Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Innskattur
  • Uppgjör skattskyldrar veltu

Úrskurður nr. 97/2003

Virðisaukaskattur 2001

Lög nr. 50/1988, 13. gr., 15. gr., 20. gr. 7. mgr.  

Skattstjóri hafnaði að telja virðisaukaskatt samkvæmt ótölusettum sölureikningi til innskatts kæranda á síðasta uppgjörstímabili ársins 2001 með því að reikningurinn væri ekki fullnægjandi til sönnunar á innskatti. Við meðferð málsins hjá yfirskattanefnd lagði kærandi fram nýjan reikning vegna umræddra viðskipta. Tekið var fram að útgáfa seljanda á nýjum sölureikningi í fullnægjandi formi fengi út af fyrir sig ekki breytt niðurstöðu um offærðan innskatt kæranda á síðasta uppgjörstímabili ársins 2001, en gæti verið grundvöllur að leiðréttingu á innskatti á því uppgjörstímabili þegar slík ráðstöfun færi fram. Var kröfu kæranda um hækkun innskatts árið 2001 því hafnað.

I.

Með kæru, dags. 3. október 2002, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði skattstjóra, dags. 25. júlí 2002, vegna ákvörðunar virðisaukaskatts kæranda uppgjörstímabilið nóvember-desember 2001. Kæruefnið er sú ákvörðun skattstjóra að hafna tilfærðum innskatti að fjárhæð 566.369 kr. samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu kæranda fyrir greint uppgjörstímabil vegna kaupa kæranda á bifreiðinni T af G ehf. Forsenda skattstjóra fyrir höfnun innskatts í hinum kærða úrskurði var sú að reikningur vegna viðskiptanna, dags. 8. nóvember 2001, væri ónúmeraður og uppfyllti því ekki skilyrði innskattsfrádráttar samkvæmt 1. mgr., sbr. 7. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og 4. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, en þar kæmi fram að reikningseyðublöð skyldu vera fyrirfram tölusett. Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar kemur fram að úr þessum ágalla sé nú bætt og er í því sambandi vísað til meðfylgjandi reiknings G ehf. nr. 1, dags. 8. nóvember 2001, vegna sölu bifreiðarinnar T til kæranda. Krefst umboðsmaður kæranda þess að innskattur að fjárhæð 566.369 kr. standi óhaggaður. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.

II.

Með bréfi, dags. 24. janúar 2003, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Meðfylgjandi kæru kæranda var ljósrit af reikningi, útgefnum af G ehf. Þar sem kærandi hefur lagt fram ný gögn og rökstuðning í máli þessu og með hliðsjón af þeim lagarökum er búa að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, er þess aðallega krafist að kærunni verði vísað til skattstjóra til uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.

Taki yfirskattanefnd kæruna til efnislegrar meðferðar krefst ríkisskattstjóri þess að kröfum kæranda verði hafnað þar sem frumrit sölureiknings fylgdi ekki með kæru kæranda. Samkvæmt 20. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 1. mgr. 15. gr. rg. nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, verður færsla til innskatts eingöngu byggð á frumritum nánari tiltekinna gagna, þ.m.t. sölureikninga. Þar sem kærandi hefur látið hjá líða að leggja fram frumrit sölureikningsins þá verður ekki hjá því komist að hafna færslu þess virðisaukaskatts sem fram kemur á reikningnum til innskatts.“

III.

Samkvæmt 7. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal skattskyldur aðili geta lagt fram reikninga eða önnur gögn í samræmi við ákvæði greinarinnar til sönnunar á innskatti. Það leiðir af þeirri meginreglu, sem fram kemur um uppgjör skattskyldrar veltu í 13. gr. laga nr. 50/1988, sbr. til hliðsjónar skilgreiningar í 3. og 4. mgr. 15. gr. laganna, að slík gögn verða að liggja fyrir á því uppgjörstímabili þegar innskattur er færður til frádráttar við uppgjör virðisaukaskatts.

Eins og fram er komið hafnaði skattstjóri með hinum kærða úrskurði sínum, dags. 25. júlí 2002, að telja virðisaukaskatt að fjárhæð 566.369 kr. samkvæmt ótölusettum reikningi G ehf., dags. 8. nóvember 2001, til innskatts kæranda uppgjörstímabilið nóvember-desember 2001 með því að reikningurinn væri ekki fullnægjandi til sönnunar á innskatti samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988, þar sem m.a. er áskilið að reikningseyðublöð séu fyrir fram tölusett í samfelldri töluröð. Er óumdeilt að fullnægjandi gögn til sönnunar á innskatti lágu ekki fyrir árið 2001. Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar kemur fram að bætt hafi verið úr þessum ágalla og fylgir kærunni nýr reikningur vegna umræddra bifreiðaviðskipta kæranda og G ehf. sem dagsettur er 8. nóvember 2001, en tekið skal fram vegna kröfugerðar ríkisskattstjóra að um er að ræða frumrit reikningsins. Af þessu tilefni er ástæða til að benda á að útgáfa seljanda á nýjum sölureikningi fær út af fyrir sig ekki breytt niðurstöðu um offærðan innskatt kæranda uppgjörstímabilið nóvember-desember 2001. Verður því ekki fallist á kröfu kæranda um hækkun innskatts á því uppgjörstímabili. Gefi seljandi út nýjan reikning eða komi til þess að seljandi bæti úr annmörkum á viðkomandi sölureikningi, eftir atvikum með kreditreikningi, sbr. 3. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988, og í framhaldi af því með útgáfu nýs sölureiknings í fullnægjandi formi, getur slík ráðstöfun hins vegar verið grundvöllur að leiðréttingu á innskatti á því uppgjörstímabili þegar slík ráðstöfun fer fram. Í því sambandi og kæranda til leiðbeiningar skal bent á heimild ríkisskattstjóra samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988 til breytinga á áður ákvörðuðum virðisaukaskatti, en sambærilega heimild hefur yfirskattanefnd ekki.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins eru ekki fyrir hendi lagaskilyrði til þess að ákvarða kæranda málskostnað. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja