Úrskurður yfirskattanefndar
- Ársreikningur, höfnun
- Rekstrarkostnaður
- Vörunotkun
Úrskurður nr. 198/2003
Gjaldár 2000
Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr., 74. gr. 4. tölul., 96. gr. 1. mgr.
Í málinu var m.a. deilt um þær ákvarðanir skattstjóra varðandi skattskil kærenda árið 2000 að hafna framlögðum ársreikningi vegna veitingarekstrar og að lækka gjaldfærða vörunotkun í rekstrarreikningi vegna verslunarrekstrar. Yfirskattanefnd hnekkti þessum ákvörðunum skattstjóra þar sem þær þóttu ekki á nægum rökum reistar í ljósi fram kominna skýringa kærenda auk þess sem forsendur skattstjóra voru ekki svo skýrar sem skyldi. Hins vegar var niðurfelling skattstjóra á gjaldfærðum bifreiðakostnaði í rekstrarreikningi verslunar látin standa óhögguð þar sem sá frádráttarliður þótti alveg ósannaður af hendi kærenda.
I.
Kæruefni í máli þessu, sem barst yfirskattanefnd með kæru umboðsmanns kærenda, dags. 12. júní 2002, eru þær ákvarðanir skattstjóra samkvæmt úrskurði um endurákvörðun, dags. 15. mars 2002, að hafna ársreikningi vegna veitingarekstrar árið 1999, sem fylgdi innsendu skattframtali kærenda árið 2000, og fella þar með niður tilfært rekstrartap 2.805.115 kr. vegna þeirrar starfsemi, svo og að lækka gjaldfærða vörunotkun um 3.500.000 og fella niður gjaldfærðan bifreiðakostnað 199.616 kr. í rekstrarreikningi vegna verslunarinnar X sama rekstrarár.
Í bréfi umboðsmanns kærenda til yfirskattanefndar, dags. 8. júlí 2002, er gerð grein fyrir kröfum kærenda og rökstuðningi fyrir þeim. Þess er krafist að breyting skattstjóra varðandi veitingarekstur verði felld niður. Til vara er farið fram á að kærendum verði heimilað að eignfæra og afskrifa tilgreindan kostnað vegna starfseminnar. Þá er breytingum skattstjóra á rekstrarreikningi verslunar mótmælt og þess krafist að þeim verði hnekkt. Af hálfu kærenda er gerð sú varakrafa að heimiluð verði aukafyrning fasteignarinnar Y á móti tekjufærðum söluhagnaði að fjárhæð 2.444.496 kr.
II.
Málavextir eru þeir að kærendur töldu ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 2000 og sættu þau því áætlun skattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda það ár, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með bréfi, dags. 3. apríl 2001, tilkynnti skattstjóri kæranda, A, að fyrirhugað væri að áætla honum skattstofna að nýju, sbr. 96. gr. laga nr. 75/1981, þar sem komið hefði í ljós að tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda hefði verið verulega vanáætlaður, enda hefði átt að tekjufæra eftirstöðvar frestaðs hagnaðar af sölu skips árið 1997. Kæranda væri þó gefinn kostur á að leggja fram skattframtal 2000 áður en til þessa kæmi.
Með bréfi, dags. 28. júní 2001, fóru kærendur fram á það við ríkisskattstjóra að meðfylgjandi skattframtal árið 2000 yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda í stað áætlunar. Skattframtalinu fylgdu m.a. tveir ársreikningar, annars vegar í nafni kæranda, A, vegna verslunarinnar X, og hins vegar í nafni kæranda, B, vegna veitingastaðarins Z. Rekstrartap vegna beggja þátta starfsemi kærenda var fært á samræmingarblað í nafni kæranda, A. Með bréfi, dags. 10. september 2001, framsendi ríkisskattstjóri mál kærenda til skattstjóra, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981.
Með bréfi, dags. 13. desember 2001, beindi skattstjóri því til kærenda að leggja fram gögn og skýringar varðandi tiltekna liði skattframtals þeirra áður en málið yrði tekið til afgreiðslu. Að því er varðar ársreikning vegna Z vakti skattstjóri athygli á því að engar vörubirgðir væru eignfærðar í árslok og gjaldfærð vörunotkun næmi 25.964 kr. hærri fjárhæð en útseldar vörur og þjónusta. Gjaldfærð væru eigin laun að fjárhæð 700.000 kr. sem væri 76.073 kr. hærri en rekstrartekjur og engin grein væri gerð fyrir greiðslum til annarra starfsmanna við reksturinn. Um væri að ræða veitingarekstur þar sem sala væri aðallega fólgin í sölu áfengis, kaffis og matar og hefði reksturinn hafist hinn 16. júlí 1999. Samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum hefði velta numið 107.100 kr. uppgjörstímabilið júlí-ágúst 1999, 0 kr. uppgjörstímabilið september-október 1999 og 516.827 kr. uppgjörstímabilið nóvember-desember 1999. Þætti tortryggilegt að vörur hefðu verið seldar undir kostnaðarverði og að engar tekjur hefðu verið vegna útseldrar þjónustu og því virtust fram taldar rekstrartekjur óeðlilega lágar miðað við vörunotkun. Þegar litið væri til eðlis starfseminnar og þess sem almennt gerðist við slíka starfsemi þætti ástæða til að vefengja að við hana hefðu einungis unnið tveir starfsmenn, auk þess sem engar skýringar væru á fjárhæð gjaldfærðra eigin launa. Væri með vísan til þessa óskað eftir að rökstudd grein yrði gerð fyrir starfseminni þar sem fram kæmu skýringar á tekjuleysi á hluta rekstrartímans, lágum tekjum og vörusölu undir kostnaðarverði, útseldri þjónustu og vinnuframlagi starfsmanna við reksturinn. Þá væri óskað eftir að gerð yrði grein fyrir gjaldfærðum bifreiðakostnaði 76.000 kr. með framlagningu rekstraryfirlits bifreiðar.
Vegna ársreiknings verslunarinnar X tók skattstjóri fram að gjaldfærð vörunotkun væri 2.773.393 kr. hærri en heildarsala vöru og þjónustu. Um væri að ræða gjaldfærslu allra vörubirgða í ársbyrjun og vörukaupa á árinu. Hvorki væri þó gerð grein fyrir ástæðum gjaldfærslunnar né lögð fram gögn sem staðfestu að um hefði verið að ræða gallaðar eða úreltar vörur. Samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum hefði engin velta verið í rekstrinum frá ársbyrjun 2000 þannig að svo virtist að starfseminni hefði verið hætt fyrir árslok 1999. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, skyldi telja vörubirgðir til virðisaukaskattsskyldrar veltu á því uppgjörstímabili er starfsemi væri hætt. Væru fyrir hendi fullnægjandi sannanir fyrir því að vara væri gölluð eða úrelt þyrfti ekki að telja hana til virðisaukaskattsskyldrar veltu. Vísaði skattstjóri til nánari skilyrða hér að lútandi er fram kæmu í lið 5.3.2.4 í Handbók um virðisaukaskatt, útg. 1998. Væri með vísan til alls framanritaðs óskað eftir rökstuddri greinargerð ásamt gögnum vegna gjaldfærslu vörulagers í rekstrarreikningi. Þá fór skattstjóri fram á að gerð yrði grein fyrir rekstrarkostnaði bifreiðar og akstri í þágu rekstrar til stuðnings gjaldfærðum bifreiðakostnaði 199.616 kr.
Kærendur svöruðu ofangreindu bréfi skattstjóra með bréfi, dags. 14. janúar 2002. Þar kom fram að rekstur Z hefði ekki komist á skrið, reksturinn hefði í raun verið andvana fæddur og hefði honum verið hætt í árslok. Staðurinn hefði verið lokaður vegna breytinga í rúma tvo mánuði og hefði ekki verið aflað neinna tekna á því tímabili. Reiknuð laun væru vegna kærenda en auk þeirra hefði sonur þeirra aðstoðað við reksturinn án þess að fá greitt fyrir. Sala vöru undir kostnaðarverði skýrðist af því að haldið hefði verið veglegt kynningarkvöld þar sem verulega hefði verið slegið af verði veitinga. Hefði mikill kostnaður verið vegna þessa viðburðar og fleiri viðlíka sem til hefði verið efnt í því skyni að vekja athygli á fyrirtækinu, en hann hefði ekki skilað sér í sölu og hefði fljótlega komið á daginn að umræddan rekstur skorti grundvöll. Hefði staðurinn einungis verið opinn fjögur kvöld í viku. Gjaldfærð fjárhæð bifreiðakostnaðar væri áætluð miðað við 2.000 km og 38 kr. kostnað pr. kílómetra, en talsverðir snúningar hefðu verið vegna rekstrarins, svo sem vegna umgetinna breytinga. Að því er varðar verslunina X sagði í bréfi kærenda að vörunotkun umfram heildarsölu skýrðist einkum af tvennu. Í ársbyrjun hefðu vörubirgðir verið færðar á kostnaðarverði, u.þ.b. 5.400.000 kr., en ljóst væri að verðmæti þessa lagers hefði verið ofmetið þar sem hann hefði á árinu 1999 selst umtalsvert undir kostnaðarverði. Til að henda reiður á vörunotkun á árinu 1999 yrði að líta til áranna 1999 og 1998 í samhengi. Hefði verslunarreksturinn eins og veitingareksturinn með öllu skort grundvöll, en of lengi hefði verið reynt að koma fótunum undir hann. Á haustmánuðum 1999 og fram til ársloka hefðu vörubirgðir X verið seldar á verði langt undir innkaupsverði. Talsvert hefði verið gefið af lager fyrirtækisins á umræddum árum til Rauða krossins og vísuðu kærendur til nafngreinds manns sem tekið hefði við gjöfunum en talið að ekki þyrfti að gefa út neina kvittun fyrir þeim. Hefðu kærendur treyst því áliti hans og verið í góðri trú. Bifreiðakostnaður hefði verið áætlaður miðað við 3.500 km akstur og 38 kr. kostnað pr. kílómetra sem þótt hefði hæfilegt að teknu tilliti til umfangs rekstrar. Það væri þó kærendum að meinalausu að þessi kostnaður yrði strikaður út ef það flýtti fyrir uppkvaðningu úrskurðar í málinu. Þá tóku kærendur fram að þau hefðu síður en svo safnað auði á þessum rekstri sínum, þvert á móti hefði hann verið þungur kross að bera og nú væri svo komið að skuldir þeirra væru umtalsvert umfram eignir.
Með bréfi, dags. 22. febrúar 2002, tilkynnti skattstjóri kærendum að áður en úrskurður yrði felldur um erindi þeirra þætti rétt að upplýsa um breytingar sem skattstjóri hygðist gera á hinu innsenda skattframtali. Samkvæmt fram komnum upplýsingum hefði veitingastaðurinn Z verið í rekstri í þrjá mánuði árið 1999 og því opinn í u.þ.b. 50 kvöld sem svaraði til sölu fyrir 12.500 kr. á kvöldi að meðaltali. Þættu tekjur af rekstrinum óeðlilega lágar í ljósi eðlis starfseminnar og gjaldfærðra vörukaupa. Það að veitingar hefðu í einhverjum tilvikum verið seldar með afslætti þætti ekki skýra lágar tekjur, enda ekki trúverðugt að um litlar eða engar sölutekjur hefði verið að ræða utan kynningarkvölda og annarra slíkra atburða. Því þætti rekstrarreikningur veitingastaðarins í þeim mæli tortryggilegur og svo ótraust heimild um tekjur af starfseminni að eigi þætti unnt að leggja hann til grundvallar álagningu opinberra gjalda. Því hefði skattstjóri í hyggju að hafna rekstrarreikningnum og fella niður rekstrartap ársins 2.805.115 kr. Um rekstrarreikning verslunarinnar X sagði í bréfi skattstjóra að sala árið 1999 næmi 7.616.122 kr. en gjaldfærð vörunotkun 10.389.515 kr. og þar af vörukaup ársins 5.033.059 kr. Telja yrði að a.m.k. verulegur hluti þeirrar vöru hefði verið seldur með eðlilegri álagningu. Gjaldfærðar vörubirgðir frá fyrra ári væru 5.349.785 kr. Samkvæmt svarbréfi hefði verðmæti vörubirgðanna verið ofmetið án þess að nánar væri skýrt hverju skeikaði eða af hvaða sökum. Samkvæmt svarbréfi kærenda væru ekki fyrirliggjandi nein gögn til staðfestingar á tegund, magni og verðmæti vara sem afhentar hefðu verið Rauða krossinum. Með vísan til þessa þættu hvorki liggja fyrir fullnægjandi gögn né skýringar til að unnt væri að fallast á gjaldfærslu vörulagers frá fyrra ári að fullu og því væri ráðgert að lækka gjaldfærða vörunotkun um 3.500.000 kr. Skattstjóri kvaðst einnig hafa í hyggju að fella niður gjaldfærðan bifreiðakostnað 199.616 kr. Kærendur hefðu upplýst að þessi gjaldaliður hefði verið áætlaður að teknu tilliti til umfangs rekstrar, en slíkan kostnað bæri að byggja á rekstrarkostnaði bifreiðar og akstri vegna rekstrar. Kærendum var veittur 15 daga frestur til að koma að athugasemdum vegna hinna fyrirhuguðu breytinga.
Með úrskurði, dags. 15. mars 2002, féllst skattstjóri á að leggja innsent skattframtal til grundvallar álagningu að gerðum þeim breytingum sem hann hefði kynnt kærendum með bréfi, dags. 22. febrúar 2002, en kærendur hefðu ekki gert athugasemdir af því tilefni. Með úrskurðinum voru vaxtagjöld í reit 87 í skattframtalinu lækkuð í 222.876 kr., frestaður söluhagnaður 2.444.496 kr. færður til tekna á samræmingarblaði, rekstrartap 2.805.115 kr. vegna veitingastaðarins Z fellt niður, gjaldfærð vörunotkun í rekstrarreikningi verslunarinnar X lækkuð um 3.500.000 kr. og bifreiðakostnaður 199.616 kr. í sama rekstrarreikningi felldur niður. Samkvæmt þessu felldi skattstjóri niður tilfært yfirfæranlegt rekstrartap 6.983.780 kr. og ákvarðaði rekstrarhagnað 1.965.447 kr. í reit 62 í skattframtali kæranda, A, árið 2000.
III.
Umboðsmaður kærenda hefur með kæru, dags. 12. júní 2002, skotið úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 15. mars 2002, til yfirskattanefndar og gert grein fyrir kæruatriðum í bréfi, dags. 8. júlí 2002.
Í bréfi umboðsmanns kærenda, dags. 8. júlí 2002, er veitingahúsarekstri kærenda lýst. Hafi kærendur haft í hyggju að reka svokallaðan „cocteilbar“ við Y-götu. Staðurinn hafi verið opnaður til kynningar í júní 1999. Strax í upphafi rekstrar hafi komið í ljós að þær innréttingar sem fyrir voru í húsnæðinu frá rekstri fyrri aðila myndu ekki laða að viðskiptavini. Því hafi verið ráðist í að breyta innréttingum og hafi kærendur sjálfir unnið þar að í um rúma tvo mánuði án þess að leggja út í mikinn beinan kostnað. Staðurinn hafi síðan verið opnaður á ný og þá lagt í töluverðan kostnað í formi auglýsinga, kynningarkvölda o.þ.h. en sá kostnaður hafi ekki skilað sér. Rétt sé að tekjur hafi verið mjög lágar og af þeim sökum hafi starfsemin verið lögð niður. Þetta hafi kærendum ekki verið ljóst fyrirfram. Sé ekkert óeðlilegt við það að rekstur fari af stað með umtalsverðu tapi í umhverfi þar sem mikil samkeppni ríki. Sé þess krafist að breyting skattstjóra á ársreikningi vegna veitingarekstrar verði felld niður. Til vara sé þess óskað að kærendum verði heimilað að „eignfæra sem innréttingar og afskrifa (10%) kostnað vegna endurbóta á húsnæði, þ.e. 2/5 hluta launa eigenda (kr. 322.000-), viðhaldskostnað (kr. 150.433-) og bifreiðakostnað (kr. 72.000-), þar sem hann er fyrst og fremst til kominn vegna snúninga við endurbætur húsnæðis (innréttingar)“ og að gjaldfærð áhöld, þ.e. 272.341 kr., verði eignfærð og afskrifuð um 10%.
Þá fjallar umboðsmaður kærenda um breytingar skattstjóra á rekstrarreikningi X. Sé því hafnað að ekki hafi legið fyrir fullnægjandi gögn eða skýringar á vörunotkun. Til viðbótar megi vekja athygli á því að verslun almennt á starfssvæði gjaldenda hafi átt mjög undir högg að sækja ... . Þá sé því hafnað að bifreiðakostnaður skuli vera felldur niður. Ekki verði annað séð en að um ósanngjarna og órökstudda aðgerð sé að ræða af hálfu skattstjóra.
Umboðsmaður kærenda gerir einnig þá varakröfu að kærendum verði heimilað að fyrna fasteignina Y, á móti tekjufærslu frestaðs söluhagnaðar 2.444.496 kr. að svo miklu leyti sem niðurstaða yfirskattanefndar vegna annarra kæruliða gefi tilefni til.
IV.
Með bréfi, dags. 27. september 2002, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Fallist er á kröfu kærenda að aukaafskrifa fasteignina Y.
Að öðru leyti er [þess] krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
V.
Eins og fram er komið töldu kærendur ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 2000 og sættu því áætlun skattstjóra á skattstofnum við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2000, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 28. júní 2001, fóru kærendur fram á að meðfylgjandi skattframtal þeirra árið 2000 yrði lagt til grundvallar álagningu í stað áætlunar. Ríkisskattstjóri fól skattstjóra afgreiðslu þessa erindis, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981. Eins og skattframtalið bar að samkvæmt þessu var skattstjóri ekki bundinn af fyrirspurnar- og tilkynningarákvæðum 96. gr. laga nr. 75/1981. Við úrlausn sína bar skattstjóra hins vegar að sjá til þess samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að málið væri nægjanlega upplýst svo hann gæti tekið ákvörðun í því og einnig varð hann að rökstyðja ákvarðanir sínar, sbr. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981 og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Eins og fram er komið fylgdu innsendu skattframtali kærenda árið 2000 tveir ársreikningar, annars vegar rekstrarreikningur vegna veitingastaðarins Z, sem var í nafni kæranda, B, og hins vegar rekstrarreikningur vegna verslunarrekstrar undir firmanafninu X í nafni kæranda, A. Á samræmingarblaði kæranda, A, með skattframtalinu er þó hvort tveggja tilgreint sem rekstur hans. Á því hefur skattstjóri einnig byggt við hina kærðu ákvörðun. Rétt þykir þó að ganga út frá því að um sameiginlegan rekstur kærenda sé að ræða.
Með hinum kærða úrskurði sínum, dags. 15. mars 2001, féllst skattstjóri á að byggja álagningu opinberra gjalda á innsendu skattframtali kærenda árið 2000 að því undanskildu að hann hafnaði að byggja á fyrirliggjandi ársreikningi kærenda vegna rekstrar veitingastaðarins Z. Þá lækkaði skattstjóri gjaldfærða vörunotkun í rekstrarreikningi kærenda vegna verslunarinnar X um áætlaðar 3.500.000 kr. og felldi niður gjaldfærðan bifreiðakostnað 199.616 kr. í rekstrarreikningnum. Loks lækkaði skattstjóri vaxtagjöld í reit 87 í skattframtali kærenda og tekjufærði frestaðan söluhagnað frá árinu 1997, en þær breytingar sæta ekki kæru.
Til stuðnings því að hafna ársreikningi kærenda vegna veitingareksturs í heild, sem leiddi til niðurfellingar yfirfæranlegs rekstrartaps, tiltók skattstjóri í úrskurði sínum, sbr. einnig bréf skattstjóra, dags. 22. febrúar 2002, að rekstrartekjur þættu óeðlilega lágar miðað við eðli starfseminnar og gjaldfærð vörukaup. Reiknaðist skattstjóra til að miðað við fram komnar upplýsingar um opnunartíma veitingastaðar kærenda hefðu rekstrartekjur vegna seldra veitinga og þjónustu numið um 12.500 kr. að meðaltali á kvöldi. Taldi hann skýringar kærenda um kostnað vegna kynningarkvölds og annarra slíkra atburða ekki skýra lágar tekjur, enda væri ekki trúverðugt að um litlar eða engar sölutekjur hefði verið að ræða þar fyrir utan.
Rekstrartekjur samkvæmt ársreikningi Z fyrir árið 1999 námu 623.927 kr. og vörunotkun 649.891 kr. en rekstrargjöld án fjármagnsliða alls 3.312.221 kr. Tekið skal fram að engar vörubirgðir eru færðar í ársreikninginn, sem út af fyrir sig hefur ekki sætt athugasemdum af hálfu skattstjóra, enda er komið fram að kærendur hættu rekstrinum í árslok 1999. Meta verður skýringar kærenda um áhrif kostnaðar vegna kynningarkvölds og hliðstæðra atburða á meðalálagningu í rekstrinum með hliðsjón af því að vörukaup verða vart talin nema hárri fjárhæð í ljósi þess sem fyrir liggur um starfsemina, m.a. rekstrartíma. Að þessu athuguðu þykir höfnun skattstjóra á ársreikningi veitingastaðarins tæpast á nægum rökum reist. Þá er þess að geta að með kröfugerð sinni hefur ríkisskattstjóri fallist á aukafyrningu fasteignarinnar Y í ársreikningnum, þ.e. hækkun rekstrarkostnaðar vegna þessa þáttar í rekstri kærenda, sem ekki verður skilið á annan hátt en að í raun fallist ríkisskattstjóri á að byggt verði á umræddum ársreikningi. Af framangreindum ástæðum er þessum þætti í ákvörðun skattstjóra hnekkt.
Víkur þá að breytingum skattstjóra á rekstrarreikningi vegna verslunarinnar X og fyrst þeirri ákvörðun að lækka gjaldfærða vörunotkun um 3.500.000 kr. Eins og rakið hefur verið færðu kærendur engar birgðir til eignar í ársreikningi vegna verslunarinnar og gjaldfærðu þannig sem vörunotkun (kostnaðarverð vöru) öll vörukaup ársins að viðbættum vörubirgðum í ársbyrjun. Í bréfi skattstjóra, dags. 13. desember 2001, var þetta rakið og tekið fram að gjaldfærð vörunotkun næmi 2.773.393 kr. hærri fjárhæð en vörusala. Ekki væri þó gerð grein fyrir ástæðum gjaldfærslu allra vörubirgða í ársbyrjun og vörukaupa eða lögð fram gögn er staðfestu að um hefði verið að ræða gallaðar eða úreltar vörur. Skattstjóri gat þess jafnframt að svo virtist sem starfsemi hefði verið hætt í lok ársins. Þá vakti skattstjóri athygli á því og studdi með tilvísun í reglugerðarákvæði að við lok virðisaukaskattsskyldrar starfsemi skyldi telja vörubirgðir til skattskyldrar veltu, en ef fyrir hendi væru fullnægjandi sannanir þess að vörur væru gallaðar eða úreltar þyrfti þess þó ekki, sbr. nánar tilteknar leiðbeiningar ríkisskattstjóra þar um. Í svarbréfi kærenda, dags. 14. janúar 2002, sagði að á haustmánuðum og til ársloka 1999 hefðu vörubirgðir verslunarinnar verið seldar langt undir innkaupsverði. Einnig var frá því greint í svari kærenda að „talsvert“ hefði verið gefið af lager verslunarinnar til Rauða krossins og vísaðist þar til starfsmanns sem tekið hefði við gjöfunum, en hann hefði ekki talið að gefa þyrfti út kvittun vegna afhendingarinnar. Hina umdeildu lækkun á vörunotkun byggði skattstjóri síðan á því að fullnægjandi skýringar hefðu ekki komið fram á því sem haldið væri fram í svarbréfi að vörubirgðir frá fyrra ári hefðu verið ofmetnar og að engin gögn væru til er staðfestu tegund, magn og verðmæti vara sem afhentar hefðu verið Rauða krossinum. Þættu ekki liggja fyrir fullnægjandi gögn eða skýringar til að hægt væri að fallast á gjaldfærslu vörulagers frá fyrra ári að fjárhæð 5.349.785 kr. og því væri gjaldfærð vörunotkun lækkuð um 3.500.000 kr.
Samkvæmt skýringum kærenda, sem virðast eiga bæði við birgðir í ársbyrjun 1999 og vörur keyptar á árinu, var lager verslunarinnar komið í verð með sölu undir kostnaðarverði á síðari hluta ársins og rekstri verslunarinnar síðan hætt í árslok. Þá hafa kærendur skýrt frá því að ótilgreindur hluti lagersins hafi verið gefinn Rauða krossinum og verður að skilja það svo að um úreltar vörur hafi verið að ræða, enda telja kærendur að rangar ákvarðanir hafi verið teknar við innkaup. Byggja kærendur á því að engum vörubirgðum hafi verið til að dreifa í árslok. Ekki verður séð að með hinni kærðu lækkun vörunotkunar hafi skattstjóri vefengt þá birgðastöðu í árslok, sem kærendur lögðu til grundvallar við uppgjör vörunotkunar, enda færði skattstjóri ekki birgðir til eignar í ársreikningi kærenda. Þá verður ekki ráðið að skattstjóri byggi á því að um vanframtalda sölu hafi verið að ræða í verslun kærenda. Verður því helst að ætla að skattstjóri hafi talið kærendur hafa tekið af birgðum verslunarinnar til eigin nota. Ekki kemur þetta þó skýrt fram í úrskurði skattstjóra. Þá þykja forsendur að öðru leyti fyrir hinni umdeildu ákvörðun skattstjóra ekki svo skýrar sem skyldi. Meðal annars er ekki ljóst af hvaða ástæðu breytingunni var sérstaklega beint að vörubirgðum frá fyrra ári. Að því leyti sem skattstjóri hefur lagt upp úr þeirri athugasemd kærenda að birgðir hafi verið ofmetnar í upphafi árs 1999 skal tekið fram að hún var sett fram til skýringar á lækkun meðalálagningar frá fyrra ári og gat ekki gefið skattstjóra tilefni til hinnar umdeildu lækkunar vörunotkunar án tengsla við leiðréttingar á rekstrarreikningi vegna fyrra árs. Þá verður almennt að telja að það sé frekar til styrktar því að um gallaðar eða úreltar vörur sé að ræða við mat vörubirgða í árslok, sbr. niðurlagsákvæði 4. tölul. 74. gr. laga nr. 75/1981, að söluvara sé orðin ársgömul eða meira. Vegna umfjöllunar í málinu um afhendingu á vörum til Rauða krossins er þess að geta að miðað við það að um gallaðar eða úreltar vörur í skilningi 4. tölul. 74. gr. hafi verið að ræða, sem skattstjóri hefur út af fyrir sig ekki vefengt, skiptir ekki sköpum hvort slík afhending hefur farið fram eða ekki.
Að því virtu sem að framan er rakið þykir skattstjóri ekki hafa fært næg rök að hinni kærðu breytingu varðandi vörunotkun kærenda og þykir með vísan til framkominna skýringa mega taka kæruna til greina um þetta kæruatriði.
Með bréfi sínu, dags. 13. desember 2001, fór skattstjóri fram á að kærendur gerðu vegna gjaldfærðs bifreiðakostnaðar 199.616 kr. grein fyrir rekstrarkostnaði bifreiðar og akstri í rekstrarþágu. Af hálfu kærenda kom fram sú skýring í bréfi, dags. 14. janúar 2002, að um áætlaða tölu væri að ræða með hliðsjón af umfangi rekstrar, sem miðuð væri við 3.500 km akstur og kostnað 38 kr. á hvern kílómetra, og verður að skilja svarið svo að hvoru tveggja, akstur í þágu rekstrar og rekstrarkostnaður, hafi verið áætlaðar tölur. Þar sem kærendur hafa ekki gert grein fyrir rekstrarkostnaði bifreiðar á tilskilinn hátt samkvæmt rekstraryfirliti fólksbifreiðar (RSK 4.03) og enga nánari grein gert fyrir notkun bifreiðar og kostnaði við rekstur hennar, verður að telja að þessi gjaldaliður sé alveg ósannaður af hendi kærenda, sbr. 1. mgr 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, og er kröfu kærenda því hafnað varðandi þetta kæruatriði.
Samkvæmt ofangreindum niðurstöðum er ekki tilefni til að fjalla um kröfu kærenda varðandi fyrningu fasteignar að Y.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Fallist er á að leggja ársreikning vegna veitingarekstrar árið 1999 til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2000. Þá er lækkun skattstjóra á vörunotkun í rekstrarreikningi vegna verslunarrekstrar árið 1999 felld niður. Að öðru leyti er kröfum kærenda hafnað.