Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag vegna síðbúinna framtalsskila
  • Kröfugerð ríkisskattstjóra

Úrskurður nr. 163/2002

Gjaldár 2001

Lög nr. 75/1981, 106. gr. 1. mgr.  

Mál þetta varðaði álagsbeitingu vegna síðbúinna framtalsskila og var ágreiningur bæði um það hvenær skattframtal barst skattstjóra og hvenær framtalsfrestur rann út í tilviki kærenda. Yfirskattanefnd taldi skorta á markvissa umfjöllun um þessi atriði í kröfugerð ríkisskattstjóra og benti á að tilefni hefði verið til að ríkisskattstjóri aflaði gagna um þau. Þá lá fyrir að skattstjóri hafði ákvarðað hið kærða álag of hátt. Var álagið fellt niður.

I.

Málavextir eru þeir að skattstjóri byggði á því að kærendur hefðu ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 2001. Við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2001 sættu kærendur því áætlun skattstjóra á skattstofnum, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattframtal kærenda árið 2001 barst skattstjóra hinn 18. júní 2001 samkvæmt áritun skattstjóra á framtalið um móttöku þess. Leit skattstjóri svo á að skattframtalið hefði borist að liðnum framtalsfresti en áður en álagningu var lokið. Tók hann skattframtalið því sem kæru samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981 og kvað upp kæruúrskurð hinn 4. september 2001 þar sem hann féllst á að byggja álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2001 á framtalinu óbreyttu. Hins vegar bætti skattstjóri 15% álagi á skattstofna samkvæmt skattframtalinu vegna síðbúinna framtalsskila með vísan til 106. gr. laga nr. 75/1981. Bætti skattstjóri 15% álagi við útsvars- og tekjuskattsstofn kæranda, A, sem nam 1.152.000 kr. samkvæmt framtalinu þannig að álagsfjárhæð varð 172.800 kr. og skattstofninn að meðtöldu álagi því 1.324.800 kr. Ekki bætti skattstjóri álagi við útsvars- og tekjuskattsstofn kæranda, B, sem nam 992.000 kr. samkvæmt framtalinu. Að gerðri leiðréttingu skattstjóra með tilliti til færslu skulda umfram eignir í atvinnurekstri 4.444.168 kr. nam eignarskattsstofn hvors kærenda 7.107.950 kr. Á þann stofn bætti skattstjóri 15% álagi eða 1.066.193 kr. þannig að eignarskattsstofn að meðtöldu álagi hjá hvoru kærenda nam 8.174.140 kr. Tók skattstjóri fram að framtalsskilin væru það síðbúin að ekki væru efni til annars en beita álagi samkvæmt greindu ákvæði, enda hefði ekki verið sýnt fram á það af hálfu kærenda að atvik hefðu verið með þeim hætti, sem greinir í 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, þannig að fella bæri álagið niður. Varðandi síðbúin framtalsskil fyrri ára vísaði skattstjóri til þess að skattframtölum kærenda árin 1999 og 2000 hefði einnig verið skilað það seint að þurft hefði að áætla skattstofna.

II.

Með kæru, dags. 5. október 2001, hefur umboðsmaður kærenda skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 4. september 2001, til yfirskattaefndar. Er álagsbeitingu skattstjóra vegna síðbúinna framtalsskila kærenda árið 2001 mótmælt sem ólöglegri og tilefnislausri og er þess krafist að hún verði felld niður.

Umboðsmaður kærenda tekur fram að skattstjóri hafi með kæruúrskurði sínum bætt 15% álagi á útsvars- og tekjuskattsstofn kæranda, A, og eignarskattsstofn beggja kærenda. Heimild til að bæta 15% álagi við skattstofna sé að finna í 106. gr. laga nr. 75/1981 og sé hún bundin því að skattframtali hafi verið skilað eftir lok álagningar. Skattframtali kærenda hafi verið skilað hinn 15. júní 2001 eða einum og hálfum mánuði fyrir lok álagningar það ár. Beri þegar af þeirri ástæðu að fella álagið niður. Þá ber umboðsmaður kærenda því við að skattstjóri hafi veitt frest til að skila skattframtali til 14. júní 2001 þannig að skattframtal kærenda árið 2001 hafi borist skattstjóra einum degi eftir lok framtalsfrests. Í slíkum tilvikum hafi skattstjóri heimild til að beita álagi sem nemi 0,5% fyrir hvern dag sem framtalsskil hafi dregist fram yfir veittan frest, í tilviki kærenda samtals 0,5% álagi. Þar sem skattstjóri hafi ekki vísað til þeirrar reglu komi hún þó ekki til álita í tilviki kærenda. Þá hafi skattstjóra borið við ákvörðun álags að taka tillit til þess að hve miklu leyti innheimta gjalda hafi farið fram í staðgreiðslu, sbr. 2. tölulið auglýsingar ríkisskattstjóra nr. 9 frá 30 maí 1991, um reglur um beitingu álags á gjaldstofna þegar of seint eða ekki er fram talið. Í tilviki kæranda, A, hafi skattstjóri beitt álagi á allan útsvars- og tekjuskattsstofn án tillits til þess hluta sem gerð hafi verið grein fyrir í staðgreiðslu. Einnig af þessari ástæðu beri að fella niður álagsbeitingu skattstjóra. Þá tekur umboðsmaður kærenda fram að það sé brot á stjórnsýslulögum og jafnræðisreglu stjórnarskrár að mismuna kærendum með því að leggja álag á tekjuskattsstofn annars þeirra en ekki hins. Kærendur í málinu séu hjón og hafi þau skilað sameiginlegum skattframtölum í meira en aldarfjórðung. Eigi því sömu forsendur við báða kærendur hvort heldur litið sé til framtalsskila árið 2001 eða framtalsskila allmargra undangenginna ára. Séu því engin rök fyrir því að mismuna þeim og beita álagi í tilviki annars þeirra en ekki hins. Þá verði ekki séð að lagaheimild sé til staðar til að bæta álagi vegna síðbúinna framtalsskila við suma skattstofna í sama skattframtali sama aðila en ekki á aðra, eins og gert hafi verið í tilviki kæranda, B. Einnig af þessum sökum beri að fella álagið niður.

III.

Með bréfi, dags. 14. desember 2001, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Samkvæmt auglýsingu nr. 8/2001, sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda, var frestur einstaklinga sem eigi hafa með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, til að skila framtölum til skattstjóra til 26. mars 2001. Frestur til að skila framtali með rafrænum hætti á upplýsingavef ríkisskattstjóra var til 2. apríl 2001.

Þeir sem hafa atvinnu af því að skila framtölum fyrir aðra urðu í síðasta lagi að vera búnir að senda inn framtöl fyrir einstaklinga utan rekstrar 14. maí 2001.

Framtal kæranda ber ekki með sér að það hafi verið unnið af manni sem hefur atvinnu af því að skila framtölum fyrir aðra.

Ríkisskattstjóri hafnar þeirri málsástæðu umboðsmanns kæranda að skattstjóri hafi veitt framtalsfrest til 14. júní 2001 og að framtal kæranda hafi borist 15. júní 2001 eða einum degi eftir lok framtalsfrests. Eins og fyrr segir var frestur einstaklinga til að skila framtölum til skattstjóra 26. mars 2001. Þá ber framtal kæranda með sér að skattstjóri hafi móttekið það 18. júní 2001.

Ríkisskattstjóri getur fallist á að skattstjóri hafi ekki haft heimild til að leggja 15% álag á útsvars- og tekjuskattsstofn A og eignarskattsstofna beggja hjónanna, þar sem ekki má bæta hærra álagi en 10% á skattstofna, hafi framtal sem álagning verður byggð á borist eftir lok framtalsfrests en áður en álagningu skattstjóra er lokið, sbr. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Ríkisskattstjóri gerir þá kröfu að fallist verði á 10% álag á skattstofna kærenda, enda var skattframtölum 1996, 1999 og 2000 skilað það seint að áætla þurfti skattstofna.

Þá gerir umboðsmaður kærenda þá kröfu að álag á gjaldstofna kærenda verði fellt niður sökum þess að kærendum hafi verið mismunað með því að leggja álag á tekjuskattsstofn annars þeirra en ekki hins. Sé þar um að ræða brot á stjórnsýslulögum og jafnræðisreglu stjórnarskrár. Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 307/2001 segir: „Tekið skal fram af þessu tilefni að þótt misbrestur kunni að verða á framkvæmd stjórnvalds á tiltekinni réttarreglu gagnvart einstökum aðilum geta aðilar almennt ekki á grundvelli jafnræðisreglu krafist þess að stjórnvald haldi áfram meintu athafnaleysi og hagi sér svo gagnvart þeim.“ Með hliðsjón af framangreindum úrskurði gerir ríkisskattstjóri þá kröfu að þessari málsástæðu kærenda verði hafnað.

Samkvæmt framansögðu gerir ríkisskattstjóri þá kröfu að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með þeirri leiðréttingu að álag verði 10% í stað 15%.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 17. desember 2001, var kærendum sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og þeim gefinn kostur á að leggja fram gögn til skýringar og tjá sig um þau atriði í kröfugerðinni sem þau teldu ástæðu til. Gefinn var 20 daga frestur til athugasemda.

Með bréfi, dags. 28. desember 2001, hefur umboðsmaður kærenda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Tekur umboðsmaðurinn fram að kjarni málsins sé að skattstjóri hafi beitt ólögmætu hlutfalli álags og sé það óumdeilt. Við slíkar aðstæður standi úrskurðavenja yfirskattanefndar og áður ríkisskattanefndar til þess að fella álag með öllu niður, sbr. m.a. úrskurð ríkisskattanefndar nr. 604/1988. Með vísan til þess sé krafa um niðurfellingu álagsins ítrekuð. Þá mótmælir umboðsmaður kærenda þeirri staðhæfingu ríkisskattstjóra að skattframtal kærenda árið 2001 hafi ekki borið með sér að vera gert af manni sem hafi atvinnu af gerð skattframtala. Hafi skattframtalið verið gert af umboðsmanninum og hafi það átt að bera það með sér. Hafi sú merking farist fyrir sé beðist velvirðingar á því, en fyrir liggi allt að einu að skattframtalið hafi verið gert af manni sem atvinnu hafi af gerð skattframtala með tilheyrandi framlengdum skilafresti. Skattstjórinn í Reykjanesumdæmi hafi veitt slíkum mönnum skilafrest til 14. júní 2001 og hafi skattframtöl, sem umboðsmaðurinn hafi skilað að morgni þess dags, verið látin liggja til grundvallar við álagningu opinberra gjalda athugasemdalaust. Í slíkum tilvikum sé skattstjóra aðeins heimilt að beita álagi sem nemi 0,5% fyrir hvern dag sem framtalsskil hafi dregist fram yfir veittan frest, í tilviki kærenda samtals 0,5%. Með því að skattstjóri hafi ekki vísað til þeirrar reglu komi hún ekki til álita í tilviki kærenda, sbr. ennfremur ómerkingu álagsbeitingar þegar röngu hlutfalli hafi verið beitt. Að öðru leyti ítrekar umboðsmaður kærenda þær málsástæður sem fram komu í kæru, þ. á m. að skattstjóri hafi ekki gætt þess að taka tillit til innheimtu gjalda í staðgreiðslu og ekki sé lagaheimild til að bæta álagi við suma skattstofna í sama skattframtali sama aðila en ekki aðra.

Í bréfi sínu krefst umboðsmaður kærenda þess að kærendum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði að fjárhæð samtals 31.125 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti. Gerir umboðsmaðurinn nokkra grein fyrir vinnu sinni við málið.

IV.

Óumdeilt er í máli þessu að af hálfu kærenda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 2001, enda þótt ágreiningur sé bæði um það hvenær skattframtal kærenda barst skattstjóra og hvenær framtalsfrestur rann út í tilviki kærenda árið 2001. Með auglýsingu, dags. 31. júlí 2001, sem birtist í 91. tölublaði Lögbirtingablaðsins 2001, sem kom út 31. júlí 2001, var tilkynnt um lok álagningar á alla einstaklinga sem skattskyldir eru samkvæmt lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. I. kafla laganna, sbr. 1. mgr. 93. gr. og 1. mgr. 98. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 15. og 16. gr. laga nr. 149/2000, um breyting á lögum nr. 75/1981. Skattstjóri byggði á því að skattframtal kærenda árið 2001 hefði borist 18. júní 2001, en af hálfu umboðsmanns kærenda er því haldið fram að skattframtalið hafi borist 15. júní 2001. Samkvæmt þessu er óumdeilt að skattframtalið barst eftir að framtalsfresti lauk en áður en álagningu var lokið. Samkvæmt því bar skattstjóra að fara með skattframtalið sem kæru samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981 sem hann og gerði, sbr. kæruúrskurð skattstjóra, dags. 4. september 2001, þar sem hann féllst á að leggja innsent skattframtal kærenda árið 2001 óbreytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda þeirra gjaldárið 2001 að viðbættu hinu umdeilda 15% álagi á tilgreinda skattstofna vegna síðbúinna framtalsskila.

Eins og fram er komið rökstuddi skattstjóri hina kærðu álagsbeitingu með vísan til þess að framtalsskilin væru það síðbúin að ekki stæðu efni til annars en að beita álagi. Jafnframt skírskotaði skattstjóri til þess að um ítrekuð síðbúin framtalsskil væri að ræða, sbr. framtalsskil kærenda árin 1999 og 2000 sem einnig hefðu verið síðbúin. Af hálfu umboðsmanns kærenda er krafan um niðurfellingu álagsins byggð á nokkrum málsástæðum. Í fyrsta lagi er því borið við að álagið hafi ekki byggst á réttum lagagrundvelli, enda verði 15% álagi ekki beitt þegar skattframtal hafi borist eftir lok framtalsfrests en áður en álagningu sé lokið, sbr. niðurlagsákvæði 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981. Er þetta raunar óumdeilt, sbr. kröfugerð ríkisskattstjóra, þar sem fallist er á að álagið lækki í 10%. Af hálfu umboðsmanns kærenda er því haldið fram að einungis hefði verið unnt að beita 0,5% álagi, enda hafi skattframtalið aðeins borist einum degi of seint. Þar sem skattstjóri hafi ekki byggt á greindri álagsheimild sé hins vegar ekki unnt að beita henni í tilviki kærenda. Í öðru lagi telur umboðsmaður kærenda að skattstjóri hafi ekki gætt þess að taka tillit til þess að hve miklu leyti innheimta opinberra gjalda hafi farið fram í staðgreiðslu, sbr. auglýsingu ríkisskattstjóra nr. 9/1991, dags. 30. maí 1991, um reglur um beitingu álags á gjaldstofna þegar of seint eða ekki er fram talið. Í þriðja lagi byggir umboðsmaður kærenda á því að ekki standist samkvæmt jafnræðisreglum að leggja álag á tekjuskattsstofn annars kærenda en ekki hins svo sem raunin sé í tilviki kærenda, jafnframt því að ekki sé lagaheimild til að bæta álagi vegna síðbúinna framtalsskila við suma skattstofna í sama skattframtali sama aðila svo sem gert sé í tilviki kæranda, B.

Í 1. málsl. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, segir að skattstjóri megi bæta allt að 15% álagi við þá skattstofna sem hann áætlar telji framtalsskyldur aðili ekki fram til skatts innan tilskilins frests. Þó skuli skattstjóri taka tillit til að hve miklu leyti innheimta gjalda hafi farið fram í staðgreiðslu og skuli ríkisskattstjóri setja nánari reglur um það atriði, sbr. 2. og 3. málsl. 1. mgr. lagagreinar þessarar. Berist framtal, sem álagning verði byggð á, eftir lok framtalsfrests en áður en álagningu skattstjóra sé lokið, megi þó aðeins bæta 0,5% álagi á skattstofna fyrir hvern dag sem skil hafi dregist fram yfir frestinn, þó ekki hærra álagi en 10%, sbr. niðurlagsákvæði 1. mgr. 106. gr. laganna. Í 3. mgr. sömu lagagreinar er boðið að fella skuli niður álag samkvæmt greininni ef skattaðili færi rök að því að honum verði eigi kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess.

Ríkisskattstjóri hefur á grundvelli 3. málsl. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 sett reglur um beitingu álags á gjaldstofna þegar of seint eða ekki er fram talið, sbr. auglýsingu embættisins nr. 9/1991, dags. 30. maí 1991, sem birtist í 71. tbl. Lögbirtingablaðsins 1991. Þar kemur fram að þegar framtal berst eftir lok framtalsfrests en áður en álagningu skattstjóra sé lokið, sbr. framangreinda heimild 4. málsl. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, megi skattstjóri bæta 0,5% álagi á stofna til tekjuskatts og útsvars umfram 95% af stofni sem staðgreiðslu var skilað af fyrir hvern dag sem skil á framtali dragast fram yfir framtalsfrest, þó ekki hærra álagi en 10%. Segir að þannig útreiknuð fjárhæð teljist réttilega ákvarðað álag á gjaldstofna samkvæmt innsendu framtali skv. 2. málslið 1. mgr. 106. gr. tekjuskattslaga.

Í tilefni af málsástæðum umboðsmanns kærenda skal tekið fram að með lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. nú lög nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, voru m.a. gerðar þær breytingar á ákvæðum um álag á skattstofna, sbr. 106. gr. laga nr. 75/1981, að beiting álags var ekki lengur skyldubundin og óhjákvæmileg afleiðing ákveðinna atvika, svo sem áður hafði verið, sbr. 47. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, heldur varð um heimildarákvæði að ræða. Af þessu leiðir að skattstjórum ber sérstaklega að rökstyðja beitingu álags með hliðsjón af því að um heimild til beitingar álags er að ræða en ekki skyldu, sbr. 5. mgr. 96. gr. og 4. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt þessu hefur löggjafinn með 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 veitt skattyfirvöldum heimild til að beita álagi á skattstofna vegna vantandi eða síðbúinna framtalsskila. Af beinni orðalagsskýringu ákvæðisins verða ekki ráðin nein sérstök sjónarmið sem skattyfirvöldum ber að horfa til í mati sínu og verður því að játa þeim nokkuð rúmt svigrúm í þessu efni að því gættu að sjónarmið þau, sem lögð eru til grundvallar, séu málefnaleg og í samræmi við meginreglur stjórnsýsluréttar um jafnræði og meðalhóf, sbr. sjónarmið í áliti umboðsmanns Alþingis frá 26. júlí 1999 í málinu nr. 2309/1997 (SUA 1999:196). Samkvæmt langri skatt- og úrskurðaframkvæmd varðandi álagsbeitingu vegna síðbúinna framtalsskila hefur skipt máli hvort um ítrekuð síðbúin framtalsskil er að ræða. Um þetta má m.a. vísa til úrskurða ríkisskattanefndar nr. 174/1987 og 211/1987, sem birtir eru á bls. 185 og 190 í úrskurðasafni nefndarinnar vegna uppkveðinna úrskurða á árunum 1986-1989. Þá skal þess og getið að samkvæmt úrskurðaframkvæmd er litið svo á að framteljendur geti ekki losnað undan ábyrgð sinni á því að skattframtal berist skattstjóra í tæka tíð með því að fela öðrum gerð þess og skil.

Eins og fram er komið taldi skattstjóri að framtalsskil kærenda árið 2001 væru það síðbúin að ekki stæðu efni til annars en að beita álagi. Þá rökstuddi skattstjóri álagsbeitinguna með vísan til þess að skattframtölum kærenda árin 1999 og 2000 hefði verið skilað það seint að þurft hefði að áætla skattstofna kærenda. Eins og fyrr greinir miðaði skattstjóri við að skattframtal kærenda árið 2001 hefði borist hinn 18. júní 2001. Umboðsmaður kærenda heldur því hins vegar fram að skattframtalið hafi borist skattstjóra hinn 15. júní 2001. Samkvæmt þessu og með vísan til fyrrgreindrar skatt- og úrskurðaframkvæmdar þykir ákvörðun skattstjóra um beitingu álags í tilviki kærenda gjaldárið 2001 samkvæmt 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 að þessu leyti nægjanlega rökstudd.

Samkvæmt 2. mgr. 93. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 15. gr. laga nr. 149/2000, skal ríkisskattstjóri í upphafi hvers árs ákveða fresti skattaðila til að skila skattframtali, sbr. 91. gr. laganna, og þeim gögnum sem um ræðir í 92. gr. þeirra. Heimilt er að breyta þeim frestum ef nauðsyn krefur. Með auglýsingu nr. 60, 10. janúar 2001, sbr. breytingu með auglýsingu nr. 187, 5. mars 2001, sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda, setti ríkisskattstjóri reglur samkvæmt þessu um fresti til að skila framtölum. Í 2. gr. auglýsingarinnar er mælt svo fyrir að framtölum manna, sem hafa með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, skuli skilað til skattstjóra eða umboðsmanns hans eigi síðar en 26. mars 2001. Skattstjóra sé heimilt, ef sérstaklega stendur á, að veita frekari frest til að skila framtali, þó ekki lengur en til 9. apríl 2001. Sé framtali skilað með rafrænum hætti á upplýsingavef ríkisskattstjóra sé skilafrestur þó til 9. apríl 2001. Þá er þess að geta að ríkisskattstjóri setti árið 2001 sérstakar reglur og skilmála fyrir lengdum framtalsfrestum til handa þeim sem hafa atvinnu af framtalsgerð, þ.e. umfram almenna framtalsskilafresti samkvæmt greindri auglýsingu, en reglur þessar voru birtar á upplýsingavef ríkisskattstjóra (www.rsk.is). Samkvæmt þeim reglum gat framtalsskilafrestur þeirra manna, sem hafa með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, verið allt til 5. júní 2001, enda væru nánar tilgreindir skilmálar ríkisskattstjóra samkvæmt reglunum haldnir.

Ekki kemur fram í kæruúrskurði skattstjóra hvenær framtalsfrestur rann út í tilviki kærenda. Í kröfugerð ríkisskattstjóra, dags. 14. desember 2001, er ranglega miðað við það að reglur um skilafrest manna, sem ekki hafa með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, eigi við í tilviki kærenda. Það stenst ekki, enda reka kærendur einkafirmað X, sbr. ársreikning þess firma sem fylgdi skattframtalinu. Samkvæmt þessu telur ríkisskattstjóri að í síðasta lagi hafi borið að skila skattframtali kærenda árið 2001 hinn 14. maí 2001, sbr. framangreindar reglur varðandi þá sem atvinnu hafa af framtalsgerð. Þá virðist ríkisskattstjóri draga í efa að skattframtal kærenda hafi verið unnið af manni sem atvinnu hefur af framtalsgerð. Því hefur umboðsmaður kærenda, sem er löggiltur endurskoðandi, mótmælt, sbr. bréf hans, dags. 28. desember 2001, og staðhæfir að hann hafi gert framtalið, en sérstök merking þar um hafi hugsanlega farist fyrir.

Vegna framangreindra aðstæðna var ríkt tilefni til þess að ríkisskattstjóri fjallaði með markvissari hætti um það hvenær framtalsfrestur rann út í tilviki kærenda og jafnframt hvenær skattframtal þeirra árið 2001 barst skattstjóra og aflaði eftir atvikum nauðsynlegra gagna um þessi atriði, sbr. sérstaklega síðari málslið 3. mgr. 6. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. a-lið 2. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum, og þá ekki síst þar sem hann dró staðhæfingar umboðsmanns kærenda um greind atriði í efa. Var sérstakt tilefni til þess að leitt yrði í ljós með óyggjandi hætti hvernig umræddum atriðum var farið, enda gátu þau varðað grundvöll réttrar álagsbeitingar, sbr. niðurlagsákvæði 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981. Þá liggur fyrir og er óumdeilt, sbr. kröfugerð ríkisskattstjóra, að skattstjóri ákvarðaði álag kærenda of hátt þar sem hann beitti ranglega 15% álagi samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, en sú álagsheimild átti ekki við í tilviki kærenda, eins og fram er komið. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, þykir bera að fella hið kærða álag niður með öllu. Samkvæmt því er krafa kærenda tekin til greina.

Rétt er að taka fram vegna þeirra málsástæðna umboðsmanns kærenda að ekki hafi staðist, m.a. samkvæmt jafnræðisreglum, að beita álagi á útsvars- og tekjuskattsstofn annars kærenda en ekki hins og að skattstjóri hafi ekki gætt þess að taka tillit til þess að hve miklu leyti innheimta fór fram í staðgreiðslu, að samkvæmt staðgreiðsluskrá var ekki um að ræða neina staðgreiðslu opinberra gjalda vegna kæranda, A, en í tilviki kæranda, B, var skilaskyld staðgreiðsla reiknuð af reiknuðu endurgjaldi að fjárhæð 1.469.904 kr. Samkvæmt skattframtali árið 2001 og kæruúrskurði skattstjóra er útsvars- og tekjuskattsstofn kæranda, B, 992.000 kr. Samkvæmt þessu, sbr. og 2. málsl. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 og greinda auglýsingu ríkisskattstjóra nr. 9/1991, dags. 30. maí 1991, eiga þessar athugasemdir umboðsmanns kærenda ekki við rök að styðjast.

Umboðsmaður kærenda hefur gert kröfu um að kærendum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði að fjárhæð 31.125 kr. samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kærendum málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Af hálfu kærenda hafa ekki verið lagðir fram reikningar um útlagðan kostnað þeirra við meðferð málsins, en gerð hefur verið grein fyrir slíkum kostnaði. Með vísan til framanritaðs og lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði þykir málskostnaður kærenda hæfilega ákveðinn 20.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hið kærða álag fellur niður. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 20.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja