Úrskurður yfirskattanefndar

  • Teknategund
  • Vextir af stofnsjóðseign í samvinnufélagi

Úrskurður nr. 114/2003

Gjaldár 2001

Lög nr. 75/1981, 7. gr. B-liður og C-liður 3. tölul.   Lög nr. 22/1991  

Deilt var um hvort virða bæri eign kærenda í stofnsjóði samvinnufélags (afurðafélags) sem eign tilheyrandi búrekstri kærenda, svo sem skattstjóri áleit, eða sem eign utan rekstrar, svo sem kærendur héldu fram, en úrlausn þess skipti máli varðandi skattalega meðferð vaxtatekna af stofnsjóðseigninni. Yfirskattanefnd benti á að kærendur hefðu ekki vefengt að stofnsjóðseignin væri að öllu leyti sprottin af innleggi. Þar sem þannig var óumdeilt að stofnsjóðsinneignin væri að öllu leyti til komin vegna atvinnurekstrar kærenda var kröfu þeirra hafnað.

I.

Málavextir eru þeir að kærendur, sem stunduðu m.a. sauðfjárbúskap, færðu sér til eignar meðal hlutabréfa í lið 3.7 í skattframtali sínu árið 2001 stofnsjóðseign (samvinnuhlutabréf) í T svf. að fjárhæð 41.600 kr., sbr. reit 308, og til tekna arð af bréfum þessum að fjárhæð 4.160 kr. í reit 307. Þá færðu kærendur sér til eignar í lið 3.6 í skattframtalinu stofnsjóðseign að fjárhæð 400.604 kr. í reit 20 og til tekna í reit 19 vaxtatekjur að fjárhæð 29.426 kr. af þeirri eign.

Með bréfi, dags. 25. október 2001, fór skattstjóri fram á að kærandi, A, færði rök fyrir því, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að „afurðastofnsjóðir“ og tilheyrandi vextir væru færðir á persónuframtal en ekki í landbúnaðarskýrslu þar sem um atvinnurekstrareign væri að ræða. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 5. nóvember 2001, kom fram að kærandi liti svo á að stofnsjóðseign sín í T væri persónuleg eign líkt og hlutabréf þrátt fyrir að innlegg í sjóðinn væri að hluta til viðskiptatengt, enda væru þær tekjur færðar í tekjuhlið landbúnaðarskýrslu.

Með bréfi, dags. 4. febrúar 2001 (misritun fyrir 4. febrúar 2002), boðaði skattstjóri kærendum að fyrirhugað væri að tekjufæra í landbúnaðarskýrslu fyrir rekstrarárið 2000 vaxtatekjur vegna stofnsjóðs að fjárhæð 29.426 kr. og eignfæra í efnahagsreikningi stofnsjóðsinneign að fjárhæð 400.604 kr. Við þetta yrðu hreinar tekjur af atvinnurekstri 113.920 kr. í stað 84.494 kr. og hrein eign 11.802.844 kr. í stað 11.402.240 kr. Hreinum tekjum af búrekstrinum höfðu kærendur skipt að jöfnu til tekjufærslu í reit 62 í skattframtalinu eða 42.247 kr. hjá hvoru um sig. Skattstjóri vísaði til verklagsreglna ríkisskattstjóra um landbúnað, en þar kæmi fram að í lið 2.8 í efnahagsyfirliti landbúnaðarskýrslu bæri að færa aðrar eignir sem tengdust búrekstri, t.d. eignarhluta í öðrum félögum og stofnsjóði í samvinnufélögum. Samkvæmt þessu bæri að telja vexti af stofnsjóði og eign með atvinnurekstrartekjum og eignum og skattleggja eins og atvinnurekstrartekjur og eignir, enda væri stofnsjóður ekki skattlagður þegar hann væri útborgaður. Vísaði skattstjóri til B-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981.

Með bréfi, dags. 11. febrúar 2002, mótmælti umboðsmaður kærenda hinum boðuðu breytingum skattstjóra. Kom fram að kærandi, A, liti svo á að umrædd stofnsjóðseign í stofnsjóði T væri persónuleg eign hans og þá vextir af henni einnig. Þrátt fyrir að í stofnsjóðinn væri greiddur arður af viðskiptum væri það ekki sjálfgefið að hann væri hluti af rekstri. Það hlyti að ráðast af skoðun eigandans sjálfs hvernig hann liti á þessa eign sína. Í ljósi þessa væri því hafnað að um tekjur samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 75/1981 væri að ræða.

Skattstjóri hratt hinum boðuðu breytingum í framkvæmd með úrskurði um endurákvörðun, dags. 3. maí 2002, tekjufærði í landbúnaðarskýrslu vaxtatekjur vegna stofnsjóðs 29.426 kr. og eignfærði í efnahagsyfirliti skýrslunnar stofnsjóðsinneign að fjárhæð 400.604 kr. og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kærenda gjaldárið 2001 í samræmi við þetta. Skipti kærandi hækkun hreinna tekna, sem af þessu leiddi, að jöfnu milli kærenda þannig að hreinar tekjur í reit 62 urðu 56.960 kr. hjá hvoru um sig í stað 42.247 kr. áður. Rökstuddi skattstjóri breytingarnar með eftirfarandi hætti:

„Varðandi ofanritað er vísað til B liðar 7. gr. ofangr. laga og í verklagsreglur ríkisskattstjóra varðandi landbúnað en þar segir: Í lið 2.8 aðrar eignir „Hér skal tilgreina aðrar eignir sem tengjast búrekstri t.d. eignarhluta í öðrum félögum og stofnsjóði í samvinnufél. o.þ.h.“ Samkvæmt framansögðu ber að telja vexti af stofnsjóði og eign með atvinnurekstrartekjum og eignum og skattleggja eins og atvinnurekstrartekjum og eignum (sic) og skattleggja eins og atvinnurekstrartekjum (sic) og eignir enda er stofnsjóður ekki skattlagður þegar hann er útborgaður.“

II.

Með kæru, dags. 2. ágúst 2002, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 3. maí 2002, til yfirskattanefndar. Í kærunni eru ítrekuð áður fram komin rök og þess krafist að ákvörðun skattstjóra um að skattleggja umrædda stofnsjóðseign í T og vaxtatekjur af henni með eignum og tekjum í atvinnurekstri verði hrundið. Kærendur líti svo á að umrædd stofnsjóðseign sé persónuleg eign og tilheyri ekki búrekstrinum, enda sé engin skylda að vera með búrekstur til að geta átt stofnsjóðseign í T. Hefði það til að mynda þekkst hér áður fyrr að foreldrar gæfu börnum sínum slíka eign og hefði eignin þannig ekki verið tengd rekstri. Megi líkja þessu við hlutabréfaeign, sem eignfærð sé í persónuframtali, og verði að telja að skattstjóri hafi ekki mat um það hvort eignir tilheyri rekstri eða ekki, enda séu engin bein tengsl við reksturinn nema arður í stofnsjóðinn komi frá innleggi.

III.

Með bréfi, dags. 6. september 2002, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Á landbúnaðarskýrslu með skattframtali skal færa efnahagsyfirlit og skal þar gera grein fyrir eignum vegna búrekstrar. Í stofnsjóð T er greiddur arður af viðskiptum sem stafa af búrekstrinum. Er stofnsjóðurinn þannig tilkominn vegna tekna sem myndast í búrekstrinum og verður því að líta svo á að stofnsjóðurinn sé eign sem tilheyrir rekstrinum. Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

IV.

Ágreiningsefni máls þessa lýtur að því hvort telja beri eign kærenda í stofnsjóði T, sem er samvinnufélag, sbr. lög nr. 22/1991, um samvinnufélög, tilheyra búrekstri þeirra þannig að vaxtatekjur af stofnsjóðseigninni teljist til tekna af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi í merkingu B-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, svo sem skattstjóri áleit, eða hvort stofnsjóðseignina verði að virða sem eign utan rekstrar, sem eignfæra ber í persónuframtali, svo sem kærendur halda fram, þannig að vaxtatekjur af stofnsjóðseigninni teljist eignatekjur samkvæmt 3. tölul. C-liðar sömu lagagreinar sem skattleggja beri sem fjármagnstekjur einstaklinga utan rekstrar samkvæmt 3. mgr. 67. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 7. gr. laga nr. 97/1996.

Til stuðnings ákvörðun sinni vísaði skattstjóri til leiðbeininga ríkisskattstjóra til útfyllingar landbúnaðarskýrslu framtalsárið 2001 varðandi útfyllingu á lið 2.8 í efnahagsyfirliti skýrslunnar. Í leiðbeiningum þessum kemur fram að þar skuli tilgreina aðrar eignir sem tengist búrekstri, t.d. eignarhluta í öðrum félögum og stofnsjóði í samvinnufélögum. Eins og fram er komið boðaði skattstjóri kærendum hinar umdeildu breytingar með bréfi sínu frá 4. febrúar 2002, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 16. gr. laga nr. 145/1995, að undangengnu fyrirspurnarbréfi, dags. 25. október 2001, varðandi rök fyrir færslu stofnsjóðs og vaxta af honum í persónuframtal, sbr. svarbréf umboðsmanns kærenda, dags. 5. nóvember 2001. Ljóst er að skattstjóri hefur byggt á því að stofnsjóðseignin væri að öllu leyti til komin vegna atvinnurekstrar kærenda, sbr. tilvísun hans til greindra verklagsreglna ríkisskattstjóra, sem byggja á tengslum við búreksturinn, enda kom ekki annað fram af hálfu kærenda. Ekki verður séð að af hálfu kærenda sé vefengt að umrædd stofnsjóðseign sé að öllu leyti sprottin af innleggi, sbr. kæru til yfirskattanefndar þar sem tekið er fram að „engin bein tengsl ?séu? við reksturinn nema að arður í stofnsjóðinn kemur frá innleggi“. Samkvæmt þessu verður að hafna kröfu kærenda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kærenda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja