Úrskurður yfirskattanefndar
- Takmörkuð skattskylda
- Brottflutningur úr landi
- Tekjutímabil
Úrskurður nr. 964/1998
Gjaldár 1997
Lög nr. 75/1981, 3. gr. 2. tölul., 71. gr. 2. tölul.
Kærendur, sem fluttu frá Íslandi 1. júlí 1996, töldu að greiðslur frá vinnuveitendum þeirra í júlí og ágúst á því ári hefðu verið greiðslur launa í uppsagnarfresti sem skattleggja bæri í 20% skattþrepi miðað við takmarkaða skattskyldu, enda hefðu umræddar greiðslur fallið til eftir að ótakmarkaðri skattskyldu kærenda hér á landi lauk. Fallist var á kröfu þeirra.
I.
Málavextir eru þeir að í skattframtali kærenda árið 1997 kom fram að þau hefðu flutt af landi brott þann 1. júlí 1996. Við álagningu opinberra gjalda árið 1997 ákvarðaði skattstjóri kærendum opinber gjöld miðað við ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi til brottflutningsdags og persónuafslátt miðað við 183 dvalardaga á árinu 1996.
Með kæru, dags. 10. ágúst 1997, óskuðu kærendur eftir því að álagning opinberra gjalda þeirra 1997 yrði tekin til endurskoðunar. Álagningin hefði verið miðuð við að öll laun þeirra hefðu verið greidd á fyrstu sex mánuðum ársins 1996, sem leitt hefði til hærri tekjuskatts sem og sérstaks tekjuskatts. Fóru kærendur fram á að skattlagningu launa þeirra sem greidd hefðu verið eftir brottflutning frá landinu yrði miðuð við 20% tekjuskatt og fullt útsvar, og gerðu grein fyrir skiptingu tekna sinna innan ársins 1996.
Með kæruúrskurði, dags. 10. nóvember 1997, hafnaði skattstjóri kröfum kærenda á þeirri forsendu að þau hefðu aflað allra sinna tekna á þeim tíma sem þau hefðu borið ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi. Þótt dregist hefði að greiða launin gæti það ekki leitt til hærri persónuafsláttar en orðið hefði til á dvalartíma né þess að með tekjurnar yrði farið í samræmi við 3. og 71. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sem fjölluðu um takmarkaða skattskyldu.
Kærendur hafa skotið úrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 23. nóvember 1997. Mótmæla kærendur því að öll laun þeirra hafi fallið til á dvalartíma þeirra á Íslandi á árinu 1996. Ekki hafi dregist að greiða launin heldur hafi kærendur ekki átt rétt á þeim fyrr. Glöggt komi fram á launamiðum að A hafi verið á launaskrá í 30 vikur og B í 35 vikur, en í lok uppsagnarfrests hafi þau tekið sitt sumarfrí og verið á launum á meðan.
Með bréfi, dags. 27. febrúar 1998, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda farið fram á að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
II.
Samkvæmt skráningu Hagstofu Íslands fluttu kærendur frá Íslandi þann 1. júlí 1996. Báru kærendur ótakmarkaða skattskyldu hér á landi til þess tíma, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Kærendur líta svo á, sbr. kæru til skattstjóra, dags. 10. ágúst 1997, að greiðslur frá vinnuveitendum þeirra í júlí og ágúst 1996, þ.e. 326.382 kr. í tilviki kæranda, B, og 321.022 kr. í tilviki kæranda, A, hafi verið greiðsla launa í uppsagnarfresti, sem fella beri undir skattlagningu samkvæmt 2. tölul. 3. gr. og 1. mgr. 2. tölul. 71. gr. laga nr. 75/1981, enda hafi þær fallið til eftir að ótakmarkaðri skattskyldu þeirra hér á landi lauk. Ekkert þykir komið fram af hálfu skattstjóra eða ríkisskattstjóra sem gefur tilefni til annars en að fallast á kröfu kærenda í máli þessu. …