Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Styrkur
  • Skattverð

Úrskurður nr. 781/1998

Virðisaukaskattur 1995 og 1996

Lög nr. 50/1988, 2. gr., 7. gr.  

Í máli þessu var ágreiningur um skyldu skógræktarfélags X-bæjar til að standa skil á virðisaukaskatti af styrk úr bæjarsjóði sem félaginu var veittur á árunum 1995 og 1996 í samræmi við ákvæði samnings aðila þar að lútandi. Yfirskattanefnd taldi ekki fá staðist að telja umræddan styrk fela að öllu leyti í sér endurgjald fyrir sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu, svo sem skattstjóri hafði gengið út frá. Var talið að umræddar greiðslur fælust að mestu leyti í fjárstuðningi til félagsins vegna þeirrar starfsemi þess sem miðaði að heill bæjarfélagsins og bæjarbúa, og var sá skilningur ekki talinn andstæður ákvæðum samnings aðila. Var fallist á kröfu félagsins í málinu sem laut að því að tiltekinn hluti styrkfjárhæðar umræddra ára yrði talinn fela í sér endurgjald fyrir afhendingu á skattskyldri vöru eða þjónustu og væri því virðisaukaskattsskyldur.

I.

Málavextir eru þeir að í kjölfar bréfaskipta boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun virðisaukaskatts árin 1992, 1993, 1994, 1995 og 1996 með bréfi, dags. 14. mars 1997. Kvað skattstjóri fyrirhugað að gera tilteknar breytingar á virðisaukaskattsskilum kæranda umrædd ár. Meðal hinna fyrirhuguðu breytinga kvað skattstjóri vera að hækka skattskylda veltu og útskatt áranna 1995 og 1996 að viðbættu 10% álagi samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Tók skattstjóri fram að kærandi hefði þegið styrki frá X-bæ frá árinu 1990. Kom fram af hálfu skattstjóra að samkvæmt viðaukum við samning kæranda og bæjarstjórnar X-bæjar um ræktunarsvæði ofan byggðar og utan skipulagðra svæða í X-bæ væri styrkurinn til kæranda háður tilteknum skilyrðum, þ.e. að kærandi hefði umsjón með framkvæmd útivistarskipulags, ynni að ræktun eftir því sem samningurinn kvæði á um og bæjaryfirvöld kynnu að binda í áætlunum, fylgdi framkvæmdaáætlunum og hefði með höndum stjórnun á plöntun á opnum svæðum og framkvæmdum á spildusvæðum og legði fram skrá yfir þau verk sem ætti að vinna á komandi ári. Skattstjóri benti á að krefðist styrkveitandi þjónustu eða endurgjalds fyrir veittan styrk væri litið svo á að styrkþegi væri í raun að selja skattskylda vöru eða þjónustu samkvæmt virðisaukaskattslögum. Samningur X-bæjar og kæranda hefði öll einkenni þess að vera sala á virðisaukaskattsskyldri vöru og þjónustu. Skilyrði samningsins lytu öll að því að endurgjald kæmi fyrir styrkinn af hálfu kæranda. Því yrði að telja að styrkur sá sem X-bær hefði látið kæranda í té á árunum 1995 og 1996 væri virðisaukaskattsskyld greiðsla. Kvað skattstjóri virðisaukaskatt reiknast 19,68% af heildargreiðslu hvort ár, en styrkurinn hefði numið 2.700.000 kr. árið 1995 og 2.655.825 kr. árið 1996 samkvæmt upplýsingum kæranda sjálfs.

Af hálfu kæranda var boðunarbréfi skattstjóra svarað með bréfi formanns félagsins, dags. 14. apríl 1997. Þar komu fram mótmæli við túlkun skattstjóra á hlutverki styrks þess sem kærandi hefði þegið frá X-bæ. Greindi formaður kæranda frá því að bæjarstjórn X-bæjar hefði lengst af stutt dyggilega við starfsemi kæranda með ýmiss konar fyrirgreiðslu og beinum fjárframlögum, svo sem nánari grein var gerð fyrir. Kæranda hefði hins vegar þótt hlutur sinn rýr miðað við umfangsmikla starfsemi sem aukist hefði jafnt og þétt undanfarin ár. Leitað hefði verið eftir því að meiri festa kæmist á samskipti félagsins við bæjarstjórn og árangur náðst á árinu 1995 með gerð samnings aðila í millum. Þeim samningi hefði síðan verið breytt á árinu 1996. Kvað formaður kæranda þá ályktun skattstjóra, að mestöll sú starfsemi félagsins sem styrkt væri af X-bæ væri virðisaukaskattsskyld, ótímabæra, og benti á að öll plöntusala félagsins hefði verið meðhöndluð eins og venjuleg sala og virðisaukaskattur verið greiddur af henni. Kærandi hefði lengi talið að í ljósi þeirrar miklu þjónustu, sem félagið innti af hendi, væri eðlileg viðmiðun um styrk bæjarins til félagsins að hann dygði fyrir launum og kostnaði við fastan starfsmann, þ.e. framkvæmdastjóra félagsins, ásamt kostnaði við bifreið, síma og ýmislegt annað sem starfseminni fylgdi, svo sem víðtækri kynningar- og fræðslustarfsemi. Árleg útgjöld kæranda vegna þessa væru samtals ekki fjarri styrkupphæð hvers árs.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 16. júní 1997, hratt skattstjóri hinum boðuðu breytingum sínum í framkvæmd, að því frátöldu að fallið var frá beitingu álags. Skattstjóri hækkaði virðisaukaskattsskylda veltu kæranda árið 1995 um 2.168.675 kr. og útskatt um 531.325 kr. og skattskylda veltu árið 1996 um 2.133.193 kr. og útskatt um 522.632 kr. Forsendur skattstjóra voru svohljóðandi:

„Styrkir þeir sem félagið hefur fengið frá bæjarstjórn X-bæjar eru að mati skattstjóra virðisaukaskattskyldir, sbr. 1. og 2. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988. Styrkir þessir voru á árinu 1995 kr. 2.700.000 og kr. 2.655.825 á árinu 1996, samkvæmt upplýsingum frá forsvarsmönnum félagsins. Krefjist styrkveitandi þjónustu eða endurgjalds fyrir veittan styrk er litið svo á að styrkþegi sé í raun að selja skattskylda vöru eða þjónustu samkvæmt virðisaukaskattslögum. Samningur [kæranda] og X-bæjar er eins og komið hefur fram á þann veg að X-bær krefst þess að fyrir þá peninga sem bærinn lætur [kæranda] í té komi endurgjald frá [kæranda] sem felst í umsjón með vissum svæðum og ræktun þessara svæða eins og kemur fram í bréfi formanns félagsins dags. 14. apríl sl. Þá hefur [kærandi] skilað inn tillögum sínum til bæjarstjórnar hvað varðar nýtingu á landinu og skipulag þess. Félagið innir og af hendi mikla þjónustu fyrir bæinn eins og formaður félagsins orðar í bréfi sínu dags. 14. apríl og telur formaður félagsins eðlilegt að miða fjárhæð styrksins að nokkru leyti við þann kostnað sem fastur starfsmaður kostar félagið á ári hverju.

Telja verður umþrættan styrk frá X-bæ til [kæranda] virðisaukaskattsskylda greiðslu þar sem ætlast er til þess af félaginu að það leggi af mörkum þjónustu og framkvæmi ákveðna vinnu sem endurgjald fyrir styrkinn. Forráðamenn félagsins líta svo á að styrkupphæðin og þjónusta félagsins eigi að fylgjast að. Er því ótvírætt um sölu á vöru og þjónustu að ræða og ber félaginu að skila virðisaukaskatti af greiðslum þeim sem það hefur fengið frá X-bæ samkvæmt almennum reglum laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, einkum 1. og 2. tl. 1. mgr. 3. gr. laganna.

Samkvæmt 2. ml. 19. gr. laga nr. 50/1988, skal skattskyldur aðili greiða virðisaukaskatt af skattskyldri sölu þótt hann hafi ekki tekið skattinn við sölu eða aðra afhendingu. Sú regla verður talin gilda þótt seljandi eða báðir aðilar samnings álíti að ekki sé um skattskyld viðskipti að ræða og hafi því ekki gert ráð fyrir virðisaukaskatti í söluverði. Skattverð ákvarðast þá 80,32% af söluverði, í þessu tilviki af styrkfjárhæðum.“

II.

Með kæru, dags. 11. júlí 1997, sbr. greinargerð í bréfum, dags. 12. og 13. nóvember 1997, hefur kærandi skotið úrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar.

Í bréfi forráðamanna kæranda, dags. 12. nóvember 1997, kemur fram að styrkur X-bæjar til kæranda hafi árum saman verið við það miðaður að tryggja tilveru félagsins þannig að því væri unnt að kosta framkvæmdastjóra í fullu starfi, fyrst og fremst til að halda uppi félagsstarfi sem unnið sé af lausráðnum starfsmönnum, vinnuskólafólki, atvinnulausum einstaklingum og sjálfboðaliðum. Tilefni og markmið nýrra samninga félagsins við bæjarstjórn X-bæjar hafi verið að auka framkvæmdir á svæði félagsins og væri þar ekki síst litið til aukningar á plöntusölu sem háð sé innheimtu virðisaukaskatts. Er ítrekað það sjónarmið kæranda að umræddur styrkur sé fyrst og fremst til þess ætlaður að halda uppi hinu blómlega félagsstarfi sem leiði til mikils ávinnings af störfum vinnuskólafólks, atvinnulausra og fjölmargra sjálfboðaliða. Í bréfi forráðamanna kæranda segir síðan svo:

„Ekki liggja fyrir gögn í bókhaldi félagsins er geri mögulegt að sundurliða störf einstakra starfsmanna eftir verkefnum. Hér skal hins vegar gerð tilraun til að áætla kostnað við þau fjögur atriði, sem talin eru upp í bréfi skattstjóra þ. 14. mars 1997.

1. „Að [kærandi] hafi umsjón með framkvæmd útivistarskipulags.“ Stjórnarmenn félagsins hafa unnið í sjálfboðavinnu að þróun og framgangi umrædds skipulags og gert sínar tillögur og athugasemdir. Áætla má að framkvæmdastjóri félagsins hafi unnið sem svarar 0,5-1,0 mannmánuði að framkvæmd skipulagsins. Upphæð 100.000 kr.

2. „Að [kærandi] vinni að ræktun eftir því sem samningurinn kveður á um og bæjaryfirvöld kunna að binda í áætlunum.“ Hér er um að ræða lið, sem ekki hefur komið til framkvæmda, þrátt fyrir að stjórnarmenn hafi gert umbeðnar áætlanir í sjálfboðavinnu. Sbr. það er á undan er sagt. Upphæð 0 kr.

3. „Að [kærandi] skal fylgja framkvæmdaáætlunum og hafa með höndum stjórnun á plöntun á opnum svæðum og framkvæmdum á spildusvæðum.“ Fyrri liðurinn var hugsaður sem framkvæmdir á opnum svæðum innan bæjarins og hefur alls ekki komið til framkvæmda. Síðari liðurinn beinist að framkvæmdum sjálfboðaliða og skólabarna. Mætti áætla sem 1,0 mannmánuði. Upphæð 150.000 kr.

Plöntur sem koma frá félaginu til þessara framkvæmda eru samviskusamlega tíundaðar til virðisaukaskatts, en plöntur frá Landgræðsluskógaverkefninu eru óháðar reikningum félagsins.

4. „Að [kærandi] leggi fram skrá yfir þau verk sem á að vinna á næsta ári.“ Félagið hefur staðið við sinn hluta í þessu efni, en ekkert verið farið eftir skránni. Verkið er unnið af stjórnarmönnum í sjálfboðavinnu, en að sjálfsögðu kemur hinn launaði framkvæmdastjóri einnig að því verki. Mætti áætla sem allt að 0,5 mannmánuð. Upphæð 80.000 kr.“

Í bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 13. nóvember 1997, kemur fram að rétt sé að samningur kæranda og X-bæjar geri ráð fyrir því að styrkur bæjarins til kæranda sé háður tilteknum skilyrðum um endurgjald af hálfu kæranda til bæjarins. Það endurgjald sé þó í engu samræmi við fjárhæð styrksins. Það sé miklu minna en sem nemi styrkfjárhæðinni og standist því ekki að leggja virðisaukaskatt á allan styrkinn. Styrkur bæjarins sé aðallega ætlaður til þess að halda uppi blómlegu félagsstarfi með þeim ávinningi að skólafólk og fjölmargir sjálfboðaliðar verði virkir í starfi félagsins. Í bréfi umboðsmanns eru rakin skilyrði þau, sem fram koma í viðaukum við samning kæranda og X-bæjar, og vikið að áætlun forráðamanna kæranda á kostnaði við þau verkefni sem kæranda sé ætlað að vinna fyrir bæinn, sbr. hér að ofan. Í bréfinu segir síðan svo:

„Samkvæmt ofansögðu er því farið fram á það við yfirskattanefnd að hún ákvarði virðisaukaskatt einungis á ofangreinda fjárhæð kr. 330.000.- sem sé endurgjaldið fyrir styrkinn sem bera eigi virðisaukaskatt en ekki allur styrkurinn eins og skattstjóri úrskurðaði.

Það er því samkvæmt ofanrituðu rangt sem fram kemur í úrskurði skattstjóra ofarlega á bls. 2 að forráðamenn kæranda líti svo á að umrætt endurgjald sé í réttu hlutfalli við styrkveitingu bæjarins. Þá ber þess að geta að þó svo að formaður kæranda líti svo á að eðlilegt sé að styrkur bæjarins nemi launum fasts starfsmanns kæranda, þýðir það ekki að hans starfskraftar fari allir í þjónustu við bæinn eins og skattstjórinn virðist skilja í úrskurðinum ofarlega á bls. 4. Vinna þessa starfsmanns hefur ekki nema að litlu leyti verið í þágu bæjarins eins og fram hefur komið hér að ofan. Þetta leiðréttist hér með.“

III.

Með bréfi, dags. 19. desember 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.

IV.

Í máli þessu er ágreiningur um skyldu kæranda til að standa skil á virðisaukaskatti af styrk þeim frá X-bæ sem kæranda var veittur á árunum 1995 og 1996 í samræmi við ákvæði samnings aðila frá 12. júní 1995, sbr. einnig endurskoðaða útgáfu hans frá 25. október 1996, en ljósrit samningsins er meðal gagna málsins.

Kærandi var tekinn á skrá yfir virðisaukaskattsskylda aðila (grunnskrá virðisaukaskatts) frá og með 1. janúar 1990, sbr. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Miðað var við að kærandi hefði með höndum starfsemi sem félli undir atvinnugrein nr. 839 samkvæmt eldri atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands. Hefur sú flokkun nú verið leyst af hólmi með íslenskri atvinnugreinaflokkun - ÍSAT 1995, og er starfsemi kæranda talin falla undir atvinnugrein nr. 91.33.0 samkvæmt þeirri flokkun („önnur ótalin félagastarfsemi“). Í málinu liggja fyrir ársreikningar kæranda fyrir árin 1995 og 1996. Þar eru tilgreindar rekstrartekjur alls 5.629.856 kr. á fyrra árinu og 7.088.937 kr. á hinu síðara. Bera ársreikningarnir með sér að fyrst og fremst er um að ræða framlög til skógræktar kæranda, eða 3.176.160 kr. árið 1995 og 5.133.936 kr. árið 1996, en í skýringum með ársreikningunum kemur fram að framlag X-bæjar hafi numið 2.200.000 kr. fyrra árið og 3.155.825 kr. það síðara. Þá kemur fram að kærandi hafi á þessum árum haft tekjur af sölu trjáplantna, 1.975.696 kr. árið 1995 og 1.097.968 kr. árið 1996. Félagsgjöld nema 478.000 kr. árið 1995 og 488.000 kr. árið 1996.

Eins og fram er komið hefur kærandi með höndum skógrækt og starfsemi henni tengdri. Virðisaukaskattsskyld starfsemi félagsins felst í sölu trjáplantna, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Með hinum kærða úrskurði um endurákvörðun, dags. 16. júní 1997, lækkaði skattstjóri innskatt kæranda á árunum 1992, 1993, 1994 og 1995 á þeim forsendum að færður hefði verið til innskatts virðisaukaskattur af aðföngum sem ekki vörðuðu hinn skattskylda hluta starfsemi kæranda, en þessum þætti endurákvörðunar skattstjóra er ekki mótmælt í kæru til yfirskattanefndar. Kom fram af hálfu skattstjóra að starfsemi kæranda skiptist í virðisaukaskattsskylda starfsemi og starfsemi sem undanþegin væri virðisaukaskatti samkvæmt 2. gr. laga nr. 50/1988. Kvað skattstjóri hina undanþegnu starfsemi felast í ýmsum félagsstörfum og væri ekki heimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af aðföngum vegna þeirrar starfsemi. Við ákvörðun innskattsfrádráttar kæranda miðaði skattstjóri við hlutfall skattskyldrar sölu hvers reikningsárs af heildarveltu ársins, sbr. ákvæði 5. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt. Vegna þessa þáttar í úrskurði skattstjóra skal tekið fram að gögn málsins bera ekki með sér að kærandi hafi með höndum vinnu eða þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti á grundvelli ákvæða 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Eiginleg félagsstarfsemi felur hins vegar ekki í sér neins konar sölu eða afhendingu á vöru eða þjónustu og fellur því utan skattskyldusviðs laga nr. 50/1988 samkvæmt meginreglum þeirra. Í málinu verður að skera úr því hvort samningar kæranda og X-bæjar um ræktun og umsjón með útivistarsvæðum feli í sér sölu eða afhendingu á skattskyldri vöru eða þjónustu, eins og skattstjóri hefur haldið fram.

Í málinu liggur fyrir afrit af samningi kæranda og bæjarstjórnar X-bæjar frá 20. mars 1990 „um ræktunarsvæði ofan byggðar og utan skipulagðra svæða í X-bæ“. Kemur samningur þessi í stað samskonar eldri samnings aðila frá 11. júní 1980, sbr. 10. gr. hans. Með 1. gr. samnings þessa er kæranda falin umsjón svæðis í landi X-bæjar, sem honum er ætlað að úthluta til einstaklinga, stofnana og félaga í X-bæ til skógræktar og landgræðslu. Samkvæmt 2. gr. samningsins skal skipta tilteknum hlutum svæðisins í landspildur sem kærandi úthlutar til einstaklinga, fjölskyldna, stofnana, félaga og starfshópa samkvæmt sérstökum reglum sem samningsaðilar setja. Kemur fram að kæranda sjálfum séu heimil afnot annarra hluta svæðisins til skógræktar og landgræðslu. Samkvæmt 3. gr. samningsins tekur kærandi að sér að hafa umsjón með land- og skóggræðslu á svæði þessu og samskipti við landnema. Samningurinn gildir til 25 ára og eru kæranda heimil afnot af umræddu landsvæði á meðan samningurinn er í gildi, sbr. 7. gr. hans. Í nefndri grein samningsins kemur fram að samningurinn skapi kæranda eða þeim sem kærandi úthlutar landspildum engan rétt sem jafna megi t.d. til eignarhalds eða erfðafestu á landsvæðum eða hlutum þeirra. Í samningnum eru engin ákvæði um styrk X-bæjar til kæranda.

Á árinu 1995 gerðu kærandi og X-bær með sér samning, dags. 12. júní 1995, um ræktun og umsjón með útivistarsvæðum í útlandi X-bæjar. Kemur fram í 1. gr. samningsins að hann komi eldri samningi aðila frá 20. mars 1990 til viðbótar og breyti ekki gildi hans „nema lengra sé gengið í einstaka atriðum“. Í 2. gr. samningsins segir að með honum sé kæranda, í samstarfi við umhverfisnefnd, skipulagsnefnd og bæjarskipulag, falin umsjón með framkvæmd útivistarskipulags. Þá vinni kærandi að ræktun eftir því sem samningurinn kveði á um og bæjaryfirvöld kunni að binda í áætlunum. Samkvæmt 3. gr. samningsins skal kærandi, í samvinnu við umhverfisnefnd, skipulagsnefnd og garðyrkjustjóra bæjarins fylgja framkvæmdaáætlunum og hafa með höndum stjórnun á plöntun á opnum svæðum og framkvæmdum á spildusvæðum. Í 7. gr. kemur fram að á starfstíma Vinnuskóla X-bæjar muni kæranda lagðir til vinnuhópar og sé yfirstjórn og umsjón þeirra á ábyrgð kæranda. Texti 4. og 5. gr. umrædds samnings er svohljóðandi:

„4. gr.

Með tilliti til þeirra framkvæmdaatriða sem [kærandi] ber að uppfylla skv. 2. og 3. gr. samningsins ásamt annarri þjónustu, eftirliti og umsýslu er ákveðinn rekstrarstyrkur X-bæjar til félagsins. Sá styrkur verður á árinu 1995 kr. 2,5 milljónir króna. Sú upphæð mun á samningstímanum taka hækkunum skv. byggingarvísitölu (203 stig 1. jan. 1995).

Rekstrarstyrkur er skilyrtur því, að í nóvember liggi fyrir skrá yfir þau verkefni sem [kærandi] muni vinna að. Þá skal einnig liggja fyrir skýrsla um unnin störf félagsins á síðast liðnu ári. Ársreikningar félagsins skulu sendir bæjarráði þegar að afloknum aðalfundi.

5. gr.

Í samræmi við 3. gr. gerir [kærandi] áætlanir um plöntuframleiðslu sína.

X-bær mun á hverju ári samningstímans framkvæma verðkönnun á plöntum sem áætlað er að kaupa og gróðursetja í landi bæjarins það árið. Hagstæðustu verð verði grundvöllur hugsanlegs samnings milli bæjarins og [kæranda] um plöntukaup. Stefnt er að því, að í þeim samningi séu öll plöntukaup bæjarins þ.e. til opinna svæða, skóla og landnemaspilda.

Þá skal í þessum árlega samningi ákveða fjárframlag bæjarins til fræ- og áburðarkaupa.“

Framangreindum samningi var breytt á árinu 1996 og liggur hin breytta útgáfa, dags. 25. október 1996, fyrir í málinu. Samkvæmt 2. gr. samningsins er kæranda í samstarfi við garðyrkjustjóra bæjarins falin umsjón með framkvæmd útivistarskipulags og eftirlit og umhirða útivistarsvæða í eigu bæjarins. Skal kærandi vinna að ræktun eftir því sem samningurinn kveður á um og bæjaryfirvöld kunna að binda í áætlunum. Í 3. gr. kemur fram að kærandi muni í samvinnu við garðyrkjustjóra vinna rammaáætlanir til 5 ára og ítarlegri framkvæmdaáætlanir til 2ja ára í senn yfir þau svæði sem til ræktunar verða. Skulu áætlanir lagðar fyrir bæjarráð til staðfestingar. Skal kærandi í samvinnu og samráði við garðyrkjustjóra bæjarins fylgja framkvæmdaáætlunum og hafa með höndum stjórnun á plöntun á opnum svæðum og framkvæmdum á spildusvæðum. Í 5. gr. samningsins segir að við gerð fjárhagsáætlunar bæjarins skuli liggja fyrir skýrsla um störf kæranda og ársreikningar hans. Þá er í 7. gr. kveðið á um umsjón kæranda með vinnuhópum frá Vinnuskóla X-bæjar á starfstíma hans. Ákvæði 4. gr. samningsins um styrk bæjarins til kæranda er svohljóðandi:

„Með tilliti til þeirrar þjónustu og framkvæmda sem [kæranda] ber að uppfylla skv. 2. og 3. gr. samningsins, þ.m.t. eftirlit og umhirða, er rekstrarstyrkur X-bæjar til félagsins ákveðinn. Sá styrkur var á árinu 1995 kr. 2,5 milljónir króna og hækkar á árinu 1997 í kr. 4,0 milljónir. Sú upphæð mun á samningstímanum taka hækkunum skv. byggingarvísitölu (216,9 stig í ágúst, 1996).

Á sama hátt og kveðið er á um áætlanagerð skv. 3. gr. mun félagið gera verkefnaskrá ár hvert sem kynnt verður bæjarráði og staðfest af garðyrkjustjóra.“

Í málinu liggja fyrir lög kæranda, sem yfirskattanefnd aflaði með bréfi til félagsins, dags. 29. maí 1998. Samkvæmt 2. gr. þeirra er tilgangur félagsins að vinna að skógrækt og landgræðslu í landi X-bæjar og að auka skilning og áhuga X-bæjar á þeim málum. Hagsmunir X-bæjar og íbúa bæjarins af þessu starfi eru augljósir og fyrir liggur að bæjarsjóður X-bæjar hefur stutt starfsemina með ýmsum hætti á undanförnum árum. Fram er komið af hálfu kæranda, sbr. bréf til skattstjóra, dags. 14. apríl 1997, að allt frá árinu 1980, þegar mikill hluti af upplandi X-bæjar hafi verið tekinn til uppgræðslu í stað almennrar sauðfjárbeitar, hafi kærandi haft forystu um landbætur og skógrækt á svæðinu auk umsjónar með eldri svæðum. Bæjarstjórn X-bæjar hafi lengst af stutt dyggilega við starfsemi félagsins með ýmiss konar fyrirgreiðslu og beinum fjárframlögum. Í bréfinu er gerð grein fyrir fjárstuðningi X-bæjar við kæranda á árunum 1992-1996. Kemur fram að kærandi hafi hlotið styrk frá bæjarsjóði öll umrædd ár og hafi sá styrkur numið 1.500.000 kr. árið 1992, 1.838.298 kr. árið 1993, 2.075.000 kr. árið 1994, 2.700.000 kr. árið 1995 og 2.655.825 kr. árið 1996. Eftir því sem fram er komið í málinu voru engir samningar í gildi um styrk þennan fyrr en aðilar gerðu með sér samning hinn 12. júní 1995 um ræktun og umsjón með útivistarsvæðum í útlandi X-bæjar. Með umræddum samningi, sbr. einnig endurskoðaða útgáfu hans frá 25. október 1996, tók kærandi að sér umsjón með útivistarskipulagi í samráði við garðyrkjustjóra bæjarins. Varðandi það skilyrði samningsins, að kærandi vinni að ræktun eftir því sem samningurinn kveður á um og bæjaryfirvöld kunni að binda í áætlunum, skal tekið fram að skráður tilgangur félagsins er beinlínis að vinna að skógrækt í landi X-bæjar og kærandi hafði stundað slíka ræktun um langt árabil fyrir tilkomu samningsins. Þá verður tæpast litið svo á að skylda kæranda til skýrslugjafar samkvæmt 4. gr. títtnefnds samnings feli í sér endurgjald fyrir veittan styrk, svo sem skattstjóri virðist telja, né heldur sú skylda kæranda að fylgja framkvæmdaáætlunum bæjarins, sbr. 3. gr. hans.

Þegar það er virt, sem hér að framan hefur verið rakið, þykir ekki fá staðist að telja styrk X-bæjar til kæranda á árunum 1995 og 1996 fela að öllu leyti í sér endurgjald fyrir sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu, svo sem skattstjóri hefur gengið út frá. Verður að telja að umræddar greiðslur felist sem fyrr að mestu leyti í fjárstuðningi til kæranda vegna þeirrar starfsemi félagsins, sem miðar að heill bæjarfélagsins og bæjarbúa. Er þessi skilningur ekki andstæður ákvæðum samnings aðila frá 12. júní 1995, sbr. endurskoðaða útgáfu hans frá 25. október 1996. Þá þykir niðurstaða í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. mars 1998 í málinu nr. E-5852/1996 (Íslenska útvarpsfélagið hf. gegn íslenska ríkinu) vera þessu til stuðnings.

Í kröfugerð kæranda, sbr. bréf umboðsmanns hans, dags. 13. nóvember 1997, felst að litið verði svo á að tiltekinn hluti styrkfjárhæðar áranna 1995 og 1996 feli í sér endurgjald fyrir afhendingu á skattskyldri vöru eða þjónustu og sé því virðisaukaskattsskyldur samkvæmt meginreglu 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Í bréfinu kveður umboðsmaður umrædda fjárhæð hæfilega ákvarðaða með 330.000 kr. fyrir bæði árin og krefst þess að einungis sú fjárhæð verði talin bera virðisaukaskatt. Byggði umboðsmaður kæranda í þessu efni á þeim upplýsingum fyrirsvarsmanna félagsins sem fram komu í kæru til yfirskattanefndar, dags. 12. nóvember 1997. Hinn 8. desember 1997 barst yfirskattanefnd bréf umboðsmanns kæranda, dags. sama dag, þar sem fram kemur að umboðsmaðurinn hafi misskilið efni kærunnar að því er varðar áætlun um vinnu kæranda í þágu bæjarstjórnar X-bæjar. Kveður umboðsmaður tölur kæranda eiga við hugsanlegt vinnuframlag á ári, og beri að leiðrétta upplýsingar í bréfi hans, dags. 13. nóvember 1997, til samræmis við það. Samkvæmt þessu verður litið svo á að krafa kæranda sé sú að sá hluti styrks félagsins árin 1995 og 1996, sem bera skuli virðisaukaskatt, nemi 330.000 kr. hvort ár. Sá hluti styrkfjárhæðar, sem undanþeginn sé virðisaukaskatti, nemi því 2.370.000 kr. árið 1995 og 2.325.825 kr. árið 1996. Í kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu koma engin sjónarmið fram varðandi ofangreinda viðmiðun, enda er látið við það sitja að krefjast staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans. Með hliðsjón af því og fyrirliggjandi gögnum málsins þykir mega leggja áætlun kæranda til grundvallar úrskurði í málinu. Er því fallist á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja