Úrskurður yfirskattanefndar

  • Söluhagnaður lausafjár

Úrskurður nr. 1214/1998

Gjaldár 1997

Lög nr. 75/1981, 15. gr. 2. mgr.  

Sala kæranda á samantekt upplýsinga um sjávarútveg og fiskvinnslu, sem hann kvaðst hafa unnið að á árunum 1987–1993 í þeim tilgangi að gera sjálfan sig hæfari í starfi, var metin sem sala á lausafé. Var kærandi talinn hafa gert líklegt að sala þessi hefði ekki farið fram í hagnaðarskyni í skilningi 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981.

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 9. mars 1998, óskaði skattstjóri skýringa kæranda á verktakagreiðslu að fjárhæð 435.000 kr. sem kærandi hefði þegið á árinu 1996 samkvæmt launamiða frá B, og ekki getið um á skattframtali sínu árið 1997. Með bréfi, dags. 16. mars 1998, svaraði kærandi fyrirspurn skattstjóra. Upplýsti kærandi að hann hefði fyrir mörgum árum safnað saman ýmsum upplýsingum varðandi sjávarútveg og fiskvinnslu. Hefðu þetta verið ýmiskonar upplýsingar um stofnanir, nefndir og ráð, skipulag gæðamála, framboð á námi tengt greininni og svo framvegis. Hefði þetta verið gert í frítíma kæranda og hefði tilgangurinn verið sá að öðlast betri yfirsýn yfir þá starfsgrein sem hann starfaði við á þessum tíma. B hefði fengið vitneskju um þetta safn upplýsinga og hefði hann falast eftir því við kæranda. Kærandi hefði litið svo á að hann hefði verið að selja safn sitt og verið í góðri trú um að þetta væru ekki framtalsskyldar tekjur fremur en hann hefði selt frímerkjasafn sitt eða eitthvað þess háttar.

Með bréfi, dags. 27. mars 1998, boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun opinberra gjalda hans gjaldárið 1997 á grundvelli 96. gr. laga nr. 75/1981. Að mati skattstjóra yrði að líta svo á að um sölu á þjónustu kæranda hefði verið að ræða, þ.e. niðurstöðum rannsókna kæranda á sjávarútvegi og fiskvinnslu. Væri því um skattskyldar tekjur að ræða samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 og af þeim sökum væri fyrirhugað að færa kæranda umræddar tekjur til tekna í skattframtali hans árið 1997. Auk þess væri fyrirhugað að beita 25% álagi á þá hækkun skattstofna sem af framangreindri breytingu kynni að leiða, sbr. 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981. Kærandi þætti ekki hafa sýnt fram á að þær aðstæður ættu við er leiddu til niðurfellingar álags, sbr. 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981.

Kærandi andmælti boðaðri breytingu með bréfi, dags. 17. apríl 1998. Auk þess sem áður hafði komið fram hjá kæranda benti hann á að hann hefði safnað umræddum upplýsingum á árunum 1987 til 1993 og hefði hann ekki ráðist í þetta í þeim tilgangi að hafa af því tekjur. Fór kærandi fram á að skattstjóri félli frá boðaðri endurákvörðun. Til vara fór kærandi fram á að álagi yrði ekki beitt og að tillit yrði tekið til rekstrarkostnaðar sem kæmi fram á meðfylgjandi rekstrarreikningi. Umtalsverður kostnaður hefði fylgt söfnun upplýsinganna. Þar sem kærandi hefði ekki ráðist í söfnun upplýsinganna með það fyrir augum að hafa tekjur af hefði hann ekki haldið gögnum um kostnaðinn til haga. Kostnaður væri því áætlaður.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 28. apríl 1998, hratt skattstjóri boðaðri endurákvörðun í framkvæmd með tekjufærslu umræddrar greiðslu, en féllst á að áætlaður kostnaður að fjárhæð 120.000 kr. kæmi til frádráttar tekjum kæranda. Auk þess féll skattstjóri frá beitingu álags.

II.

Með kæru, dags. 11. maí 1998, hefur kærandi skotið úrskurði skattstjóra um endurákvörðun til yfirskattanefndar. Krefst hann þess aðallega að breyting skattstjóra verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að kostnaður til frádráttar þeim tekjum, sem um sé deilt í málinu, verði hækkaður frá því sem skattstjóri hafi fallist á með úrskurði sínum.

Með bréfi, dags. 25. september 1998, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist þess að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

III.

Skilja verður kröfugerð kæranda fyrir yfirskattanefnd þannig að þess sé krafist að fallist verði á að ekki hafi verið um að ræða viðskipti í hagnaðarskyni.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, telst söluhagnaður af sölu ófyrnanlegs lausafjár, annars en hlutabréfa og eignarhluta í samlögum og sameignarfélögum, að fullu til skattskyldra tekna á söluári, og skiptir ekki máli hve lengi skattaðili hefur átt hina seldu eign. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar telst hagnaður manns af sölu lausafjár, sem ekki er notað í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, ekki til tekna, enda geri hann líklegt að sala þess falli ekki undir atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi hans eða að eignarinnar hafi ekki verið aflað í þeim tilgangi að selja hana aftur með hagnaði.

Kærandi hefur gefið þær skýringar á umþrættum viðskiptum að um hafi verið að ræða sölu á samantekt hans á upplýsingum um sjávarútveg og fiskvinnslu, sem hann hafi unnið að á árunum 1987 til 1993. Hafi hann fyrst og fremst ráðist í þá vinnu í þeim tilgangi að gera sjálfan sig hæfari í starfi. Fyrir liggur í málinu að salan fór fram á árinu 1996. Ef litið er til umfangs viðskiptanna verður ekki annað ráðið af skýringum kæranda og gögnum málsins, en að um eina einstaka sölu hafi verið að ræða á því safni upplýsinga sem mál þetta snýst um. Þegar litið er til þess, sem upplýst er um hið selda, verður að telja að um hafi verið að ræða lausafé í skilningi 15. gr. laga nr. 75/1981. Tekið skal fram að ekki kemur skýrt fram hjá skattstjóra hvers konar tekjur hann taldi að um væri að ræða.

Þegar virtar eru skýringar kæranda í málinu, þykir hann hafa gert líklegt að umrædd sala lausafjár á árinu 1996 hafi ekki farið fram í hagnaðarskyni, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981. Er því fallist á aðalkröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja