Úrskurður yfirskattanefndar
- Reiknað endurgjald í staðgreiðslu
Úrskurður nr. 919/1998
Staðgreiðsla 1998
Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tölul. 2. mgr. Lög nr. 45/1987, 6. gr.
Með hliðsjón af skýringum kæranda og kröfugerð ríkisskattstjóra var fallist á kröfu kæranda um ákvörðun reiknaðs endurgjalds í staðgreiðslu.
I.
Málavextir eru þeir að kærandi lækkaði reiknað endurgjald sitt úr 30.896 kr. á mánuði í 20.000 kr. á mánuði við skil á staðgreiðslu og tryggingagjaldi fyrir janúar 1998. Með bréfi, dags. 9. febrúar 1998, fór skattstjóri fram á, með vísan til 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að kærandi gerði frekari grein fyrir vinnuframlagi sínu við eigin atvinnurekstur. Tók skattstjóri fram að yrði fyrirspurninni ekki svarað eða svar talið ófullnægjandi myndi reiknað endurgjald kæranda standa óbreytt eða 30.896 kr. á mánuði. Kæranda var veittur 15 daga frestur til skriflegra athugasemda. Svar barst af hálfu kæranda með bréfi, dags. 13. febrúar 1998, þar sem gerð var grein fyrir því að ástæða þess að reiknað endurgjald hefði verið lækkað væri sú að starfsemi kæranda hefði dregist saman á liðnum árum og af því leiddi að vinnuframlag kæranda minnkaði að sama skapi. Lækkun reiknaðs endurgjalds væri ákvörðuð með beinni vísan til 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með bréfi, dags. 18. febrúar 1998, greindi skattstjóri frá því að þar sem ekkert í svari kæranda gæfi til kynna hvert vinnuframlag kæranda hefði verið stæði reiknað endurgjald, 30.896 kr. á mánuði, óbreytt. Tók skattstjóri fram að það samsvari u.þ.b. 25% af viðmiðun ríkisskattstjóra, atvinnugreinaflokki D-3, sem er 121.434 kr. á mánuði á árinu 1998.
Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 5. mars 1998, er gerð sú krafa að reiknað endurgjald kæranda 20.000 kr. á mánuði verði látið standa óbreytt. Í kærunni er tekið fram að kærandi sé orðinn 65 ára gamall. Hann hafi undanfarin ár starfað sem einyrki í iðngrein sinni og eftirspurn eftir þjónustunni hafi farið minnkandi m.a. af samkeppnisástæðum. Velta hans af útseldri vinnu og þjónustu á árinu 1997 hafi numið 216.250 kr. og kærandi geri ekki ráð fyrir að hún verði meiri á árinu 1998. Verðlagning á þjónustu skattaðila skiptist í aðalatriðum þannig að vinnuþátturinn sé reiknaður 50% og annar kostnaður og ágóðahluti 50%. Samkvæmt því hefði reiknað endurgjald á árinu 1997 átt að vera 108.125 kr. eða liðlega 9.000 kr. á mánuði. Í lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sé í aðalatriðum gert ráð fyrir að skattaðili reikni sér laun svo sem hann hefði haft fyrir sams konar vinnu hjá óskyldum aðila. Því verði ekki séð að úrskurður skattstjóra byggi á efnislegum forsendum.
Með bréfi, dags. 4. september 1998, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Eftir atvikum og með hliðsjón af þeim upplýsingum sem liggja fyrir um umsvif kæranda af eigin atvinnurekstri telur ríkisskattstjóri að fallast megi á kröfu kæranda.“
II.
Með hliðsjón af framkomnum skýringum kæranda og kröfugerð ríkisskattstjóra er fallist á kröfu kæranda.