Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður
  • Stofnkostnaður
  • Upphaf atvinnurekstrar

Úrskurður nr. 173/2002

Gjaldár 2000

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr., 31. gr. A, 60. gr. 2. mgr.  

Kærandi, hugbúnaðarfyrirtæki sem starfaði aðallega að gerð tölvuleiks, hafði engar tekjur haft frá stofnun félagsins. Í málinu krafðist félagið þess að rekstrargjöld ársins 1999, sem færð höfðu verið til eignar í efnahagsreikningi sem stofnkostnaður, yrðu viðurkennd sem yfirfæranlegt rekstrartap, enda væri um að ræða frádráttarbæran rekstrarkostnað. Talið var að kæranda hefði verið rétt að eignfæra áfallinn framleiðslukostnað í árslok samkvæmt verklokaaðferð í reikningsskilum, enda hefði framleiðslu tölvuleiks ekki verið lokið á árinu 1999. Var ekki fallist á með kæranda að í skattskilum giltu að þessu leyti aðrar uppgjörsaðferðir en í reikningsskilum, enda byggðu skattalög á hliðstæðum meginreglum um lotun tekna og gjalda og lagðar væru til grundvallar í reikningsskilum. Kæru félagsins var vísað frá yfirskattanefnd.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi er einkahlutafélag. Í ársreikningi með skattframtali félagsins árið 2000 var færður til eignar í efnahagsreikningi „stofnkostnaður“ að fjárhæð 48.030.400 kr. Í skýringum með ársreikningnum kom eftirfarandi fram um eignfærslu stofnkostnaðar:

„Félagið hefur frá stofnun þess unnið að gerð hugbúnaðar, en sala hans var ekki hafin í árslok 1999. Allur kostnaður við hugbúnaðinn hefur því verið eignfærður. Réttmæti eignfærslu kostnaðarins er háð því að félaginu takist að gera samninga um sölu á hugbúnaðinum. Fyrirhugað er að gjaldfæra þennan kostnað þegar sala hugbúnaðarins hefst.“

Með bréfi til skattstjóra, dags. 21. nóvember 2000, kærði umboðsmaður kæranda álagningu opinberra gjalda félagsins gjaldárið 2000. Í bréfi umboðsmannsins var greint frá því að við framtalsgerð hefði fallið niður að færa til gjalda í skattframtali kæranda stofnkostnað sem eignfærður væri í ársreikningi fyrir árið 1999. Vísaði umboðsmaður kæranda til meðfylgjandi endurgerðs skattframtals kæranda árið 2000 þar sem tekið væri tillit til þessarar leiðréttingar sem leiddi til þess að hrein eign samkvæmt framtali yrði 14.156.649 kr. og yfirfæranlegt tap til næsta árs 46.558.527 kr. Fór umboðsmaður kæranda fram á að álagning opinberra gjalda gjaldárið 2000 yrði byggð á hinu endurgerða skattframtali.

Áður en skattstjóri tók kæruna til úrlausnar ritaði hann kæranda bréf, dags. 19. janúar 2000, og óskaði eftir frekari upplýsingum frá kæranda varðandi fyrrgreindan stofnkostnað. Skattstjóri tók fram að um væri að ræða kostnað sem myndast hefði á árunum 1997, 1998 og 1999, samtals að fjárhæð 47.032.099 kr., og benti á að samkvæmt 31. gr. A laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, væri heimilt að færa niður stofnkostnað á því ári sem hann myndaðist eða með jöfnum fjárhæðum á fimm árum. Með stofnkostnaði væri m.a. átt við kostnað vegna skráningar fyrirtækis og öflunar atvinnurekstrarleyfa. Með vísan til þessa væri óskað eftir nánari upplýsingum og sundurliðun á þeim kostnaði sem um væri að ræða og skýringum á því hvernig kostnaðurinn uppfyllti skilyrði til niðurfærslu samkvæmt áðurnefndri lagagrein. Þá gat skattstjóri þess að í ársreikningi kæranda árið 1999 kæmi fram að allur kostnaður vegna hugbúnaðargerðar hefði verið eignfærður og að fyrirhugað væri að gjaldfæra kostnaðinn þegar sala hæfist. Engin sala hefði hins vegar átt sér stað á árinu 1999.

Umboðsmaður kæranda svaraði fyrirspurnarbréfi skattstjóra með bréfi, dags. 15. febrúar 2001. Tók umboðsmaðurinn fram að í bréfi skattstjóra virtist gæta misskilnings þar sem vísað væri til 31. gr. A laga nr. 75/1981. Frá stofnun kæranda hefði verið unnið að gerð hugbúnaðar og hefðu stjórnendur félagsins kosið að eignfæra útlagðan kostnað við hugbúnaðargerðina, sbr. rekstrarreikning félagsins. Mætti því segja að um væri að ræða fyrirframgreiddan kostnað við hugbúnaðargerðina sem síðan yrði gjaldfærður á móti tekjum þegar sala hugbúnaðarins hæfist, sbr. skýringu 3 við ársreikning. Um nánari upplýsingar og sundurliðun umrædds kostnaðar vísaði umboðsmaður kæranda til skýringa 12 og 13 með ársreikningi kæranda árið 1999 þar sem fyrirframgreiddur kostnaður (stofnkostnaður) væri sundurliðaður.

Með kæruúrskurði, dags. 16. mars 2001, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Í úrskurðinum vísaði skattstjóri til ákvæða 2. mgr. 29. gr., 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. og 31. gr. A laga nr. 75/1981 sem tekin voru orðrétt upp í úrskurðinum. Þá sagði svo í úrskurði skattstjóra:

„Ef litið er til þess að kærandi hefur ekki aflað tekna á árinu 1999 eða undanfarandi ár (utan styrks á árinu 1998 sem getið er í ársreikningi 1999) verður ekki séð að kæranda sé heimilt að færa til gjalda rekstrarkostnað ársins eða fyrri ára skv. 29. eða 31. gr. laga nr. 75/1981, enda er það forsenda gjaldfærslu að um sé að ræða gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, þ.e. tekna þess sama árs, sbr. einnig ákvæði 2. mgr. 60. gr. sömu laga um lotun tekna. Að mati skattstjóra er gjaldfærsla kostnaðar í tilvikum eins og að ofan greinir einungis heimil ef um er að ræða útgjöld, sem felld verða undir ákvæði 31. gr. A laga nr. 75/1981 með síðari breytingum. Skattstjóri ritaði kæranda því bréf þann 19. janúar 2001 og fór fram á að kærandi gerði grein fyrir því hvernig gjaldfærður kostnaður uppfyllir skilyrði til niðurfærslu skv. áðurnefndri lagagrein.

[…]

Að mati skattstjóra verður kostnaður kæranda ekki felldur undir ákvæði 31. gr. A laga nr. 75/1981 og er því ekki fyrir hendi heimild til að færa til gjalda umræddan kostnað, heldur beri að eignfæra kostnaðinn, sem n.k. framleiðslubirgðir, sem gjaldfærist á því ári þegar öflun tekna hefst.“

II.

Með kæru, dags. 29. maí 2001, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 16. mars 2001, til yfirskattanefndar. Í kærunni er þess krafist að úrskurði skattstjóra verði breytt þannig að fallist verði á gjaldfærslu rekstrarkostnaðar kæranda. Þá er krafist málskostnaðar úr ríkissjóði.

Í kæru umboðsmanns kæranda eru málavextir raktir. Kemur fram að með „stofnkostnaði“ í kæru til skattstjóra, dags. 21. nóvember 2000, sé í raun átt við allan rekstrarkostnað kæranda eins og sjá megi í kærunni og ársreikningi kæranda. Ekki sé því um að ræða hefðbundinn kostnað við stofnun félags, svo sem vegna skráningar, öflunar atvinnurekstrarleyfa o.þ.h. Þá gæti þess misskilnings að verið sé að færa til gjalda annan og eldri kostnað en frá árinu 1999, en svo sé ekki. Krafa kæranda lúti að gjaldfærslu rekstrarkostnaðar en ekki niðurfærslu eigna samkvæmt 31. gr. A laga nr. 75/1981. Alþekkt sé að mismunandi reikningsskilaaðferðir séu notaðar við gerð ársreikninga annars vegar og við skattskil hins vegar. Í tilviki kæranda hafi „stofnkostnaður“ verið eignfærður í ársreikningi en sama kostnað hefði átt að færa til gjalda í skattframtali. Um sé að ræða laun og launatengd gjöld, annan rekstrarkostnað, vaxtagjöld, verðbætur og reiknuð gjöld vegna verðlagsbreytinga, en nánari sundurliðun gjaldanna komi fram í kæru til skattstjóra. Sé því um að tefla gjöld til öflunar tekna þótt tekjur hafi ekki myndast á árinu. Samkvæmt túlkun skattstjóra á 2. mgr. 29. gr. laga nr. 75/1981 sé félögum sem afli engra tekna á skattári óheimilt að færa til gjalda nokkurn kostnað. Alkunna sé hins vegar, ekki síst í hugbúnaðargeiranum, að tekjur skili sér að liðnum mörgum árum frá upphafi vinnu við hugbúnað. Sú staðreynd að sala hugbúnaðar hafi ekki hafist á árinu 1999 eigi því ekki að breyta neinu. Kveðst umboðsmaður kæranda telja að túlkun skattstjóra gangi gegn öllum meginreglum skattaréttar, svo sem nánar er rökstutt í kærunni. Stofnað hafi verið til hins umdeilda kostnaðar með það fyrir augum að tryggja framtíðartekjur kæranda. Hvort þær tekjur myndist á skattárinu eða ekki skipti engu máli, enda sé ekki tekið fram í skattalögum að tekjur verði að myndast á sama ári og gjöld vegna öflunar þeirra og verði ekki séð hvernig slíkt gæti gengið upp í framkvæmd. Svo virðist sem skattstjóri líti einungis til hugtaksins „stofnkostnaður“ en ekki til efnisatriða málsins, en í ársreikningi kæranda sé hugtakið notað í mun rýmri merkingu en almennt sé. Ákvæði 31. gr. A laga nr. 75/1981 séu því alls ekki til umræðu í málinu. Í niðurlagi kæru umboðsmanns kæranda kemur fram varðandi málskostnaðarkröfu að áskilinn sé réttur til að þess að leggja fram reikninga vegna útlagðs kostnaðar kæranda af rekstri málsins.

III.

Með bréfi, dags. 14. september 2001, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Í ársreikningi með skattframtali 2000 kemur fram að fyrirhugað sé að gjaldfæra kostnaðinn þegar sala hugbúnaðarins hefst. Í skýringu nr. 3 með ársreikningi félagsins fyrir rekstrarárið 1999 segir að félagið hafi frá stofnun þess unnið að gerð hugbúnaðar, en sala hans var ekki hafin í árslok 1999. Allur kostnaður við hugbúnaðinn hafi því verið eignfærður.

Samkvæmt framansögðu þykir ljóst að ekki séu til staðar rekstrarárið 1999 forsendur fyrir frádrætti rekstrarkostnaðar á grundvelli meginreglu 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 17. september 2001, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar ef ástæða yrði talin til. Svar barst ekki frá kæranda.

IV.

Eins og fram er komið er kærandi hugbúnaðarfyrirtæki og starfar aðallega að gerð og markaðssetningu X. Var félagið stofnað á árinu 1997 eftir því sem gögn málsins bera með sér. Í skýrslu stjórnar með ársreikningi kæranda fyrir árið 1998, sem liggur fyrir í málinu, kemur fram að starfsemi félagsins á því ári hafi fyrst og fremst falist í undirbúningi að væntanlegum rekstri síðar. Er tekið fram að um eiginlegan rekstur hafi ekki verið að ræða á árinu 1998, aðeins fjárfestingu. Í skýrslu stjórnar með ársreikningi kæranda fyrir árið 1999, sem fylgdi skattframtali félagsins árið 2000, kemur fram að starfsmönnum hafi fjölgað úr 6 í 12 á því ári, félagið flutt í nýtt húsnæði og fyrstu tveimur áföngum í fjármögnun félagsins verið lokið á árinu. Hafi fyrsta hlutafjárútboð félagsins farið fram í febrúar 1999 og annað útboð á hlutafé farið fram um haustið sem gert hafi félaginu kleift að ráða fleira starfsfólk, bæta aðstöðu og tækjabúnað, mynda tengsl við útgefendur og „koma X á það stig sem hann er á í dag“. Þá er getið fyrirhugaðs skuldabréfaútboðs á vegum kæranda og tekið fram að áætlað sé að sú fjármögnun dugi félaginu fram á haust þegar fyrsti X félagsins fari á markað og fari að skila tekjum.

Samkvæmt rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1999 hafði félagið engar tekjur á því ári en rekstrargjöld ársins námu 33.460.708 kr. og var um að ræða annars vegar laun og launatengd gjöld 22.473.907 kr. og hins vegar „annan rekstrarkostnað“ 10.987.611 kr. Að teknu tilliti til fjármagnsliða nam rekstrartap ársins 35.555.042 kr. og kom fram í rekstrarreikningnum að tap ársins væri flutt á stofnkostnað. Í skýrslu stjórnar með ársreikningi félagsins kom fram að allur kostnaður, sem fallið hefði til á árinu 1999, væri eignfærður sem stofnkostnaður við gerð hugbúnaðar. Í skýringu nr. 3 við ársreikninginn var tekið fram að félagið hefði frá stofnun þess unnið að gerð hugbúnaðar, en sala hans væri ekki hafin í árslok 1999. Allur kostnaður við gerð hugbúnaðarins hefði því verið eignfærður og væri réttmæti eignfærslunnar háð því að félaginu tækist að gera samninga um sölu á hugbúnaðinum. Væri fyrirhugað að gjaldfæra umræddan kostnað þegar sala hugbúnaðarins hæfist. Eins og fram er komið nam eignfærður „stofnkostnaður“ í efnahagsreikningi kæranda pr. 31. desember 1999 samtals 48.030.400 kr.

Með kæru umboðsmanns kæranda til skattstjóra, dags. 21. nóvember 2000, fylgdi endurgert skattframtal kæranda árið 2000 (skattframtal rekstraraðila RSK 1.04) og fór umboðsmaðurinn fram á að álagning opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2000 yrði byggð á því framtali. Samkvæmt framtalinu nam yfirfæranlegt ónotað rekstrartap til næsta árs 46.558.527 kr. sem var þannig fundið að við tilfært rekstrartap samkvæmt ársreikningi kæranda árið 1999 35.555.042 kr. var bætt framreiknuðum rekstrartöpum samkvæmt ársreikningum félagsins árin 1997 og 1998, 642.582 kr. fyrra árið og 10.834.475 kr. það síðara, en frá dregin skattaleg leiðrétting á verðbreytingarfærslu 258.923 kr., ófrádráttarbær opinber gjöld 205.271 kr. og ófrádráttarbær kostnaður 9.378 kr. Laut kæran þannig í reynd að því að allur kostnaður samkvæmt rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1999, sem færður hafði verið til eignar í efnahagsreikningi sem stofnkostnaður, yrði viðurkenndur sem yfirfæranlegt rekstrartap, auk þess sem tekið yrði með sama hætti tillit til kostnaðar vegna rekstraráranna 1997 og 1998 sem farið hafði verið með á sama hátt í skattskilum kæranda vegna þeirra ára. Að undangengnum bréfaskiptum, sbr. bréf skattstjóra, dags. 19. janúar 2001, og svarbréf umboðsmanns kæranda, dags. 15. febrúar 2001, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda með hinum kærða úrskurði, dags. 16. mars 2001. Byggði skattstjóri á því að í tilviki kæranda væri hvorki um að ræða frádráttarbæran rekstrarkostnað samkvæmt 2. mgr. 29., sbr. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, né kostnað sem felldur yrði undir ákvæði 31. gr. A sömu laga um niðurfærslu eigna. Væri því ekki fyrir hendi heimild til að gjaldfæra umræddan kostnað í skattframtali árið 2000 heldur bæri að eignfæra kostnaðinn og gjaldfæra á því ári þegar öflun tekna hæfist. Krafa kæranda fyrir yfirskattanefnd er sú, sbr. kæru umboðsmanns félagsins, dags. 29. maí 2001, að kæruúrskurði skattstjóra verði hnekkt og „fullt tillit tekið til þess skattframtals“ sem barst skattstjóra með kæru umboðsmanns kæranda, dags. 21. nóvember 2000. Er krafan byggð á því að kæranda sé hin umkrafða gjaldfærsla kostnaðar heimil samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, enda fái ekki staðist að það sé forsenda fyrir gjaldfærslu rekstrarkostnaðar að tekna sé aflað á sama ári, svo sem skattstjóri hafi talið. Í þessu sambandi tekur umboðsmaður kæranda fram að stjórnendur félagsins hafi kosið að eignfæra kostnað við hugbúnaðargerðina í ársreikningi þess samkvæmt þeim reikningsskilareglum sem gildi um ársreikninga, en alþekkt sé að mismunandi reikningsskilaaðferðir séu notaðar við gerð ársreikninga annars vegar og við skattskil hins vegar.

Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar er tekið fram að af hálfu skattstjóra gæti þess misskilnings „að verið sé að gjaldfæra annan og eldri kostnað en frá 1999“, en svo sé ekki. Er í kærunni vísað til sundurliðunar á kostnaðinum með kæru umboðsmanns kæranda til skattstjóra, dags. 21. nóvember 2000. Af þessu tilefni skal tekið fram að eins og áður greinir er tilfært ónotað rekstrartap 46.558.527 kr. samkvæmt endurgerðu skattframtali kæranda árið 2000, sem fylgdi kæru félagsins til skattstjóra, m.a. til komið vegna kostnaðar kæranda sem til féll árin 1997 og 1998 og færður var til eignar sem stofnkostnaður í efnahagsreikningi með skattframtölum félagsins árin 1998 og 1999. Rétt þykir að skilja kröfugerð umboðsmanns kæranda svo að af hálfu félagsins sé einungis gerð krafa um gjaldfærslu kostnaðar samkvæmt rekstrarreikningi ársins 1999 þannig að yfirfæranlegt ónotað rekstrartap í skattframtali árið 2000 verði 35.081.470 kr., en fallið sé frá kröfu um gjaldfærslu kostnaðar frá árunum 1997 og 1998. Svo sem áður er rakið er kostnaður sá vegna rekstrarársins 1999, sem málið varðar, annars vegar vegna launa og launatengdra gjalda 22.473.097 kr. og hins vegar vegna annars rekstrarkostnaðar 10.987.611 kr. Samkvæmt skýringu við ársreikning kæranda árið 1999 sundurliðast síðarnefndur kostnaður þannig að um er að ræða aðkeyptan hugbúnað 5.524.619 kr., kynningar- og ferðakostnað 1.730.937 kr., sérfræðiaðstoð 1.293.100 kr., skrifstofukostnað 753.413 kr. og húsnæðiskostnað 1.685.542 kr. Þá er ljóst að krafa kæranda tekur einnig til kostnaðar vegna vaxtagjalda og verðbóta 1.813.666 kr. og reiknaðra gjalda vegna verðlagsbreytinga 75.397 kr

Miðað við fram komnar skýringar kæranda, m.a. um áætlaða markaðssetningu fyrsta X félagsins haustið 2000, þykir verða að leggja til grundvallar að framleiðslu X hafi ekki verið lokið á árinu 1999. Var kæranda því rétt að eignfæra áfallinn framleiðslukostnað í árslok samkvæmt verklokaaðferð í reikningsskilum svo sem gert var. Vegna athugasemda umboðsmanns kæranda í kæru til yfirskattanefndar skal tekið fram að ekki verður fallist á að í skattskilum gildi að þessu leyti aðrar uppgjörsaðferðir en í reikningsskilum, enda byggja skattalög á hliðstæðum meginreglum um lotun tekna og gjalda og lagðar eru til grundvallar í reikningsskilum, sbr. 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. og 2. mgr. 60. gr. laga nr. 75/1981, sbr. og jöfnunarreglu reikningsskila sem fram kemur í reglu reikningsskilaráðs um grundvöll reikningsskila sem birt er í auglýsingu nr. 450/1994 í B-deild Stjórnartíðinda. Tekið skal fram að svo hefur verið litið á í skatt- og úrskurðaframkvæmd að skattaðilar, sem hafa með höndum framleiðslu á vöru eða verðmætum til sölu eða annarrar hagnýtingar á síðari rekstrarárum, geti valið milli tveggja aðferða við uppgjör tekna af óloknum verkum. Annars vegar að færa árlega til tekna reiknaðan ágóða af framkvæmdum með hliðsjón af væntanlegum hagnaði og hins vegar að eignfæra áfallinn kostnað og skuldfæra innborganir vegna framkvæmdanna á verktíma og færa síðan til gjalda og tekna við verklok. Um þetta má vísa til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 69/1992 sem birtur er á bls. 517–518 í úrskurðasafni nefndarinnar vegna úrskurða uppkveðinna á árunum 1990, 1991 og 1992, en úrskurður þessi varðar uppgjör tekna hjá byggingarfyrirtæki. Samkvæmt framansögðu getur krafa kæranda um gjaldfærslu umrædds kostnaðar í heild ekki náð fram að ganga.

Tekið skal fram vegna rökstuðnings skattstjóra að ekki verður talið að það sé fortakslaust skilyrði fyrir gjaldfærslu rekstrarkostnaðar samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981 að tekjuöflun í atvinnurekstri sé hafin á því ári sem stofnað er til viðkomandi gjalda. Kostnaður, sem fellur til á upphafsári rekstrar hjá nýstofnuðu fyrirtæki, getur þannig talist til frádráttarbærs rekstrarkostnaðar í skilningi ákvæðisins þótt tekna hafi ekki verið aflað á því ári, enda sé tekjuöflun fyrirsjáanleg innan skamms tíma og skilyrði frádráttarbærni samkvæmt ákvæðinu að öðru leyti uppfyllt. Í tilviki kæranda er til þess að líta að allur kostnaður, sem féll til árið 1999, var eignfærður í reikningsskilum félagsins og er sem fyrr segir byggt á því af hálfu umboðsmanns kæranda að það hafi verið í samræmi við almennar reikningsskilareglur. Telji kærandi að athuguðu máli að einhver hluti þessara útgjalda verði ekki felldur undir framleiðslukostnað í framangreindum skilningi, þannig að heimild til gjaldfærslu kunni að vera til staðar óháð þeirri uppgjörsaðferð sem skattskil félagsins eru byggð á, ber undir kæranda að gera glögga grein fyrir þeim kostnaði.

Þess ber sérstaklega að geta að í tilviki kæranda kann að vera um að ræða kostnað sem varðar stofnun og grundvöll atvinnurekstrarins en fellur ekki undir frádráttarbæran rekstrarkostnað í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981. Slíkur kostnaður getur þó eftir atvikum fallið undir ákvæði um niðurfærslu eigna í 31. gr. A laga nr. 75/1981. Í 2. mgr. þeirrar lagagreinar eru taldar eignir sem heimilt er að færa niður á því ári sem þær myndast eða með jöfnum fjárhæðum á fimm árum. Tekur málsgreinin til stofnkostnaðar, svo sem kostnaðar við skráningu fyrirtækis og öflun atvinnurekstrarleyfa, sbr. a-lið málsgreinarinnnar, og kostnaðar við tilraunavinnslu, markaðsleit, rannsóknir og öflun einkaleyfis og vörumerkja, sbr. b-lið hennar. Með bréfi, dags. 19. janúar 2000, gaf skattstjóri kæranda kost á því að sundurliða eignfærðan kostnað með tilliti til ákvæða 31. gr. A laga nr. 75/1981, en af hálfu kæranda var látið við það sitja að vísa til skýringa og sundurliðana í ársreikningi félagsins fyrir árið 1999. Frekari upplýsingar hafa ekki komið fram við meðferð málsins fyrir yfirskattanefnd.

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir rétt að vísa kröfu kæranda frá yfirskattanefnd að svo stöddu.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins og eins og mál þetta ber að og er lagt fyrir þykja ekki vera fyrir hendi lagaskilyrði til þess að ákvarða kæranda málskostnað. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kærunni er vísað frá yfirskattanefnd. Málskostnaðarkröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja