Úrskurður yfirskattanefndar
- Rekstrartap, frádráttarbærni
Úrskurður nr. 357/2002
Gjaldár 2001
Lög nr. 75/1981, 31. gr. 7. tölul. (brl. nr. 147/1994, 3. gr. b-liður)
Krafa kæranda, sem var sjálfstætt starfandi smiður, í máli þessu laut að því að honum yrði heimilað að draga frá tekjum af þeirri starfsemi í skattframtali sínu árið 2001 rekstrartap sem átti rót sína að rekja til útgerðarrekstrar sem kærandi lét af á árinu 1996. Var sú krafa kæranda tekin til greina.
I.
Með kæru, dags. 28. janúar 2002, sbr. greinargerð með bréfi, dags. 7. febrúar 2002, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 29. október 2001, til yfirskattanefndar vegna þeirrar breytingar skattstjóra á innsendu skattframtali kæranda árið 2001 að hækka hreinar tekjur í reit 62 í skattframtalinu úr 1.022.395 kr. í 4.215.099 kr.
II.
Málavextir eru þeir að kærandi taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 2001 og sætti því áætlun skattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda það ár. Skattframtal kæranda árið 2001 barst skattstjóra sem skattkæra hinn 27. ágúst 2001 og með kæruúrskurði, dags. 29. október 2001, féllst skattstjóri á að leggja hið innsenda framtal til grundvallar álagningu, þó með þeirri breytingu að rekstrarhagnaður í reit 62 var hækkaður úr 1.022.395 kr. í 4.215.099 kr. Í úrskurði skattstjóra voru færð svofelld rök fyrir þessari breytingu:
„Ástæða breytingar er að ekki er heimilt að lækka rekstrarhagnað ársins með því að færa á móti honum gömul rekstrartöp sem stafa af öðrum atvinnurekstri, sbr. 7. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt en þar segir: Ekki er heimilt að nýta rekstrartap til frádráttar tekjum ef veruleg breyting hefur orðið á þeim rekstri eða starfsemi sem í hlut á.
Gömul rekstrartöp eru alls að fjárhæð kr. 3.672.581, þar af eru kr. 3.192.704 kr. vegna reksturs útgerðar, en þér hafið ekki stundað útgerð síðan á árinu 1996, og kr. 479.877 vegna smíðavinnu en rekstrartekjur ársins 2000 eru vegna smíðavinnu. Skattstjóri fellst ekki á að leyfa til frádráttar gömul rekstrartöp vegna útgerðar þar sem um óskyldan rekstur er að ræða en gamalt rekstrartap vegna smíða frá árinu 1993 er tekið til greina …“
III.
Í greinargerð umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 7. febrúar 2002, segir að ágreiningsefni málins sé það hvort einstaklingi sé heimilt að nýta sér yfirfæranlegt rekstrartap, sem til hafi orðið í einni starfsgrein, til að mæta tekjum til orðnum síðar í annarri óskyldri starfsgrein, þó innan þeirra tímamarka sem lög ákveði. Skattstjóri túlki ákvæði 7. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, svo að það eigi jafnt við um einstaklinga sem lögaðila. Hins vegar hafi ríkisskattstjóri gefið út álit, dags. 13. október 1998, í hliðstæðu máli og sé niðurstaða hans mjög afdráttarlaus. Segi þar m.a. svo: „Ríkisskattstjóri telur að heimilt sé að nýta eldra tapið á móti tekjum af hinni nýju starfsemi. Byggir þetta á ákvæðum b-liðar 7. gr. sbr. 63. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Ákvæði laga nr. 75/1981 er varða lögskipti félags verða ekki túlkuð á þann veg að þau girði fyrir yfirfærslu taps með þeim hætti sem hér um ræðir.“ Umboðsmaður kæranda segir það mat sitt að engar þær breytingar hafi orðið sem haggi gildi umrædds álits ríkisskattstjóra. Að því athuguðu að ríkisskattstjóra sé ætlað að koma fram fyrir hönd gjaldkrefjenda gagnvart yfirskattanefnd verði samkvæmt framangreindu ekki séð að neinn ágreiningur sé í málinu. Sé augljóst að sú breyting, sem gerð hafi verið á 7. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981 með 3. gr. laga nr. 147/1994, eigi einungis við lögaðila og komi það berlega fram í athugasemdum með frumvarpi laganna, enda þótt því verði samsinnt að skýrar hefði mátt kveða að orði í texta umrædds ákvæðis.
III.
Með bréfi, dags. 1. mars 2002, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Kærður er úrskurður skattstjóra, dags. 29. október 2001, þar sem kæranda er synjað um að nýta yfirfæranlegt tap er varð til í einni starfsgrein til að mæta tekjum sem til urðu í annarri með vísan til 2. ml. 7. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
Ríkisskattstjóri telur að heimilt sé að nýta eldra tap af starfsemi kæranda á móti tekjum af hinni nýju starfsemi. Ákvæði 2. ml. 7. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, snýr einungis að lögaðilum en ekki einstaklingum í rekstri.
Gerð er sú krafa að fallist verði á kröfu kæranda.“
IV.
Samkvæmt 1. málsl. 7. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, sbr. a-lið 4. gr. laga nr. 85/1991 og 4. gr. laga nr. 137/1996, er heimilt að draga frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi eftirstöðvar rekstrartapa frá síðustu átta árum á undan tekjuári, framreiknaðar samkvæmt ákvæðum 26. gr., enda hafi fullnægjandi grein verið gerð fyrir rekstrartapinu og eftirstöðvum þess á því tekjuári þegar tapið myndaðist. Með b-lið 3. gr. laga nr. 147/1994 bættist nýr málsliður við 7. tölul. 31. gr. er hljóðar svo: „Þó er ekki heimilt að nýta rekstrartap til frádráttar tekjum ef veruleg breyting hefur orðið á þeim rekstri eða starfsemi sem í hlut á, svo sem með breytingu á eignaraðild að lögaðila eða á tilgangi rekstrar, nema sýnt þyki að umræddar breytingar hafi verið gerðar í eðlilegum og venjulegum rekstrartilgangi.“ Bæði í almennum athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 147/1994, og sérstökum athugasemdum með 3. gr. frumvarpsins er fjallað um nýmæli þetta. Þar kemur m.a. fram að tilgangurinn með lagaákvæði þessu er að setja samræmdar skorður við nýtingu rekstrartapa þannig að sams konar reglur gildi almennt og gilda samkvæmt gildandi lögum um nýtingu rekstrartapa við sameiningu, sbr. 57. gr. A laga nr. 75/1981 sem vísað er til í athugasemdunum. Túlka verður ákvæði 2. málsl. 7. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, sbr. b-lið 3. gr. laga nr. 147/1994, í samræmi við þennan tilgang laganna. Varðandi túlkun á ákvæðinu ber og að hafa í huga að beiting þeirrar takmörkunar á frádrætti eftirstöðva rekstrartaps, sem kveðið er á um í ákvæðinu, er bundin því skilyrði „að veruleg breyting hefur orðið á þeim rekstri eða starfsemi sem í hlut á“ og í dæmaskyni um slíka verulega breytingu er nefnd breyting á eignaraðild að lögaðila eða á tilgangi rekstrar.
Með vísan til framanritaðs og kröfugerðar ríkisskattstjóra er krafa kæranda tekin til greina.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Fallist er á kröfu kæranda.