmi við ákvæði 4. mgr. C-liðar 69. gr. Er þar sérstaklega tekið fram að vaxtabótum skuli þá skipt til helminga milli sambýlisfólks sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. 63. gr. laganna, enda þótt það óski ekki eftir að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein. Þessi lagaregla, sem virðist byggð á hagkvæmnissjónarmiðum, getur aldrei verið grundvöllur þeirrar túlkunar að við útreikning vaxtabóta skuli sambúðarfólk sem ekki hefur óskað samsköttunar sæta skerðingu. Hafi slíkt verið vilji löggjafans hefði þurft að kveða svo á með skýrum hætti og hefði þá verið bætt við í 4. mgr. C-liðar 69. gr. textanum enda þótt það óski ekki eftir að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein. Þar sem þennan fyrirvara er ekki að finna í lögunum skortir lagastoð fyrir ofangreindri túlkun skattyfirvalda.

Í þessu sambandi má benda á að við útreikning sérstaks tekjuskatts virðast skattyfirvöld líta á okkur sem tvo sjálfstæða skattþegna og njótum við ekki þess hagræðis að miða skuli við tekjuskattsstofn hjóna. Þessi reikniregla er okkur örlítið óhagstæðari en hægt væri að hugsa sér aðra tekjuskiptingu á milli okkar sem hefði í för með sér að skattbyrði okkar væri verulega þyngri en hjóna og fólks sem óskað hefur samsköttunar. Er því hugsanlegt að um sé að ræða brot á 65. gr. stjórnarskrárinnar og jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.“

Með bréfi, dags. 31. desember 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.

II.

Í 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 5. gr. laga nr. 122/1993, um breytingar í skattamálum, er kveðið á um það að karl og kona, sem búi saman í óvígðri sambúð og eigi sameiginlegt lögheimili, eigi rétt á að telja fram og vera skattlögð sem hjón, sem samvistum eru, ef þau hafi átt barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hafi varað samfleytt í a.m.k. eitt ár, enda óski þau þess bæði skriflega við skattyfirvöld.

Fyrir liggur að kærendur hafa verið í sambúð frá 26. október 1995. Samkvæmt því ber að miða við að kærendur hafi uppfyllt skilyrði til skattlagningar samkvæmt 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981 við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1997.

Samkvæmt 7. mgr. C-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 9. gr. laga nr. 122/1993, um breytingar í skattamálum, skal skipta vaxtabótum til helminga milli hjóna. Sama gildir um sambýlisfólk sem uppfyllir skilyrði fyrir samsköttun, sbr. 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, í lok tekjuársins, enda þótt það óski ekki eftir að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein. Í 4. mgr. C-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981 er mælt fyrir um ákvörðun vaxtabóta með tilliti til tekna og eigna skattaðila, svo sem þær eru nánar skilgreindar í ákvæðinu. Er í því sambandi m.a. kveðið á um það að „hjá hjónum eða sambýlisfólki, sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. 63. gr. í lok tekjuárs, skal við útreikning miðað við samanlagðar tekjur beggja að teknu tilliti til frádráttar samkvæmt framansögðu“.

Skýra verður ákvæði 4. og 7. mgr. C-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981 til samræmis þannig að við ákvörðun vaxtabóta sambýlisfólks, sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. 63. gr. laganna í lok tekjuárs, skuli miðað við samanlagðar tekjur beggja að teknu tilliti til frádráttarliða, enda þótt ekki sé óskað skattlagningar samkvæmt síðarnefndu lagagreininni. Er skýrt kveðið á um þetta í 3. málsl. 10. gr. reglugerðar nr. 327/1997, um greiðslu vaxtabóta á árinu 1997, þar sem segir að „hjá hjónum eða sambýlisfólki, sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981 í lok tekjuárs, enda þótt það óski ekki samsköttunar, skal við útreikning miðað við samanlagðar tekjur beggja að teknu tilliti til frádráttar samkvæmt framansögðu“. Samkvæmt þessu hefur skattstjóri ákvarðað vaxtabætur kærenda gjaldárið 1997 í samræmi við gildandi lög og er kröfu kærenda því hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja