Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Skattverð
  • Uppgjör skattskyldrar veltu
  • Tekjuskráning

Úrskurður nr. 881/1998

Virðisaukaskattur 1993

Lög nr. 50/1988, 7. gr., 17. gr. 1. mgr., 20. gr. 1. mgr., 21. gr. 3. mgr., 27. gr.   Reglugerð nr. 50/1993  

Skattstjóri hækkaði virðisaukaskattsskylda veltu kæranda, sem hafði með höndum útgerð fiskiskips, á þeim forsendum að gögn frá Fiskistofu um aflaverðmæti skipsins bæru með sér að kærandi hefði vantalið skattskylda veltu á virðisaukaskattsskýrslum sínum. Af hálfu kæranda voru þær skýringar gefnar að af hluta þeirra viðskipta sem farið hefðu fram í gegnum fiskmarkað hefði tilgreindri fjárhæð verið haldið eftir og ráðstafað til kaupa á aflakvóta. Tekjuskráning selds afla í bókhaldi kæranda hefði byggst á afreikningum frá umboðsaðila hans og hefði umboðsaðilinn staðið skil á virðisaukaskatti af meintri vanframtalinni veltu af hálfu kæranda. Yfirskattanefnd rakti laga- og reglugerðarákvæði um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila og tók fram að sá annmarki blasti við á tilhögun viðskipta kæranda og umboðsaðila hans að á hluta afreikninga umboðsaðila kæmi ekki fram heildarandvirði hins afhenta afla sem telja bæri skattverð í skilningi virðisaukaskattslaga. Hefði heildarverðmæti selds afla því verið vanframtalið í bókhaldi og til virðisaukaskattsskyldrar veltu kæranda. Var kröfu kæranda hafnað.

I.

Með bréfi, dags. 3. nóvember 1997, hefur umboðsmaður kæranda farið fram á að yfirskattanefnd endurupptaki úrskurð sinn nr. 627 frá 27. ágúst 1997 í máli kæranda vegna ákvörðunar virðisaukaskatts kæranda uppgjörstímabilið nóvember–desember 1993.

Í endurupptökubeiðninni er þess krafist efnislega að felld verði niður hækkun skattstjóra á skattskyldri veltu til virðisaukaskatts kæranda fyrrnefnt uppgjörstímabil um 3.776.462 kr. sem leiddi til hækkunar virðisaukaskatts um 925.233 kr. auk 20% álags 185.047 kr., sbr. tilkynningu skattstjóra um endurákvörðun virðisaukaskatts á rekstrarárinu 1993, dags. 16. desember 1996, sem hann staðfesti með kæruúrskurði, dags. 10. mars 1997.

II.

Málavextir eru þeir að skattframtal kæranda árið 1994 var lagt óbreytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda það ár. Með skattframtalinu fylgdi ársreikningur vegna útgerðar m/b A, sem samkvæmt meðfylgjandi samræmingarblaði (RSK 4.05) er í sameign og samrekstri kæranda og tveggja sona hans að jöfnum hluta hvers þeirra. Samkvæmt rekstrarreikningi nam seldur afli 23.407.856 kr. og samkvæmt samræmingarblaði (RSK 4.05) nam óskipt rekstrartap ársins 1993 656.343 kr. sem jafnframt var samtala yfirfæranlegs taps til næsta árs.

Með bréfi til kæranda, dags. 19. júní 1996, vísaði skattstjóri til gagna sem hann hafði aflað frá Fiskistofu yfir hráefniskaup fiskvinnslustöðva á afla m/b A á rekstrarárinu 1993 og kvað umtalsverðan mun vera á rekstrartekjum samkvæmt þeim og rekstrarreikningi bátsins. Fór skattstjóri annars vegar fram á að kærandi upplýsti um sölu á fiski og fiskafurðum á árinu 1993 sundurliðað eftir viðskiptaaðilum og legði fram hreyfingarlista tekjureiknings úr fjárhagsbókhaldi sama ár og hins vegar að kærandi skýrði umræddan mismun. Umrædd gögn frá Fiskistofu er listi, unninn af Fiskifélagi Íslands, um afla og aflaverðmæti m/b A á árinu 1993 og er aflinn sundurliðaður á kaupendur hverrar einstakrar fisktegundar þar sem fram kemur magn úr sjó og heildarverðmæti. Séu einstakar fjárhæðir á listanum lagðar saman fæst að samtala heildarverðmætis selds afla A á rekstrarárinu 1993 hafi numið alls 27.184.318 kr. þar af vegna selds þorsks 19.346.781 kr.

Samkvæmt gögnum málsins virðist fyrirspurn skattstjóra ekki hafa verið svarað af hálfu kæranda með öðrum hætti en þeim að leggja fram umbeðinn hreyfingarlista tekjureiknings og útskrift (yfirlitslista seljanda) frá fiskmarkaðnum X hf., dags. 20. júní 1996, vegna selds afla m/b A á árinu 1993, sem skattstjóri hefur áritað að hafa móttekið 28. júní 1996, og tvær útskriftir (yfirlitslista seljanda) frá B hf., dags. 2. júlí 1996, vegna selds afla m/b A á árinu 1993, sem skattstjóri hefur áritað að hafa móttekið 8. júlí 1996. Á öðrum listanum kemur fram sundurliðun selds þorsks á söludaga ársins þar sem m.a. er tilgreint söluverðmæti og nemur samtala heildarverðmætis 12.272.604 kr., en ekki hverjir hafi verið kaupendur aflans annar en B hf. Á hinum listanum er sundurliðun blandaðs afla, þ.á m. þorsks, á söludaga þar sem fram kemur m.a. söluverðmæti hverrar tegundar á söludegi og hver kaupandinn hafi verið og nemur samtala heildarverðmætis 7.556.994 kr. Leiða má fram að heildarverðmæti þorsks samtals samkvæmt báðum listunum hafi numið 15.570.315 kr. Síðastnefndi listinn tekur til sömu viðskipta og verðmætis og fyrrnefndur listi frá fiskmarkaðnum X hf. Með listunum tveimur frá B var því gerð grein fyrir seldum afla að verðmæti 19.829.598 kr. sem er 3.578.258 kr. lægri fjárhæð en samkvæmt hreyfingarlista úr fjárhagsbókhaldi 23.407.848 kr. en sem leiða má fram og skýra með því að færslur í fjárhagsbókhaldi eru 8 kr. hærri en í nefndum listum og með samanburði við listann frá Fiskistofu að á listunum komi ekki fram heildarverðmæti seldrar rækju 3.578.250 kr.

Með bréfi, dags. 26. ágúst 1996, boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 1994 og virðisaukaskatts rekstrarárið 1993 með þeirri breytingu að hann hefði í hyggju að hækka rekstrartekjur og skattskylda veltu til virðisaukaskatts um mismun sem verðmæti selds afla samkvæmt gögnum frá Fiskistofu 27.184.318 kr. væri hærra en samkvæmt skattframtali 23.407.856 kr. eða um 3.776.462 kr. Tók skattstjóri fram að skýringar á þessu misræmi, sem beðið hefði verið um í bréfi hans, dags. 19. júní 1996, hefðu ekki komið fram í mótteknum gögnum frá kæranda þann 28. júní 1996 (sic). Við skoðun gagnanna virtist misræmið liggja í viðskiptum með þorsk, en samkvæmt upplýsingum Fiskistofu næmi aflaverðmæti þorsks 19.346.781 kr. en samkvæmt gögnum kæranda 15.386.045 (sic) kr.

Með tveimur úrskurðum, dags. 16. desember 1996, hratt skattstjóri áður boðuðum endurákvörðunum í bréfum hans, dags. 26. ágúst 1996, í framkvæmd og tók fram að engar skriflegar athugasemdir hefðu borist í því sambandi. Ákvarðaði skattstjóri hækkun tekna 3.776.462 kr. sem að frádregnu tapi fyrir breytingu 656.343 kr. eða 3.120.119 kr. var skattlögð að öllu leyti hjá kæranda. Þá leiddi af breytingu skattstjóra hækkun virðisaukaskatts kæranda um 925.233 kr. auk 20% álags á þá hækkun 185.047 kr. sem skattstjóri ákvarðaði á uppgjörstímabilið nóvember–desember 1993. Jafnframt endurákvarðaði skattstjóri opinber gjöld kæranda gjaldárið 1995 með þeirri breytingu að tekjufærsla hreinna tekna í reit 62 í skattframtali hækkaði sem nam niðurfellingu yfirfæranlegs taps af skattframtali 1994 framreiknuðu með verðstuðlinum 1,0184 eða 668.420 kr.

Með kæru, dags. 3. janúar 1997, mótmælti kærandi alfarið endurákvörðunum skattstjóra með svofelldum rökstuðningi:

„Eins og sjá má af skattframtölum mínum má yður vera ljóst að stærstur hluti viðskipta minna fer í gegnum umboðsaðila sem er fiskmarkaðurinn X hf. en ekki Fiskistofu. Þess ósamræmis sem þér getið um vísa ég alfarið til X hf. Hugsanleg skýring gæti verið að vegna lítillar aflaúthlutunar tók X hf. ákveðna krónutölu af hverju kílói fisks sem ég seldi, en gaf mér ekki kvittanir fyrir, heldur útveguðu aflaheimildir í staðinn. Ekki hef ég ástæðu til að ætla að ég hafi verið hlunnfarinn í þeim viðskiptum.“

Með kærunni fylgdi ódagsett svar Fiskistofu varðandi fyrirspurn kæranda um úthlutað aflamark og millifærslur á almanaksárinu 1993. Greindi í svarinu að úthlutað aflamark miðaðist við fiskveiðiár en ekki almanaksár og millifærslur aflamarks milli skipa væru þar af leiðandi einnig bundin í fiskveiðiárum. Meðfylgjandi væru kæranda send stöðubréf fyrir fiskveiðiárin 1992/1993 og 1993/1994 og útprentanir á millifærslum aflamarks á fyrrgreindum fiskveiðiárum og gerð grein fyrir aðgreiningu millifærslna. Meðfylgjandi gögn með svari Fiskistofu eru öll dagsett 6. janúar 1997.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með tveimur úrskurðum, dags. 10. mars 1997, vegna opinberra gjalda gjaldárin 1994 og 1995 annars vegar og vegna virðisaukaskatts rekstrarárið 1993 hins vegar. Í forsendum beggja úrskurðanna vísaði skattstjóri til þess að skýringa á umræddu misræmi virtist að leita í því að hluti af verði þess fisks sem kærandi seldi gegnum fiskmarkaðinn X hf. hefði verið greiddur með aflaheimildum. Að réttu lagi hefði því átt að hækka tekjur í rekstrarreikningi um 3.776.462 kr. og færa sömu fjárhæð til gjalda sem kvótakaup. Þessar breytingar hefðu ekki haft áhrif á niðurstöðutölu ársreiknings. Með vísan til framangreinds felldi skattstjóri endurákvörðun sína vegna opinberra gjalda kæranda, dags. 16. desember 1996, úr gildi. Vegna kærðrar endurákvörðunar virðisaukaskatts kvað skattstjóri hins vegar ljóst af framansögðu að virðisaukaskattsskyld velta kæranda á árinu 1993 hefði verið vantalin um framangreinda fjárhæð og útskattur hans þar af leiðandi vantalinn. Tók skattstjóri fram að þó að hluti af verðmæti afla væri greiddur með aflaheimildum breytti það engu varðandi það að þetta aflaverðmæti ætti að teljast með virðisaukaskattsskyldri veltu. Þá teldist kærandi eigi hafa fært nein rök fyrir því að haga bæri virðisaukaskattsskilum hans á annan veg en skattstjóri hefði gert í hinni kærðu endurákvörðun. Með vísan til framangreinds staðfesti skattstjóri endurákvörðun sína vegna virðisaukaskatts kæranda rekstrarárið 1993, dags. 16. desember 1996, og tók fram að kærandi teldist eigi hafa fært nein rök fyrir því að 20% álag á vantalinn útskatt skyldi fellt niður samkvæmt 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988.

Með kæru, dags. 8. apríl 1997, kærði umboðsmaður kæranda kæruúrskurð skattstjóra, 10. mars 1997, til yfirskattanefndar. Í kærunni var boðað að rökstuðningur yrði sendur síðar. Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 627/1997 var kærunni vísað frá að svo stöddu. Var til þess vísað að yfirskattanefnd hefði með bréfi, dags. 2. júní 1997, gefið kæranda 20 daga frest til að koma að frekari gögnum og rökstuðningi í málinu. Engin nánari kröfugerð hefði borist frá kæranda og ekkert það komið fram í málinu sem að svo stöddu gæfi tilefni til breytinga á úrskurði skattstjóra.

III.

Með bréfi, dags. 29. september 1997, fór umboðsmaður kæranda þess á leit við skattstjóra að hann drægi endurákvörðun virðisaukaskatts kæranda ársins 1993 til baka í ljósi þeirra upplýsinga sem hann hefði sett fram. Kvaðst umboðsmaðurinn að undanförnu hafa skoðað grundvöll endurákvörðunarinnar og átt í því sambandi viðræður m.a. við skattstjóra og tiltekinn starfsmann hans. Lögð hefðu verið inn vinnugögn sem sýndu að umræddur virðisaukaskattur hefði verið greiddur og það á réttum tíma. Reyndar hefðu þau virðisaukaskattsskil átt sér stað gegnum fiskmarkaðinn X hf. og myndu hafa verið greidd þaðan og vísaði hann til sérstaks handskrifaðs vinnuplaggs (fært á T-reikninga) þar sem sjá mætti hver ferill umræddra greiðslna hefði verið. Í bókhaldi umbjóðanda hans hefðu afreikningar hverrar sölu verið færðir eins og fiskmarkaðurinn skilaði þeim til hans og virðisaukaskattsskil gerð í samræmi þar við. Í málinu liggur fyrir ódagsett ljósrit frá umboðsmanni til skattstjóra þar sem stillt er upp dæmi af einni fisksölu kæranda að fjárhæð 100.000 kr. til X hf. sem gefi kæranda afreikning fyrir 80.000 kr., en mismunur 20.000 kr. sé kvóti. Eru viðskipti þessi leidd út á fjórum reikningum, þ.e. vegna sölu, virðisaukaskatts, kvótakaupa og sjóðs, hjá kæranda og á sama hátt fyrir X hf. með því fráviki að í stað reiknings fyrir kvótakaup er reikningur fyrir fiskkaup. Hjá kæranda eru færslur gerðar vegna þrenns konar viðskipta, þ.e. vegna selds afla 80.000 kr., andvirði kvóta fært á sölu og kaupverð kvóta hvorutveggja 20.000 kr. og tekið fram að færslur vegna kvóta vanti í bókhald kæranda. Hjá X hf. eru færslur gerðar vegna ferns konar viðskipta, þ.e. vegna móttekins afla 80.000 kr. og keypts kvóta 20.000 kr. hvorutveggju færð á reikning fiskkaupa, sölu til fisksala 100.000 kr. og uppgjör virðisaukaskatts 4.900 kr., þ.e. útskattur sem mismun útskatts 24.500 kr. vegna sölu 100.000 kr. og innskatts 19.600 kr. af innlögðum afla 80.000 kr. eða sem svarar til 24,5% af fjárhæð kvótaviðskipta 20.000 kr. Neðanmáls er vegna uppgjörs virðisaukaskatts 4.900 kr. gerð sú athugasemd að uppgjör á virðisaukaskatti hafi þar með farið fram, en ella skuldi X hf. kæranda þessa upphæð.

Með bréfi, dags. 10. október 1997, tilkynnti skattstjóri umboðsmanni kæranda að eigi væri unnt að verða við erindi kæranda. Vísaði skattstjóri til þess að allnokkuð væri umliðið síðan mál þetta hefði verið úrskurðað af skattstjóra. Meginmáli skipti þó að það hefði sætt kæru til yfirskattanefndar og með vísan til úrskurðar hennar nr. 305/1997 væri skattstjóra við slíkar aðstæður með öllu óheimilt að taka til endurskoðunar þá ákvörðun sem hann hefði tekið jafnvel þó að hann hefði hug á að breyta henni að einhverju eða öllu leyti. Segði í úrskurðinum að skattstjóri hefði ekki vald til slíkrar ákvörðunar og hún væri því markleysa.

IV.

Í endurupptökubeiðni umboðsmanns kæranda er krafist fullrar niðurfellingar á kæruúrskurði skattstjóra, dags. 10. mars 1997, vegna endurákvörðunar virðisaukaskatts auk álags á meinta vantalda veltu til virðisaukaskatts 3.776.462 kr. og að málinu verði hraðað svo sem kostur er. Málsreifun og rökstuðningur umboðsmanns kæranda er svohljóðandi:

„Ástæða umþrættrar álagningar eru viðskipti umbjóðanda míns við fiskmarkaðinn X hf., en við þann aðila voru veruleg viðskipti árið 1993. Þau viðskipti gerast þannig, að báturinn leggur afla sinn í hendur fiskmarkaðnum til sölumeðferðar. Fiskmarkaðurinn býður síðan aflann upp og dreifist hann gjarna á marga kaupendur. Það er hins vegar fiskmarkaðurinn sem gefur út afreikning fyrir andvirði aflans til handa seljanda. Á afreikningnum kemur fram söluandvirði aflans, virðisaukaskattur og ýmsir frádráttarliðir. Nettoandvirði afreikningsins er síðan greitt seljanda. Sjá annars meðf. ljósrit af fylgiskjali nr. 71 úr bókhaldi 1993. Tekjufærsla umrædds afla í bókhaldi umbjóðanda míns byggist síðan á fyrrnefndum afreikningi enda verður ekki séð að slíkt verði gert löglega á annan hátt.

Á umræddu ári mun hafa tíðkast, að fiskmarkaðurinn útvegaði fiskseljendum veiðiheimildir til þess að auka möguleika þeirra á frekari veiðum. Þetta gerðist þannig, að fiskmarkaðurinn keypti kvóta fyrir hluta af söluandvirði aflans og yfirfærði yfir á bát seljanda. Í stað þess að gefa út reikning fyrir umræddum kvóta var andvirði aflans á afreikningi lækkað um sem svaraði kaupverði kvótans. Þetta þýðir í reynd, að misræmi skapast í tekjufærslu seljanda annars vegar og kaupanda hins vegar þótt nettotekjur seljanda haldist óbreyttar. Þetta þýðir líka það, að skil á virðisaukaskatti af þessum mismun eiga sér stað af hálfu fiskmarkaðarins þar sem innskattur hans (þ.e. útskattur seljandans) er minni sem nemur virðisaukaskatti af mismuninum (þ.e. v/kvótakaupanna). Þetta má ljóslega sjá á „Dæmi um fisksölu“ sem ég hefi sett upp á sérstakt blað, sem fylgir hér með. …“

Umboðsmaður vísar einnig til meðfylgjandi ljósrits af fylgiskjali nr. 570 úr bókhaldi 1993 ásamt þremur meðfylgjandi ljósritum, þ.e. tveir „Yfirlitslistar seljanda“ og eitt „Kvótaverðmæti“, þar sem ljóslega megi sjá bakgrunn þessara viðskipta. Kveður umboðsmaður kæranda ljóst af framansögðu að bókhald umbjóðanda hans vegna þessara viðskipta hafi verið fært á þann einn hátt sem eðlilegt hafi verið af bókhaldsgögnum þeim sem hann hafi fengið í hendur vegna viðskiptanna frá fiskmarkaðnum X hf. Leggur umboðsmaður áherslu á að kærandi hljóti að byggja sína tekjufærslu á afreikningum þeim sem hann fái frá fiskmarkaðnum. Kærandi eigi í reynd aldrei nein bein viðskipti við endanlega kaupendur vörunnar heldur við fiskmarkaðinn.

V.

Með bréfi, dags. 28. nóvember 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð: „Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

VI.

Fallist er á kröfu kæranda um endurupptöku úrskurðar nr. 627, dags. 27. ágúst 1997.

Í 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er kveðið á um að til skattskyldrar veltu skráðs aðila teljist öll sala eða afhending vöru og verðmæta gegn greiðslu, svo og seld vinna og þjónusta. Ljóst er af samanburðarskýringu við 4. mgr. 13. gr. laganna að afhending vöru til umsýslu- eða umboðsmanns telst til skattskyldrar veltu umsýslu- eða umboðsveitanda. Þá segir í 2. mgr. 11. gr. að til skattskyldrar veltu teljist sala eða afhending á vöru sem seld er í umsýslu- eða umboðssölu. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna miðast skattverð, þ.e. það verð sem virðisaukaskattur er reiknaður af við sölu, við heildarendurgjald eða heildarandvirði hins selda án virðisaukaskatts.

Í 1. mgr. 17. gr. laganna er mælt fyrir um að skattskyldir aðilar samkvæmt lögum þessum skuli auk þess sem fyrir er mælt í lögum nr. 51/1968, um bókhald, sbr. nú lög nr. 145/1994, sbr. a-lið 4. gr. laga nr. 40/1995, um breyting á lögum nr. 50/1988, haga bókhaldi sínu og uppgjöri til virðisaukaskatts þannig að skattyfirvöld geti jafnan gengið úr skugga um réttmæti virðisaukaskattsskila. Þá segir í 19. gr. laganna að sala skattskyldra aðila samkvæmt lögum þessum skuli teljast skattskyld að því marki sem aðilar þessir geti ekki sýnt fram á með bókhaldi og gögnum sem þeim er skylt að halda að salan sé undanþegin virðisaukaskatti. Vanræki aðili að taka virðisaukaskatt af vöru eða þjónustu sem skattskyld er samkvæmt lögum þessum ber honum eigi að síður að standa skil á skattinum.

Í 1. mgr. 20. gr. laganna er kveðið á um að við sérhverja afhendingu á vöru eða skattskyldri þjónustu skuli seljandi gefa út reikning, sbr. þó 21. gr., og nánar kveðið á um form og efni reiknings. Um efni reiknings er kveðið á um að fram skuli koma útgáfudagur, nafn og kennitala kaupanda og seljanda, skráningarnúmer seljanda, tegund sölu, magn og einingarverð og heildarverð. Í 3. mgr. 21. gr. greinir að þeir sem taki framleiðslu annarra til vinnslu eða endursölu skuli gefa út innleggsnótur (afreikninga) eða móttökukvittanir sem geti komið í stað reikninga skv. 20. gr., og gildi sömu reglur um þær og rakið er í 20. gr. eftir því sem við eigi. Gildi ákvæði hennar meðal annars um kaup eða móttöku samlaga, samvinnufélaga og annarra á sjávarafla. Með ákvæðum 1. mgr. 23. gr. laganna er fjármálaráðherra veitt heimild til útgáfu reglugerðar þar sem hann getur sett nánari fyrirmæli um sérstakt bókhald, fylgiskjöl þess og færslu þeirra og samkvæmt 2. mgr. 23. gr. má í reglugerð samkvæmt fyrri málsgrein mæla fyrir um framtalsgögn og skjöl sem þeim skuli fylgja. Á árinu 1993 var í byrjun árs í gildi reglugerð nr. 501/1989, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, sem leyst var af hólmi 10. febrúar 1993 með reglugerð sama efnis nr. 50/1993.

Það er ágreiningslaust í málinu að aflaverðmæti m/b A á rekstrarárinu 1993 hafi numið þeirri fjárhæð er gögn frá Fiskistofu báru með sér eða samtals 27.184.318 kr. sem er 3.776.462 kr. umfram aflaverðmæti samkvæmt rekstrarreikningi bátsins og framtalinni skattskyldri veltu til virðisaukaskatts samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum á árinu 1993. Af hálfu kæranda hefur þessi mismunur verið skýrður með því að af hluta þeirra viðskipta sem fram fóru í gegnum fiskmarkaðinn X hf. hafi nefndum mismun verið haldið eftir og ráðstafað til kaupa á aflakvóta og að kvittanir hafi ekki verið gefnar út vegna þeirra, sbr. kæru kæranda til skattstjóra, dags. 3. janúar 1993. Í endurupptökubeiðni umboðsmanns kæranda, dags. 3. nóvember 1997, eru umrædd kvótakaup að hluta nánar skýrð og lagt fram ljósrit af fylgiskjali nr. 570 úr bókhaldi ársins 1993. Greinir umboðsmaðurinn m.a. frá því að í stað þess að gefa út reikning fyrir umræddum kvóta hafi andvirði aflans á afreikningi verið lækkað um sem svaraði kaupverði kvótans. Framlagt ljósrit fskj. 570/1993 er afreikningur, dags. 19. júlí 1993, útgefinn af B hf. vegna selds afla í vikunni 9. til 15. júlí 1993 af m/b A í gegnum Fiskmarkað X hf. Á afreikningnum eru tilgreind 157 kg þorsks á 54 kr. per kg samtals 8.478 kr. en að viðbættum virðisaukaskatti 2.077 kr. samtals 10.555 kr. Með þessu fylgiskjali fylgja þrjú önnur ljósrit af gögnum útskrifuðum af B hf. Bera tvö yfirskriftina yfirlitslisti seljanda frá 09.07.93 til 15.07.93, útskrifaðir 19. júlí 1993, en það þriðja ber yfirskriftina kvótaverðmæti frá 09.07.93 til 15.07.93 sem er útskrifað 20. júlí 1993. Yfirlitslistarnir eru vegna sölu á 157 kg af slægðum þorski en á öðrum listanum er einingarverðið tilgreint 69 kr. per kg og heildarverð 10.833 kr. án vsk. til tilgreinds kaupanda en á hinum 54 kr. per kg og heildarverð 8.478 kr. án vsk. þar sem salan er skráð á B í stað tilgreinds kaupanda. Samkvæmt skýringum umboðsmanns kæranda sýnir yfirlit kvótaverðmætis ráðstöfun hluta aflaverðmætis m/b A til kaupa á aflakvóta. Þannig er dregið saman í einni línu þorskur 157 kg á 15 kr. per kg alls 2.355 kr. og í framhaldi þar af magn kvóta 71 kg á 33 kr. per kg en samtala þess reiknast 2.343 kr. Af hreyfingarlista aflamarks sem fylgdi kæru kæranda til skattstjóra má sjá flutning aflamarks 71 kg á m/b A þann 24. júlí 1993. Færsla í fjárhagsbókhaldi, sbr. áður framlagðan hreyfingarlista tekjureiknings, byggir á fyrrnefndum afreikningi sbr. fskj. 570/1993, sem tilgreinir söluverðmæti 8.478 kr.

Í endurupptökubeiðninni rökstyður umboðsmaður kæranda kröfugerð sína annars vegar með því að tekjuskráning selds afla í bókhaldi kæranda hafi byggst á afreikningum frá umboðsaðila kæranda, enda verði ekki séð að slíkt verði gert löglega á annan hátt, og hins vegar á því að umboðsaðili kæranda hafi staðið skil á virðisaukaskatti af meintri vanframtalinni veltu af hálfu kæranda sem hann styður með dæmi um það hvernig ferill á skráningu viðskiptanna hafi verið í bókhaldi hvors um sig, þ.e. kæranda og umboðsaðila hans. Þegar litið er til framkominna skýringa og gagna og að virtum tilvitnuðum lagaákvæðum blasir sá annmarki við á tilhögun viðskipta kæranda og umboðsaðila hans að á hluta afreikninga umboðsaðila kemur ekki fram heildarandvirði hins afhenta afla, sem telja ber skattverð samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 50/1988, og hefur heildarverðmæti selds afla því verið vanframtalið um alls 3.776.462 kr. í bókhaldi og til virðisaukaskattsskyldrar veltu kæranda á árinu 1993 auk þess sem af þessu hefur leitt að verðmæti keypts aflakvóta að sömu fjárhæð hefur verið með öllu óframtalið. Samkvæmt þessu og með vísan til tilvitnaðra ákvæða virðisaukaskattslaga og reglugerða verður talið að skattstjóri hafi réttilega ákvarðað kæranda viðbótarveltu til virðisaukaskatts árið 1993, sbr. heimildir skattstjóra þar að lútandi í 27. gr. laga nr. 50/1988, sbr. nú 26. gr. laganna, sbr. 4. gr. laga nr. 149/1996. Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu.

Tekið skal fram í tilefni rökstuðnings kæranda að lagareglur standa ekki til þess að við úrlausn máls þessa verði litið til þess með hvaða hætti umboðsaðili kæranda kann að hafa hagað færslum þessara viðskipta í bókhaldi og virðisaukaskattsskilum sínum vegna rekstrarársins 1993.

Samkvæmt framansögðu er hafnað kröfu kæranda um niðurfellingu á virðisaukaskatti samkvæmt úrskurði skattstjóra frá 10. mars 1997.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja