Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag á virðisaukaskatt

Úrskurður nr. 99/2003

Virðisaukaskattur 2002

Lög nr. 50/1988, 24. gr. 1. mgr. (brl. nr. 122/1993, 22. gr.), 27. gr.   Reglugerð nr. 667/1995, 3. gr.  

Kæranda í máli þessu, sem var einkahlutafélag, var við upphaf rekstrar á árinu 2002 gert að nota árið sem uppgjörstímabil virðisaukaskatts. Kærandi gætti ekki að því að standa skil á skatti þegar skattskyld velta félagsins fór umfram fjárhæðarmörk ársskila og sætti því álagsbeitingu skattstjóra. Ekki þótti tækt að skýra undanþáguákvæði varðandi hlutafélög í reglugerð nr. 667/1995 svo að undanþágan tæki til einkahlutafélaga þar sem umrætt undanþáguákvæði kom fyrst til sögunnar eftir að sett voru lög um einkahlutafélög. Var kröfu kæranda um niðurfellingu álags hafnað og í því sambandi m.a. vísað til úrskurðaframkvæmdar í hliðstæðum málum.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi var skráður í ársskil virðisaukaskatts við upphaf rekstrar á árinu 2002, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 588/1996. Uppgjörstímabilið maí-júní 2002 fór skattskyld velta kæranda rekstrarárið 2002 umfram þau mörk sem greinir í nefndu reglugerðarákvæði. Samkvæmt gögnum málsins stóð kærandi hinn 6. september 2002 skil á virðisaukaskattsskýrslu vegna uppgjörstímabilsins maí-júní 2002 og virðisaukaskatti samkvæmt skýrslunni. Meðfylgjandi virðisaukaskattsskýrslunni var bréf fyrirsvarsmanns kæranda, dags. 6. september 2002, þar sem þess var óskað að kærandi yrði ekki látinn sæta álagi vegna síðbúinna skila á virðisaukaskatti. Kom fram að kærandi hefði hafið rekstur á árinu 2002 og verið skráður í ársskil virðisaukaskatts. Félagið hefði gefið út fyrstu reikninga í maí 2002 og þá þegar hefði skattskyld velta farið umfram viðmiðunarmörk ársskila. Hefði starfsmönnum kæranda ekki orðið ljóst fyrr en í byrjun september að ekki hefði verið staðið skil á virðisaukaskatti vegna uppgjörstímabilsins maí-júní 2002, en engin virðisaukaskattsskýrsla hefði verið send kæranda þar sem kærandi hefði verið skráður í ársskil virðisaukaskatts. Hefði verið um mistök vegna misskilnings að ræða og væri það von fyrirsvarsmanna kæranda að sýndur yrði skilningur á þessu.

Hinn 17. september 2002 tilkynnti skattstjóri kæranda að virðisaukaskattur umrætt uppgjörstímabil hefði verið ákvarðaður samkvæmt skýrslunni en að álag hefði verið ákvarðað 1.080.240 kr. vegna síðbúinna skila á skattinum. Með kæruúrskurði, dags. 18. september 2002, tók skattstjóri til afgreiðslu erindi kæranda, dags. 6. september 2002, og staðfesti álagsbeitingu sína, enda yrði ekki fallist á að framkomnar skýringar og rök kæranda gætu talist gildar ástæður til niðurfellingar álags samkvæmt heimild í 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

II.

Af hálfu kæranda hefur álagsbeitingu skattstjóra verið mótmælt með kæru til yfirskattanefndar, dags. 16. desember 2002. Í kæru er gerð sú krafa að álag vegna síðbúinna skila á virðisaukaskatti verði fellt niður. Tekur fyrirsvarsmaður kæranda fram að strax við skráningu virðisaukaskattsskyldrar starfsemi við upphaf rekstrar hefði verið tekið fram að skattskyld velta kæranda á árinu færi langt umfram þau mörk sem miðað væri við í ársskilum og yrði yfir 100 milljónir króna á árinu. Kæmi þetta fram í tilkynningu um virðisaukaskattsskylda starfsemi (RSK 10.22). Við upphaf rekstrar hefði fyrirsvarsmaðurinn leitað sérstaklega til skattyfirvalda varðandi þetta atriði til þess að tryggja að allt yrði í lagi. Hefði skattyfirvöldum verið ljóst að velta myndi strax fara yfir viðmiðunarmörk ársskila, en þrátt fyrir það hefði skráning kæranda verið miðuð við ársskil. Hefði þetta valdið því að engin virðisaukaskattsskýrsla hefði verið send kæranda vegna uppgjörstímabilsins maí-júní 2002 sem síðan hefði valdið því að skil á virðisaukaskatti hefðu dregist um einn mánuð.

III.

Með bréfi, dags. 24. janúar 2003, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans og eftirfarandi athugasemda, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. rg. nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti, sbr. 1. gr. rg. nr. 588/1996, skulu þeir sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 800.000 kr. á almanaksári á næsta almanaksári nota það sem uppgjörstímabil. Jafnframt skulu aðilar sem eru að hefja skattskylda starfsemi nota almanaksárið sem uppgjörstímabil. Þá er í 4. mgr. greinarinnar ákvæði um að fari skattskyld velta aðila samkvæmt 1. mgr. umfram þau mörk er þar greinir skuli hann á næsta gjalddaga almennra uppgjörstímabila samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar gera upp mismun þess útskatts og innskatts sem fallið hafi á sölu og kaup skattaðila á almanaksárinu. Samkvæmt gögnum málsins fór skattskyld velta kæranda umfram framangreind mörk á uppgjörstímabilinu maí-júní 2002 og bar kæranda því samkvæmt síðastnefndu ákvæði rg. nr. 667/1995 að standa skil á virðisaukaskatti á næsta gjalddaga almennra uppgjörstímabila, sbr. 1. gr. reglugerðarinnar, eða 5. ágúst 2002. Fram er komið að kærandi stóð ekki skil á virðisaukaskatti fyrr en í september 2002. Lagaskilyrði voru því til beitingar álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 15. gr. rg. nr. 667/1995, með áorðnum breytingum.

Af hálfu kæranda er því haldið fram að skattstjóra hafi verið ljóst frá upphafi að veltan færi strax yfir viðmiðunarmörk ársskila en þrátt fyrir það hafi félagið verið sett í ársskilamáta. Fram kemur á tilkynningu um virðisaukaskattsskylda starfsemi (RSK 10.22) að áætlaðar tekjur af skattskyldri sölu á fyrstu 12 mánuðum starfseminnar verði yfir 100.000.000 kr. Hér er s.s. miðað við áætlaðar tekjur fyrstu 12 mánuði starfseminnar en ekki tekjur á árinu, þ.e. á sama ári og starfsemi hefst, eins og haldið er fram í kæru kæranda. Það sem þó mestu máli skiptir er það að framangreindar reglur 1. mgr. 3. gr. rg. nr. 667/1995, sem kveða á um það hverjir skulu nota almanaksárið sem uppgjörstímabil, eru skýrar og eru upplýsingar um áætlaðar tekjur á framangreindu eyðublaði ekki til þess að ákvarða skilamáta. Það er á ábyrgð hins skattskylda aðila að gera viðeigandi ráðstafanir fari skattskyld velta umfram framangreind fjárhæðarmörk, sbr. framangreint ákvæði 4. mgr. 1. gr. (sic) rg. nr. 667/1995. Að þessu athuguðu þykir ríkisskattstjóra ekki komnar fram slíkar málsbætur í tilviki kæranda að fella beri á þeim grundvelli niður álag samkvæmt heimildarákvæði 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 28. janúar 2003, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 14. febrúar 2003, hefur fyrirsvarsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Segist fyrirsvarsmaðurinn vilja leggja áherslu á að X hf. hafi ákveðið að stofna sérstakt félag um rekstur tæknideildar fyrirtækisins. Hafi fyrirsvarsmaðurinn við stofnun félagsins leitað eftir fundi með skattyfirvöldum til þess að fá ráðgjöf um skattamál hins nýja félags til að tryggja að allt yrði í lagi í þeim efnum. Hafi frá upphafi legið fyrir að starfsmenn kæranda yrðu 24 talsins og að velta félagsins færi yfir 100.000.000 kr. á ári. Þetta hefði komið fram í tilkynningu um virðisaukaskattsskylda starfsemi, tilkynningu til launagreiðendaskrár og á fundi með starfsmanni skattstjóra nokkrum dögum áður en félagið hefði hafið starfsemi.

IV.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal aðili, sem ekki greiðir virðisaukaskatt á tilskildum tíma, sæta álagi til viðbótar skatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu eða til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á, sbr. 19. gr. laganna. Sama gildir ef virðisaukaskattsskýrslu hefur ekki verið skilað eða verið ábótavant og virðisaukaskattur því áætlaður eða endurgreiðsla samkvæmt 26. gr. hefur verið of há. Samkvæmt 6. mgr. sömu lagagreinar má fella niður álag ef aðili færir gildar ástæður sér til málsbóta og geta skattyfirvöld metið það í hverju tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 588/1996, skulu þeir sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 800.000 kr. á almanaksári á næsta almanaksári nota það sem uppgjörstímabil. Jafnframt skulu aðilar sem eru að hefja skattskylda starfsemi, þó með tilgreindum undantekningum, nota almanaksárið sem uppgjörstímabil. Þá er í 4. mgr. greinarinnar ákvæði um að fari skattskyld velta aðila samkvæmt 1. mgr. umfram þau mörk er þar greinir skuli hann á næsta gjalddaga almennra uppgjörstímabila samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar gera upp mismun þess útskatts og innskatts sem fallið hafi á sölu og kaup skattaðila á almanaksárinu. Samkvæmt gögnum málsins fór skattskyld velta kæranda umfram framangreind mörk á uppgjörstímabilinu maí-júní 2002 og bar kæranda því samkvæmt síðastnefndu ákvæði reglugerðar nr. 667/1995 að standa skil á virðisaukaskatti á næsta gjalddaga almennra uppgjörstímabila, sbr. 1. gr. reglugerðarinnar, eða 6. ágúst 2002, enda bar 5. sama mánaðar upp á almennan frídag. Fram er komið að kærandi stóð ekki skil á virðisaukaskatti fyrr en 6. september 2002. Lagaskilyrði voru því til beitingar álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 15. gr. reglugerðar nr. 667/1995, með áorðnum breytingum.

Af hálfu kæranda er því borið við að sú ákvörðun skattstjóra að ákveða félaginu ársuppgjörstímabil hafi valdið þeim mistökum við virðisaukaskattskil, sem í málinu greinir, sérstaklega þar sem virðisaukaskattsskýrsla hefði ekki borist. Þá virðist dregið í efa að staðist hafi að skipa félaginu í ársskil og hafi skattstjóra borið að haga skráningu virðisaukaskatts kæranda þannig að hún yrði miðuð við almenn uppgjörstímabil frá upphafi vegna þeirra upplýsinga sem komu fram af hálfu kæranda við skráningu um væntanleg umsvif. Eins og fram er komið er mælt fyrir um það í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 667/1995 að aðilar, sem eru að hefja skattskylda starfsemi, skuli nota almanaksárið sem uppgjörstímabil, auk þeirra aðila sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 800.000 kr. á almanaksári. Undantekningar frá þessu taka m.a. til hlutafélaga samkvæmt lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, og samvinnufélaga samkvæmt lögum nr. 22/1991, um samvinnufélög, sbr. 7. tölul. 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 667/1995, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 134/1999, en með síðastgreinda reglugerðarákvæðinu var þessi undanþága sett. Kærandi er einkahlutafélag. Þess félagsforms, sem skipað var fyrst með lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög, sem enn gilda, er ekki getið meðal undantekningartilvika. Þar sem umrætt reglugerðarákvæði kom fyrst til sögunnar eftir að sett voru lög um einkahlutafélög er ekki tækt að skýra undanþáguákvæði reglugerðarinnar svo að þau taki til einkahlutafélaga. Að þessu athuguðu og að virtum málavöxtum að öðru leyti, sbr. og úrskurðaframkvæmd í hliðstæðum málum, þykja ekki komnar fram slíkar málsbætur í tilviki kæranda að fella beri á þeim grundvelli niður álag samkvæmt heimildarákvæðum 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Kröfu kæranda er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja