Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður
  • Álag á vangreidda staðgreiðslu

Úrskurður nr. 939/1998

Gjaldár 1997

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr.   Lög nr. 45/1987, 28. gr., 2. mgr.  

Fallist á að kæranda væri heimilt að færa til gjalda í rekstrarreikningi álag á vangreidda staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi sem honum var gert að sæta, m.a. með hliðsjón af sjónarmiðum í H 1996:4248.

I.

Kæruefnið í máli þessu, sem barst yfirskattanefnd með kæru, dags. 14. nóvember 1997, er ákvörðun skattstjóra um að lækka gjaldaliðinn „vextir, álögur“ í rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1996 um 101.616 kr., sbr. tilkynningu skattstjóra, dags. 28. júlí 1997, og kæruúrskurð, dags. 27. október 1997. Ákvörðun sína byggði skattstjóri á því að gjaldfært hefði verið álag á vangreidda staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi, sbr. 1. og 2. tölul. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Kvað skattstjóri staðgreiðslu opinberra gjalda vera bráðabirgðagreiðslu tekjuskatts og útsvars og væru skattar þessir ekki frádráttarbær rekstrarútgjöld samkvæmt 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Sömuleiðis teldist álag á vangreidda staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi ekki heldur frádráttarbær rekstrarkostnaður.

Kæra umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar er svohljóðandi:

„Fyrir hönd umbjóðanda míns kæri ég hér með þá ákvörðun skattstjóra … að fella niður sem rekstrargjöld álögur og vexti vegna reiknaðs endurgjalds alls að upphæð kr. 114.481.

Forsaga þessa máls er sú að skattstjóri sendi umbjóðanda mínum bréf um breytingu á skattframtali ársins 1995 (skattframtal 1996) þar sem hann tilkynnir að tekjur sem færðar voru í reit 7.7 á framtali skuli fluttar í reit 7.5 sem reiknað endurgjald.

Í framhaldi af ofangreindri breytingu er umbjóðanda mínum nú sent launaframtal til útfyllingar, sem sýni í hvaða mánuðum hann hafi aflað tekna sem að ofan greinir.

Þar sem umbjóðandi minn er venjulegur launþegi alla jafna gerði hann sér ekki grein fyrir að hann þyrfti að sækja um og skila inn reiknuðu endurgjaldi vegna þeirra aukatekna sem að hann aflaði sér, sem voru afar afbrigðilegar (umbjóðandi minn er aðili að hljómsveitinni X, sem sló í gegn með uppákomu þetta ár) og fyllti hann því grandalaus út skýrslu skattstjóra og bjóst ekki við eftirmálum þar að lútandi.

Út frá þeim upplýsingum lagði skattstjóri á umbjóðanda minn ofangreindan kostnað og kallar þær nú álögur nr. 1 og nr. 2 sbr. meðfylgjandi ljósrit.

Ekki er hægt að sættast á þessar aðgerðir skattstjóra, þar sem að ekki er um að ræða álögur vegna vanfærðra tekna af hendi umbjóðanda míns sbr. 106. gr. laga nr. 75/1981 og er óskað eftir að allur kostnaðarauki sem umbjóðandi minn verður fyrir vegna aðgerða skattstjóra, sé tekinn til greina eða felldur niður, en að öðrum kosti að reiknuðu endurgjaldi verði breytt í kr. 180.000 yfir tímabilið, sem samanstendur af ca. 3ja tíma vinnu í 20 kvöld eða alls 60 tíma vinnu á kr. 3.000 á tímann.“

Með bréfi, dags. 12. desember 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.

II.

Fram er komið að kærandi færði til gjalda í rekstrarreikningi sínum fyrir árið 1996 álag á vangreidda staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi vegna hljóðfæraleiks á árinu 1995, sbr. tilkynningu skattstjóra, dags. 21. janúar 1997, um ákvörðun álagsins. Var álag samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, ákvarðað 44.292 kr. og álag samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. 28. gr. laganna var ákvarðað 57.324 kr., eða samtals 101.616 kr., sem er sú fjárhæð sem gjaldfærð var og skattstjóri hefur fellt niður.

Kæranda var gert að sæta hinu umdeilda álagi sem launagreiðanda, sbr. ákvæði laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Að þessu virtu og með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram koma í dómi Hæstaréttar Íslands frá 19. desember 1996 í málinu nr. 432/1995; Íslenska ríkið gegn Helga G. Þórðarsyni (H 1996:4248) er krafa kæranda tekin til greina.

Ekki liggur fyrir kæranlegur úrskurður um reiknað endurgjald kæranda árið 1996 og er kröfu umboðsmanns um breytingu á því vísað frá yfirskattanefnd.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja