Úrskurður yfirskattanefndar

  • Gjöf

Úrskurður nr. 341/2002

Gjaldár 2000

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 4. tölul.  

Sveitarfélag nokkurt ákvað að gefa hverju barni sem fæddist innan þess 100.000 kr. peningagjöf. Greiðsla sveitarfélagsins til dóttur kærenda árið 1999, sem innt var af hendi á þessum grundvelli, var talin til skattskyldra tekna, enda var ekki fallist á með kærendum að greiðslan yrði lögð að jöfnu við venjulegar tækifærisgjafir milli nákominna eða tengdra aðila við slík tilefni sem barnsfæðingar.

I.

Með kæru, dags. 16. nóvember 2001, hafa kærendur skotið til yfirskattanefndar úrskurði skattstjóra, dags. 20. ágúst 2001, um endurákvörðun opinberra gjalda kærenda gjaldárið 2000. Með úrskurðinum færði skattstjóri kæranda, A, til skattskyldra tekna 100.000 kr. á þeim grundvelli að um væri að ræða gjöf til dóttur kærenda, fæddrar á árinu 1999. Teldist gjöfin til skattskyldra tekna samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Af hálfu kærenda er þess krafist að úrskurði skattstjóra verði hnekkt.

II.

Málavextir eru þeir að með bréfi til kærenda, dags. 18. apríl 2001, greindi skattstjóri frá því að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hefði sveitarsjóður X-hrepps greitt börnum, sem fæðst hefðu í sveitarfélaginu frá áramótum 1997/1998, 100.000 kr. sem gjöf til þeirra. Kom fram að á árinu 1999 hefði sveitarsjóður greitt 100.000 kr. vegna fæðingar dóttur kærenda þann ... september 1999. Óskaði skattstjóri eftir skýringum kærenda á því að umrædd greiðsla væri ekki talin fram í skattframtali þeirra árið 2000 og tók fram í því sambandi að gjafir og styrki bæri að telja til skattskyldra tekna, sbr. A-lið 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Af hálfu kærenda var bréfi skattstjóra svarað með tölvupósti hinn 22. apríl 2001. Þar sagði m.a. eftirfarandi:

„Ég get staðfest að ég tók á móti þessum peningum og lagði þá inn á reikning dóttur minnar í Búnaðarbanka Íslands. Ég taldi þessa peninga ekki til tekna vegna þess að mér datt ekki í hug að til væri svo vitlaus lagagrein sem hægt væri með nokkurri sanngirni að túlka þannig að smápeningar gefnir hvítvoðungum gætu talist til skattskyldra tekna.“

Með bréfi, dags. 19. júlí 2001, boðaði skattstjóri kæranda, A, endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda gjaldárið 2000 þar sem fyrirhugað væri að færa kæranda til tekna í skattframtali árið 2000 greiðslu sveitarsjóðs X-hrepps vegna fæðingar dóttur kæranda á árinu 1999 að fjárhæð 100.000 kr. Vísaði skattstjóri til þess að samkvæmt A-lið 7. gr. laga nr. 75/1981 bæri að færa styrki, bætur og skattskyldar gjafir barns á skattframtal framfæranda. Af hálfu kærenda var bréfi skattstjóra ekki svarað og með úrskurði um endurákvörðun, dags. 20. ágúst 2001, hratt skattstjóri hinni boðuðu breytingu í framkvæmd og færði kæranda, A, til tekna í lið 2.3 í skattframtali hans árið 2000 greiðslu frá sveitarsjóði X-hrepps að fjárhæð 100.000 kr. og endurákvarðaði opinber gjöld kærenda gjaldárið 2000 til samræmis við þá breytingu. Ítrekaði skattstjóri fyrri röksemdir en tók jafnframt fram að rétt þætti að beita ekki álagi samkvæmt ákvæðum 106. gr. laga nr. 75/1981.

III.

Í kæru kærenda til yfirskattanefndar, dags. 16. nóvember 2001, kemur fram að dóttur kærenda hafi borist gjöf frá sveitarsjóði X-hrepps að fjárhæð 100.000 kr. Tilefni gjafarinnar hafi verið fæðing dótturinnar á árinu 1999, enda hafi hreppsnefnd X-hrepps samþykkt á fundi sínum þann 11. janúar 1998 að gefa hverju barni sem fæddist í hreppnum 100.000 kr., sbr. meðfylgjandi ljósrit fundargerðar. Kemur fram að kærendur uni ekki þeim úrskurði skattstjóra að þeim beri að greiða skatt af gjöfinni og sé þess því krafist að yfirskattanefnd hnekki ákvörðun skattstjóra og úrskurði gjöfina undanþegna skatti. Taka kærendur fram að til þess að kanna lögfræðilega hlið málsins hafi þau leitað álits umboðsmanns barna og fylgi álit umboðsmannsins kærunni. Þá segir svo í kæru kærenda:

„Ég bað umboðsmann sérstaklega að athuga hvers vegna afmælis-, ferminga- og skírnargjafir væru undanþegnar skatti og samkvæmt hennar eftirgrennslan vill svo skemmtilega til að með vísan til … A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 eru slíkar gjafir skattfrjálsar. Ætti það sama ekki að gilda í þessu tilfelli eða er tilefni og tilgangur þessarar gjafar á einhvern hátt annar og verri?“

IV.

Með bréfi, dags. 11. janúar 2002, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

V.

Samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, teljast m.a. til skattskyldra tekna beinar gjafir í peningum eða öðrum verðmætum, þar með talin afhending slíkra verðmæta í hendur nákominna ættingja, nema um fyrirframgreiðslu upp í arf sé að ræða. Undanskildar eru þó tækifærisgjafir, enda sé verðmæti þeirra ekki meira en almennt gerist um slíkar gjafir.

Fram er komið að dóttir kærenda, C. sem fædd er ... september 1999, fékk 100.000 kr. að gjöf frá X-hreppi á árinu 1999. Til grundvallar gjöfinni lá ákvörðun hreppsnefndar X-hrepps frá 11. janúar 1998 um að greiða hverju barni sem fæddist í hreppnum frá og með áramótum 1997/1998 umrædda fjárhæð, sbr. ljósrit fundargerðar hreppsnefndarinnar sem fylgir kæru kærenda til yfirskattanefndar. Í fundagerðinni er eftirfarandi m.a. tekið fram: „Skal þetta skoðast sem trú á framtíðina og ósk um nýja íbúa. Hreppsnefnd var sammála um að þetta væri viturlegri ráðstöfun en ljósastauraraðir á hverjum bæ. Tillagan einróma samþ.“

Krafa kærenda byggir á því að hin umdeilda greiðsla X-hrepps til dóttur þeirra árið 1999 teljist ekki til skattskyldra tekna þar sem greiðslan falli undir framangreint undanþáguákvæði um tækifærisgjafir í 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981. Á það verður ekki fallist, enda verður ekki framhjá því litið að um er að ræða fjárgreiðslu frá opinberum aðila, þ.e. sveitarfélagi, sem m.a. er ætlað að þjóna sérstöku markmiði sveitarfélagsins um fólksfjölgun, sbr. hér að framan. Þykir greiðslan þannig ekki verða lögð að jöfnu við venjulegar tækifærisgjafir milli nákominna eða tengdra aðila við slík tilefni sem barnsfæðingar. Ber og að hafa í huga í þessu sambandi að um undanþáguákvæði er að ræða sem almennt verður ekki skýrt rýmkandi lögskýringu. Samkvæmt þessu verður að hafna kröfu kærenda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kærenda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja