Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattsekt
  • Skattrannsókn

Úrskurður nr. 32/2003

Lög nr. 75/1981, 107. gr. 3. mgr., sbr. 1. mgr. (brl. nr. 42/1995, 1. gr.)   Lög nr. 50/1988, 40. gr. 1. mgr. (brl. nr. 42/1995, 3. gr.)   Lög nr. 4/1995, 22. gr. 2. mgr.  

A var með úrskurði yfirskattanefndar gerð sekt fyrir að hafa á saknæman hátt vanrækt að telja fram í skattframtölum sínum árin 1997 og 1998 skattskyldar tekjur af sjálfstæðri starfsemi við rekstur vörubifreiðar og vinnuvélar. Þá var A gerð sekt fyrir að hafa á saknæman hátt staðið skil á röngum virðisaukaskattsskýrslum árin 1996 og 1997 og þannig vanrækt að gera grein fyrir virðisaukaskatti til greiðslu. Tölulegar niðurstöður samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum A umrædd ár, sem m.a. byggðu á mati skattrannsóknarstjóra á ætluðum rekstrartekjum vegna vöntunar sölureikninga í samfellda númeraröð þeirra, voru lagðar til grundvallar ákvörðun sektar.

I.

Með bréfi, dags. 14. mars 2002, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, fyrir brot á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með áorðnum breytingum, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna tekjuáranna 1996 og 1997.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

1. Skil á röngum skattframtölum og fylgigögnum þeirra. Vantaldar rekstrartekjur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skil á röngum skattframtölum til skattstjórans í V vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 1997 og 1998, vegna tekjuáranna 1996 og 1997, með því að vantelja rekstrartekjur í framtölunum um samtals kr. 2.039.589, eða um kr. 1.986.737 vegna tekjuársins 1996 og um kr. 52.852, sem til voru komnar vegna sjálfstæðrar starfsemi hans við rekstur á vörubifreið og gröfu.

Hin röngu framtalsskil höfðu ekki áhrif á ákvörðun tekjuskattsstofna A þau ár sem um ræðir. Leiddu hinar vantöldu tekjur einungis til að rekstrartap var tilgreint hærra en það í raun var, eða sem nam framangreindum fjárhæðum.

Sú háttsemi A sem lýst hefur verið í hér að framan brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 91. gr., sbr. B. lið 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. og 22. gr., sbr. 19. gr. og 1. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, hvor tveggja með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A hann sekt samkvæmt 3. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 1. gr. laga nr. 42/1995, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.

2. Skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum. Vantalin skattskyld velta og virðisaukaskattur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skattstjóranum í V og innheimtumanni ríkissjóðs skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum vegna virðisaukaskattskyldrar starfsemi sinnar vegna uppgjörstímabilanna maí–júní, júlí–ágúst, september–október og nóvember–desember tekjuárið 1996 og maí–júní og nóvember–desember tekjuárið 1997. Það gerði hann með því að vantelja skattskylda veltu og virðisaukaskatt (útskatt) á virðisaukaskattsskýrslunum, svo sem sundurliðað verður hér á eftir. Skattskyld velta og virðisaukaskattur (útskattur) voru hins vegar oftalin á virðisaukaskattsskýrslu fyrir uppgjörstímabilið júlí–ágúst tekjuárið 1997. Nemur vantalin skattskyld velta samtals kr. 2.039.589 og vantalinn virðisaukaskattur (útskattur) samtals kr. 499.697.

Sundurliðast van(-of)talin skattskyld velta og virðisaukaskattur (útskattur) á milli uppgjörstímabila svo sem hér greinir:

...

Samtals tekjuárin 1996 og 1997:

Vantalin skattskyld velta: kr. 2.039.589

Vantalinn virðisaukaskattur (útskattur): kr. 499.697

Sú háttsemi A sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 24. gr., sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A hann sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

Við endurákvörðun á virðisaukaskatti vegna framangreindra ára hefur A verið gert að sæta hækkun álags vegna vangreidds virðisaukaskatts samkvæmt 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, kr. 49.971 (Vegna tekjuársins 1996, kr. 48.675 og tekjuársins 1997, kr. 1.296), er komi til frádráttar við ákvörðun sektarfjárhæðar.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt vegna framangreindra brota.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 14. mars 2002, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 20. mars 2002, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um það hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og 2. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 14. mars 2002, er þess krafist að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 107. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf í apríl 1999 rannsókn á bókhaldi og skattskilum gjaldanda vegna sjálfstæðrar starfsemi hans við rekstur vörubifreiðar og vinnuvélar. Tilefni rannsóknarinnar, sem tók til tekjuáranna 1995, 1996 og 1997, var tilkynning ríkisskattstjóra, dags. 25. maí 1998, vegna gruns um skattsvik, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og 6. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 11. október 1999. Með bréfi, dags. 20. desember 1999, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina, dags. 16. desember 1999, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar. Með bréfi, dags. 5. janúar 2000, gerði umboðsmaður gjaldanda athugasemdir við skýrslu skattrannsóknarstjóra og tók skattrannsóknarstjóri í framhaldi af því saman nýja skýrslu um rannsóknina, dags. 29. desember 2000, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri að því undanskildu að bætt var við kafla um lok rannsóknarinnar þar sem fjallað var um fram komnar athugasemdir umboðsmanns gjaldanda.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 29. desember 2000, var gerð grein fyrir rannsókn embættisins á bókhaldi og skattskilum gjaldanda og niðurstöðum hennar. Þar kom fram að tekjuskráningu og vörslu tekjuskráningargagna gjaldanda hefði verið áfátt. Þá hefði rannsóknin leitt í ljós að gjaldandi hefði staðið skil á röngum skattframtölum árin 1996, 1997 og 1998 með því að vanframtelja rekstrartekjur samtals að fjárhæð 3.100.431 kr. Þá hefði gjaldandi staðið skil á röngum virðisaukaskattsskýrslum og ekki staðið skil á öllum innheimtum virðisaukaskatti umrædd ár.

Niðurstöður skattrannsóknarstjóra ríkisins um vanframtaldar rekstrartekjur og virðisaukaskattsskylda veltu byggðu í fyrsta lagi á sölureikningum gjaldanda árin 1995, 1996 og 1997, þ.m.t. sjö sölureikningum sem aflað var frá viðskiptavinum gjaldanda en ekki var að finna í bókhaldi gjaldanda umrædd ár. Skattskyld velta samkvæmt þessum gögnum var 2.772.238 kr. rekstrarárið 1995, 4.280.695 kr. rekstrarárið 1996 og 7.021.455 kr. rekstrarárið 1997, þ.m.t. 1.050.000 kr. vegna sölu rekstrarfjármuna það ár. Í öðru lagi var byggt á innborgunum á bankareikning gjaldanda og gögnum á bak við þær og var talið að þau bæru með sér upplýsingar um skattskylda veltu að fjárhæð 32.482 kr. árið 1995, 70.265 kr. árið 1996 og 52.851 kr. árið 1997. Í þriðja lagi lagði skattrannsóknarstjóri ríkisins mat á ætlaðar rekstrartekjur árið 1996 vegna vöntunar 26 sölureikninga til að númeraröð sölureikninga það ár væri samfelld. Við það mat leit skattrannsóknarstjóri ríkisins til meðaltalsfjárhæðar þeirra sölureikninga gjaldanda sem komið hefðu fram við rannsóknina og væru að fjárhæð 300.000 kr. eða lægri. Um væri að ræða 117 sölureikninga að heildarfjárhæð 7.606.616 kr. og gerði skattrannsóknarstjóri ráð fyrir að meðalfjárhæð hvers sölureiknings væri 65.014 kr. Heildarfjárhæð sölureikninga, sem vantaði í tekjuskráningargögn gjaldanda, væri því 1.690.364 kr. (26 x 65.014 kr.). Var reiknað með 80,32% þeirrar fjárhæðar eða 1.357.722 kr. í samantekt skattrannsóknarstjóra ríkisins um rekstrartekjur og skattskylda veltu tekjuárið 1996.

Skattskyld velta samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum gjaldanda var 2.892.720 kr. árið 1995, 2.573.103 kr. árið 1996 og 7.021.455 kr. árið 1997, þ.m.t. 1.050.000 kr. vegna sölu á rekstrarfjármunum, sbr. að framan. Að teknu tilliti til þessara fjárhæða var niðurstaða skattrannsóknarstjóra ríkisins sú að rekstrarárið 1995 hefði gjaldandi oftalið skattskylda veltu um 88.000 kr., rekstrarárið 1996 væri skattskyld velta vanframtalin um 3.135.579 kr. og rekstrarárið 1997 væri skattskyld velta vanframtalin um 52.852 kr. Þá hefðu rekstrartekjur gjaldanda verið oftaldar í almennum skattskilum hans fyrsta árið, en vanframtaldar um sömu fjárhæðir og að framan greinir rekstrarárin 1996 og 1997. Kom fram í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að niðurstaða um vanframtaldar rekstrartekjur byggði á umfjöllun um skattskylda veltu gjaldanda í skýrslunni.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 6. mgr. 102. gr. A laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Í framhaldi af bréfi til gjaldanda, dags. 18. júní 2001, og svarbréfi umboðsmanns gjaldanda, dags. 19. júní 2001, tók ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld gjaldanda gjaldárin 1996, 1997 og 1998 og virðisaukaskatt árin 1995, 1996 og 1997 til endurákvörðunar með úrskurði um endurákvörðun, dags. 28. júní 2001. Samkvæmt úrskurðinum lækkaði ríkisskattstjóri rekstrartekjur og skattskylda veltu rekstrarárið 1995 um 88.000 kr. en ákvarðaði gjaldanda tekjuviðbætur og hækkun virðisaukaskattsskyldrar veltu að fjárhæð 1.986.737 kr. rekstrarárið 1996 og 52.852 kr. rekstrarárið 1997. Við þessar ákvarðanir sínar tók ríkisskattstjóri mið af niðurstöðum skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að teknu tilliti til 22 óútfylltra reikningseyðublaða sem fylgt höfðu bréfi umboðsmanns gjaldanda, dags. 19. júní 2001, og væru hluti þeirra 26 sölureikninga sem vantað hefði í tekjuskráningargögn gjaldanda. Breytingar ríkisskattstjóra leiddu til lækkunar á yfirfæranlegu rekstrartapi umrædd ár og hækkunar virðisaukaskatts um samtals 478.136 kr. auk álags skv. 27. gr. laga nr. 50/1988 að fjárhæð 48.768 kr. Gjaldandi nýtti sér ekki heimilaðar málskotsleiðir vegna þessa úrskurðar ríkisskattstjóra.

3. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 11. október 1999 voru lögð fyrir gjaldanda ljósrit 136 sölureikninga, sem hann var talinn hafa gefið út árin 1995, 1996 og 1997, samtals að fjárhæð 17.672.613 kr., þar af skattskyld velta 14.194.870 kr. Var gjaldandi spurður hvort hann hefði gefið út þessa sölureikninga og þegið greiðslur samkvæmt þeim og um mismun fjárhæðar þeirra og framtalinnar skattskyldrar veltu 12.487.278 kr. umrædd ár, með sérstöku tilliti til sölureikninga nr. 13, 31, 35, 36, 37, 45 og 1001 sem skattrannsóknarstjóri ríkisins hafði aflað frá viðskiptavinum gjaldanda. Í svari gjaldanda kom fram að sölureikningur nr. 31 væri ógildur og sölureikningur nr. 37 komið í hans stað, en hinir sjö sölureikningarnir hefðu með réttu átt að koma fram í skattskilum gjaldanda en ekki gert það þar sem þeir hefðu týnst. Þá kom fram af hálfu gjaldanda að fimm sölureikningar, þ.e. nr. 40, 42, 1004, 1018 og 1030, hefðu ekki fengist greiddir eða aðeins greiddir að hluta. Þá sagði gjaldandi að sölureikningur nr. 1002 hefði verið gefinn út án virðisaukaskatts að fyrirlagi kaupanda. Aðspurður um 34 sölureikninga sem virtist vanta til að númeraröð sölureikninga gjaldanda væri samfelld sagði gjaldandi að fjórir þeirra hefðu verið notaðir á árinu 1998. Aðra sölureikninga kvaðst gjaldandi ekki hafa notað, þeir væru ógildir eða ættu að koma fram á bankareikningi sínum, en allar greiðslur hefðu farið í gegnum tékkareikning. Kvaðst gjaldandi hafa gefið út sölureikninga fyrir allri seldri vinnu og þjónustu árin 1995–1997. Við skýrslutökuna voru lögð fyrir gjaldanda gögn um innborganir á tékkareikning hans við Sparisjóð M og kom fram í skýringum gjaldanda að tvær innborganir árið 1995, samtals að fjárhæð 40.440 kr., tvær innborganir árið 1996, samtals að fjárhæð 87.480 kr., og ein innborgun árið 1997 að fjárhæð 65.800 kr. væru vegna seldrar þjónustu. Sölureikningar hefðu týnst að því er fjögur þessara tilvika varðaði en í eitt skipti hefði ekki verið gefinn út sölureikningur.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er fjallað um sölureikninga sem gjaldandi kvaðst í skýrslutöku ekki hafa fengið greidda eða aðeins greidda að hluta. Er talið að þessar skýringar eigi ekki við rök að styðjast, svo sem nánari grein er gerð fyrir, m.a. með skírskotun til innborgana á tékkareikning gjaldanda, nema að því er varðar reikning nr. 42 að fjárhæð 700.000 kr. m/vsk. þar sem greiddar hafi verið 550.000 kr. Miðað er við síðarnefnda fjárhæð í niðurstöðum skattrannsóknarstjóra um rekstrartekjur og skattskylda veltu gjaldanda. Þá telur skattrannsóknarstjóri að ekki hafi verið sýnt fram á af hálfu gjaldanda að sölureikningur nr. 37 hafi komið í stað sölureiknings nr. 31, sem sé ógildur, enda hafi frumrit beggja þessara sölureikninga borist frá viðkomandi viðskiptavini gjaldanda og hvorugt þeirra borið nein merki um ógildingu.

Í umfjöllun í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins um vöntun sölureikninga kemur fram að litið sé svo á að skýringar hafi komið fram varðandi átta þeirra 34 sölureikninga sem taldir voru vanta í tekjuskráningargögn gjaldanda. Eins og fram er komið er í niðurstöðum skattrannsóknarstjóra lagt mat á ætlaðar vanframtaldar rekstrartekjur og skattskylda veltu rekstrarárið 1996 miðað við vöntun 26 sölureikninga í tekjuskráningargögn gjaldanda það ár samkvæmt ákveðnum forsendum um meðalfjárhæð sölureikninga árin 1995, 1996 og 1997. Í úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 28. júní 2001, var stuðst við sömu forsendur varðandi þennan þátt málsins að öðru leyti en því að tekið var tillit til 22 ónotaðra reikningseyðublaða, sem umboðsmaður gjaldanda lagði fram með bréfi sínu, dags. 19. júní 2001, og þannig lagt til grundvallar að fjóra sölureikninga vantaði í gögn gjaldanda. Krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda er byggð á fjárhæð tekjuviðbóta og viðbótarveltu sem ríkisskattstjóri ákvarðaði.

4. Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldendum samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 107. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem gera ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldanda í hag, sbr. grundvallarreglu 45. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.

Eins og fram er komið eru tölulegar niðurstöður samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á bókhaldi og skattskilum gjaldanda árin 1996 og 1997, sem liggja til grundvallar sektarkröfu í máli þessu, þó með þeim breytingum sem að framan greinir, í fyrsta lagi byggðar á sölureikningum gjaldanda sem var að finna í bókhaldi gjaldanda eða aflað var frá viðskiptavinum hans, í öðru lagi á gögnum á bak við innborganir á bankareikning gjaldanda og í þriðja lagi á mati skattrannsóknarstjóra á ætluðum rekstrartekjum vegna vöntunar sölureikninga til að númeraröð þeirra væri samfelld. Að því er fyrstu tvo þættina varðar liggur fyrir viðurkenning gjaldanda um vanframtaldar tekjur, sbr. framburð hans við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 11. október 1999, og þykir ekkert komið fram sem gefur tilefni til annars en að miða við þær fjárhæðir rekstrartekna og skattskylda veltu sem umræddir sölureikningar og gögn um innborganir bera með sér. Sérstaklega skal tekið fram í þessu sambandi að með hliðsjón af umfjöllun í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins varðandi viðbárur gjaldanda um tapaðar viðskiptaskuldir þykir ekki tilefni til að líta til þeirra með öðrum hætti en gert er í skýrslu skattrannsóknarstjóra, enda hafa af hálfu kæranda engar frekari skýringar komið fram að því er þessa liði varðar.

Kveðið er á um tölusetningu reikningseyðublaða í 17. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, og 1. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. og 4. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, þar sem m.a. er mælt fyrir um skyldu til að halda afritum sölureikninga til haga í réttri töluröð. Þegar virt eru þau lagarök, sem búa að baki ákvæðum um tölusetningar tekjuskráningargagna, verður almennt að telja að slíkar aðstæður og greinir í máli þessu valdi því að draga verði grundvöll viðkomandi skattskila í efa. Að þessu virtu og þar sem fyrir liggur að rekstrartekjur kæranda hafi verið vantaldar árin 1996 og 1997 þykja atvik vera með þeim hætti að skattrannsóknarstjóra ríkisins hafi verið rétt að leggja mat á ætlaðan undandrátt gjaldanda, sbr. 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 361/1995, um skattrannsóknir og málsmeðferð hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, sbr. nú 3. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 373/2001, um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna, sem leysti hina fyrrnefndu reglugerð af hólmi, enda gáfu skýringar kæranda ekki tilefni til annars. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er gerð grein fyrir forsendum sem lágu til grundvallar mati embættisins og hafa þær verið raktar í megindráttum hér að framan. Engar athugasemdir hafa komið fram af hálfu gjaldanda í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins og hvorki á rannsóknarstigi né við meðferð máls gjaldanda hjá embætti ríkisskattstjóra komu fram athugasemdir varðandi umræddar forsendur skattrannsóknarstjóra. Að þessu athuguðu og þar sem mat skattrannsóknarstjóra ríkisins þykir ekki úr hófi fram miðað við málsatvik og ekki verður séð að hann hafi byggt það á ómálefnalegum forsendum, þykir rétt að byggja á því í máli þessu.

Fullsannað þykir samkvæmt því sem að framan er rakið og að öðru leyti með stoð í gögnum málsins, m.a. framburði gjaldanda við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 11. október 1999, að gjaldandi hafi á saknæman hátt vanrækt að telja fram í skattframtölum sínum árin 1997 og 1998 tekjur af atvinnurekstri sínum eða sjálfstæðri starfsemi, samtals 2.039.589 kr., sem skattskyldar voru samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. og 19. og 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Þar sem hinar röngu upplýsingar höfðu ekki áhrif á skattgreiðslu gjaldanda nefnd gjaldár verður talið að brot gjaldanda varði refsingu samkvæmt 3. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 1. gr. laga nr. 42/1995, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.

Þá þykir fullsannað með stoð í gögnum málsins, m.a. framburði gjaldanda við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 11. október 1999, að gjaldandi, sem skyldur var til þess að standa skil á virðisaukaskatti, sbr. 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, hafi á saknæman hátt staðið skil á röngum virðisaukaskattsskýrslum þau uppgjörstímabil árin 1996 og 1997 sem greinir í kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins, og þannig vanrækt að gera grein fyrir virðisaukaskatti til greiðslu samtals að fjárhæð 499.697 kr. Varðar þetta gjaldanda sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

5. Ákvarða ber gjaldanda, A, sekt samkvæmt framangreindum ákvæðum 1. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 1. gr. laga nr. 42/1995, og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995. Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Við sektarákvörðun þykir bera að taka tillit til þess að gjaldandi reyndist samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins hafa oftalið rekstrartekjur og skattskylda veltu árið 1995. Að þessu virtu og að teknu tilliti til álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 1.000.000 kr. til ríkissjóðs og 30.000 kr. til sveitarsjóðs B.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

A greiði sekt að fjárhæð 1.000.000 kr. til ríkissjóðs og 30.000 kr. til sveitarsjóðs B.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja