Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tryggingabætur
  • Tekjutímabil
  • Bótauppgjör
  • Málsmeðferð áfátt
  • Valdsvið yfirskattanefndar

Úrskurður nr. 110/2001

Gjaldár 1995, 1996 og 2000

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 2. tölul., 28. gr. 2. tölul., 60. gr. 2. mgr., 94. gr., 96. gr. 1. mgr.   Lög nr. 45/1987   Lög nr. 30/1992, 2. gr.   Lög nr. 37/1993, 10. gr.  

Ríkisskattstjóri hafnaði kröfu kæranda um endurgreiðslu afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda staðgreiðsluárið 1999. Talið var að þessi afgreiðsla ríkisskattstjóra fæli ekki í sér slíka ákvörðun skatta samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda sem félli undir úrskurðarvald yfirskattanefndar. Var m.a. vísað til þess að um væri að ræða framkvæmd staðgreiðslu á staðgreiðsluári sem hvorki tengdist sérstakri ákvörðun ríkisskattstjóra eða skattstjóra samkvæmt fyrrgreindum lögum né fæli í sér endanlega ákvörðun um skattfjárhæð. Kröfu kæranda varðandi afdrátt staðgreiðslu var því vísað frá yfirskattanefnd. Einnig endurákvarðaði ríkisskattstjóri álögð opinber gjöld kæranda gjaldárin 1995 og 1996 vegna ákvörðunar á tekjufærðum greiðslum frá tveimur tryggingafélögum vegna umferðarslysa sem kærandi lenti í árin 1993 og 1994. Talið var að málið hefði ekki verið nægjanlega upplýst þegar ríkisskattstjóri tók ákvörðun sína, enda lá hvorki fyrir að hvaða marki uppígreiðslur til kæranda voru sérgreindar vegna tímabundins tekjutjóns né nákvæmar fjárhæðir greiðslna af þeim toga á umræddum árum. Var ákvörðun ríkisskattstjóra ómerkt og álagning vegna bótagreiðslna gjaldárin 1995 og 1996 felld niður að svo stöddu.

I.

Kærð er sú ákvörðun ríkisskattstjóra er hann tók með úrskurði sínum, dags. 16. nóvember 1999, að hafna endurgreiðslu á staðgreiðslu að fjárhæð 99.945 kr. sem vátryggingafélagið B hf. hélt eftir af slysabótum kæranda vegna tímabundinnar örorku að fjárhæð 260.681 kr. við lokauppgjör sem fram fór vegna tjónsins á árinu 1999. Jafnframt krefst kærandi þess að álagning gjaldárin 1995 og 1996 verði leiðrétt í samræmi við tölulega framsetningu kæranda.

II.

Málavextir eru þeir að í tilefni af erindi kæranda, sem móttekið var 28. júní 1999, ákvarðaði ríkisskattstjóri með úrskurði, dags. 16. nóvember 1999, að nýju áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárin 1995 og 1996 vegna lækkunar á tekjufærðum greiðslum frá tryggingafélögum í skattframtölum kæranda árin 1995 og 1996 jafnframt því að taka til úrlausnar mótmæli kæranda við afdrætti staðgreiðslu opinberra gjalda að fjárhæð 99.945 kr. á árinu 1999 sem reiknaður var af greiðslu B hf. að fjárhæð 260.681 kr. við lokauppgjör vegna slyss kæranda. Í þessum úrskurði ríkisskattstjóra sagði m.a. svo:

„Málavextir sem erindið byggist á eru þeir að á árinu 1999 fékk gjaldandinn greiddar bætur frá B hf. að fjárhæð kr. 260.681 vegna tímabundins tekjutjóns á árunum 1994 og 1995. Var greiðsla þessi lokauppgjör á tjóninu. Kemur fram í uppgjörinu að skattskyldur hluti bóta hafi numið kr. 782.044. Hafði gjaldandinn fært bætur að fjárhæð kr. 450.000 til tekna á skattframtali sínu 1995 og kr. 350.000 til tekna á skattframtali sínu 1996, án þess að lokauppgjör lægi þá fyrir.

Við lokauppgjör á tjóninu var staðgreiðslu að fjárhæð kr. 99.945 haldið eftir af greiðslu vegna tekjutjóns, kr. 260.681. Óskar gjaldandinn eftir því að staðgreiðslan verði endurgreidd, enda hafi hinar skattskyldu tekjur allar verið taldar til tekna á skattframtölum hans 1995 og 1996.

Samkvæmt síðari mgr. 60. greinar laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skal að jafnaði telja tekjur til tekna á því ári þegar þær verða til, þ.e. þegar myndast hefur krafa þeirra vegna á hendur einhverjum, nema um óvissar tekjur sé að ræða. Verður að telja að bætur þær sem gjaldandinn fékk greiddar á árinu 1999 frá B hf. hafi verið óvissar tekjur og beri því að telja þær tekjur ársins 1999 samkvæmt framangreindu lagaákvæði og telja þær til tekna á skattframtali gjaldandans árið 2000. Þá verður ekki séð að sýnt hafi verið fram á að ákvæði 18. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, séu uppfyllt þannig að fallast megi á endurgreiðslu staðgreiðslu. Verður því að synja um það.

Í erindinu er einnig farið fram á að skattframtöl gjaldandans 1995 og 1996 verði leiðrétt. Verður það gert enda er litið svo á að aðeins kr. 521.363 af þeim bótum, samtals kr. 800.000, sem þar eru færðar til tekna, séu skattskyldar. Verða því einungis 65,17% af þessum bótum skattlagðar. Samkvæmt því verða tekjufærðar bætur á skattframtali 1995 lækkaðar úr kr. 450.000 í kr. 293.265 eða um kr. 156.735. Lækkar þá stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars samkvæmt framtalinu úr kr. 806.067 í kr. 649.332 eða um kr. 156.735. Á sama hátt verða bætur á skattframtali 1996 lækkaðar úr kr. 350.000 í kr. 228.095 eða um kr. 121.905. Lækkar þá stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars samkvæmt skattframtalinu úr kr. 564.953 í kr. 443.048.“

III.

Með kæru, dags. 6. febrúar 2000, hefur kærandi skotið úrskurði ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar. Kærunni fylgdu ýmis gögn, þ. á m. erindi kæranda til skattstjóra, dags. 7. apríl 1999, varðandi leiðréttingu á álagningu gjaldárin 1995 og 1996. Í því erindi kæranda kom fram sú krafa að heildarfjárhæð skattskyldra bótagreiðslna 782.044 kr. yrði skipt að jöfnu til skattlagningar gjaldár þessi eða með 391.022 kr. hvort ár. Í afgreiðslu skattstjóra á þessu erindi, dags. 25. júní 1999, er fylgdi kærunni, kom fram að ekki yrði annað séð en bætur, sem kærandi hefði fengið greiddar vegna tímabundinnar örorku á árunum 1994 og 1995, hefðu verið taldar fram að fullu á þeim árum og yrði því hvorki séð að bæturnar né hluti þeirra skyldi teljast til skattskyldra tekna á Íslandi á árinu 1999 (gjaldárið 2000). Varðandi afdregna staðgreiðslu 99.945 kr. kom fram hjá skattstjóra að ef ekki yrði um aðrar tekjur að ræða á Íslandi á árinu 1999 kæmi greiðsla þessi til útborgunar hjá innheimtumanni eftir álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2000. Þá fylgdu kærunni óundirritað og óstaðfest lokauppgjör vátryggingafélagsins B hf., dags. 5. mars 1999, vegna umferðarslyss 7. mars 1994, og ljósrit af bréfi vátryggingafélagsins C hf., dags. 25. febrúar 1999, til lögmanns kæranda, er hefur að geyma tillögu að lokauppgjöri vegna umferðarslyss 23. nóvember 1993, svo og ljósrit kvittunar kæranda, dags. 11. mars 1999, fyrir greiðslu á tímabundnu tekjutjóni að fjárhæð 260.681 kr. að frádreginni staðgreiðslufjárhæð skatta 99.945 kr. eða fyrir 160.736 kr.

Í kærunni er vísað til fyrrgreinds úrskurðar ríkisskattstjóra, dags. 16. nóvember 1999, og tekið fram að kærandi hafi „...ekki fengið viðurkenndan rétt til að fá endurgreiddar kr. 99.945 sem dregnar voru af mér fyrir mistök frá slysabótum B sem skattskyldar tekjur“. Þá er í kærunni vísað til hjálagðra tölulegra upplýsinga um tekjur kæranda eins og þær eigi að skiptast í samræmi við lokauppgjörið á árinu 1999 fyrir árin 1993 og 1994, sbr. handskrifað blað.

Kærandi gerir grein fyrir því að hann hafi lent í umferðarslysi hinn 23. nóvember 1993, er bótaskylt hafi verið hjá C hf., og öðru umferðarslysi hinn 7. mars 1994 er bótaskylt hafi verið hjá B hf. Kemur fram hjá kæranda að hann hafi á árunum 1994 og 1995 fengið svokallaðar uppígreiðslur vegna tjóns síns frá C hf. í samræmi við venju, þegar um líkamstjón sé að ræða. Þegar tjónið sé orðið stöðugt og ekki frekari bata að vænta fari fram mat á varanlegri örorku. C hf. hafi greitt allar bætur vegna tímabundins atvinnutjóns, en þá hafi verið ljóst að það tryggingafélag ásamt B hf. hafi verið bótaskylt vegna umræddra umferðarslysa. Í samræmi við venju séu tímabundnar bætur greiddar í u.þ.b. eitt ár þegar um alvarleg slys sé að ræða. Kveðst kærandi hafa fengið greiddar sem „uppígreiðslur“ bætur vegna atvinnutjóns, vegna endurhæfingar o.fl. Á árinu 1999 hafi síðan farið fram lokauppgjör hjá báðum tryggingafélögunum vegna tjóns hans. Hafi niðurstaðan varðandi bótaskyldu tryggingafélaganna þá orðið sú að C hf. skyldi bera 2/3 hluta tjónsins og B hf. 1/3 hluta þess.

Víkur kærandi síðan að því í kærunni hvernig hann hafi talið fram vegna tjónsins. Hafi hann ,,í samræmi við það vandamál“, sem um sé að ræða þegar tryggingafélög greiði upp í bætur vegna líkamstjóns, talið fram í skattframtölum árin 1993, 1994 og 1995 „hæfilegar tekjur“, er miðast hafi við fyrri tekjur hans, og það sem ,,líklegt var að félagið yrði dæmt til að greiða“ honum við lokauppgjör. Snúist málið nú um það að hluti af þeim uppígreiðslum, sem hann hafi fengið frá C hf. á árunum 1994 og 1995, hafi verið vegna miska og kostnaðar við endurhæfingu. Aðeins sá hluti uppígreiðslnanna, sem teljist vera vegna tímabundinnar örorku, sé skattskyldur. Hafi þetta fengist staðfest við lokauppgjörið. Af þessum sökum hafi C hf. „skuldajafnað“ á milli bótaliðanna varanlegrar og tímabundinnar örorku. Ef hann hefði einnig fengið uppígreiðslur frá B hf. hefði C hf. ekki þurft að hafa þennan háttinn á. Í hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra sé ekki tekið tillit til þessa og sé niðurstaðan sú að öll greiðslan, sem hann hafi þegið, sé talin skattskyld gjaldárið 2000, þrátt fyrir að B hf. væri að greiða launatap vegna ársins 1994. Sé niðurstaða ríkisskattstjóra röng vegna þess að ekki sé tekið tillit til þess að „bótagreiðslurnar sem B átti að borga mér 1994 voru greiddar af C sama ár“. Það hefði hins vegar ekki verið neitt tiltökumál fyrir C hf. að greiða of mikið vegna tímabundinnar örorku þar sem félagið hefði getað skuldajafnað á milli bótaliða. Meginatriðið sé því að bætur þær, sem C hf. hafi greitt, hafi m.a. verið bætur sem B hf. hafi átt að greiða. Þá tekur kærandi fram að bæturnar frá B hf. hafi ekki verið óvissar tekjur, enda hefði félagið ekki greitt honum neinar bætur. Segir síðan í kærunni:

„Af 18 mánaða tímabili og meðfylgjandi tjóni vegna missis tekna átti sem sagt B að greiða mér bætur í 6 mánuði og C í 12 mánuði. Úr því krafa var fyrst gerð á hendur B sumar 1999 í samræmi við örorkumatið, og í samræmi við þær reglur sem skattayfirvöld hafa lagt fyrir íslensk tryggingafélög, var tekin af mér staðgreiðsla kr. 99.945.- fyrir árið 1999 líkt og væri um óvissar tekjur að ræða. Þetta var gert þrátt fyrir að B hafði ekki greitt mér eina krónu árið 1994, eins og þeir voru skyldugir til. En eins og áður segir var ekki gerð krafa á hendur félaginu fyrr en 1999. Það þýðir hins vegar ekki að krafan var ekki til eða að krafan var óviss!“

Vísar kærandi síðan í fyrrgreint bréf skattstjórans í Reykjavík, dags. 25. júní 1999, þar sem fallist hafi verið á kröfu hans um endurgreiðslu á staðgreiðslu að fjárhæð 99.945 kr. vegna hinnar umþrættu bótagreiðslu frá B hf.

IV.

Með bréfi, dags. 31. mars 2000, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“

V.

Hér að framan er gerð grein fyrir kröfugerð kæranda samkvæmt kæru hans, dags. 6. febrúar 2000. Verður að skilja kæruna svo að leiðréttur verði afdráttur staðgreiðslu á greiðslu að fjárhæð 260.681 kr. frá B hf. vegna tímabundins tekjutjóns er fór fram við lokauppgjör á árinu 1999 og jafnframt verði tekjufærslu og skattlagningu skattskyldra greiðslna kæranda vegna þeirra slysa, sem í málinu greinir, hagað með þeim hætti gjaldárin 1995 og 1996 sem fram kemur í tölulegri framsetningu kæranda meðfylgjandi kærunni þannig að til tekna komi 391.022 kr. hvort ár. Hvað snertir kröfu kæranda varðandi umrædda greiðslu frá B hf. á árinu 1999 þá virðist hún byggð á því að ekki sé um að ræða rétt tekjuár þar sem tryggingafélaginu hafi borið að greiða sinn hlut í tímabundnu tekjutapi þegar árið 1994. Að sama skapi hafi C hf. ofgreitt á árunum 1994 og 1995 uppígreiðslur vegna slíks tjóns. Á þessum forsendum virðist og krafa kæranda um tekjufjárhæðir gjaldárin 1995 og 1996 vegna tímabundins tekjutjóns vera byggð. Samkvæmt þessu og gögnum málsins að öðru leyti virðist ekki vera ágreiningur um það að heildarfjárhæð greiðslna til kæranda vegna tímabundins tekjutjóns (tímabundinnar örorku) hafi numið 782.044 kr. og að slíkar tekjur séu skattskyldar, sbr. 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Hins vegar er deilt um á hvaða tekjuárum beri að færa fjárhæð þessa til tekna.

Samkvæmt upphafsákvæði 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, teljast til skattskyldra tekna, með þeim undantekningum og takmörkunum er greinir í lögunum, hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan tekjurnar stafa eða í hvaða formi þær eru. Í dæmaskyni um skattskyldar tekjur er m.a. í 2. tölul. A-liðar sömu lagagreinar tilgreindar tryggingabætur, meðlög og styrkir svo og skaðabætur og vátryggingafé vegna sjúkdóms, slysa, atvinnutaps eða launamissis og hvers konar aðrar skaðabætur og vátryggingabætur, sbr. þó 2. tölul. 28. gr. laganna. Í nefndum 2. tölul. 28. gr. er m.a. kveðið á um að til skattskyldra tekna teljist ekki eignaauki sem verður vegna greiðslu líftryggingarfjár, dánarbóta, miskabóta og bóta fyrir varanlega örorku, enda séu bætur þessar ákveðnar í einu lagi til greiðslu.

Vegna fyrrnefnds ágreinings um tekjutímabil verður að fjalla um það atriði með tilliti til umræddra greiðslna til kæranda. Meginregla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, um tímaviðmiðun fyrir tekjufærslum kemur fram í 2. mgr. 60. gr. laganna og er svohljóðandi: „Tekjur skal að jafnaði telja til tekna á því ári sem þær verða til, þ.e. þegar myndast hefur krafa þeirra vegna á hendur einhverjum, nema um óvissar tekjur sé að ræða.“ Meginregla þessi, kröfustofnunarregla, var upphaflega lögfest með 2. mgr. 7. gr. laga nr. 6/1935 og hefur æ síðan verið í lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Um nýmæli þetta sagði svo í athugasemdum með 8. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 6/1935, en grein þessi varð 7. gr. laganna: „Að lokum er bætt við greinina því nýmæli, að tekjur skuli jafnan telja til tekna á því ári er þær verða til, þ.e. þegar vegna þeirra hefur myndast krafa á hendur öðrum, þótt ógreitt sé. Er það í samræmi við framtalsvenju manna almennt, en auðveldara er til samanburðar og yfirlits fyrir skattanefndir, að sem flestir fylgi sömu framtalsreglu að þessu leyti.“

Telja verður að umræddar greiðslur til kæranda vegna tímabundins tekjutaps hafi verið óvissar tekjur í skilningi 2. mgr. 60. gr. laga nr. 75/1981 þar til samkomulag tókst um þær og fjárhæðir þeirra, enda þótt bótaskylda hafi út af fyrir sig legið fyrr fyrir. Hins vegar ber að hafa í huga að svo kann að hátta til að innborganir séu skýrlega sérgreindar vegna tímabundinnar örorku eða skattskyldra þátta að öðru leyti þannig að tekjufæra beri þær á greiðsluári, enda þótt samkomulag um heildarbætur liggi ekki fyrir. Þannig varð að leysa úr því hvort greiðslur sem kærandi fékk sem uppígreiðslur á árunum 1994 og 1995 frá tryggingafélögum hafi verið nægilega sérgreindar vegna tímabundinnar örorku eða skattskyldra þátta að öðru leyti áður en lokauppgjör fór fram á árinu 1999 þannig að skattleggja bæri þær á greiðsluárum innborgana.

Eins og fram er komið taldi kærandi fram til skatts í skattframtali árið 1995 tryggingabætur að fjárhæð 450.000 kr. frá C hf. og í skattframtali árið 1996 tryggingabætur að fjárhæð 350.000 kr. Kærandi hefur lagt fram nokkur gögn varðandi uppgjör bóta við hann eins og fyrr greinir. Þá reifar hann uppgjör vegna slysanna og leggur áherslu á tengsl þeirra hvað snertir uppgjör tryggingafélaganna. Ljóst er að til þess að ákvarða réttilega skattskylda bótaþætti, þ.e. bætur vegna tímabundins tekjutjóns í þessu tilviki, varð að skoða uppgjör og greiðslur tryggingafélaganna í heild og í samhengi og afla nægilegra gagna um uppgjör og greiðslur til kæranda. Ljóst er af úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 16. nóvember 1999, að hann hefur einvörðungu horft til uppgjörs B hf., án þess þó að nánar komi fram hvaða gögn lágu ákvörðun hans til grundvallar.

Eins og fram er komið fór kærandi fram á það að ríkisskattstjóri heimilaði endurgreiðslu á fyrrgreindri staðgreiðslufjárhæð 99.945 kr. sem dregin var af greiðslu B hf. til kæranda. Með úrskurði sínum, dags. 16. nóvember 1999, hafnaði ríkisskattstjóri þeirri kröfu á þeim grundvelli að um væri að ræða skattskyldar tekjur kæranda á umræddu ári, þ.e. tekjuárinu 1999, og að skilyrði til endurgreiðslu samkvæmt 18. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, væru ekki uppfyllt. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, skulu ágreiningsmál um ákvörðun skatta, gjalda og skattstofna, þar með talin rekstrartöp, úrskurðuð af sérstakri, óháðri nefnd, yfirskattanefnd. Í 1. mgr. 2. gr. laganna kemur fram að úrskurðarvald yfirskattanefndar taki til ákvörðunar skatta og gjalda samkvæmt þar tilgreindum lögum, þ.m.t. lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Kæran í máli þessu, hvað snertir tekjuárið 1999, varðar ákvörðun ríkisskattstjóra, sem hefur á hendi yfirstjórn staðgreiðslu samkvæmt 23. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, varðandi synjun um leiðréttingu á staðgreiðslu vegna kæranda árið 1999, þ.e. um niðurfellingu á staðgreiðslu á staðgreiðsluári. Þegar kærandi lagði fram erindi sitt og ríkisskattstjóri afgreiddi það hafði álagning ekki farið fram, en samkvæmt gögnum um álagningu á kæranda gjaldárið 2000 var umrædd greiðsla 260.681 kr. skattlögð og greiðslustaða kæranda ákvörðuð með tilliti til umræddrar staðgreiðslufjárhæðar samkvæmt staðgreiðsluskrá, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. og 34. gr. laga nr. 75/1981. Ekki verður séð að kærandi hafi kært álagninguna. Í lögum nr. 45/1987 er ekki til að dreifa sérstökum reglum um kæruheimildir vegna ágreiningsefna sem rísa við framkvæmd þeirra laga, sbr. til samanburðar 13. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, varðandi meðferð ágreiningsmála um staðgreiðslu samkvæmt þeim lögum milli skilaskylds og skattskylds aðila. Þegar það er virt, sem hér hefur verið rakið, og sérstaklega er horft til þess að um er að ræða framkvæmd staðgreiðslu á staðgreiðsluári, sem hvorki tengist sérstakri ákvörðun ríkisskattstjóra eða skattstjóra samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda né felur í sér endanlega ákvörðun um skattfjárhæð, þykir ekki vera um að ræða slíka ákvörðun skatta samkvæmt fyrrnefndum lögum sem fellur undir úrskurðarvald yfirskattanefndar samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 30/1992. Verður því að vísa kærunni frá yfirskattanefnd að því er varðar staðgreiðslu vegna ársins 1999.

Eins og fram er komið breytti ríkisskattstjóri almennri álagningu á kæranda gjaldárin 1995 og 1996 vegna lækkunar á fjárhæð skattskyldra bótagreiðslna, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og eru þær breytingar kæranlegar til yfirskattanefndar, sbr. niðurlagsákvæði nefndrar málsgreinar 101. gr. laga nr. 75/1981 og 1. og 2. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 30/1992.

Eins og fram er komið lækkaði ríkisskattstjóri með úrskurði sínum, dags. 16. nóvember 1999, tekjufærðar bótafjárhæðir í skattframtölum kæranda árin 1995 og 1996 frá því sem kærandi hafði sjálfur tilfært, en fyrir liggur að tekjufærslur kæranda byggðust á áætlunum. Fram kemur í úrskurðinum að ríkisskattstjóri hefur lagt til grundvallar umrætt lokauppgjör frá B hf., dags. 5. mars 1999, þar sem óbætt tekjutjón er talið 782.044 kr. og hlutur félagsins í því 260.681 kr. Mismun þessara fjárhæða eða 521.363 kr. taldi ríkisskattstjóri að skattleggja bæri gjaldárin 1995 og 1996 og framkvæmdi það þannig að hann lækkaði áður tekjufærðar fjárhæðir um hlutfall nefndrar fjárhæðar 521.363 kr. af áður tekjufærðum fjárhæðum samtals 800.000 kr. eða um 65,17%. Hér að framan er gerð fyrir þeim gögnum, sem liggja fyrir um bótagreiðslur til kæranda, en um er að ræða gögn sem kærandi hefur lagt fram, enda verður ekki séð að ríkisskattstjóri hafi átt frumkvæði að neinni gagnaöflun í málinu. Fyrirliggjandi lokauppgjör frá B hf. er óstaðfest og eina gagnið varðandi uppgjör C hf. er ljósrit af tilboði félagsins til lögmanns kæranda um uppgjör tjónsins. Ekkert heildstætt yfirlit liggur fyrir í málinu um tjónagreiðslur til kæranda og af fyrirliggjandi gögnum verður ekkert ráðið um þær, þ. á m. uppígreiðslur. Fram er komið að við sérstakan vanda er að etja þar sem tvö tryggingafélög komu að máli kæranda.

Samkvæmt framansögðu verður ekki séð að málið hafi verið nægjanlega upplýst varðandi uppígreiðslur á árunum 1994 og 1995 vegna tjóns kæranda áður en ríkisskattstjóri tók umrædda ákvörðun sína með úrskurði, dags. 16. nóvember 1999, um að ákvarða fjárhæðir skattskyldra tekna kæranda vegna tímabundins tekjutjóns, sbr. 94. gr. og 1. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981 svo og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda lá hvorki fyrir að hvað marki uppígreiðslur til kæranda voru sérgreindar vegna slíks bótaþáttar né nákvæmar fjárhæðir greiðslna af þeim toga á umræddum árum. Einsýnt er að kalla varð eftir upplýsingum og gögnum og ef til vill sérstökum skýringum frá umræddum tryggingafélögum áður en unnt var að henda reiður á fjárhæð skattskyldra bótaþátta og tekjutímabili, m.a. með tilliti til leiðréttinga á uppígreiðslum. Í þessu sambandi ber að árétta nauðsyn þess að skattlagning á því sviði, sem hér um ræðir, byggist á nægilega traustum grundvelli bæði með tilliti til eðlis bóta svo og fjárhæða og tekjutímabils.

Vegna framangreindra rannsóknarannmarka þykir ekki verða hjá því komist að ómerkja með öllu hinn kærða úrskurð ríkisskattstjóra að því er tekur til ákvörðunar hans á fjárhæð skattskyldra bótagreiðslna gjaldárin 1995 og 1996 og fella að svo stöddu niður álagningu vegna slíkra greiðslna, enda þykir ljóst að fjárhæðir sem kærandi hefur tilgreint samkvæmt framtölum og síðar kröfugerð eru ekki frekar en fjárhæðir samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra viðhlítandi grundvöllur álagningar.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Tekjufærslum ríkisskattstjóra samkvæmt hinum kærða úrskurði á bótagreiðslum 293.265 kr. gjaldárið 1995 og 228.095 kr. gjaldárið 1996 er hnekkt. Kröfu kæranda varðandi afdrátt staðgreiðslu staðgreiðsluárið 1999 er vísað frá yfirskattanefnd.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja