Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag
  • Vantaldar tekjur
  • Rökstuðningur skattstjóra

Úrskurður nr. 845/1998

Gjaldár 1997

Lög nr. 75/1981, 95. gr. 1. mgr., 106. gr. 2. mgr.  

Með úrskurði um endurákvörðun færði skattstjóri kæranda til tekna vanframtalda greiðslu að viðbættu álagi. Yfirskattanefnd taldi að byggja yrði á því að upplýsingar um greiðsluna hefðu legið fyrir skattstjóra fyrir lok almennrar álagningar opinberra gjalda. Þegar til þess væri litið og að virtri heimild skattstjóra til leiðréttinga á einstökum liðum skattframtals, sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, taldi yfirskattanefnd að álagsbeiting skattstjóra væri naumast nægilega rökstudd. Var álagið því fellt niður.

I.

Málavextir eru þeir að skattstjóri reit kæranda bréf, dags. 12. desember 1997, þar sem fram kom að samkvæmt launamiða árið 1997 frá X hefði kærandi fengið greidd laun 67.354 kr., en þessi greiðsla hefði ekki verið færð á skattframtal hennar árið 1997. Óskaði skattstjóri eftir skýringum á þessu misræmi. Tók skattstjóri fram að ef því yrði ekki mótmælt skriflega að um vantaldar tekjur væri að ræða þá yrðu þær færðar kæranda til tekna auk 25% álags, sbr. heimild í 1. mgr. 96. gr. og 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og opinber gjöld 1997 endurákvörðuð. Með úrskurði um endurákvörðun opinberra gjalda, dags. 26. janúar 1998, færði skattstjóri kæranda til tekna laun að fjárhæð 67.354 kr. að viðbættu 25% álagi á mismun 65.096. kr. og til frádráttar frádráttarbært iðgjald í lífeyrissjóð 2.258 kr.

Með kæru, dags. 15. febrúar 1998, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Hann fer fram á að 25% álag verði fellt niður, enda sé alfarið um mistök umboðsmannsins við framtalsgerð kæranda að ræða, en ekki ásetning.

II.

Með bréfi, dags. 15. maí 1998, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Kærendur geta ekki öðlast rýmri rétt til undanþágu frá beitingu álags þó þeir fái aðstoð við framtalsgerðina. Með því að ekki hefur verið sýnt fram á að 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 eigi við er ítrekuð krafa um að hið kærða álag standi óhaggað.“

III.

Fram kemur í bréfi skattstjóra, dags. 12. desember 1997, að upplýsingar um tekjur kæranda frá X hafi komið fram í upplýsingakerfi skattyfirvalda vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og að þær væru einnig tilgreindar á launamiða frá viðkomandi aðila. Þykir bera að byggja á því að þessar upplýsingar hafi legið fyrir skattstjóra fyrir lok almennrar álagningar opinberra gjalda árið 1997, enda ekkert komið fram sem bendir til annars. Þegar til þessa er litið og að virtri heimild skattstjóra til leiðréttinga á einstökum liðum skattframtals, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, svo sem það ákvæði hefur verið skýrt og skilið í úrskurðaframkvæmd, verður naumast talið að hin kærða ákvörðun skattstjóra um beitingu álags samkvæmt heimildarákvæði 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 sé nægilega rökstudd. Álagið er því fellt niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja