Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Innskattur

Úrskurður nr. 52/2002

Virðisaukaskattur 1999

Lög nr. 50/1988, 16. gr., 20. gr. 1. og 7. mgr.   Reglugerð nr. 50/1993, 4. gr., 15. gr.   Reglugerð nr. 192/1993, 1. gr.  

Skattstjóri hafnaði tilfærðum innskatti á virðisaukaskattsskýrslu kæranda samkvæmt fjórum reikningum frá A þar sem skattstjóri taldi ekki koma fram nægilega tilgreiningu hins keypta á reikningunum. Yfirskattanefnd taldi lýsingu á hinu keypta á reikningunum ekki gefa tilefni til að draga í efa að um væri að ræða vinnu A við skattskylda starfsemi kæranda. Var fallist á kröfu kæranda.

I.

Kæruefni í máli þessu, sem barst yfirskattanefnd með kæru, dags. 12. júní 2001, er ákvörðun skattstjóra samkvæmt úrskurði hans, dags. 13. mars 2001, að taka ekki til greina tilfærðan innskatt að fjárhæð 542.559 kr. samkvæmt nýjum virðisaukaskattsskýrslum kæranda árið 1999 sem bárust skattstjóra 31. ágúst 2000. Um er að ræða virðisaukaskatt samkvæmt fjórum reikningum frá B, þ.e. reikningi, dags. 22. júní 1999, að fjárhæð 312.218 kr., þar af virðisaukaskattur 61.444 kr., dags. 27. júlí 1999, að fjárhæð 711.300 kr., þar af virðisaukaskattur 139.983 kr., dags. 10. október 1999, að fjárhæð 700.900 kr., þar af virðisaukaskattur 137.937 kr. og dags. 18. desember 1999, að fjárhæð 1.032.495 kr., þar af virðisaukaskattur 203.195 kr.

Skattstjóri byggði á því að fullnægjandi upplýsingar um tegund sölu, magn og einingaverð, sbr. áskilnað 3. og 4. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, kæmu ekki fram á umræddum reikningum, heldur væri hinu selda einungis lýst „v/imislegt“, og því uppfylltu þeir ekki skilyrði svo færa mætti af þeim innskatt, sbr. 1. mgr. 15. gr. nefndrar reglugerðar. Með bréfi skattstjóra, dags. 29. september 2000, hefði því verið beint til kæranda að gera ítarlega grein fyrir hinu keypta samkvæmt þessum reikningum. Hefði verið bent á að útgefandi þyrfti að gefa út fylgiblað og leiðrétta reikningana ef þeir ættu að geta gefið rétt til innskatts. Í bréfi umboðsmanns kæranda, sem borist hefði skattstjóra 17. október 2000, væri greint frá því að algengt tímagjald hefði verið 2.100 kr. og hefðu reikningarnir verið lagfærðir. Kvað skattstjóri þá leiðréttingu felast í því að skrifað hefði verið einingaverð á hvern reikning, rúmlega 2.600 kr. með virðisaukaskatti, og þannig fenginn tímafjöldi. Taldi skattstjóri að engan veginn væri fullnægt skilyrðum fyrrnefndra reglugerðarákvæða.

II.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 12. júní 2001, sbr. greinargerð, dags. 5. júlí 2001, gerir umboðsmaður kæranda þá kröfu að fallist verði á innskatt samkvæmt reikningum frá B. Í greinargerð umboðsmannsins segir:

„B og [kærandi] hafa nú … rifjað upp í sameiningu, hvernig tímar hafa verið samsettir. Út frá þessu hafa þeir gert vinnulista þar sem greint er frá dagsetningum, unnum vinnutímum og greint frá því fyrir hvern er unnið. Að vísu er þessi samsetning á tímagrundvelli en oftar en ekki eru verkin verðlögð á magni fermetra sem parket er lagt á. Því verða einingaverðin eins og þau eru.

Það gefur auga leið að þeir bræður hafa sest niður, þegar þessir reikningar voru gefnir út og greiddir og gert upp sín á milli hvað hvorum bæri í hlut í sameiginlegum verkum. Því miður hafa þeir ekki haldið upp á tímaskriftir nema að takmörkuðu leyti, því yfirleitt er fermetramagnið, sem unnið er við grundvöllur verðlagningar en ekki tímaskriftin, nema í aukaverkum.

Má geta þess að [kærandi] þjáðist af bakverkjum á þessu tímabili og því er eðlilegt að hans hlutur í mörgum verkum sé rýr.“

III.

Með bréfi, dags. 14. desember 2001, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þar sem kærandi hefur lagt fram ný gögn og rökstuðning í máli þessu og með hliðsjón af þeim lagarökum er búa að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, er þess krafist að kærunni verði vísað til skattstjóra til uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.“

IV.

Eins og fram er komið hafnaði skattstjóri með hinum kærða úrskurði, dags. 13. mars 2001, tilfærðum innskatti 542.559 kr. á virðisaukaskattsskýrslum kæranda árið 1999 samkvæmt fjórum reikningum frá B en ákvarðaði virðisaukaskatt kæranda samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum þessum að öðru leyti. Taldi skattstjóri að upplýsingar á reikningunum um tegund sölu, magn og einingaverð væru ekki í samræmi við áskilnað 3. og 4. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, enda væri hið selda einungis tilgreint „v/imislegt“, og því uppfylltu skjölin ekki skilyrði innskattsfrádráttar samkvæmt 1. mgr. 15. gr. nefndrar reglugerðar.

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, telst til innskatts á hverju uppgjörstímabili virðisaukaskattur af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum sem eingöngu varða sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Samkvæmt 7. mgr. 20. gr. laganna ber það undir kæranda að leggja fram reikninga eða önnur gögn, sem uppfylla skilyrði þau sem fram koma í 1. mgr. greinarinnar, til sönnunar á innskatti. Nánar er kveðið á um gögn til sönnunar á innskatti í 1. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, og 15. gr., sbr. 3.–6. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Samkvæmt nefndum ákvæðum er áskilnaður um að til grundvallar færslu virðisaukaskatts (innskatts) af innkaupum þurfi að vera til staðar frumrit sölureikninga, afreikninga eða móttekinna kreditreikninga sem uppfylli nánar tilgreind skilyrði, þar á meðal að reikningurinn sé tölusettur, virðisaukaskattur sé tilgreindur, að fram komi bæði nafn og kennitala kaupanda og seljanda svo og að upplýsingar um tegund sölu komi fram. Í 3. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 50/1993 segir nánar um síðastnefnt atriði að tegund sölu, þ.e. lýsing á hinu selda, skuli færð á sölureikning. Við sölu til virðisaukaskattsskylds aðila skuli lýsingin vera nægilega glögg til að ljóst sé hvort viðskiptin varði skattskylda starfsemi hans.

Ekki er um það deilt að tilskildar upplýsingar samkvæmt framangreindum ákvæðum komi fram á reikningum frá B, sem um ræðir í máli þessu, að öðru leyti en því að skattstjóri taldi eins og fyrr segir ekki koma fram nægilega tilgreiningu hins keypta, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988 og 3. og 4. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 50/1993, þannig að ljóst væri að virðisaukaskattur heimilaðist til frádráttar eftir ákvæðum 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988.

Af hálfu kæranda er komið fram að umræddir reikningar hafi að öllu leyti verið vegna vinnu B við sjálfstæða starfsemi kæranda við parketlagningu. Má ráða af úrskurði skattstjóra, dags. 13. mars 2001, að þetta hafi legið fyrir í málinu þegar að fengnu svarbréfi kæranda, mótt. 17. október 2000, þar sem m.a. var gerð grein fyrir tímafjölda og tímagjaldi. Þá verður ekki séð að sundurliðun tímafjölda, sem skattstjóri lagði upp úr í úrskurði sínum, sbr. einnig bréf skattstjóra, dags. 29. september 2000, geti haft sérstaka þýðingu með tilliti til þeirra skilyrða til sönnunar á innskatt sem kveðið er á um í framangreindum ákvæðum laga nr. 50/1988. Að þessu athuguðu verður ekki talið að vísa beri málinu til nýrrar meðferðar hjá skattstjóra af þeim ástæðum er greinir í kröfugerð ríkisskattstjóra.

Taka verður undir það með skattstjóra að upplýsingar á reikningum frá B um tegund sölu eru ekki svo glöggar sem skyldi. Samkvæmt fram komnum skýringum kæranda varðandi umrædd aðföng er að öllu leyti um að ræða vinnu B við lagningu parkets á vegum kæranda. Miðað við þessar skýringar og tegund starfsemi kæranda þykir lýsing á hinu selda ekki gefa tilefni til að draga í efa að vinnan hafi varðað skattskylda starfsemi kæranda, sbr. 3. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 50/1993. Þá bera skýringar kæranda með sér að reikningsfjárhæðir hafa ekki nema að litlu leyti verið ákvarðaðar á grundvelli tímagjalds, heldur sé um að ræða skiptingu tekja af „sameiginlegum verkum“. Að þessu athuguðu verður úrlausn málsins ekki látin velta á ákvæðum 4. tölul. 2. mgr. 4. gr. nefndrar reglugerðar um tilgreiningu magns og einingaverðs.

Samkvæmt því sem rakið hefur verið og þar sem skattstjóri hefur ekki vefengt heimild kæranda til frádráttar virðisaukaskatts samkvæmt reikningunum á öðrum grundvelli en að framan greinir, þykir bera að taka kröfu kæranda til greina.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á hækkun innskatts 61.444 kr. uppgjörstímabilið maí–júní 1999, 139.983 kr. uppgjörstímabilið júlí–ágúst 1999, 137.937 kr. uppgjörstímabilið september–október 1999 og 203.195 kr. uppgjörstímabilið nóvember–desember 1999.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja