Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðahlunnindi
  • Skattmat ríkisskattstjóra

Úrskurður nr. 864/1998

Gjaldár 1995 og 1996

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tölul.   Skattmöt í staðgreiðslu árin 1994 og 1995  

Í kærumáli vegna ákvörðunar bifreiðahlunninda taldi yfirskattanefnd að gera yrði nokkuð ríkar kröfur til þess að kærandi, aðaleigandi og daglegur stjórnandi hlutafélags, leiddi í ljós með gögnum eða sýndi fram á með öðrum sannfærandi hætti að hann hefði ekki haft þau umráð yfir bifreið félagsins að þau yrðu metin honum til skattskyldra tekna eftir reglum um bifreiðahlunnindi miðað við full afnot. Var kærandi ekki talinn hafa sýnt fram á að hann hefði verið bundinn ákveðnum takmörkunum varðandi afnot af bifreiðinni utan vinnutíma, m.a. að teknu tilliti til annarrar bifreiðaeignar hans og eiginkonu hans, sem væri eldri bifreið en í málinu greindi. Var kröfu kæranda hafnað.

I.

Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 19. ágúst 1997, hefur umboðsmaður kæranda kært endurákvörðun skattstjóra á opinberum gjöldum kæranda gjaldárin 1995 og 1996 en skattstjóri hækkaði tilfærð bifreiðahlunnindi úr 8.442 kr. í 208.395 kr. í skattframtali kæranda 1995 og ákvarðaði kæranda 276.225 kr. í bifreiðahlunnindi í skattframtali hans 1996, sbr. úrskurð skattstjóra um endurákvörðun, dags. 21. júlí 1997.

II.

Málavextir eru þeir að í bréfi, dags. 28. apríl 1997, krafði skattstjóri kæranda skýringa á afnotum hans af bifreiðinni X, Subaru Legacy árgerð 1992, sem var í eigu launagreiðanda hans, Y hf. Kvað hann fram hafa komið á bifreiðahlunnindamiða (RSK 2.035) frá launagreiðanda að kærandi hefði haft takmörkuð afnot af umræddri bifreið. Þau afnot teldust til skattskyldra hlunninda samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Óskaði skattstjóri eftir ítarlegri greinargerð um einkaafnot kæranda af umræddri bifreið og þyrfti að koma fram hvort honum hefði verið sett einhver takmörk varðandi notkun og ef svo hefði verið í hverju þau hefðu verið fólgin, hver hefði sett þau, með hvaða hætti og hvernig þeim hefði verið fylgt eftir.

Í bréfi, dags. 24. maí 1997, var því mótmælt af hálfu umboðsmanns kæranda að kærandi hefði haft nokkur persónuleg afnot á árinu 1995 af umræddri bifreið en takmörkuð afnot hefðu hins vegar verið reiknuð kæranda til tekna vegna síðari hluta ársins 1994. Umrædda bifreið hefði kærandi selt Y ehf. í maí árið 1994 þar sem hún hefði þá alfarið verið notuð í þágu félagsins um nokkurt skeið. Í bifreiðinni væru geymd ýmis tæki og gögn … og samkvæmt eðli starfseminnar væri ekki hægt að sameina persónuleg afnot bifreiðarinnar og notkun hennar í þágu félagsins. Kærandi ætti sjálfur bifreið sem notuð væri til einkaþarfa. Starfsstöð Y ehf. væri að Z-götu í Reykjavík og á heimili kæranda að A-götu í Garðabæ, en þar væri undirbúningsstarf vegna rekstrarins unnið að mestu leyti. Af þeim sökum væri akstur á milli heimilis og vinnustaðar enginn þar sem kærandi færi frá báðum starfsstöðvum til að þjóna viðskiptavinum félagsins.

Í bréfi, dags. 30. maí 1997, boðaði skattstjóri kæranda hinar kærðu tekjuviðbætur í skattframtölum hans árin 1995 og 1996. Kvaðst skattstjóri hafa óskað eftir því að kærandi gerði ítarlega grein fyrir einkanotum sínum af umræddri bifreið og ef um einhver takmörkuð afnot hafi verið að ræða, að kærandi upplýsti hvernig þeim takmörkunum væri fylgt eftir auk þess sem koma þyrfti fram hvað kærandi teldi sig hafa ekið bifreiðinni marga kílómetra í eigin þágu. Kvaðst skattstjóri ekki fá annað séð með tilliti til stöðu kæranda sem framkvæmdastjóra, prókúruhafa, stjórnarmanns og stofnanda félagsins, en að hann gæti haft bifreiðina til fullra afnota og samkvæmt því bæri að reikna kæranda bifreiðahlunnindi miðað við full og ótakmörkuð afnot samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra. Gerði skattstjóri grein fyrir kostnaðarverði bifreiðarinnar og útreikningi bifreiðahlunninda í samræmi við það, er næmu 208.395 kr. gjaldárið 1995 og 276.225 kr. gjaldárið 1996.

Umboðsmaður kæranda mótmælti boðuðum breytingum skattstjóra í bréfi, dags. 18. júní 1997. Kvað hann kæranda ekki hafa haft nein persónuleg afnot af bifreiðinni á árinu 1995 en takmörkuð afnot árið 1994 þar sem kærandi hefði komið sér upp starfsaðstöðu að heimili sínu en þar sem láðst hefði að tilkynna formlega um opnun útibús félagsins að heimili kæranda kvað umboðsmaðurinn líklegt að reikna bæri kæranda takmörkuð hlunnindi vegna aksturs á milli heimilis og vinnustaðar miðað við 17 km akstur á dag í 127,5 daga árið 1994 eða frá 30. maí til ársloka það ár og allt árið 1995 eða í 215 daga það ár. Nam fjárhæð bifreiðahlunninda samkvæmt útreikningi kæranda 71.462 kr. gjaldárið 1995 og 122.589 kr. gjaldárið 1996. Gerði umboðsmaðurinn nánari grein fyrir þeim búnaði sem geymdur væri í bifreiðinni og kvað bifreiðina nánast geta talist áhaldaskúr á hjólum svo sem nánar var lýst.

Hinn 21. júlí 1997 tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hefði hrundið boðuðum breytingum í framkvæmd og endurákvarðað opinber gjöld kæranda gjaldárin 1995 og 1996 í samræmi við það. Af hálfu launagreiðanda kæranda hefðu ekki verið settar neinar reglur um afnot kæranda af bifreiðinni. Yrði því ekki annað séð með tilliti til stöðu kæranda og eignaraðildar að félaginu en að hann gæti sjálfur ákvarðað einkanot sín af bifreiðinni.

III.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur úrskurði skattstjóra um endurákvörðun verið skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 19. ágúst 1997. Er því mótmælt að kæranda hafi verið í sjálfsvald sett að ákvarða einkanot sín af bifreiðinni. Við kaup á bifreiðinni til flutnings og geymslu á búnaði og tækjum hefði sjálfkrafa fylgt að einkaafnot yrðu nánast engin. Þá er það mat umboðsmannsins, að ef um ótengdan aðila hefði verið að ræða sem hefði unnið hjá félaginu og haft slík afnot af bifreiðinni með þeim takmörkunum sem útbúnaður hennar byði upp á, hefði honum ekki verið reiknuð bifreiðahlunnindi. Kveður hann það sama eiga að gilda um kæranda. Að öðru leyti er vísað til framkominna röksemda af hálfu kæranda í bréfum hans til skattstjóra.

Með bréfi, dags. 7. nóvember 1997, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

IV.

Af hálfu kæranda er komið fram að bifreiðin X hafi verið geymd við heimili kæranda um nætur og helgar, en launagreiðandi kæranda, Y ehf., hefði þar einnig aðra starfsstöðva sinna. Sé akstur milli heimilis kæranda og starfsstöðvarinnar því í þágu fyrirtækisins og teljist ekki til hlunninda kæranda. Hvað sem líður hagsmunum launagreiðanda vegna geymslu bifreiðarinnar við heimili kæranda, verður ekki fallist á það með kæranda að hann geti eigi talist njóta hlunninda vegna afnota bifreiðarinnar sem meta beri honum til skattskyldra tekna. Úrlausnarefnið í máli þessu er þá það hvort bifreiðahlunnindi skuli ákvörðuð miðað við að kærandi hafi haft bifreiðina til fullra umráða eða hún staðið honum til takmarkaðra afnota, sbr. orðalag í skattmötum ríkisskattstjóra í staðgreiðslu á umræddum árum sem birt voru í 3. tbl. Lögbirtingablaðsins 1994 og með auglýsingu nr. 1/1995, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda. Skilja verður skattmatsreglur ríkisskattstjóra þannig að bifreiðaafnot skuli metin til tekna eftir reglum um takmörkuð afnot ef eingöngu er um að ræða akstur milli heimilis og vinustaðar, svo og önnur tilfallandi og einstök afnot, enda sé slíkur akstur í þágu launamanns, en til fullra umráða ef afnotin eru ekki bundin við framangreint.

Fram er komið að kærandi er aðaleigandi og daglegur stjórnandi Y ehf. Við þær aðstæður þykir eðlilegt að gera nokkuð ríkar kröfur til þess að kærandi leiði í ljós með gögnum eða sýni fram á með öðrum sannfærandi hætti að hann hafi ekki þau umráð yfir bifreið fyrirtækisins að þau verði metin honum til skattskyldra tekna eftir reglum um bifreiðahlunnindi miðað við full umráð. Þegar það er virt sem fram er komið af hálfu kæranda um þetta atriði og að teknu tilliti til annarrar bifreiðaeignar kæranda og eiginkonu hans, sem er eldri bifreið en í máli þessu greinir, svo og upplýsinga í fyrirliggjandi gögnum um einkanot af þeirri bifreið, þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á að hann hafi verið bundinn ákveðnum takmörkunum varðandi afnot af bifreiðinni utan vinnutíma. Því verður að telja að hann hafi haft bifreiðina til fullra umráða í skilningi framangreindra skattmatsreglana ríkisskattstjóra. Þykir engu fá um þetta breytt þótt bifreiðin hafi að einhverju leyti verið nýtt til geymslu áhalda og tækja, enda hefur ekkert fram komið um það að það hafi út af fyrir sig hamlað því að bifreiðin væri nýtt til persónulegra þarfa. Að þessu virtu og þar sem ekki er neinn ágreiningur um fjárhæðir bifreiðahlunnindanna, sem leiðir af framangreindum reglum, er kröfu kæranda í máli þessu hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja