Úrskurður yfirskattanefndar

  • Þungaskattur, sekt

Úrskurður nr. 867/1998

Lög nr. 3/1987, 6. gr. 2. mgr., 18. gr. 3. mgr.  

Yfirskattanefnd staðfesti ákvörðun ríkisskattstjóra um að gera kæranda sekt fyrir að láta hjá líða að skrá kílómetrastöðu hraða- og ökumælis bifreiðar sinnar.

I.

Með kæru til ríkisskattstjóra, dags. 15. desember 1997, sem framsend hefur verið yfirskattanefnd, með því að hún hafi borist í kærufresti til nefndarinnar, hefur kærandi mótmælt sektarákvörðun ríkisskattstjóra að fjárhæð 10.000 kr. sem ríkisskattstjóri gerði kæranda á þeim grundvelli að akstursbók kæranda vegna bifreiðarinnar X hefði ekki verið rétt útfyllt, sbr. úrskurð ríkisskattstjóra, dags. 4. desember 1997.

II.

Málavextir eru þeir að hinn 27. maí 1997 gerði álestraraðili skýrslu um ranga skráningu í akstursbók vegna bifreiðarinnar X. Í skýrslunni kom fram að kærandi hefði gleymt að færa stöðu ökumælis inn í akstursbók. Í framhaldi af því sendi ríkisskattstjóri kæranda bréf, dags. 24. september 1997, með yfirskriftinni „boðun v/skýrslu „röng skráning í akstursbók““. Í bréfinu gerði ríkisskattstjóri grein fyrir því að hann hefði móttekið skýrslu frá álestraraðila þar sem fram hefði komið að akstursbók kæranda væri ekki rétt útfyllt. Slíkt væri brot á 6. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum, og 16. gr. reglugerðar nr. 309/1996, um ákvörðun þungaskatts og skyldur ökumanna. Hann hygðist því beita kæranda 15.000 kr. sekt, sbr. heimild í 3. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, með síðari breytingum. Að lokum tók ríkisskattstjóri fram að frestur til að senda ríkisskattstjóra svar væri 15 dagar. Bærist svar ekki eða teldist það ófullnægjandi kæmi boðuð sektarbeiting til framkvæmda.

Í svarbréfi kæranda, dags. 5. október 1997, kom fram að kærandi hefði vegna misskilnings ekki skráð mánaðarlega í akstursbók en að frá maímánuði 1997 hefði hann fyllt út mánaðarlega eins og lög gerðu ráð fyrir.

Af hálfu ríkisskattstjóra var kæranda ákvörðuð 10.000 kr. sekt með úrskurði, dags. 4. desember 1997. Tók ríkisskattstjóri fram að í svarbréfi kæranda væri eigi að finna skýringar eða gögn sem gæfu tilefni til að falla frá beitingu áðurnefndrar sektar. Ekki væri talið að um væri að ræða vantalinn akstur og teldist þetta fyrsta brot kæranda þessarar gerðar og sektin væri því ákvörðuð í samræmi við verklagsreglur ríkisskattstjóra fyrir brot af þessu tagi.

III.

Af hálfu kæranda eru í kæru til yfirskattanefndar ítrekaðar áður framkomnar skýringar á því að ekki var skráð í akstursbók. Kærandi tekur fram að fyrrverandi eigandi bifreiðarinnar hefði tjáð sér að nauðsynlegt væri að koma með ökutækið til álestrar þrisvar sinnum á ári en að ekki væri svo áríðandi að fylla akstursbókina út.

Með bréfi, dags. 5. febrúar 1998, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að sektarúrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

I. Ein helstu nýmæli laga nr. 68/1996, um breytingu á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, var hin ríka skylda sem lögð var á ökumenn að skrá akstur ökutækja í þar til gerða akstursbók sbr. 6. gr. fyrrgreindra laga og 16. gr. rgj. nr. 309/1996. Í fyrstu var lögð áhersla á að kynna ökumönnum þessa nýjung með orðsendingum til allra gjaldenda þungaskatts, þar sem reglur um skráningu á stöðu ökumælis og hraðamælis í akstursbók voru kynntar. Reglur þessar voru jafnframt innan á kápu akstursbókar sem byrjað var að afhenda í júní 1996 en dreifingu hennar var lokið í október 1996 (á þriðja álestrartímabili 1996). Í orðsendingu nr. 3/1996 í september voru reglur um skráningu ítrekaðar og tekið fram að frá og með næsta gjaldtímabili þ.e. frá 11. október 1996 yrði tekið harðar á því að skráning í akstursbók fari eftir reglum og að ríkisskattstjóri hefði til þess heimild að beita sektum ef skráning færi ekki eftir settum reglum. Í orðsendingu nr. 1/1997 sem send var út í febrúar til allra gjaldenda þungaskatts (mælagjalds), var ítarleg kynning á beitingu sekta ef ekki var farið að reglum um skráningu í akstursbók.

Ríkisskattstjóri sendi boðun v/skýrslu um ranga skráningu í akstursbók dags. 24. september 1997 (tilv. Boð/Þsk 519/97), en skv. skýrslunni hafði engin skráning átt sér stað í akstursbók ökutækisins X. Með skýrslunni fylgdu skráningarblöð úr akstursbók ökutækisins X fyrir mánuðina janúar, febrúar, mars og apríl 1997 en blöðin voru tekin úr bókinni þegar mætt var í álestur þann 27. maí 1997. Frá síðasta álestri þann 21. janúar 1997 til álesturs þann 27. maí 1997 hafði ekkert verið skráð í akstursbókina. Ökumanni bar að skrá stöðu hraðamælis og ökumælis einu sinni í mánuði þar sem ökutækið er fólksbifreið sem ekki er nýtt í atvinnurekstri sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 3/1987, sbr. síðari breytingar. Boðuð var sekt skv. 3. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, sbr. lög nr. 68/1996, en þar er ríkisskattstjóra gert að ákvarða sekt þrátt fyrir að eigi sé um vantalinn akstur að ræða, ef um brot skv. 1. mgr. 18. gr. sömu laga er að ræða.

Svarbréf barst frá kæranda dags. 5. október 1997, þar sem segir að vegna misskilnings hafi ekki verið skráð í akstursbók eins og lög gera ráð fyrir. Í bréfi þessu komu ekki fram skýringar eða gögn sem til þess voru fallin að falla frá beitingu sektar og kom því boðuð sekt til framkvæmda sbr. bréf ríkisskattstjóra dags. 4. desember 1997 (tilvísun sekt/þsk 75/97).

II. Í bréfi kæranda dags. 15. desember 1997 sem sent var ríkisskattstjóra en framsent til yfirskattanefndar og móttekið þar 17. desember 1997, kemur fram að upplýsingar um hvernig skrá ætti í akstursbókina hafi hún fengið frá fyrri eiganda ökutækisins en bifreiðina keypti hún í september 1996. Kærandi hafi ekki áttað sig á því að skrá ætti mánaðarlega í akstursbókina fyrr en eftir álesturinn í maí 1997 og hún hafi ekki átt díesel bifreið áður og megi rekja hluta misskilnings til þess.

III. Ríkisskattstjóri vill taka fram að hér er um formbrot að ræða sem ber að sekta fyrir skv. ákvæði 3. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987. Kæranda mátti vera kunnugt um skyldu sína til skráningar í akstursbók, annars vegar koma reglurnar fram innan á kápu akstursbókar þeirrar sem fylgdi bílnum er hún keypti hann þann 14. október 1996 og hins vegar voru reglurnar skýrt settar fram í orðsendingu ríkisskattstjóra nr. 1/1997 sem sendar voru öllum eigendum þungaskattsbifreiða sem fengu álagningu þungaskatts á 1. álestrartímabili 1997.

Ríkisskattstjóri hefur sett sér verklagsreglur um beitingu sekta þegar ekkert er skráð í akstursbók eða rangt skráð. Þegar ekkert er skráð í akstursbók skal sekt vera að lámarki 10.000 kr. fyrir ökutæki sem eru undir 4.000 kg að leyfðri heildarþyngd og ekki nýttar í atvinnurekstri. Fyrir önnur ökutæki er sektin að lágmarki 15.000 kr. Fyrir ítrekuð brot hækkar sektin um 5.000 kr. í hvert sinn, í allt að 50.000 kr. Þar sem hér var um fyrsta brot að ræða ákvarðaði ríkisskattstjóri kæranda 10.000 kr. sekt.

Ríkisskattstjóri fer fram á að ákvörðun ríkisskattstjóra um sekt verði staðfest, þar sem gögn og málsástæður varðandi kæruefnið gefa ekki tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“

IV.

Óumdeilt er að kæranda bar að skrá kílómetrastöðu ökumælis og hraðamælis einu sinni í mánuði í sérstaka akstursbók, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum. Í 3. mgr. 18. gr. fyrrnefndra laga er boðið að eigandi eða umráðamaður ökutækis skuli sæta sekt hafi hann fært akstur ranglega eða ekki í akstursbók sína. Fyrir liggja gögn sem sýna fram á að kærandi lét hjá líða að skrá kílómetrastöðu ökumælis og hraðamælis bifreiðar sinnar, X, frá 21. janúar 1997 til 27. maí 1997 þannig að lagaskilyrði voru til beitingar sektar skv. 3. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, sbr. síðari breytingar. Þykja ekki komnar fram í máli þessu gildar ástæður til þess að verða við kröfu kæranda um niðurfellingu sektar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja