Úrskurður yfirskattanefndar

  • Teknategund
  • Tekjur af innlausn hlutdeildarskírteina

Úrskurður nr. 222/2001

Gjaldár 1999

Lög nr. 75/1981, 7. gr. C-liður 3. tölul., 8. gr. 2. mgr. (brl. nr. 97/1996, 1. gr., sbr. brl. nr. 137/1996, 1. gr.), 23. gr. 1. mgr., 95. gr. 1. mgr., 96. gr. 1. og 3. mgr.   Lög nr. 37/1993, 10. gr., 13. gr.  

Kærandi hélt því fram að honum væri heimilt við uppgjör fjármagnstekna af sölu verðbréfa (hlutdeildarskírteina) að draga frá þeim tekjum tap vegna innlausnar sams konar verðbréfa á sama ári. Yfirskattanefnd benti á að tekjur kæranda vegna gengishækkunar hlutdeildarskírteina væru skattskyldar í hendi hans sem vextir af fjármagnstekjum utan rekstrar. Þar sem hvorki í lagaákvæðum um það efni né annars staðar í skattalöggjöfinni var fyrir að fara sérstakri heimild til slíkrar uppgjörsaðferðar vaxtatekna sem í málinu greindi var kröfu kæranda hafnað.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi tilgreindi í reit 14 í skattframtali sínu árið 1999 vaxtatekjur af innlendum og erlendum verðbréfum og kröfum 595.409 kr. og í reit 304 í framtalinu staðgreiðslu af þeim vaxtatekjum 112.072 kr. Skattframtalinu fylgdi eyðublað vegna sölu/innlausnar verðbréfa (RSK 3.15). Samkvæmt því eyðublaði námu vaxtatekjur kæranda vegna sölu kjarabréfa, markbréfa og skyndibréfa á árinu 1998 alls 823.169 kr. Þá var tilgreint tap vegna sölu markbréfa 5.284 kr. og vegna sölu X-verðbréfa 222.476 kr. Nam fjárhæð í reit 14 því nettótekjum vegna sölu/innlausnar þessara bréfa.

Með bréfi, dags. 28. júlí 1999, tilkynnti skattstjóri kæranda með vísan til 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, um þá breytingu á skattframtali hans árið 1999 að vaxtatekjur í reit 14 í skattframtalinu hefðu verið hækkaðar úr 595.409 kr. í 1.120.719 kr. Vísaði skattstjóri til þess að engum heimildarákvæðum væri til að dreifa í lögum nr. 75/1981 um að jafna mætti tapi af sölu verðbréfa á móti hagnaði af sölu verðbréfa innan tekjuárs, „sbr. og leiðbeiningar og fyrirmæli ríkisskattstjóra“, eins og þar sagði.

Með kæru, dags. 30. ágúst 1999, mótmælti umboðsmaður kæranda framangreindri breytingu skattstjóra. Krafðist hann þess aðallega að breyting skattstjóra yrði felld niður og ákvörðun fjármagnstekjuskatts yrði grundvölluð á innsendu skattframtali. Kvaðst umboðsmaðurinn telja að skattstjóra hefði verið óheimilt að fara með breytinguna eftir ákvæðum 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, heldur hefði honum borið að fara með breytinguna samkvæmt 1. og 3. mgr. 96. gr. sömu laga. Skattstjóri fullyrti að lagaheimild skorti fyrir því að jafna mætti tapi af sölu verðbréfa á móti hagnaði af sölu slíkra bréfa og horfði þá óhikað framhjá ákvæði 1. mgr. 23. gr. laga nr. 75/1981. Því væri mótmælt að túlkun þess lagaákvæðis gæti verið svo ótvíræð að skattstjóra væri heimilt að gera breytingar á skattframtali kæranda án þess að gefa honum kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum. Varðandi efnishlið málsins benti umboðsmaður kæranda á að sala á bæði hlutabréfum og verðbréfum félli undir ákvæði 8. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, hvort heldur sem salan leiddi til hagnaðar eða taps. Væri því um að ræða samkynja tekjur í skilningi laga nr. 75/1981. Vísaði umboðsmaðurinn til ákvæðis 1. mgr. 23. gr. laganna og tók fram að með sams konar tekjum (sic) í skilningi þess ákvæðis væri átt við samkynja tekjur, þ.e. tekjur sem skattskyldar væru samkvæmt sömu lagaákvæðum. Þar sem bæði hlutabréf og verðbréf féllu undir 8. tölul. C-liðar 7. gr. laganna ætti 1. mgr. 23. gr. sömu laga við um sölu slíkra bréfa þannig að heimilt væri að jafna tapi af sölu hlutabréfa á móti hagnaði af sölu verðbréfa. Til vara fór umboðsmaður kæranda fram á að stofn til fjármagnstekjuskatts kæranda yrði einungis hækkaður sem næmi sölutapi ársins 1998, þ.e. um 227.760 kr., en ekki um 525.310 kr., enda hefði sú hækkun ekki verið í neinu samræmi við það tap sem kærandi hefði nýtt til frádráttar söluhagnaði ársins.

Skattstjóri tók kæru kæranda til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 18. apríl 2000. Í úrskurðinum vék skattstjóri í upphafi að athugasemdum umboðsmanns kæranda við málsmeðferð skattstjóra. Kvaðst skattstjóri telja að honum hefði verið fyllilega heimil sú breyting sem gerð var á skattframtali kæranda, enda hefði útfylling framtalsins ekki verið í samræmi við gildandi lög og fyrirmæli skattyfirvalda, sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá vék skattstjóri að efnishlið málsins og sagði svo í úrskurði hans:

„Samkvæmt 3. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, teljast til skattskyldra tekna vextir, verðbætur, afföll og gengishagnaður, sbr. 8. gr. sömu laga. Í 8. gr. fyrrgreindra laga kemur fram að til skattskyldra tekna sem vextir, afföll og gengishagnaður, skv. framangreindum 3. tölul. C-liðar 7. gr., teljist m.a. vextir af víxlum, verðbréfum og öllum öðrum kröfum sem arð bera eða vexti og afföll af keyptum verðbréfum, víxlum og sérhverjum öðrum kröfum. Þá teljist einnig til tekna í þessu sambandi gengishækkun hlutdeildarskírteina, svo og hvers kyns gengishagnaður og afföll af keyptum verðbréfum, víxlum og sérhverjum öðrum kröfum og hvers kyns aðrar tekjur af peningalegum eignum.

Samkvæmt 3. mgr. 67. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, skal tekjuskattur af fjármagnstekjum einstaklinga utan rekstrar vera 10% af þeim tekjum. Til fjármagnstekna teljast í þessu sambandi tekjur skv. 1.–8. tölul. C-liðar 7. gr. laganna, þ.e. vextir, arður, leigutekjur, söluhagnaður og aðrar eignatekjur.

Í leiðbeiningarbæklingi ríkisskattstjóra Skattlagning fjármagnstekna, skýringar og leiðbeiningar, eru fjármagnstekjur þær sem greiða skal af 10% skatt skv. 1.–8. tölul. 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, tilgreindar sem; tekjur af fjármagnskröfum, arður af eignarhlutum, hagnaður af sölu eigna og tekjur af leigu eigna. Undir lið 1.1 í bæklingnum; tekjur af fjármagnskröfum, kemur enn fremur fram að stofn til skatts af fjármagnskröfum sé sá jákvæði mismunur sem er á milli þeirrar fjárhæðar sem rétthafi kröfu hefur gefið fyrir hverja einstaka kröfu eða metin er í hans hendi við upphaf eignarhaldstíma og þeirrar fjárhæðar sem hann fær fyrir kröfuna í lok eignarhaldstímans. Skipti ekki máli hvort hækkun þessi komi fram í áföngum (með afborgunum) eða í einu lagi við greiðslu á kröfunni, innlausn eða sölu hennar til þriðja aðila. Skattlagning þannig skilgreindra fjármagnstekna miðast við það tekjuár þegar greiðsla á sér stað eða fjárhæðin er færð rétthafa til eignar á reikningi. Þá kemur fram í bæklingnum að neikvæður mismunur á hverri einstakri kröfu á viðkomandi tekjutímabili fellur niður. Í bæklingnum kemur fram að til tekna af fjármagnskröfum teljist; vextir, verðbætur, gengishagnaður, gengishækkun hlutdeildarskírteina og markaðsbréfa, ávöxtun framvirkra samninga eða afleiða, afföll og yfirverð, þ.e. skattskyldar tekjur skv. 3. tölul. C-liðar 7. gr., sbr. 8. gr., laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum.

Undir lið 1.3 í bæklingnum; hagnaður af sölu eigna, kemur fram að til fjármagnstekna teljist einnig hagnaður af sölu eigna, þ.e. söluhagnaður hlutabréfa, söluhagnaður eignarhluta í öðrum félögum, söluhagnaður fasteigna og söluhagnaður lausafjár.

Ein af fullyrðingum kærenda er að undir 8. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, falli bæði sala á hlutabréfum og verðbréfum. Hér sé því um að ræða samkynja tekjur í skilningi laganna, þ.e. tekjur sem skattskyldar eru samkvæmt sömu lagaákvæðum. Með vísan til þess sem hefur verið rakið hér að ofan verður ekki fallist á þessa fullyrðingu kærenda. Hægt er að fallast á að söluhagnaður hlutabréfa falli undir 8. tölul. C-liðar 7. gr. Gengishækkun hlutdeildarskírteina og markaðsbréfa og vextir af verðbréfum og kröfum, eða það sem kærendur kalla „hagnað af sölu verðbréfa“, fellur hins vegar undir 3. tölul. C-liðar 7. gr. Því er ekki um að ræða „samkynja tekjur“ í skilningi laganna.

Í eyðublaði RSK 3.15; sala/innlausn verðbréfa og yfirliti um kaup og sölu annarra verðbréfa, sem voru meðfylgjandi innsendu skattframtali kærenda, kemur fram að gengishækkun hlutdeildarskírteina og vaxtatekjur kærenda af verðbréfum og kröfum hafi samtals numið kr. 823.169,-, skattskyldar tekjur skv. 3. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þ.e. vaxtatekjur af Kjarabréfum kr. 16.700,-, vaxtatekjur af Markbréfum kr. 780.501,- og vaxtatekjur af Skyndibréfum kr. 25.968,-. Einnig kemur fram í framangreindu eyðublaði og yfirliti að neikvæður mismunur hafi myndast vegna kaupa og sölu á Markbréfum að fjárhæð kr. 5.284,-, og X-verðbréfum að fjárhæð kr. 222.476,-. Þá kemur fram að kærendur hafi sætt afdrætti staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts, eða kr. 112.072,-, í samræmi við ákvæði laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, með áorðnum breytingum.

Eins og fram kemur í fyrrnefndum leiðbeiningarbæklingi ríkisskattstjóra myndar stofn til skatts af fjármagnskröfum sá jákvæði mismunur sem er á milli þeirrar fjárhæðar sem rétthafi kröfu hefur gefið fyrir hverja einstaka kröfu eða metin er í hans hendi við upphaf eignarhaldstíma og þeirrar fjárhæðar sem hann fær fyrir kröfuna í lok eignarhaldstímans. Þá falli niður neikvæður mismunur á hverri einstakri kröfu á viðkomandi tekjutímabili, þ.e. ekki sé heimilt að draga neikvæðan mismun sem myndast í viðskiptum með eina fjármagnskröfu frá þeim jákvæða mismun sem kann að myndast í viðskiptum með aðrar fjármagnskröfur. Ekki er að finna ákvæði í lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, sem heimila slíkan frádrátt.

Í kröfu kærenda kemur fram að skattstjóri „horfi óhikað“ fram hjá ákvæði 1. mgr. 23. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Því sé mótmælt að túlkun þess lagaákvæðis geti verið svo ótvíræð að það veiti skattstjóra heimild til þess að gera þær breytingar sem hann hafi gert á skattframtali kærenda.

Í 1. mgr. 23. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, kemur fram að ekki sé heimilt að draga frá skattskyldum tekjum tap á sölu eigna, sem ekki eru notaðar í atvinnurekstri. Áður en skattskyldur hagnaður af sölu eigna sé ákveðinn megi skattaðili þó draga frá heildarhagnaðinum það tap sem hann kann að hafa orðið fyrir vegna sölu sams konar eigna á sama ári. Framangreint lagaákvæði á einungis við um hagnað af sölu eigna, sem skattskyldar eru skv. 8. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 10.-27. gr. sömu laga. Lagaákvæðið á ekki við um vexti, verðbætur, afföll og gengishagnað sem skattskyldur er skv. 3. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 8. gr. laganna, enda ekki um að ræða hagnað af sölu eigna í skilningi laganna, heldur tekjur af fjármagnskröfum.

Með vísan til framanritaðs er ekki fallist á aðalkröfu kærenda um að breyting skattstjóra verði felld niður.“

Með kæruúrskurði sínum féllst skattstjóri á varakröfu kæranda um lækkun á stofni til fjármagnstekjuskatts um 297.550 kr. Þá lækkaði skattstjóri tilfærða staðgreiðslu af vaxtatekjum í reit 304 í skattframtali kæranda um 29.755 kr., þ.e. úr 112.072 kr. í 82.317 kr. Vísaði skattstjóri í því sambandi til þess að ekki fengi staðist að kærandi hefði sætt afdrætti staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts að fjárhæð 29.755 kr. við sölu markbréfa þann 29. desember 1998 fyrir 5.951.027 kr., svo sem fram kæmi á innsendu eyðublaði um sölu/innlausn verðbréfa (RSK 3.15), þar sem kærandi hefði keypt bréfin fyrir hærri fjárhæð eða 5.952.403 kr. þann 18. desember 1998.

II.

Með kæru, dags. 13. júlí 2000, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Í kærunni er þess aðallega krafist að úrskurður skattstjóra verði ómerktur að því er varðar breytingu á stofni til fjármagnstekjuskatts en til vara að tekið verði tillit til afdreginnar staðgreiðslu að fjárhæð 29.755 kr. á móti álögðum fjármagnstekjuskatti. Þá er krafist málskostnaðar úr ríkissjóði. Um rökstuðning fyrir aðalkröfu vísar umboðsmaður kæranda til þess rökstuðnings sem fram kom í kæru til skattstjóra, dags. 30. ágúst 1999, og áréttar sérstaklega röksemdafærslu varðandi annmarka á málsmeðferð skattstjóra. Vegna varakröfu vísar umboðsmaður til meðfylgjandi ljósrits af kvittun frá Z hf. vegna sölu markbréfa að nafnverði 1.375.960 kr. sem umboðsmaður kveður bera með sér að fyrirtækið hafi haldið eftir staðgreiðslu að fjárhæð 29.755 kr. þrátt fyrir að tap hafi orðið af sölu bréfanna. Eigi kærandi heimtingu á því að tekið sé tillit til þeirrar staðgreiðslu við endanlega ákvörðun á ógreiddum fjármagnstekjuskatti hans. Varðandi málskostnaðarkröfu tekur umboðsmaður kæranda fram að útlagður kostnaður kæranda vegna málsins sé vegna u.þ.b. fimm tíma vinnu sem geri u.þ.b. 35.000 kr. auk virðisaukaskatts.

Með bréfi, dags. 29. september 2000, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Kærandi krefst þess aðallega að breyting skattstjóra verði felld niður og ákvörðun fjármagnstekjuskatts verði grundvölluð á innsendu skattframtali kæranda.

Ríkisskattstjóri krefst þess að úrskurður skattstjóra um aðalkröfu kæranda verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Varakrafa kæranda lýtur að þeirri lækkun skattstjóra á staðgreiðslu af vaxtatekjum skv. reit nr. 304 undir lið 3.4. í skattframtali kæranda um kr. 29.755,- eða úr kr. 112.072,- í kr. 82.317,-. Kærandi hefur lagt fram kvittun vegna sölu verðbréfa og kvittun fyrir útborgun á innleystum verðbréfum. Með hliðsjón af fram komnum gögnum er fallist á kröfu kæranda hvað varðar þennan lið kærunnar.“

III.

Aðalkrafa umboðsmanns kæranda um ógildingu á hinni kærðu breytingu er í fyrsta lagi reist á því að skattstjóra hafi borið að fara með breytinguna eftir 1. og 3. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en ekki 1. mgr. 95. gr. sömu laga. Samkvæmt hinu síðarnefnda ákvæði getur skattstjóri leiðrétt fjárhæðir einstakra liða ef þeir eru í ósamræmi við gildandi lög og fyrirmæli skattyfirvalda, svo og einstaka liði framtals ef telja má að óyggjandi upplýsingar séu fyrir hendi, en gera skal skattaðila viðvart um slíkar breytingar. Þessa heimild skattstjóra ber að skýra með hliðsjón af 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um skyldu stjórnvalds til að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, og 13. gr. sömu laga, um rétt aðila stjórnsýslumáls til að tjá sig um efni þess áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Eins og áður er rakið tilgreindi kærandi í reit 14 í skattframtali sínu árið 1999 vaxtatekjur af innlendum og erlendum verðbréfum og kröfum 595.409 kr. Skattframtalinu fylgdi eyðublað vegna sölu/innlausnar verðbréfa (RSK 3.15) sem bar með sér að fyrrgreind fjárhæð vaxtatekna í reit 14 var þannig fundin að frá vaxtatekjum af seldum verðbréfum (hlutdeildarskírteinum) á árinu 1998 823.169 kr. var dregið tap vegna innlausnar tilgreindra verðbréfa (hlutdeildarskírteina) á sama ári að fjárhæð samtals 227.760 kr., þ.e. annars vegar markbréfa 5.284 kr. og hins vegar X-verðbréfa 222.476 kr., sbr. og „yfirlit yfir kaup og sölu annarra verðbréfa“ sem fylgdi skattframtali kæranda umrætt ár. Samkvæmt þessu verður að telja að fyrir skattstjóra hafi legið óyggjandi upplýsingar í skilningi 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981 og að skattstjóra hafi verið unnt að leiðrétta skattframtal kæranda til samræmis við þá afstöðu sína að lagaheimild skorti fyrir hinum umkrafða frádrætti taps vegna innlausnar verðbréfa (hlutdeildarskírteina) frá vaxtatekjum af slíkum bréfum. Verður aðalkrafa kæranda því ekki tekin til greina á þeim grundvelli að málsmeðferð skattstjóra hafi verið áfátt í framangreindu tilliti.

Víkur þá að efnishlið málsins. Krafa kæranda er sú að breyting skattstjóra á skattframtali hans árið 1999 verði felld úr gildi með því að honum sé heimilt við uppgjör fjármagnstekna af sölu verðbréfa á árinu 1998 að draga frá þessum tekjum tap vegna innlausnar sams konar verðbréfa á sama ári. Styður kærandi þessa kröfu sína við ákvæði 1. mgr. 23. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og byggir í því sambandi á þeirri forsendu að umræddar tekjur séu skattskyldar samkvæmt ákvæði um hagnað af sölu eigna í 8. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981.

Samkvæmt 3. mgr. 67. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 7. gr. laga nr. 97/1996, skal tekjuskattur af fjármagnstekjum einstaklinga utan rekstrar vera 10% af þeim tekjum. Segir í 2. málsl. 3. mgr. 67. gr. að til fjármagnstekna í þessu sambandi teljist tekjur samkvæmt 1.–8. tölul. C-liðar 7. gr., „þ.e. vextir, arður, leigutekjur, söluhagnaður og aðrar eignatekjur“. Samkvæmt 3. tölul. C-liðar 7. gr. teljast vextir, verðbætur, afföll og gengishagnaður, sbr. 8. gr. laganna, til skattskyldra tekna. Í 2. mgr. 8. gr. laganna, eins og sú málsgrein hljóðar eftir breytingar með lögum nr. 97/1996 og 137/1996, kemur fram að til tekna sem vextir, sbr. 1. mgr. sömu greinar, af kröfum eða inneignum, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, teljist vextir sem greiddir eru eða eru greiðslukræfir og greiddar verðbætur á afborganir og vexti. Til tekna í þessu sambandi teljist enn fremur gengishækkun hlutdeildarskírteina, svo og hvers kyns gengishagnaður og afföll af keyptum verðbréfum, víxlum og sérhverjum öðrum kröfum og hvers kyns aðrar tekjur af peningalegum eignum. Tekið skal fram að í VI. kafla laga nr. 10/1993, um verðbréfasjóði, með áorðnum breytingum, er fjallað um hlutdeildarskírteini. Þar kemur m.a. fram í 16. gr. að gefa skuli út verðbréf í formi hlutdeildarskírteina til þeirra sem fá verðbréfasjóði fjármuni til ávöxtunar og óska eftir því.

Samkvæmt framansögðu eru tekjur kæranda vegna gengishækkunar hlutdeildarskírteina sem kærandi seldi á árinu 1998 skattskyldar í hendi hans á grundvelli 3. tölul. C-liðar 7. gr., sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 75/1981, en ekki 8. tölul. C-liðar 7. gr. sömu laga, sbr. og til hliðsjónar 4. og 5. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, með áorðnum breytingum, sbr. sérstaklega 2. gr. laga nr. 133/1996. Af því leiðir að heimild í 1. mgr. 23. gr. laga nr. 75/1981 til að draga frá skattskyldum hagnaði af sölu eigna tap sem skattaðili hefur orðið fyrir vegna sölu sams konar eigna á sama ári á ekki við í tilviki kæranda, enda á það ákvæði aðeins við um hagnað af sölu eigna samkvæmt 10.–27. gr. laganna, sbr. og 8. tölul. C-liðar 7. gr. þeirra.

Hér að framan er greint frá lagaákvæðum um ákvörðun stofns til fjármagnstekjuskatts vegna fjármagnstekna einstaklinga utan rekstrar að því er tekur til vaxta, sbr. 3. tölul. C-liðar 7. gr., 8. gr. og 3. mgr. 67. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum. Hvorki í ákvæðum þessum né annars staðar í skattalöggjöfinni er fyrir að fara sérstakri heimild til slíkrar uppgjörsaðferðar sem á reynir í máli þessu. Í 3. mgr. 2. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, sbr. c-lið 5. gr. laga nr. 97/1996, kemur fram að ákvæði 2. mgr. sömu greinar um heimild til að draga frá beinan kostnað við öflun tekna gildi ekki um leigutekjur, vexti eða aðrar fjármagnstekjur. Koma ákvæði 2. mgr. 30. gr. þannig ekki til álita í þessu sambandi. Umrætt ákvæði c-liðar 5. gr. laga nr. 97/1996, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, var lögfest að tillögu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis og í nefndaráliti, sem fylgdi breytingartillögunni, var tekið fram að breytingin væri nauðsynleg þar sem frumvarpið gerði ráð fyrir brúttóskattlagningu fjármagnstekna (Alþt. 1995-96, A-deild, bls. 4831). Var og áréttað í almennum athugasemdum með frumvarpinu að tillögur þess gerðu ráð fyrir því að lagður yrði 10% skattur á nafnvexti, afföll og gengishagnað án heimildar til frádráttar vaxtagjalda og kostnaðar á móti fjármagnstekjum (Alþt. 1995-96, A-deild, bls. 3494–3495), sbr. einnig athugasemdir við 7. gr. frumvarpsins (Alþt. 1995-96, A-deild, bls. 3498). Eins og greinir í hinum kærða úrskurði skattstjóra er í samræmi við framanritað lagt til grundvallar í skýringum og leiðbeiningum ríkisskattstjóra um skattlagningu fjármagnstekna frá 1997 að slíkur uppgjörsháttur vaxtatekna sem í málinu greinir sé óheimill.

Með vísan til þess sem hér að framan er rakið verður að hafna aðalkröfu kæranda í máli þessu.

Fallist er á varakröfu kæranda þess efnis að tekið verði tillit til afdreginnar staðgreiðslu af vaxtatekjum að fjárhæð 29.755 kr., sbr. framlögð gögn með kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar og kröfugerð ríkisskattstjóra. Það athugist að ekki verður talið að sú ákvörðun skattstjóra að lækka tilfærða staðgreiðslu af vaxtatekjum með kæruúrskurði á þeim forsendum sem þar greinir hafi staðist með tilliti til þeirrar rannsóknarskyldu sem skattstjóra er lögð á herðar í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og lögfests andmælaréttar kæranda samkvæmt 13. gr. sömu laga, sbr. og 1. og 3. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður úr ríkissjóði að mati yfirskattanefndar samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins, sem gengið hafa kæranda í hag að nokkru leyti, þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli þessa lagaákvæðis. Kærandi hefur ekki lagt fram reikninga um útlagðan kostnað sinn við meðferð málsins, en ætla verður þó að um slíkan kostnað hafi verið að ræða. Með vísan til þess ákvarðast málskostnaður kæranda úr ríkissjóði 10.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Aðalkröfu kæranda er hafnað. Varakrafa hans er tekin til greina. Málskostnaður ákveðst 10.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja