Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag vegna síðbúinna framtalsskila

Úrskurður nr. 892/1998

Gjaldár 1997

Lög nr. 75/1981, 106. gr. 1. mgr.   Lög nr. 37/1993, 11. gr.  

Kröfu kærenda um niðurfellingu álags vegna síðbúinna framtalsskila var hafnað, m.a. með vísan til síðbúinna framtalsskila undanfarandi árs.

I.

Málavextir eru þeir að kærendur töldu ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1997 og sættu því áætlun skattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda það ár, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattframtal kærenda árið 1997 barst skattstjóra hinn 4. júní 1997 samkvæmt áritun hans um móttöku þess og var það tekið sem skattkæra, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981. Skattstjóri kvað upp kæruúrskurð hinn 7. október 1997 þar sem hann féllst á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1997 að gerðri tiltekinni breytingu á framtalinu sem ekki er ágreiningur um. Skattstjóri bætti 10% álagi á skattstofna samkvæmt framtalinu vegna síðbúinna framtalsskila, sbr. heimildarákvæði lokamálsliðar 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Vísaði skattstjóri til þess að kærendur hefðu skilað skattframtölum 1992 og 1996 að liðnum framtalsfresti.

Með kæru, dags. 4. nóvember 1997, hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til yfirskattanefndar af hálfu umboðsmanns kærenda. Í kærunni er þess krafist að álag á gjaldstofna verði fellt niður. Til stuðnings þeirri kröfu er til þess vísað að ekki hafi verið gætt jafnræðis við álagningu ársins, þannig að fjölmargir aðilar sem skilað hafi framtölum síðar en kærandi hafi fengið rétta álagningu, og kveðst umboðsmaður geta tilgreint nokkra aðila í því sambandi ef nauðsynlegt reynist. Þá er í öðru lagi bent á að kærendur hafi aldrei áður farið fram á niðurfellingu álags. Loks er í þriðja lagi tekið fram að gjaldstofnar samkvæmt skattframtali séu mun hærri en skattstofnar sem skattstjóri áætlaði upphaflega.

Með bréfi, dags. 25. september 1998, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans. Ríkisskattstjóri telur ekki ástæðu til að falla frá álagsbeitingu þegar það er haft í huga að gjaldárið 1996 skilaði kærandi skattframtali sínu einnig að liðnum kærufresti og var skattframtal hans það ár einnig afgreitt sem kæra skv. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.“

II.

Óumdeilt er að skattframtal kærenda árið 1997 hafi borist að liðnum viðbótarframtalsfresti árið 1997. Fram komnar skýringar á síðbúnum framtalsskilum árið 1997 þykja ekki gefa tilefni til að falla frá beitingu heimildarákvæða 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, í tilviki kærenda gjaldárið 1997, og er þá jafnframt litið til síðbúinna framtalsskila kærenda gjaldárið 1996. Er kröfu kærenda því synjað. Vegna athugasemda umboðsmanns kærenda um síðbúin framtalsskil annarra skattaðila skal tekið fram að ekki verður talið að haldbær rök hafi verið leidd að því að jafnræðisregla hafi verið virt að vettugi í tilviki kærenda, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja