Úrskurður yfirskattanefndar

  • Vaxtabætur
  • Tímaviðmiðun vaxtagjalda

Úrskurður nr. 181/2001

Gjaldár 2000

Lög nr. 75/1981, 69. gr. B-liður 1. og 6. mgr. (brl. 122/1993, 9. gr.)   Verklagsreglur ríkisskattstjóra 29. febrúar 1996 um ákvörðun vaxtabóta.  

Samkvæmt kaupsamningi um fasteign, sem kærendur seldu 14. maí 1999, skyldi uppgjör vaxta og kostnaðar af eigninni milli kaupanda og seljanda taka mið af afhendingardegi eignarinnar. Með vísan til þess og verklagsreglna ríkisskattstjóra var fallist á að telja áfallna vexti til afhendingardags eignarinnar 1. júlí 1999 til vaxtagjalda sem mynduðu rétt til vaxtabóta.

I.

Málavextir eru þeir að kærendur stóðu skil á skattframtali 2000 með rafrænum hætti. Í reit 87 í skattframtalinu færðu kærendur vaxtagjöld 838.576 kr. af lánum vegna öflunar íbúðarhúsnæðis að X og í reit 41 eftirstöðvar skulda á söludegi 637.778 kr. Framtalinu fylgdi greinargerð um kaup og sölu eigna (RSK 3.02) vegna sölu fyrrgreindrar eignar hinn 14. maí 1999 samkvæmt dagsetningu kaupsamnings. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2000 voru kærendum ekki ákvarðaðar neinar vaxtabætur.

Með kæru, dags. 1. ágúst 2000, sbr. greinargerð, dags. 15. sama mánaðar, mótmæltu kærendur álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2000. Í kærunni kom fram að við álagninguna hefði ekki verið tekið tillit til vaxtagjalda og vaxtabætur því ekki verið greiddar. Var þess getið að vaxtagjöld væru óvenjulega mikil vegna vanskila á hluta veðlána sem átt hefði sinn þátt í sölu viðkomandi eignar á árinu 1999. Kærunni fylgdu gögn um vaxtagjöld ársins 1999 og fóru kærendur fram á að gjöld þess árs yrðu endurákvörðuð með tilliti til framanritaðs.

Skattstjóri tók kæruna til afgreiðslu með kæruúrskurði, dags. 31. október 2000. Í úrskurðinum vísaði skattstjóri til ákvæða 5. og 6. mgr. B-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem fram kæmi m.a. að væri íbúðarhúsnæði selt án þess að hafin væri bygging eða fest kaup á íbúðarhúsnæði til eigin nota á sama ári félli réttur til vaxtabóta niður frá þeim tíma sem sala ætti sér stað. Við útreikning vaxtabóta skyldi þá miða við skuldastöðu eins og hún væri við sölu. Þá tók skattstjóri fram að samkvæmt innsendum gögnum kærenda um vaxtagjöld ársins 1999 hefðu vaxtagjöld vegna tímabilsins fram að sölu íbúðarhúsnæðis í maí 1999 numið 205.415 kr., svo sem skattstjóri gerði nánari tölulega grein fyrir. Þá kæmi fram í umræddum gögnum kærenda að eftirstöðvar skulda á söludegi húsnæðisins hefðu numið 6.264.833 kr. Féllst skattstjóri á að ákvarða kærendum vaxtabætur á framangreindum grundvelli, þ.e. miðað við fyrrgreind vaxtagjöld 205.415 kr. og skuldastöðu á söludegi 6.264.833 kr.

II.

Með kæru, dags. 3. nóvember 2000, hafa kærendur skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Í kærunni kemur fram að kæruefni sé útreikningur vaxtabóta vegna ársins 1999, nánar tiltekið sú ákvörðun skattstjóra að miða skerðingu vaxtagjalda við sölu húseignar kærenda í maí 1999 eða við undirritun kaupsamnings. Kemur fram að kærendur telji að miða beri við afhendingardag eignar í þessu sambandi, þ.e. 1. júlí 1999, enda sé ljóst af skilmálum kaupsamnings að kærendur hafi greitt af áhvílandi lánum til þess dags. Tilvitnuð lagaákvæði skilgreini „sölu“ ekki nánar og beri að túlka allan vafa kærendum í hag. Ennfremur standi rök til þess að á meðan húsnæði sé til „eigin nota“ eigi seljendur að njóta góðs af vaxtabótum. Til samanburðar megi vísa til 4. mgr. (sic) B-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981 þar sem miðað sé við raunverulega dvöl. Þá séu tæpast rök til þess að kaupandi geti talið vaxtagjöld sem aðrir greiði með stofni til útreiknings vaxtabóta. Krafa kærenda sé því sú „að vaxtagjöld skerðist að hámarki um 50%“. Kærunni fylgir ljósrit af kaupsamningi, dags. 14. maí 1999, um íbúð kærenda að Langholtsvegi 95.

Með bréfi, dags. 15. desember 2000, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Ríkisskattstjóri krefst þess að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, og eftirfarandi athugasemda, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Að gefnu tilefni er bent á að í 6. mgr. B-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, segir að við útreikning vaxtabóta skuli miða skuldastöðu eins og hún var við sölu. Almennt er miðað við að við undirskrift kaupsamnings hafi eign skipt um eigendur, þó bæði kaupendur og seljendur séu þinglýstir eigendur fram að útgáfu afsals. Um leið og kaupsamningi hefur verið þinglýst er réttur seljanda takmarkaður og fellur hann alveg niður við þinglýsingu afsals. Í ljósi þessa verður ekki talið að hægt sé að fallast á það með kærendum að miða skuli við afhendingartíma eignar. Málsástæðu kæranda verður því að hafna.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 18. desember 2000, var kærendum sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra og þeim gefinn kostur á að leggja fram gögn til skýringar og tjá sig um kröfugerðina ef ástæða yrði talin til. Af hálfu kærenda voru gerðar athugasemdir við kröfugerðina með bréfi, dags. 3. janúar 2001, þar sem kærendur ítreka áður fram komin sjónarmið sín. Benda kærendur m.a. á að löggjafanum hefði verið í lófa lagið að skilgreina „sölu“ nánar, enda ríki skýrar hefðir í fasteignakaupum um skjalagerð og uppgjör aðila. Fræðilegar og umdeildar skilgreiningar á yfirfærslu eignarréttar í fasteignakaupum eigi hér ekki við og megi nefna dæmi sem sýni að skattalög byggi ekki á slíku. Þannig geti byggjandi fasteignar til eigin nota talið vaxtabætur til frádráttar frá upphafi byggingar þótt ljóst sé að eignarréttur hans geti verið takmarkaður á því tímabili, enda sé oft ekki um annað að tefla en lóðarsamning með ýmsum kvöðum um að byggingu skuli lokið o.s.frv. Á meðan húsnæði sé til „eigin nota“ eigi seljendur að njóta góðs af vaxtabótum. Afnotin vegi þyngra en hið formlega eignarhald þegar eign sé á milli eigenda, sbr. t.d. 3. og 4. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 7/1998, um vaxtabætur, sbr. 4. gr. sömu reglugerðar. Þá megi til samanburðar vísa til 4. mgr. B-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981. Ítreka kærendur gerðar kröfur í málinu, þ.e. að vaxtagjöld skerðist að hámarki um 50%.

Með bréfi, dags. 23. febrúar 2001, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda ítrekað fyrri kröfur og athugasemdir sem fram koma í kröfugerð embættisins, dags. 15. desember 2001.

III.

Í 1. mgr. B-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, er kveðið á um að maður sem skattskyldur er samkvæmt 1. gr. laganna og ber vaxtagjöld af lánum, sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, þar með talin kaup á eignarhlut í almennri kaupleiguíbúð skv. 76. gr. laga nr. 97/1993, eigi rétt á sérstökum bótum, vaxtabótum, enda geri hann grein fyrir lánum og vaxtagjöldum af þeim í sérstakri greinargerð með skattframtali í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Samkvæmt 6. mgr. B-liðar sömu lagagreinar fellur réttur til vaxtabóta niður þegar íbúðarhúsnæði telst ekki lengur til eigin nota. Kemur fram að sé íbúðarhúsnæði selt án þess að hafin sé bygging eða fest kaup á íbúðarhúsnæði til eigin nota á sama ári falli réttur til vaxtabóta niður frá þeim tíma sem sala átti sér stað og við útreikning skuli þá miða við skuldastöðu eins og hún var við sölu.

Í verklagsreglum ríkisskattstjóra, dags. 29. febrúar 1996, um ákvörðun vaxtabóta, er m.a. fjallað um skiptingu vaxtagjalda til ákvörðunar vaxtabóta milli kaupanda og seljanda við eigendaskipti á íbúðarhúsnæði. Segir þar að hjá seljanda myndi stofn til vaxtagjalda þau vaxtagjöld og verðbætur sem komi til greiðslu hjá honum fram að söludegi. Enn fremur teljist til vaxtagjalda hjá honum áfallin vaxtagjöld fram að söludegi sem gerð séu þá upp við kaupanda. Samkvæmt kaupsamningi um eignina X, dags. 14. maí 1999, sem fyrir liggur í málinu, skal uppgjör vaxta og kostnaðar af eigninni milli kaupanda og seljanda taka mið af afhendingardegi eignarinnar og þykir mega slá því föstu að sú tilhögun sé í samræmi við venju í fasteignaviðskiptum. Er samkvæmt þessu og með vísan til framangreindra verklagsreglna fallist á kröfu kæranda sem skilja verður þannig að fjárhæð vaxtagjalda í reit 87 hækki sem nemi áföllnum vöxtum til afhendingardags 1. júlí 1999. Samkvæmt því hækka vaxtagjöld í reit 87 í skattframtali kærenda árið 2000 úr 205.415 kr. í 252.997 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Vaxtagjöld í reit 87 í skattframtali kærenda árið 2000 verða 252.997 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja