Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Skattskyldusvið
  • Þrotabú

Úrskurður nr. 423/2002

Virðisaukaskattur 2001

Lög nr. 50/1988, 2. gr., 3. gr. 1. mgr. 1. tölul., 5. gr., 11. gr. 3. mgr.  

Kærandi, sem var þrotabú, mótmælti ákvörðun skattstjóra um að færa kæranda á skrá yfir virðisaukaskattsskylda aðila. Yfirskattanefnd hafnaði kröfu kæranda með vísan til þess að kærandi hefði ekki gert grein fyrir eignum þrotabúsins og ráðstöfun þeirra vegna gjaldþrotaskiptanna.

I.

Málavextir eru þeir að einkahlutafélagið X var skráð á grunnskrá virðisaukaskatts frá og með 1. janúar 1998 vegna frystingar fiskafurða. Með úrskurði Héraðsdóms ..., uppkveðnum ... september 2001, var bú félagsins tekið til gjaldþrotaskipta. Með bréfi, dags. 23. október 2001, tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hygðist færa kæranda á skrá yfir virðisaukaskattsskylda aðila, sbr. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Greindi skattstjóri frá því að X ehf. hefði í framhaldi af úrskurði Héraðsdóms ... um töku bús félagsins til gjaldþrotaskipta verið fellt af virðisaukaskattsskrá og skráningarnúmeri félagsins verið lokað. Þar sem þrotabú tæki við fjárhagslegum réttindum og skyldum þrotamanns frá úrskurðardegi, sbr. 72. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., yrði að telja að þrotabú félagsins væri skráningarskylt samkvæmt 5. gr. laga nr. 50/1988. Þar sem skattstjóra hefði ekki borist tilkynning um skráningu kæranda hygðist skattstjóri færa kæranda á grunnskrá virðisaukaskatts frá og með úrskurðardegi. Af hálfu kæranda var ekki brugðist við bréfi skattstjóra og með úrskurði, dags. 20. nóvember 2001, færði skattstjóri kæranda á skrá yfir virðisaukaskattsskylda aðila frá og með 18. september 2001.

Með kæru til skattstjóra, dags. 26. nóvember 2001, var ákvörðun skattstjóra um að færa kæranda á grunnskrá virðisaukaskatts mótmælt af hálfu kæranda. Í kærunni kom fram að þrotabúið væri að öllum líkindum eignalaust með öllu. Starfsstöð félagsins á Z yrði boðin upp degi síðar og allt lausafé þess væri veðsett B og yrði því ekki um neina sölu á lausafjármunum að ræða. Væri þess óskað að kærandi yrði ekki tekinn á virðisaukaskattsskrá þar sem velta ársins, ef einhver lausafjármunur fyndist sem unnt yrði að selja, yrði undir lágmarksfjárhæð.

Með kæruúrskurði, dags. 2. janúar 2002, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Forsendur í úrskurði skattstjóra voru eftirfarandi:

„Á úrskurðardegi var [kærandi] skráður á grunnskrá virðisaukaskatts enda hefur skattstjóra ekki borist frá honum nein tilkynning um lok virðisaukaskattsskylds rekstrar hans, sbr. ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988, sbr. einnig III. kafla reglugerðar nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, með síðari breytingum. Þá hefur heldur ekki verið gerð grein fyrir vörubirgðum, vélum, tækjum og öðrum rekstrarfjármunum við lok rekstrar, sbr. 3. mgr. 11. gr. nefndra laga nr. 50/1988, eða leiðréttingarkvöð vegna innskatts, sbr. 16. gr. sömu laga. Þar sem þrotabú tók við fjárhagslegum skyldum og réttindum hans frá úrskurðardegi, sbr. 72. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, verður að telja að búið sé skráningarskylt skv. 5. gr. nefndra laga nr. 50/1988 og því var búið fært á grunnskrá virðisaukaskatts. Í þessum efnum styðst skattstjóri einnig við leiðbeiningar ríkisskattstjóra um virðisaukaskattsuppgjör gjaldþrotabúa, dags. 12.09. 1991, sem fylgja hér með í ljósriti, sbr. einkum 3., 4. og 6. kafla leiðbeininganna. Þá skal bent á að sölu eða afhendingu eigna búsins, annarra en fasteigna, ber að telja fram sem veltu á virðisaukaskattsskýrslu búsins, með eða án vsk. eftir því hvort salan eða afhendingin fellur undir 1. mgr. 11. gr. eða 4. mgr. 12. gr. [laga nr. 50/1988], sbr. 4. og 5. kafla framangreindra leiðbeininga. Kröfu yðar er því hafnað.“

II.

Með kæru, dags. 29. mars 2002, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 2. janúar 2002, til yfirskattanefndar. Í kærunni er þess krafist að kærandi verði ekki færður á grunnskrá virðisaukaskatts. Um rökstuðning fyrir kröfunni er vísað til þess sem fram kemur í kæru til skattstjóra, dags. 26. nóvember 2001.

III.

Með bréfi, dags. 23. ágúst 2002, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans og eftirfarandi athugasemda, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal tilkynna skattstjóra um breytingar sem verða á virðisaukaskattsskyldri starfsemi eftir að skráning hefur farið fram. Tilkynningu skal senda eigi síðar en átta dögum eftir að breyting hefur átt sér stað. Samkvæmt þessu ber að tilkynna skattstjóra ef skráður aðili er tekinn til gjaldþrotaskipta, enda verður við það sú breyting að annar aðili (þrotabú) tekur við starfsemi hans. Tilkynningarskyldan hvílir á skiptastjóra.

Ríkisskattstjóri lítur svo á að þrotabú hafi með höndum framhald á fyrri starfsemi þrotamanns. Þrotabúið er því skráningarskylt hafi skuldari verið skráður. Gildir þetta hvort heldur sem þrotabúið heldur áfram um lengri eða skemmri tíma þeim atvinnurekstri sem þrotamaður hafði með höndum eða starfsemi búsins felst aðeins í sölu eða ráðstöfun eigna, auk hinna eiginlegu gjaldþrotaskipta. Þetta gildir einnig þótt skattskyld sala þrotabús sé undir lágmarki skv. 3. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988. Við skráningu á grunnskrá virðisaukaskatts fær þrotabúið sérstakt skráningarnúmer og er upphafsdagsetning þess sá dagur þegar aðili er úrskurðaður gjaldþrota.

Með vísan til framangreinds er þrotabúið skylt til að innheimta og skila virðisaukaskatti af skattskyldri afhendingu sinni. Í kæru til yfirskattanefndar heldur umboðsmaður kæranda (skiptastjóri) því fram að ekki verði um neina sölu á lausafé að ræða þar sem allt lausafé sé veðsett B. Eins og skattstjóri tekur réttilega fram í úrskurði sínum ber að telja sölu eða afhendingu rekstrarfjármuna bús til virðisaukaskattsskyldrar veltu, með virðisaukaskatti ef salan eða afhendingin fellur undir 1. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988 eða án virðisaukaskatts ef salan eða afhendingin fellur undir 4. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 26. ágúst 2002, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni. Engar athugasemdir hafa borist.

IV.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal greiða virðisaukaskatt í ríkissjóð af viðskiptum innanlands á öllum stigum, svo og af innflutningi vöru og þjónustu, eins og nánar er ákveðið í lögunum. Í 1. mgr. 2. gr. laganna er tekið fram að skattskyldan nái til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra, og samkvæmt 2. mgr. 2. gr. tekur skattskyldan til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sbr. þó 3. mgr. 2. gr. Í 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. kemur fram að skylda til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð hvíli á þeim sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selja eða afhenda vörur eða verðmæti ellegar inna af hendi skattskylda vinnu eða þjónustu. Almennt ákvæði um skráningarskyldu virðisaukaskattsskyldra aðila er í 5. gr. laga nr. 50/1988. Samkvæmt 1. mgr. greinarinnar skal hver sá, sem skattskyldur er skv. 3. gr., sbr. 4. gr., ótilkvaddur og eigi síðar en átta dögum áður en starfsemi hefst tilkynna atvinnurekstur sinn eða starfsemi til skráningar hjá skattstjóra þar sem hann er heimilisfastur. Breytingar, sem verða á starfsemi eftir að skráning hefur farið fram, skal tilkynna eigi síðar en átta dögum eftir að breyting á sér stað. Í 4. mgr. 5. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 119/1989, er tekið fram að hafi aðili, sem að mati skattstjóra bar að tilkynna atvinnurekstur sinn eða starfsemi skv. 1. mgr., ekki sinnt umræddri tilkynningarskyldu, skuli skattstjóri úrskurða hann sem skattskyldan aðila samkvæmt ákvæðum 3. gr. og tilkynna aðilanum þar um.

Í kæru kæranda til skattstjóra, dags. 26. nóvember 2001, var ákvörðun skattstjóra frá 20. nóvember 2001 um að úrskurða kæranda á skrá yfir virðisaukaskattsskylda aðila mótmælt með þeim rökum að þrotabúið væri „að öllum líkindum“ eignalaust með öllu. Í kærunni kom þó fram að búseignum væri til að dreifa, m.a. lausafé sem veðsett væri B. Eins og rakið er í kröfugerð ríkisskattstjóra í máli þessu telst sala eða afhending á vélum, tækjum og öðrum rekstrarfjármunum almennt til skattskyldrar veltu, sbr. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988. Af hálfu kæranda hefur ekki verið gerð frekari grein fyrir eignum þrotabúsins og ráðstöfun þeirra vegna gjaldþrotaskiptanna. Að svo vöxnu máli verður að hafna kröfu kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja