Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður

Úrskurður nr. 156/2003

Gjaldár 2002

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr.   Reglugerð nr. 483/1994, 3. gr. 7. mgr.  

Fallist var á kröfu kæranda, sem hafði löggildingu sem ökukennari, um gjaldfærslu kostnaðar vegna skyndihjálparnámskeiðs í rekstrarreikningi vegna ökukennslu, enda var talið að umrætt námskeið varðaði viðhald starfsréttinda kæranda sem ökukennara.

I.

Með kæru, dags. 28. janúar 2003, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði skattstjóra, dags. 21. nóvember 2002, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2002. Kæruefnið er sú ákvörðun skattstjóra, sbr. tilkynningu hans, dags. 29. júlí 2002, að fella niður í rekstrarreikningi vegna ökukennslu sem fylgdi skattframtali kæranda árið 2002 gjaldfærðan kostnað að fjárhæð 60.750 kr. vegna leiðbeinendanámskeiðs í skyndihjálp hjá Rauða krossi Íslands, sbr. og bréf skattstjóra, dags. 6. maí 2002, þar sem hann krafði kæranda um ljósrit kvittana vegna gjaldfærðs kostnaðar að fjárhæð 78.050 kr. við námskeið vegna endurmenntunar í rekstrarreikningnum. Niðurfelling námskeiðskostnaðar 17.300 kr. vegna verðbréfanámskeiðs er ágreiningslaus. Forsenda skattstjóra fyrir hinni kærðu breytingu á skattframtali kæranda var sú, sbr. framangreinda tilkynningu skattstjóra og hinn kærða úrskurð, að kostnaðurinn væri þess eðlis að hann gæti ekki talist frádráttarbær rekstrarkostnaður í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, heldur væri fyrst og fremst um að ræða persónulegan kostnað kæranda. Um væri að ræða nám til öflunar aukinna réttinda, þ.e. réttinda til kennslu í skyndihjálp sem viðbót við ökukennararéttindi. Hvorki í skattalögum né öðrum lögum væri fyrir að fara heimild til gjaldfærslu á fjárfestingu í eigin menntun og gilti það þótt unnt væri að sýna fram á að slík fjárfesting myndi auka tekjur, annað hvort strax eða í framtíðinni. Útgjöld vegna náms teldust því vera persónulegur kostnaður. Í kæru til skattstjóra, dags. 30. júlí 2002, hafði kærandi vísað til námskrár fyrir almenn ökuréttindi, flokk B, útgefinnar af Umferðarráði í janúar 2000, sbr. reglugerð nr. 327/1999, um löggildingu ökukennara og starfsleyfi ökuskóla, þar sem áskilið væri að leiðbeinandi, viðurkenndur af Rauða krossi Íslands, sæi um kennslu og þjálfun í neyðar- og hjálparhluta.

Í kæru sinni til yfirskattanefndar krefst kærandi þess að breyting skattstjóra verði felld niður og kostnaður 60.750 kr. vegna námskeiðs í skyndihjálp standi óhaggaður í rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 2001. Vísar kærandi í því sambandi til 1. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, og bendir á sem áður að samkvæmt námskrá fyrir almenn ökuréttindi, sem samþykkt hafi verið af stjórn Umferðarráðs og staðfest af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og tekið hafi gildi 1. febrúar 2000, skuli leiðbeinandi, sem viðurkenndur sé af Rauða krossi Íslands, sjá um kennslu og þjálfun í þeim hluta ökukennslu sem snúi að skyndihjálp. Sé því ljóst að ekki sé leyfilegt að kenna skyndihjálparhluta ökukennslu nema vera með réttindi sem leiðbeinandi frá Rauða krossi Íslands. Af þeim sökum hafi kærandi tekið umrætt námskeið og geti kostnaður vegna þess ekki talist persónulegur kostnaður hans þar sem kærandi hafi ekki í hyggju að kenna skyndihjálp annars staðar en í ökuskólanum. Hefði kærandi ekki farið á námskeiðið ef ekki væri gerð krafa um leiðbeinendaréttindin samkvæmt námsskrá fyrir almenn ökuréttindi.

II.

Með bréfi, dags. 28. febrúar 2003, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Gjaldfærður námskeiðskostnaður er kostnaður við viðbótarnám kæranda í nýju fagi vegna öflunar persónubundinna réttinda hans. Verður að telja að um sé að ræða persónulegan kostnað kæranda sem ekki er heimilt að gjaldfæra í rekstri hans skv. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 7. mars 2003, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Í úrskurðaframkvæmd hefur verið litið svo á að kostnaður vegna námskeiða starfsmanna eða sjálfstætt starfandi manna geti talist falla undir frádráttarbæran rekstrarkostnað, sbr. 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, enda sé gerð fullnægjandi grein fyrir þeim námskeiðum sem sótt eru og tengslum þeirra við tekjuöflun rekstraraðila. Samkvæmt 7. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, telst til rekstrarkostnaðar kostnaður við námskeið sem tengjast starfinu beint. Tekur það m.a. til námskeiða sem ætluð eru til viðhalds menntun í starfsgrein viðkomandi aðila og til þess að fylgjast með nýjungum í starfsgreininni. Almennt verður hins vegar að líta svo á að útgjöld vegna viðbótarnáms eða náms til öflunar starfsréttinda séu ekki frádráttarbær, sbr. m.a. úrskurð ríkisskattanefndar nr. 815/1987 sem birtur er í úrskurðasafni nefndarinnar fyrir árin 1986-1989.

Kærandi, sem hefur löggildingu sem ökukennari, hefur greint frá því að hann hafi sótt leiðbeinandanámskeið í skyndihjálp á vegum Rauða kross Íslands til þess að geta séð um kennslu og þjálfun í þeim hluta ökunáms sem snýr að helstu þáttum neyðarhjálpar, enda sé áskilið samkvæmt námskrá fyrir almenn ökuréttindi að leiðbeinandi, viðurkenndur af Rauða krossi Íslands, skuli annast um þennan þátt námsins. Með hliðsjón af þessum skýringum kæranda á þátttöku hans í umræddu námskeiði þykja engin efni til annars en að taka kröfu hans í máli þessu til greina, sbr. framangreint ákvæði 7. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 483/1994, enda verður að telja að umrætt námskeið hafi varðað viðhald starfsréttinda hans sem ökukennara. Er hin kærða breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 2002 því felld niður.

Tekið skal fram að niðurfelling skattstjóra á hinum umdeilda námskeiðskostnaði 60.750 kr. í tilkynningu hans, dags. 29. júlí 2002, og kæruúrskurði, dags. 21. nóvember 2002, var naumast nægilega rökstudd, sbr. 3. mgr. 96. gr. og 4. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. og 1. og 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda kom ekkert nánar fram í tilkynningunni um það á hverju niðurfellingin var byggð en að ekki yrði séð að um frádráttarbæran rekstrarkostnað væri að ræða og í kæruúrskurðinum var því slegið föstu að um nám til aukinna starfsréttinda hefði verið að ræða án þess að málsástæður og skýringar kæranda í kæru, dags. 30. júlí 2002, varðandi gildandi námskrárkröfu vegna ökukennslu fengju viðhlítandi úrlausn af hendi skattstjóra.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja