Úrskurður yfirskattanefndar
- Reiknað endurgjald
- Rökstuðningur skattstjóra
Úrskurður nr. 1030/1998
Gjaldár 1997
Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tölul. 2. mgr., 59. gr. 2. mgr.
Fallist var á kröfu kærenda um gjaldfærslu reiknaðra launa barna þeirra, sem fædd voru árin 1985 og 1987, vegna vinnu barnanna við smábátaútgerð kærenda. Tekið var fram að sú fullyrðing skattstjóra í bréfi til kærenda, að hin umdeilda gjaldfærsla bæri merki tekjudreifingar, hefði verið algerlega órökstudd af hálfu skattstjóra.
I.
Málavextir eru þeir að skattframtali kærenda árið 1997 fylgdi rekstrarreikningur vegna sjálfstæðrar starfsemi þeirra við smábátaútgerð. Til gjalda á rekstrarreikningnum færðu þau m.a. reiknuð laun barna sinna, E, fædd 1985, og D, fædd 1987, vegna starfa þeirra við reksturinn, samtals 85.000 kr. Með bréfi, dags. 22. maí 1997, krafði skattstjóri kærendur um rökstudda greinargerð varðandi vinnuframlag barnanna við reksturinn. Í svarbréfi umboðsmanns kærenda, dags. 30. maí 1997, kom fram að börnin hjálpuðu til með sigtun og söltun hrogna, ýmiss undirbúningsvinna væri í þeirra höndum á meðan aðrir væru á sjó, „svo og öll störf sem þau valda“.
Með bréfi, dags. 28. júlí 1997, tilkynnti skattstjóri kærendum um þá breytingu á skattframtali þeirra árið 1997 með vísan til 96. gr. og 2. mgr. 59. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að reiknuð laun barna hefðu verið felld niður og rekstrartap ársins lækkað til samræmis við þá breytingu. Kom fram af hálfu skattstjóra að ekki væri líklegt að 8 og 10 ára börn hefðu verið ráðin til þeirra starfa, sem tilgreind hefðu verið í svarbréfi umboðsmanns kærenda, dags. 30. maí 1997, hjá óskyldum eða ótengdum aðila, sbr. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981. Kvað skattstjóri gjaldfærslu reiknaðra launa barna þykja bera þau merki tekjudreifingar að ekki yrði á hana fallist.
Umboðsmaður kærenda mótmælti ofangreindri breytingu skattstjóra með kæru til hans, dags. 19. ágúst 1997. Benti umboðsmaður á að börn kærenda væru 9 og 11 ára á árinu 1996 og hefði yngra barninu verið reiknuð laun 25.000 kr. og því eldra 60.000 kr. Hefði þeirra ekki notið við hefðu kærendur þurft að ráða ungling til starfans. Kvað umboðsmaður aðstæður kærenda slíkar að hverri vinnandi hönd væri tekið fagnandi og dætur þeirra inntu sín störf af hendi af kostgæfni. Skattstjóri hafnaði kröfum umboðsmanns kærenda með kæruúrskurði, dags. 31. október 1997, og vísaði í því sambandi til 2. mgr. 59. gr. laga nr. 75/1981. Kvað skattstjóri ekki hafa verið leiddar líkur að því að 8 og 10 ára gömul börn hefðu verið ráðin til launaðra starfa við útgerð hjá óskyldum eða ótengdum aðila.
Með kæru, dags. 17. nóvember 1997, hefur umboðsmaður kærenda skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Er þess krafist í kærunni að breytingar skattstjóra á skattframtali kærenda verði felldar niður og álögð opinber gjöld þeirra leiðrétt til samræmis. Í kæru kemur fram að kærendum sé nauðsynlegt að nota hverja vinnufúsa hönd í rekstri sínum þar sem allt sé unnið í höndunum en engin vél eða tæki notuð, enda sé rafmagnslaust í starfsstöð þeirra. Þá kemur fram að í bréfum til skattstjóra hafi gleymst að geta þess að F taki þátt í launum kærenda og nemi sú fjárhæð 240.000 kr., en þar sé um að ræða vinnu við hirðingu æðardúns. Kveður umboðsmaður börn kærenda starfa við rekstur foreldra sinna að þeim verkefnum sem hæfi þeim, auk þess sem starfi þeirra tengist hirðingu æðardúns. Er því mótmælt að um tekjudreifingu hafi verið að ræða.
Með bréfi, dags. 20. febrúar 1998, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.
II.
Reiknuð laun dætra kærenda, sem fæddar eru 1985 og 1987, vegna vinnu við atvinnurekstur kærenda gjaldárið 1997 námu 85.000 kr. og féllu utan staðgreiðslukerfis skatta, sbr. 18. tölul. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu. Skattframtali kærenda árið 1997 fylgdu skattframtöl barns (RSK 1.02) vegna dætranna þar sem fram kom að tekjur E á árinu 1996 væru 60.000 kr. og tekjur D 25.000 kr. Að því er varðar D var tekið fram á skattframtalinu að laun hennar vegna starfa við rekstur foreldranna hefðu verið greidd í hlunnindum.
Skattstjóri hefur stutt hina kærðu ákvörðun sína við ákvæði 2. mgr. 59. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í umræddu ákvæði kemur fram að telji skattyfirvöld að endurgjald fyrir starf maka manns eða barn hans innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, sbr. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna, sé hærra en makinn eða barnið hefði aflað hjá óskyldum eða ótengdum aðila skuli þau ákvarða tekjur makans eða barnsins af starfinu. Í bréfi skattstjóra, dags. 28. júlí 1997, þar sem kærendum var tilkynnt um hina kærðu breytingu á framtali þeirra, vísaði skattstjóri til þess að ólíklegt væri að 8 og 10 ára börn hefðu verið ráðin til þeirra starfa sem um væri að ræða hjá óskyldum eða ótengdum aðila. Í kæruúrskurði skattstjóra, dags. 31. október 1997, kveður við sama tón. Þessi forsenda skattstjóra fær ekki samrýmst orðalagi 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. og 2. mgr. 59. gr. laga nr. 75/1981. Áréttað skal vegna þessarar forsendu skattstjóra að í 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. og 2. mgr. 59. gr. laga nr. 75/1981 er gengið út frá því að börn innan 16 ára á tekjuári kunni að starfa við atvinnurekstur foreldris án þess að frekari aldursmörk séu tilgreind í þessu sambandi. Þá var sú fullyrðing skattstjóra í bréfi hans, dags. 28. júlí 1997, að gjaldfærsla reiknaðra launa dætranna bæri merki tekjudreifingar, algerlega órökstudd af hans hálfu. Fyrir liggur að skattstjóri hefur ekki hreyft við gjaldfærslu reiknaðra launa dætranna í rekstrarreikningi kærenda fyrir árið 1995, sem fylgdi skattframtali þeirra árið 1996, en sú gjaldfærsla nam 80.000 kr. Með hliðsjón af framangreindu verður fallist á kröfu kærenda í máli þessu, enda verður ekki séð að reiknað endurgjald dætra kærenda fari í bága við ákvæði 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eins og hér stendur á.