Úrskurður yfirskattanefndar

  • Frádráttur á móti ökutækjastyrk
  • Skattmat ríkisskattstjóra

Úrskurður nr. 80/2002

Gjaldár 2000

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tölul.   Skattmat fyrir tekjuárið 1999  

Ágreiningur var um tilfærðan frádrátt kæranda á móti ökutækjastyrk. Hafnað var því viðhorfi kæranda að honum væri óskylt að gera sérstaklega grein fyrir akstri milli heimilis og vinnustaðar og vísaði yfirskattanefnd í því sambandi til skattmatsreglna. Var jafnframt bent á að vegna fjarlægðar aðalvinnustaðar kæranda frá heimili hans kynni sá annmarki á greinargerð kæranda um heildarnotkun bifreiða að hafa verulega þýðingu varðandi skiptingu aksturs milli einkanota og í þágu vinnuveitanda. Var hafnað að byggja á tilfærðum frádrætti í skattframtali kæranda. Hins vegar þótti lækkun skattstjóra á frádrætti nokkuð um skör fram og var því hækkuð að álitum.

I.

Samkvæmt kæru til yfirskattanefndar, dags. 14. mars 2001, er kæruefnið sú breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 2000 að lækka frádrátt á móti ökutækjastyrk í reit 32 í skattframtalinu úr 300.733 kr. í 80.000 kr., sbr. kæruúrskurð skattstjóra, dags. 19. desember 2000. Með kæruúrskurði þessum féllst skattstjóri á að leggja innsent skattframtal kæranda og eiginkonu hans til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2000 í stað áætlaðra skattstofna. Er á því byggt af hálfu kæranda að ákvörðun skattstjóra um lækkun frádráttarins hafi byggst á röngum forsendum hvað varðar mat á akstri milli heimilis og vinnustaðar og gildi akstursbókar. Þá er krafist greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði.

II.

Málavextir eru þeir að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 2000 og sætti kærandi því áætlun skattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda það ár, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með kæru, dags. 11. ágúst 2000, fylgdi skattframtal kæranda og eiginkonu hans árið 2000 og bárust gögn þessi skattstjóra 24. s.m. samkvæmt áritun skattstjóra á þau. Í kærunni var farið fram á að skattframtalið yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2000 í stað áætlaðra skattstofna án álags vegna síðbúinna framtalsskila. Samkvæmt tekjuframtali kæranda námu launatekjur hans frá X hf. 5.177.849 kr. auk fæðishlunninda 82.164 kr. Þá færði kærandi sér til tekna ökutækjastyrk frá X hf. að fjárhæð 673.785 kr. Til frádráttar í reit 32 í skattframtalinu færði hann kostnað á móti ökutækjastyrknum að fjárhæð 300.733 kr. Skattframtalinu fylgdu tvær ökutækjaskýrslur (RSK 3.04), annars vegar fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní 1999 vegna bifreiðarinnar R og hins vegar fyrir tímabilið 1. júlí til 31. desember 1999 vegna bifreiðarinnar S. Heildarakstur samkvæmt ökutækjaskýrslum þessum var tilgreindur 23.398 km. Akstur í þágu launagreiðanda var tilgreindur samtals 8.931 km. Sem annar akstur í eigin þágu voru tilgreindir samtals 14.467 km, en enginn akstur til og frá vinnu var tilgreindur í ökutækjaskýrslunum. Miðað við greindan akstur í þágu launagreiðanda og kostnað pr. ekinn km samkvæmt greinargerð þar um í ökutækjaskýrslunum nam kostnaður kæranda vegna aksturs í þágu launagreiðanda samtals 300.733 kr. Í ökutækjaskýrslunum kom fram að vinnustaður kæranda væri Keflavíkurflugvöllur.

Áður en skattstjóri tók skattframtal kæranda og eiginkonu hans til afgreiðslu sem kæru lagði hann fyrir kæranda með bréfi, dags. 14. september 2000, að leggja fram akstursdagbók eða akstursskýrslur vegna ársins 1999, jafnframt því að upplýsingar yrðu veittar um tilgreind atriði. Skyldi kærandi gera grein fyrir því hvernig ökutækjastyrkurinn væri ákvarðaður og hvað hann tæki mið af mörgum kílómetrum að frátöldum akstri milli heimilis og vinnustaðar. Í því sambandi skyldi aksturssamningur lagður fram eða önnur gögn er sýndu ákvörðun aksturs. Þá tók skattstjóri fram að enginn akstur væri tilgreindur milli heimilis og vinnustaðar í ökutækjaskýrslunum og væri óskað skýringa á því ásamt útreikningi á þeim kílómetrum, þ.e. upplýsingum um vegalengd og fjölda ferða milli heimilis og vinnustaðar á árinu 1999. Skattstjóri óskaði og sérstaklega eftir því að lögð yrðu fram gögn um viðgerðir/varahluti að fjárhæð 257.003 kr. samkvæmt ökutækjaskýrslu vegna bifreiðarinnar S. Skattstjóri vakti í bréfi sínu sérstaka athygli á því að samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra, sbr. leiðbeiningar á bakhlið ökutækjaskýrslu, teldist allur akstur milli heimilis og vinnustaðar í eigin þágu.

Með bréfi, dags. 8. október 2000, lagði kærandi fram umbeðin gögn, þ.e. akstursdagbók vegna bifreiðanna R og S, samning um launakjör, þar sem getið var akstursgreiðslna, og reikninga vegna rekstrar bifreiðanna. Kærandi greindi frá því að hann starfaði sem gæðastjóri hjá X hf. Félagið hefði aðsetur bæði á Keflavíkurflugvelli og í Reykjavík. Árið 1999 hefði aðalvinnustaður hans verið á Keflavíkurflugvelli, en starfsins vegna þyrfti hann að fara töluvert á milli þessara vinnustaða, eins og fram kæmi í meðfylgjandi akstursdagbók. Kærandi tók fram að hann gerði sér grein fyrir því að akstur milli heimilis og vinnustaðar teldist vera í eigin þágu og kostnaður vegna slíks aksturs væri því ekki frádráttarbær. Hins vegar kvaðst hann ekki hafa áttað sig á því að hann þyrfti að halda utan um akstur á milli heimilis og vinnustaðar og hefði hann þar af leiðandi ekki nákvæmar upplýsingar um þann akstur. Gat kærandi þess að oftast hefði verið um að ræða akstur til og frá Keflavíkurflugvelli. Kvaðst hann stundum hafa starfað á Keflavíkurflugvelli fyrir hádegi en Z í Reykjavík eftir hádegið. Þá hefði hann stundum ekið annarri bifreið, sem hefði verið á heimilinu, og stundum hefði hann fengið far með vinnufélaga.

Með kæruúrskurði, dags. 19. desember 2000, féllst skattstjóri á að leggja innsent skattframtal kæranda og eiginkonu hans árið 2000 til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2000, að gerðum tilgreindum breytingum, þar á meðal hinni umdeildu lækkun frádráttar kostnaðar í reit 32 á móti ökutækjastyrk. Hvað það atriði snertir tók skattstjóri fram að kærandi hefði ekki gert grein fyrir akstri milli heimilis og vinnustaðar og því væri ljóst að áætla yrði þann akstur. Yrði það gert með því að áætla um 40 km frá heimili kæranda að Keflavíkurflugvelli eða um 80 km fram og til baka. Stuðst væri við akstursbók og væri akstur milli heimilis og vinnustaðar reiknaður út frá henni, þ.e.a.s. talin þau skipti sem skráð væru í akstursbókina. Skattstjóri tók dæmi úr akstursbókinni vegna tímabilanna 3.–20. maí og 3.–30. september 1999. Varðandi akstur fyrra tímabilið þá hefði heildarakstur numið 1052,1 km, þar af akstur í þágu launagreiðanda 649,1 km, skráðar væru „9 ferðir í þágu launagreiðanda x 80 km (milli heimilis og vinnustaðar) samtals 720 km, mismunur er –317 km“. Síðara tímabilið hefði heildarakstur numið 2.008 km, þar af akstur í þágu launagreiðanda 1.039,9, skráðar ferðir „eru 15 í þágu launagreiðanda x 80 km (milli heimilis og vinnustaðar) samtals 1.200 km, mismunur er –231,9 km“. Þá sagði svo í kæruúrskurði skattstjóra:

„Rekja mætti alla akstursskýrsluna svona. Ljóst er að akstur kæranda í þágu launagreiðanda er það mikill að kærandi getur varla ekið á milli heimilis og vinnustaðar hvað þá í eigin þágu, og virðist því sbr. framangreint vera hreinlega um offærslu á akstri að ræða í þágu launagreiðanda. Taka skal fram að útreikningur skattstjóra á akstri á milli heimilis og vinnustaðar er varlega áætlaður en ljóst er að ef áætlaður væri akstur milli heimilis og vinnustaðar árið 1999 væri hann 17.600 km (220 dagar x 80 km). Heildarakstur ökutækis árið 1999 var 23.398 km og er það því ljóst að kærandi getur ekki hafa ekið 8.931 km í þágu launagreiðanda eins og fram kemur í akstursskýrslu hans. Benda má á að samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra sem hann setur samkvæmt heimild í 1. tl. 1. mgr. A-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981, telst allur akstur milli heimilis og vinnustaðar í eigin þágu og einnig sbr. 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu.

Með vísan til ofangreindra málsatvika þykir útfylling innsendrar akstursdagbókar og akstursskýrslu RSK 3.04 ábótavant þar sem ekki hefur verið gerð nein grein fyrir akstri milli heimilis og vinnustaðar. Verður því að telja akstur kæranda vera að stærstum hluta akstur milli heimilis og vinnustaðar sem er í eigin þágu sbr. matsreglur ríkisskattstjóra sem hann setur með heimild í 1. tl. 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Ekki er hægt að byggja á þessari framtalsgerð og verður því að áætla frádrátt á móti tekjufærðum ökutækjastyrk og lækka hann úr kr. 300.733 í kr. 80.000.“

III.

Með kæru, dags. 14. mars 2001, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 19. desember 2000, til yfirskattanefndar. Þess er krafist að hnekkt verði lækkun skattstjóra samkvæmt kæruúrskurðinum á frádrætti kostnaðar í reit 32 í skattframtali árið 2000 úr 300.733 kr. í 80.000 kr. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.

Umboðsmaður kæranda tekur fram í kærunni að í svarbréfi kæranda, dags. 8. október 2000, hafi komið fram að kærandi hefði ekki haldið sérstaklega utan um akstur milli heimilis og vinnustaðar. Því hafi kæranda ekki verið kleift að svara fyrrispurn skattstjóra að þessu leyti með óyggjandi hætti. Umboðsmaðurinn vísar til þess að skattstjóri hafi í kæruúrskurði sínum byggt á því að útfyllingu innsendrar akstursdagbókar og akstursskýrslu hafi verið ábótavant þar sem ekki hefði verið gerð nein grein fyrir akstri milli heimilis og vinnustaðar. Þannig sé meginröksemd skattstjóra sú að kærandi hafi ekki gert grein fyrir þessum þætti aksturs síns. Telur umboðsmaðurinn að heimild 94. gr. laga nr. 75/1981 til að óska eftir gögnum og skýringum hljóti að takmarkast við þau gögn sem lögskylt sé að halda. Krafa skattstjóra um skýrslu um aksturs milli heimilis og vinnustaðar styðjist því ekki við lög. Hvorki lög nr. 75/1981, reglugerð nr. 591/1987 né matsreglur ríkisskattstjóra geri þá kröfu að haldið sé utan um akstur milli heimilis og vinnustaðar, enda sé slíkur akstur ekki utan staðgreiðslu. Ekki sé unnt að túlka 94. gr. laga nr. 75/1981 með þeim hætti að skylt sé „að halda bókhald um óbókhaldsskylda hluti“. Þar sem úrskurður skattstjóra byggist á þeirri röngu forsendu að skylt sé að halda utan um slíkan akstur, að viðlagðri áætlun með handhófskenndum hætti, eigi það eitt sér að leiða til þess að úrskurður skattstjóra verði talinn rangur.

Umboðsmaður kæranda heldur því fram að við mat á því hvort akstursdagbók kæranda sé réttilega færð búi skattstjóri til reiknilíkan og út frá því líkani álykti hann að akstursdagbókin sé röng þar sem tilgreindur akstur í bókinni, að viðbættum akstri milli heimilis og vinnustaðar, sé meiri en kílómetramælar bifreiðanna sýni. Reiknilíkan skattstjóra sé þannig byggt upp að við skráðan akstur sé bætt 80 km akstri milli heimilis og vinnustaðar fyrir hvern dag, en kílómetrafjöldi þessi sé um það bil akstursvegalengd frá lögheimili kæranda til vinnustaðar hans á Keflavíkurflugvelli og heim aftur. Enda þótt ekki sé óeðlilegt að gera ráð fyrir því að menn fari heim til sín í lok vinnudags verði ekki séð að sú skylda sé lögð á þá, sem nýti sér heimild til frádráttar á móti ökutækjastyrkjum í 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, ætli þeir að nýta sér framangreinda heimild næsta dag. Umrædd nálgunaraðferð skattstjóra geti gagnast sem vinnuplagg við rannsókn mála en verði ekki lögð fram sem grundvallarröksemd fyrir lækkun frádráttar. Sé útreikningsaðferð skattstjóra því alfarið hafnað.

Umboðsmaður kæranda tekur fram að X hf. hafi haft starfsstöð bæði á Keflavíkurflugvelli og í Reykjavík. Það hafi farið eftir tilfallandi verkefnum við hvora starfsstöðina kærandi hafi starfað. Umboðsmaðurinn telur útreikning skattstjóra á akstri kæranda tímabilið 3. maí til 20. maí 1999 rangan. Heildarakstur kæranda hafi numið 1.233 km það tímabil, þar af 649 km í þágu launagreiðanda og 584 km í eigin þágu, sbr. greinargerð meðfylgjandi kæru. Tekur umboðsmaðurinn fram að við mat á réttmæti akstursskýrslunnar gefi skattstjóri sér að akstur til og frá vinnustað sé 80 km, þ.e. til Keflavíkur og heim aftur. Þetta geri skattstjóri þrátt fyrir að ljóst sé að starfs síns vegna ljúki kærandi starfsdeginum í Reykjavík. Samkvæmt eðli máls og með stoð í 2. málsl. 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 591/1987 verði að telja að akstur kæranda á milli Keflavíkur og Z sé akstur í þágu launagreiðanda. Sá akstur sé ávallt í vinnutíma kæranda vegna erinda kæranda í þágu launagreiðanda, til dæmis vegna kennslu eða funda. Engin sjáanleg lagarök undanskilji umræddan akstur frádrætti. Af framangreindu megi vera ljóst að allar forsendur reiknilíkans skattstjóra séu grundvallaðar á röngum forsendum.

IV.

Með bréfi, dags. 27. apríl 2001, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

V.

Eins og fram er komið taldi kærandi ekki fram innan tilskilins framtalsfrests árið 2000 og sætti af þeim sökum áætlun skattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2000. Skattframtal kæranda og eiginkonu hans árið 2000 barst skattstjóra 24. ágúst 2000, þ.e. í kærufresti til skattstjóra. Eins og skattframtalið bar að samkvæmt þessu var skattstjóri ekki bundinn af tilkynningar- og fyrirspurnarákvæðum 95. og 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, hygðist hann breyta framtalinu eða vefengja það í heild sinni eða að hluta. Skattstjóra bar hins vegar að rökstyðja kæruúrskurð sinn, þ.m.t. breytingar sem hann gerði á framtalinu, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981 og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og sjá til þess samkvæmt rannsóknarreglu, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að málið væri nægjanlega upplýst væru ákvarðanir teknar sem krefðust slíks. Í kjölfar bréfaskipta, sbr. bréf skattstjóra, dags. 14. september 2000, og svarbréf kæranda, dags. 8. október 2000, kvað skattstjóri upp kæruúrskurð sinn, dags. 19. desember 2000.

Eins og fram er komið er kæruefnið í máli þessu sú breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 2000, sem hann ákvarðaði með greindum kæruúrskurði, að lækka tilfærðan frádrátt kostnaðar í reit 32 í skattframtali kæranda árið 2000 að fjárhæð 300.733 kr. á móti ökutækjastyrk frá vinnuveitanda kæranda, X hf., að fjárhæð 673.785 kr. í reit 22 í 80.000 kr. eða um 220.733 kr. Byggði skattstjóri þessa ákvörðun sína á vefengingu á skiptingu aksturs kæranda vegna greindra bifreiða annars vegar í einkaþágu, þar á meðal til og frá vinnu, og hins vegar í þágu vinnuveitanda. Taldi skattstjóri akstur kæranda í þágu vinnuveitanda oftalinn og byggði þá ályktun sína á því að kærandi hefði ekki gert grein fyrir akstri milli heimilis og vinnustaðar sem teldist vera í einkaþágu samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra. Leiddi skattstjóri líkur að þeim akstri og setti fram dæmi sem hann taldi sýna að skráður akstur í þágu vinnuveitanda samkvæmt akstursdagbók væri ekki trúverðugur. Af hálfu umboðsmanns kæranda er þess krafist að breytingu skattstjóra verði hnekkt. Er á því byggt að kæranda hafi ekki verið skylt að halda utan um akstur milli heimilis og vinnustaðar, jafnframt því að útreikningsaðferð skattstjóra standist ekki. Sé ákvörðun skattstjóra því byggð á röngum forsendum.

Samkvæmt 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 er frádráttur kostnaðar á móti ökutækjastyrk heimill að þargreindum skilyrðum uppfylltum, þar á meðal því að slík útgjöld séu sönnuð og í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra. Samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra fyrir tekjuárið 1999 (framtalsárið 2000), sbr. auglýsingu nr. 16/2000, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda, þarf framteljandi að hafa fært akstursdagbók eða akstursskýrslu, þar sem skráð sé hver ferð, vegalengd, aksturserindi, nafn og kennitala launamanns og einkennisnúmer viðkomandi ökutækis, sbr. reglugerð nr. 490 frá 28. desember 1992. Skal færa þessi gögn reglulega og skulu þau vera aðgengileg skattyfirvöldum þegar þau óska þess. Þá telst ökutækjakostnaður því aðeins sannaður að meðal annars sé gerð grein fyrir kostnaði við rekstur ökutækisins. Hafi framteljandi fengið greiðslu fyrir afnot af eigin bifreið í þágu launagreiðanda síns á árinu 1999, þannig að um hafi verið að ræða endurgreiðslu á kostnaði við rekstur hennar, og sá akstur verið 2.000 km eða minni, þá er samkvæmt matsreglunum fallið frá kröfu um sannanlegan ökutækjakostnað. Þetta er þó bundið þeim skilyrðum að framteljandi hafi fært akstursdagbók eða akstursskýrslu þar sem skráð hafi verið hver ferð, ekin vegalengd og aksturserindi og að kílómetragjald hafi verið greitt í samræmi við skattmat ríkisskattstjóra á árinu 1999 fyrir hvern ekinn kílómetra samkvæmt akstursdagbók. Í matsreglum ríkisskattstjóra, sbr. lið 3.1.1. í greindum skattmatsreglum fyrir tekjuárið 1999, er mælt fyrir um framlagningu skattaðila á greinargerð um heildarnotkun ökutækis. Skal slík greinargerð vera þannig sundurliðuð að í fyrsta lagi sé gerð grein fyrir akstri til og frá vinnu er telst allur vera í eigin þágu, í öðru lagi öðrum akstri í eigin þágu og í þriðja lagi akstri í þágu launagreiðanda. Samkvæmt þessu er ljóst að samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra telst allur akstur milli heimilis og vinnustaðar vera í eigin þágu skattaðila og er það út af fyrir sig óumdeilt í málinu. Samkvæmt þessu bar kæranda að gera grein fyrir akstri milli heimilis og vinnustaðar væri honum til að dreifa. Þess er og rétt að geta að greinargerð um skiptingu aksturs annars vegar í eigin þágu, þ.m.t. akstur til og frá vinnu, og hins vegar í þágu launagreiðanda er grundvöllur til ákvörðunar á fjárhæð frádráttar kostnaðar í reit 32 á móti ökutækjastyrk sem skattaðila ber að færa sönnur á, sbr. m.a. H 1996:1955. Að þessu athuguðu verður ekki fallist á það viðhorf umboðsmanns kæranda í kæru til yfirskattanefndar, dags. 14. mars 2001, að kæranda hafa ekki verið skylt, m.a. samkvæmt nánari túlkun á 94. gr. laga nr. 75/1981, að gera sérstaklega grein fyrir akstri milli heimilis og vinnustaðar.

Eins og fram er komið var enginn akstur milli heimilis og vinnustaðar tilfærður í ökutækjaskýrslum kæranda (RSK 3.04) sem fylgdu skattframtali hans árið 2000. Með bréfi sínu, dags. 14. september 2000, krafði skattstjóri kæranda sérstaklega um upplýsingar um þennan þátt akstursins. Í svarbréfi kæranda, dags. 8. október 2000, kom fram að hann hefði ekki gert sér grein fyrir því að hann þyrfti að halda utan um akstur milli heimilis og vinnustaðar. Þá kom m.a. fram að aðalvinnustaður hans hefði verið á Keflavíkurflugvelli á árinu 1999 og oftast hefði verið um að ræða akstur til og frá Keflavíkurflugvelli. Þá kom og fram í svarbréfi kæranda að starfsins vegna hefði hann þurft að fara töluvert á milli starfsstöðva vinnuveitanda á Keflavíkurflugvelli og í Reykjavík. Verður að skilja athugasemdir umboðsmanns kæranda varðandi akstur milli Keflavíkur og Z í Reykjavík í kæru til yfirskattanefndar í samhengi við þetta.

Samkvæmt framansögðu liggur mál þetta þannig fyrir að enn hefur kærandi ekki gert grein fyrir akstri milli heimilis og vinnustaðar svo sem áskilið er samkvæmt greindum skattmatsreglum. Vegna fjarlægðar þeirrar starfstöðvar, sem kærandi hefur sjálfur upplýst að verið hafi aðalvinnustaður sinn árið 1999, frá heimili hans kann þessi annmarki á greinargerð kæranda um heildarnotkun bifreiða hans að hafa verulega þýðingu varðandi skiptingu aksturs milli einkanota og í þágu vinnuveitanda. Staðhæfing umboðsmanns kæranda í kæru til yfirskattanefndar um að tilgreindan þátt akstursins beri að telja í þágu vinnuveitanda breytir því út af fyrir sig ekki að upplýsingar vantar eftir sem áður um þetta. Þá verður að árétta, sbr. það sem fyrr greinir, að einstaka akstursþætti ber að virða í órofa samhengi og ágallar á einum þætti rýra trúverðugleika hinna. Að þessu athuguðu og eins og málið liggur fyrir verður að taka undir það með skattstjóra að akstursskipting kæranda og þar með tilfærð fjárhæð hins umdeilda frádráttar sé ekki byggð á viðhlítandi grundvelli. Verður því ekki byggt á tilfærðum frádrætti í skattframtali svo sem krafist er af hálfu kæranda og er kröfu hans þar um því hafnað. Skattstjóri ákvarðaði kæranda frádrátt að fjárhæð 80.000 kr. eins og fyrr greinir. Svarar sú fjárhæð til ríflega 2.050 km aksturs í þágu vinnuveitanda. Þykir sú lækkun nokkuð um skör fram og þykir mega hækka frádráttarfjárhæð að álitum í 200.000 kr.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins, sem gengið hefur kæranda í hag að hluta, þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Af hálfu kæranda hafa ekki verið lagðir fram reikningar um útlagðan kostnað hans við meðferð málsins, en ætla verður þó að um slíkan kostnað hafi verið að ræða. Með vísan til framanritaðs og lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði þykir málskostnaður kæranda hæfilega ákveðinn 10.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Frádráttur kostnaðar í reit 32 í skattframtali kæranda árið 2000 ákvarðast 200.000 kr. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 10.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja