Úrskurður yfirskattanefndar
- Kæruheimild
- Kæranleg skattákvörðun
Úrskurður nr. 72/1997
Gjaldár 1995
Lög nr. 75/1981, 99. gr. 1. mgr., 101. gr. 3. mgr. Lög nr. 30/1992, 3. gr. 1. mgr.
Málið fjallaði um niðurfellingu skattstjóra á tilfærðu yfirfærðu rekstrartapi á skattframtali kæranda árið 1994 og hliðstæða breytingu á skattframtali árið 1995. Kærandi hafði ekki nýtt sér kæruheimild til skattstjóra vegna breytingar hans fyrra árið og vísaði yfirskattanefnd kröfum vegna þess gjaldárs frá þar sem enginn kæranlegur úrskurður lægi fyrir. Að því er síðara árið varðaði var talið að breyting skattstjóra hefði einungis lotið að því að fylgja eftir fyrri ákvörðun um niðurfellingu tilfærðs rekstrartaps gjaldárið 1994. Yrði henni því ekki mótmælt efnislega í málinu. Var kærunni vísað frá yfirskattanefnd.
I.
Forsaga máls þessa er sú að í bréfi, dags. 7. febrúar 1995, boðaði skattstjóri kæranda niðurfellingu yfirfæranlegs taps frá rekstrarárinu 1992 á skattframtali 1994, sem framreiknað nam 1.452.468 kr. Í framhaldi af því tilkynnti skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 14. mars 1995, að hann hefði hrundið í framkvæmd boðuðum breytingum, en engin mótmæli hefðu borist af hálfu kæranda. …
Næst gerist það í málinu að með bréfi, dags. 25. júlí 1995, tilkynnir skattstjóri kæranda með vísan til 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að hann hafi fellt niður framreiknað yfirfæranlegt tap frá rekstrarárinu 1992 á skattframtali kæranda 1995, sem framreiknað nam 1.479.193 kr. Kvað skattstjóri breytinguna vera í samræmi við áðurnefnda tilkynningu um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1994.
Umboðsmaður kæranda mótmælti breytingu skattstjóra í kæru, dags. 28. ágúst 1995. …
Skattstjóri staðfesti ákvörðun sína með kæruúrskurði, dags. 28. nóvember 1995, á þeim forsendum að úrskurði sínum frá 14. mars 1995 hefði ekki verið hnekkt af þar til bærum stjórnvöldum og stæði því niðurstaða hans óbreytt.
Umboðsmaður kæranda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 28. nóvember 1995, vegna gjaldársins 1995 svo og úrskurði skattstjóra, dags. 14. mars 1995, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1994 til yfirskattanefndar með kæru, dags. 13. desember 1995. Eru í kærunni áréttaðar þær skýringar sem fram komu í kæru kæranda til skattstjóra, dags. 28. ágúst 1995, og gerð krafa um að yfirfæranlegt tap frá rekstrarárinu 1992 verði tekið til greina.
Með bréfi, dags. 31. desember 1996, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Ríkisskattstjóri lítur svo á að skipta verði tapi af rekstri á sama hátt milli eigenda sameignarfélags og tekjum. Fyrir þann tíma er kærandi varð sjálfstæður skattaðili voru því töp eigendanna sjálfra en ekki rekstursins. Ríkisskattstjóri fer því fram á að úrskurður skattstjóra verði staðfestur."
II.
Kæran til yfirskattanefndar, dags. 13. desember 1995, varðar annars vegar endurákvörðun skattstjóra, dags. 14. mars 1995, á áður álögðum opinberum gjöldum gjaldárið 1994, sem laut að niðurfellingu yfirfærðs rekstrartaps 1.452.468 kr. tilgreindu í skattframtali árið 1994, og hins vegar kæruúrskurð skattstjóra, dags. 28. nóvember 1995, vegna gjaldársins 1995, þar sem fyrrgreindri endurákvörðun vegna gjaldársins 1994 er fylgt fram og tilfært yfirfært rekstrartap í skattframtali árið 1995 fellt niður til samræmis við endurákvörðunina. Þessa endurákvörðun kærði kærandi ekki til skattstjóra, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Samkvæmt gögnum málsins leitaði kærandi hins vegar eftir endurupptöku hjá ríkisskattstjóra á áður álögðum opinberum gjöldum gjaldárið 1994 vegna fyrrgreinds rekstrartaps, er kærandi vildi fá tekið til greina, sbr. beiðni þar um, dags. 11. júlí 1995. Ríkisskattstjóri hafnaði beiðninni með bréfi, dags. 16. apríl 1996.
Samkvæmt framansögðu liggur engin ákvörðun fyrir vegna gjaldársins 1994, sem kæranleg er til yfirskattanefndar samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, enda er hvorki endurákvörðun skattstjóra né synjun ríkisskattstjóra á beiðni um endurupptöku samkvæmt 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981 kæranlegar til yfirskattanefndar. Verður því að vísa kærunni frá að því er tekur til gjaldársins 1994.
Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981 eru rekstrartöp sérstaklega kæranleg. Eins og að framan greinir var hið umdeilda rekstrartap fellt af skattframtali kæranda árið 1994, sbr. bréf skattstjóra, dags. 7. febrúar 1995 og 14. mars 1995, en það ár var fyrsta framtalsár kæranda. Breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1995 laut einungis að því að fylgja þeirri ákvörðun eftir, sbr. bréf skattstjóra, dags. 25. júlí 1995, og kæruúrskurð, dags. 28. nóvember 1995.
Ef kærandi vildi ekki una breytingu skattstjóra á fjárhæð tilfærðs rekstrartaps í skattframtali árið 1994, þegar hið umdeilda tap var fyrst tilgreint, varð hann að kæra fyrrgreinda endurákvörðun skattstjóra frá 14. mars 1995 til hans, og skjóta málinu til yfirskattanefndar að gengnum kæruúrskurði skattstjóra, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 30/1992 ef tilefni var til. Þessa gætti kærandi ekki og getur hann ekki bætt úr því með því að bera fram efnisleg mótmæli við leiðréttingu skattstjóra á skattskilum hans gjaldárið 1995 vegna umrædds þáttar þeirra. Samkvæmt þessu verður að vísa kærunni frá að því er tekur til gjaldársins 1995.