Úrskurður yfirskattanefndar
- Arður greiddur með hlutabréfum
- Tímamörk endurákvörðunar
Úrskurður nr. 162/2001
Gjaldár 1997
Lög nr. 75/1981, 7. gr. C-liður 4. tölul., 9. gr. 1. mgr., 97. gr. 2. mgr.
Kærandi fékk greiddan arð af hlutabréfum í hlutafélaginu Þ á árinu 1996 og var arðgreiðslan að nokkru leyti fólgin í afhendingu hlutabréfa í hlutafélögunum X og Z. Skattstjóri endurákvarðaði opinber gjöld kæranda á þeim grundvelli að ákvarða bæri fjárhæð þess hluta arðgreiðslunnar í samræmi við gangverð hlutabréfa í X og Z á þeim degi, þegar ákvörðun var tekin um arðgreiðsluna á aðalfundi í Þ, en ekki nafnverð hlutabréfanna eins og kærandi sjálfur miðaði við í skattskilum sínum. Yfirskattanefnd hafnaði þeirri viðbáru kæranda að frestákvæði 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981 hefði staðið breytingu skattstjóra í vegi. Vegna kröfu kæranda þess efnis að ákvarða bæri arðgreiðsluna til skattlagningar í hendi hans með nafnverði hlutabréfa í X og Z var bent á að þótt arður til hluthafa væri greiddur í öðrum verðmætum en peningum haggaði slíkt ekki arðsfjárhæð samkvæmt samþykkt viðkomandi hlutafélags um arðsúthlutun. Yrði ekki annað séð en að það viðmið skattstjóra, að gangverð hlutabréfa í X og Y hefði verið jafnt skráðu gengi bréfanna í viðskiptum á Verðbréfaþingi Íslands, væri í samræmi við tilgreiningu Þ á fjárhæð raunvirðis arðsúthlutunarinnar í ársreikningi félagsins fyrir árið 1996. Var kröfu kæranda hafnað.
I.
Með kæru, dags. 2. október 2000, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar úrskurði skattstjóra, dags. 15. ágúst 2000, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1997. Er kæruefnið sú ákvörðun skattstjóra að færa kæranda til tekna í skattframtali hans árið 1997 100.864 kr. vegna móttekinna hlutabréfa í X hf. og Z hf. við arðgreiðslu frá Þ hf. á árinu 1996 á þeim forsendum að um skattskylda arðgreiðslu væri að ræða, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Nánar tiltekið taldi skattstjóri að ákvarða bæri fjárhæð arðgreiðslunnar í hendi kæranda til samræmis við markaðsgengi hlutabréfa í X hf. og Z hf. þann 29. febrúar 1996, þegar ákvörðun um úthlutun arðsins var tekin á aðalfundi í Þ hf., en ekki nafnverð hlutabréfanna eins og kærandi hefði miðað við í skattskilum sínum. Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi.
II.
Málavextir eru þeir að kærandi færði til tekna í reit 00 í skattframtali sínu árið 1997 arð af hlutabréfum 425.606 kr. Samkvæmt fylgiskjali með framtalinu var m.a. um að ræða arð frá Þ hf. að fjárhæð 373.549 kr.
Með bréfi, dags. 7. janúar 2000, boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda hans gjaldárið 1997 vegna fyrirhugaðrar tekjufærslu á arði frá Þ hf. að fjárhæð 100.864 kr. Í bréfi skattstjóra kom fram að samkvæmt hlutafjármiða (RSK 2.045) frá Þ hf. um arðgreiðslu til kæranda hefði arður verið greiddur út bæði í peningum og í hlutabréfum í Z hf. og X hf. Á hlutafjármiðanum væru téð hlutabréf tilgreind á nafnverði og í skattframtali sínu árið 1997 hefði kærandi talið arðsúthlutun í formi hlutabréfa fram á nafnverði bréfanna. Þar sem skattskylda arðs miðaðist við markaðsverð hlutafjárins yrði hins vegar „að gefa upp arðinn á markaðsgengi“ og miða í því sambandi við markaðsgengi eins og það hefði verið á úthlutunardegi arðsins, þ.e. á aðalfundardegi Þ hf. hinn 29. febrúar 1996. Þann dag hefði markaðsgengi hlutabréfa samkvæmt skráningu Verðbréfaþings Íslands hf. verið 6,65 í X hf. og 1,52 í Z hf. Markaðsverð umræddra hlutabréfa hefði þannig numið alls 170.373 kr., þ.e. 83.896 kr. í hinu fyrrnefnda félagi og 86.477 kr. í því síðarnefnda. Fjárhæð mismunar á nafnverði hlutabréfanna og markaðsverði þeirra samkvæmt framansögðu virtist þannig nema 100.864 kr. og yrði ekki annað séð en að mismunurinn væri skattskyldur samkvæmt C-lið 7. gr. og 9. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Því væri fyrirhugað að hækka stofn kæranda til útreiknings tekjuskatts og útsvars um fyrrgreinda fjárhæð mismunar á nafnverði og markaðsverði hlutabréfanna þar sem ekki yrði annað séð en að um vantalinn skattskyldan arð væri að ræða samkvæmt fyrrnefndum lagaákvæðum.
Umboðsmaður kæranda mótmælti hinni boðuðu breytingu skattstjóra með bréfi, dags. 19. janúar 2000. Í bréfinu kom fram að kærandi mótmælti því að arður frá Þ hf., sem greiddur hefði verið m.a. með hlutabréfum í X hf. og Z hf., yrði miðaður við svokallað markaðsgengi, enda væri arður ávallt miðaður við eða reiknaður af nafnverði hlutabréfa en ekki markaðsgengi. Þá var í bréfinu vísað til 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og þess getið að það ákvæði ætti við í tilviki kæranda þar sem umrædd arðsúthlutun hefði verið gefin upp á hlutafjármiða frá Þ hf. og talin fram í skattframtali kæranda í samræmi við það.
Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 15. ágúst 2000, hratt skattstjóri hinni boðuðu breytingu í framkvæmd. Forsendur úrskurðarins voru svohljóðandi:
„Samkvæmt fyrirliggjandi hlutafjármiða fékk gjaldandi á árinu 1996 greiddan arð frá Þ hf. bæði í peningum og í hlutabréfum frá X hf. og Z hf. Samkvæmt hlutafjármiðanum voru arðgreiðslur að fjárhæð samtals kr. 373.549 og voru arðgreiðslur í formi hlutabréfa gefnar upp á nafnverði bréfanna. Á skattframtali gjaldanda kom fram áðurnefnd arðsúthlutun, þ.e. kr. 373.549, og því hlutabréfin í X hf. og Z hf. gefin upp á nafnverði bréfanna.
Telja verður að sú almenna regla gildi hér, að arður skuli skattlagður samkvæmt þeim verðmætum sem látin eru í té. Skattskylda arðs, sem greiddur er í hlutabréfum, verður samkvæmt því að miðast við markaðsgengi hlutafjárins. Því verður að telja fram þann arð, sem greiddur er í hlutabréfum, á markaðsgengi á skattframtali. Á skattframtali gjaldanda var arður í hlutabréfum talinn fram á nafnverði og hvergi á framtalinu né fylgigögnum kom fram markaðsverð hlutabréfanna.
Umboðsmaður gjaldanda heldur því fram að 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981 eigi við í þessu tilfelli og að ekki sé hægt að endurákvarða opinber gjöld þrjú ár aftur í tímann.
Í 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981 kemur fram að hafi skattaðili látið í té í framtali sínu eða fylgigögnum þess fullnægjandi upplýsingar, sem byggja mátti rétta álagningu á, er þó eigi heimilt að endurákvarða honum skatt nema vegna síðustu tveggja ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram þótt í ljós komi að álagning hafi verið of lág. Í hinu innsenda framtali gjaldanda var einungis að finna þá upplýsingu að gjaldandi hefði fengið á árinu 1996 afhentan arð í formi hlutabréfa í X og Z, á nafnverði. Umrædd bréf þóttu hafa meiri verðmæti í för með sér en nafnverð þeirra gaf til kynna. Skattstjóri hafði ekki í höndunum neinar upplýsingar um markaðsgengi hlutafjárins þar sem það kom hvergi fram á skattframtali gjaldanda né fylgigögnum. Markaðsgengi hlutabréfa eru ekki opinberar upplýsingar. Skattstjóri þurfti að afla sér umræddra upplýsinga frá Verðbréfaþingi Íslands. Með lögum nr. 11/1993 voru sett lög um Verðbréfaþingið. Samkvæmt þeim var þingið sjálfseignarstofnun. Upplýsingar sem liggja hjá þinginu geta ekki talist til upplýsinga sem lágu fyrir við álagningu opinberra gjalda 1997.
Samkvæmt framansögðu verður því að telja að framtal og gögn gjaldanda hafi verið ófullnægjandi og að 96. gr. eigi við í þessu máli en ekki 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981. Skattstjóra er því heimilt að endurákvarða opinber gjöld gjaldanda þótt liðin séu meira en tvö ár frá því álagning fór fram.
Í 9. gr. laga nr. 75/1981 er talað um að sérhverja afhendingu verðmæta til hlutareiganda eða hluthafa skuli telja til arðs af hlutum og hlutabréfum í félögum auk venjulegrar arðgreiðslu. Eins og kom fram hér að framan þóttu bréfin hafa meiri verðmæti í för með sér en nafnverð þeirra gaf til kynna. Það er að sjálfsögðu markaðsverðið sem gefur rétta mynd af raunverulegu virði bréfanna en ekki nafnverðið og því á að telja bréfin til tekna á markaðsverði en ekki nafnverði.
Boðaðar breytingar samkvæmt bréfi skattstjóra dags. 7. janúar 2000 koma því til framkvæmda að fullu.
Tekið skal fram að kaupverð bréfanna í hendi gjaldanda hækkar sem nemur framangreindum mismun, eða um kr. 100.864.“
III.
Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 2. október 2000, eru ítrekuð þau sjónarmið sem fram komu í bréfi umboðsmannsins til skattstjóra, dags. 19. janúar 2000.
IV.
Með bréfi, dags. 17. nóvember 2000, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Kærður er úrskurður skattstjórans í Reykjavík, dags. 15. ágúst 2000, vegna gjaldársins 1997 hvað varðar arðgreiðslur frá Þ hf.
Í kæru til yfirskattanefndar er því mótmælt að arður sé miðaður við markaðsgengi, enda sé arður ávallt miðaður við eða reiknaður af nafnverði hlutabréfa en ekki markaðsgengi. Að mati ríkisskattstjóra virðist vera um að ræða ákveðinn misskilning hjá kæranda. Arður sá sem kærandi fékk frá Þ hf. reiknaðist af nafnverði hlutafjáreignar kæranda í Þ hf. Umræddur arður var greiddur annars vegar í peningum sem ekki er ágreiningur um og hins vegar í hlutabréfum í X hf. og Z hf. Þau hlutabréf ber hins vegar að telja fram á markaðsvirði miðað við úthlutunardag arðsins eins og nánar er tilgreint í hinum kærða úrskurði.
Þá vitnar kærandi til 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt og telur að frestur skattstjórans í Reykjavík til endurákvörðunar vegna gjaldársins 1997 hafi verið liðinn er skattstjóri endurákvarðaði opinber gjöld kæranda. Í 2. mgr. 97. gr. segir að hafi skattaðili látið í té með framtali sínu eða fylgigögnum þess fullnægjandi upplýsingar sem byggja mátti á rétta álagningu sé ekki heimilt, hafi álagning reynst of lág, að endurákvarða honum skatt nema vegna tveggja síðustu ára. Í athugasemdum við þetta ákvæði í frumvarpi að skattalögum var tekið fram: „Þessi málsgrein á aðeins við ef upplýsingar sem byggja mátti rétta álagningu á koma beinlínis fram í framtali eða fylgigögnum þess, en 1. mgr. gildir ef þessi gögn eru ófullnægjandi enda þótt skattstjóra hafi mátt vera ljóst fyrr að eitthvað var athugavert við framtalið.“ Við endurákvörðun verða skattyfirvöld því að meta hvort þeim hefði verið fært að breyta skattframtali án frekari skýringa. Skiptir þá ekki máli hvort skýringa var leitað heldur hvort þeirra var þörf. Um skýringu á þessu ákvæði hafa gengið nokkrir dómar Hæstaréttar Íslands. Samkvæmt þeirri dómaframkvæmd, sbr. m.a. Hrd. 1996:470, ber að skýra ákvæðið með hliðsjón af leiðréttingarheimildum skattstjóra í 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981. Það er mat ríkisskattstjóra að þær upplýsingar sem lágu fyrir í skattframtali kæranda hafi ekki verið þess eðlis að unnt hafi verið að leiðrétta framtalið einhliða án þess að skýringa kæranda væri leitað áður. Á 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, því ekki við í máli þessu.
Með vísan til framangreinds og þess sem fram kemur í hinum kærða úrskurði krefst ríkisskattstjóri þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.“
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 21. nóvember 2000, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar ef ástæða yrði talin til. Svar barst yfirskattanefnd með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 6. desember 2000. Þar kveðst umboðsmaður ítreka það sjónarmið sitt að 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981 hafi staðið hinni kærðu endurákvörðun í vegi þar sem alltaf hafi legið fyrir að arður frá Þ hf. hefði verið greiddur m.a. með hlutabréfum. Er í því sambandi vísað til ummæla í hinum kærða úrskurði skattstjóra, dags. 15. ágúst 2000, þar sem tekið sé fram að ekki hafi legið fyrir upplýsingar um markaðsgengi hlutabréfa við álagningu árið 1997. Þá er bent á í bréfinu að yfir 200 hluthafar í Þ hf. hafi fengið arð greiddan frá félaginu með sambærilegum hætti og kærandi og sé ekki kunnugt um að athugasemd hafi verið gerð af því tilefni nema í tilviki kæranda. Þess sé eindregið óskað að tekið verði tillit til 97. gr. laga nr. 75/1981 og skattahækkun felld niður.
V.
Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurður skattstjóra um endurákvörðun, dags. 15. ágúst 2000, verði felldur úr gildi. Er sú krafa bæði studd formlegum og efnislegum rökum í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar. Rökrétt þykir að fjalla fyrst um formhlið málsins, þ.e. þá málsástæðu umboðsmanns kæranda að ákvæði 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, girði fyrir hina kærðu breytingu skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1997.
Samkvæmt 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er eigi heimilt að endurákvarða skattaðila skatt nema vegna síðustu tveggja ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram þótt í ljós komi að álagning hafi verið of lág, enda hafi skattaðili látið í té í framtali sínu eða fylgigögnum þess fullnægjandi upplýsingar sem byggja mátti rétta álagningu á. Í athugasemdum með 2. mgr. 97. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, kemur fram að í þessu laganýmæli felist „að frestur til endurupptöku er styttur ef ástæðan fyrir henni er ófullnægjandi skoðun skattstjóra á framtali og fylgigögnum þess en ekki ófullnægjandi upplýsingar skattaðila“. Er og tekið fram að málsgreinin eigi aðeins við „ef upplýsingar, sem byggja mátti rétta álagningu á, koma beinlínis fram í framtali eða fylgigögnum þess, en 1. mgr. gildir ef þessi gögn eru ófullnægjandi enda þótt skattstjóra hefði mátt vera ljóst fyrr að eitthvað var athugavert við framtalið“. Um skýringu á þessu ákvæði hafa gengið nokkrir dómar Hæstaréttar Íslands, m.a. H 1996:470. Samkvæmt þeirri dómaframkvæmd ber að líta til orðalags 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981 og meta hvort fyrir hafi legið nægjanlegar upplýsingar í framtali eða fylgigögnum þess sem rétt álagning varð byggð á. Jafnframt ber samkvæmt þessari dómaframkvæmd að skýra ákvæði 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981 með hliðsjón af leiðréttingarheimildum skattstjóra í 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. sömu laga. Samkvæmt síðastnefndu lagaákvæði skal skattstjóri fyrir álagningu leiðrétta fjárhæðir einstakra liða ef þeir eru í ósamræmi við gildandi lög og fyrirmæli skattyfirvalda, svo og einstaka liði framtals ef telja má að óyggjandi upplýsingar séu fyrir hendi, en gera skal skattaðila viðvart um slíkar breytingar.
Kærandi færði til tekna í reit 00 í skattframtali sínu árið 1997 arð af hlutabréfum með 425.606 kr. Á fylgiskjali um hlutabréfaeign kæranda í árslok 1996, sem fylgdi skattframtalinu, kom fram að arður af hlutabréfum í Þ hf. hefði numið 373.549 kr. Eins og fram hefur komið byggði skattstjóri hina kærðu endurákvörðun sína á opinberum gjöldum kæranda gjaldárið 1997 á því að ákvarða bæri fjárhæð greidds arðs frá Þ hf. til kæranda, að því er tekur til þess hluta arðgreiðslunnar sem fólst í afhendingu hlutabréfa í Z hf. og X hf., í samræmi við markaðsverðmæti hlutabréfanna þann 29. febrúar 1996, þegar ákvörðun var tekin um arðgreiðsluna á aðalfundi í Þ hf., en ekki nafnverð hlutabréfanna eins og kærandi sjálfur miðaði við í skattframtali sínu árið 1997.
Krafa kæranda um niðurfellingu hins kærða úrskurðar skattstjóra er reist á því að fyrir álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1997 hafi legið fyrir skattstjóra upplýsingar um að arður Þ hf. til kæranda hefði að hluta verið greiddur með afhendingu hlutabréfa í X hf. og Z hf., m.a. þar sem skattstjóra höfðu borist upplýsingar um arðgreiðsluna á hlutafjármiða (RSK 2.045) frá Þ hf., sbr. ákvæði 5. mgr. 92. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Út af fyrir sig er unnt að fallast á þetta með umboðsmanni kæranda. Hefur og ekki annað komið fram en að hlutafjármiðinn hafi borist skattstjóra innan skilafrests slíkra gagna samkvæmt auglýsingu ríkisskattstjóra nr. 1/1997, um skilafresti launaskýrslna o.fl. gagna samkvæmt 92. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 1997. Á hinn bóginn er til þess að líta að efnislega fólst í hinni kærðu breytingu skattstjóra á skattframtali kæranda ákvörðun á verðmæti hinnar umdeildu arðgreiðslu til skattlagningar í hendi hans, sbr. 4. tölul. C-liðar 7. gr. og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Um það efni naut engra upplýsinga í skattframtali kæranda árið 1997 eða fylgigögnum þess né á framangreindum hlutafjármiða Þ hf., að frátöldum upplýsingum um nafnverð hlutabréfanna í árslok 1996, sbr. fylgiskjal með skattframtali kæranda. Sem fyrr greinir taldi skattstjóri að leggja bæri til grundvallar við ákvörðun á verðmæti arðgreiðslunnar gangverð (markaðsverðmæti) hlutabréfa í X hf. og Z hf., en ekki nafnverð þeirra, og að miða bæri við í því sambandi skráð gengi hlutabréfanna á Verðbréfaþingi Íslands hf. þann 29. febrúar 1996, eða þann dag sem ákvörðun var tekin um úthlutun arðsins á aðalfundi í Þ hf. Nauðsynlegt var að gefa kæranda kost á að koma að sjónarmiðum sínum um ákvörðun skattskyldrar arðsfjárhæðar í hendi hans, þ. á m. um greindar viðmiðanir skattstjóra, og afla að öðru leyti nauðsynlegra upplýsinga um þennan þátt skattskilanna áður en skattstjóri réði málefninu til lykta með breytingu á skattframtali kæranda, enda er ljóst að skattframtalið eða fylgigögn þess höfðu ekki að geyma fullnægjandi upplýsingar til að taka ákvörðun um slíkt. Breytir engu um það þótt horft sé til þess sem fyrrgreindur hlutafjármiði bar með sér. Samkvæmt framansögðu þykir einsýnt að skattstjóra var ekki kleift, án frekari upplýsinga og gagna, að færa kæranda til skattskyldra tekna umrædda arðsfjárhæð á grundvelli skattframtals kæranda og fylgigagna þess eins og það lá fyrir skattstjóra og fara með slíka breytingu eftir 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981. Með vísan til framanritaðs verður ekki talið að ákvæði 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981 hafi girt fyrir hina kærðu endurákvörðun skattstjóra eins og umboðsmaður kæranda telur. Að þessu athuguðu og þar sem gætt var 1. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981 við umrædda endurákvörðun verður krafa kæranda ekki tekin til greina á þeim grundvelli að tímamörk til endurákvörðunar hafi verið liðin. Víkur þá að efnishlið málsins.
Samkvæmt upphafsákvæði 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, teljast til skattskyldra tekna, með þeim undantekningum og takmörkunum er greinir í lögunum, hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan tekjurnar stafa eða í hvaða formi þær eru. Síðan eru í dæmaskyni tilgreindar í 7. gr. skattskyldar tekjur í þremur stafliðum. Í 4. tölul. C-liðar greinarinnar er mælt fyrir um skattskyldu arðs af hlutum og hlutabréfum í félögum, sbr. 9. gr. laganna. Í 1. málsl. 1. mgr. síðastnefndrar lagagreinar kemur fram að til arðs af hlutum og hlutabréfum í félögum, sem um ræðir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna, teljist auk venjulegrar arðgreiðslu sérhver afhending verðmæta til hlutareiganda eða hluthafa er telja verði sem tekjur af hlutareign þeirra í félaginu.
Um úthlutanir af fjármunum hlutafélaga, þ.m.t. arðsúthlutanir, er fjallað í XII. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög. Í 1. mgr. 99. gr. laganna er m.a. mælt svo fyrir að einungis sé heimilt að úthluta sem arði hagnaði samkvæmt samþykktum ársreikningi síðasta reikningsárs, yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum og frjálsum sjóðum eftir að dregið hefur verið frá tap sem ekki hefur verið jafnað og það fé sem samkvæmt lögum eða félagssamþykktum skal lagt í varasjóð eða til annarra þarfa. Í ársreikningi hlutafélags eða skýringum með honum skal gera grein fyrir ráðstöfun hagnaðar eða jöfnun taps á reikningsárinu, sbr. 17. gr. laga nr. 144/1994, um ársreikninga, og 27. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald. Einsýnt er samkvæmt lagareglum um arðsúthlutanir að arðsfjárhæð til úthlutunar ber að ákvarða sem fastákveðna fjárhæð. Breytir út af fyrir sig engu í því efni þótt ákveðið sé að greiða hluthöfum arð að nokkru eða öllu leyti í öðrum verðmætum en peningum, svo sem raunin varð á í því tilviki sem hér um ræðir. Ekki liggur annað fyrir en að ákvörðun um hina umdeildu arðsúthlutun Þ hf. á aðalfundi félagsins 29. febrúar 1996 hafi verið í samræmi við framanritað og af hálfu kæranda hefur því ekki verið borið við að sú fjárhæð, sem skattstjóri byggði á sem skattskyldum arði kæranda af hlutafjáreign hans í Þ hf. gjaldárið 1997, sé ekki í samræmi við hlutdeild hans í arðsúthlutun félagsins samkvæmt lögmæltum tilgreiningum félagsins um arðsúthlutunina í reikningsskilum þess. Kærandi heldur því hins vegar fram að ákvarða beri tekjur þessar til skattlagningar í hendi hans með nafnverði hlutabréfa í X hf. og Z hf. Með vísan til þess, sem fyrr greinir, er ekki unnt að fallast á þessi sjónarmið kæranda, enda varða þau fyrst og fremst mat á þeim verðmætum sem úthlutaður arður er greiddur með. Rétt er að benda á í tilefni af þessari málsástæðu kæranda að fjárhagslegur ávinningur hans af afhendingu umræddra hlutabréfa á árinu 1996 réðist fyrst og fremst af verðmæti bréfanna í kaupum og sölum á þeim tíma, en ekki nafnverði þeirra. Þótt arður til hluthafa sé greiddur í öðrum verðmætum en peningum haggar slíkt ekki arðsfjárhæð samkvæmt samþykkt viðkomandi hlutafélags um arðsúthlutun. Þá er rétt að fram komi að eins og greinir í kröfugerð ríkisskattstjóra, á viðbára kæranda um viðmiðun arðs við nafnverð ekki við í því samhengi sem hér um ræðir.
Eins og áður er rakið lagði skattstjóri til grundvallar við ákvörðun tekjuviðbótar kæranda að gangverð hlutabréfa í X hf. og Z hf. hefði verið jafnt skráðu gengi bréfanna í viðskiptum á Verðbréfaþingi Íslands miðað við 29. febrúar 1996 þegar ákvörðun um hina umdeildu arðgreiðslu var tekin á aðalfundi í Þ hf. Að athuguðum ársreikningi Þ hf. fyrir árið 1996 verður ekki annað séð en að viðmið skattstjóra sé í samræmi við tilgreiningu félagsins á fjárhæð raunvirðis arðsúthlutunarinnar. Af hálfu kæranda hafa ekki verið færð rök að því að verðmat skattstjóra hafi verið óraunhæft né hefur kærandi gert athugasemdir við þá ákvörðun skattstjóra að miða við skráð gengi á aðalfundardegi samkvæmt framansögðu. Verður að telja óyggjandi að umrædd arðsfjárhæð hafi ekki verið ofákvörðuð samkvæmt ákvörðun skattstjóra, þ.e. 170.373 kr. Með vísan til framanritaðs verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kæranda er hafnað.