Úrskurður yfirskattanefndar

  • Vaxtabætur
  • Einstætt foreldri

Úrskurður nr. 297/2002

Gjaldár 2001

Lög nr. 75/1981, 69. gr. B-liður  

Kærandi, sem hafði tvö börn sín á aldrinum 16 og 17 ára á framfæri sínu, krafðist þess að henni yrðu ákvarðaðar vaxtabætur sem einstæðu foreldri. Yfirskattanefnd hafnaði þeirri kröfu þar sem talið var að réttur manns til vaxtabóta eftir reglum um einstæða foreldra væri háður því að barn væri innan 16 ára aldurs á tekjuári.

I.

Málavextir eru þeir að skattframtali kæranda árið 2001, sem barst skattstjóra í rafrænu formi, fylgdi eyðublað um kaup og sölu eigna (RSK 3.02) vegna kaupa kæranda á íbúðarhúsnæði að N-götu. Á eyðublaðinu kom fram að kaupsamningur um íbúðina væri dagsettur 17. ágúst 2000. Í skattframtalinu gerði kærandi grein fyrir vaxtagjöldum vegna húsnæðisins að fjárhæð samtals 228.508 kr. Var framtalið lagt óbreytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2001 og kæranda ákvarðaðar vaxtabætur sem einhleypingi frá og með þriðja ársfjórðungi 2000, sbr. ákvæði 8. og 9. málsl. 4. mgr. B-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Með kæru til skattstjóra, dags. 27. ágúst 2001, fór umboðsmaður kæranda fram á að kæranda yrðu ákvarðaðar vaxtabætur gjaldárið 2001 sem einstæðu foreldri. Kom fram í kærunni að kærandi hefði haft tvö börn á sínu framfæri á árinu 2000, þ.e. G [f. 1983] og Þ [f. 1984]. Benti umboðsmaður kæranda á að samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997 yrðu menn hvorki lögráða né sjálfráða fyrr en við 18 ára aldur og teldust fram að þeim tíma vera börn í skilningi laga. Um lagarök kvaðst umboðsmaður kæranda vísa til laga nr. 75/1981, einkum B-liðar 69. gr. þeirra laga, og til laga nr. 71/1997, einkum 1. og 51. gr. þeirra.

Með kæruúrskurði, dags. 2. október 2001, vísaði skattstjóri kæru kæranda frá sem tilefnislausri. Forsendur skattstjóra voru svohljóðandi:

„Um skattlagningu og framkvæmd hennar fer skv. lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum. Skattskyldir aðilar eru annars vegar menn skv. ákvæðum 1. gr. og hins vegar lögaðilar skv. ákvæðum 2. gr. tilvitnaðra laga.

Barn innan 16 ára aldurs á tekjuárinu er ekki sjálfstæður skattaðili sé það á framfæri foreldra sinna, sbr. 6. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Nánar tilgreindar tekjur barns innan 16 ára aldurs á tekjuárinu teljast með tekjum foreldris eða þess er nýtur barnabóta vegna þess, sbr. 1. mgr. 65. gr. sömu laga. Með hverju barni innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, sem heimilisfast er hér á landi, og er á framfæri þeirra sem skattskyldir eru skv. 1. gr. skal ríkissjóður greiða barnabætur til framfæranda barnsins. Kærandi hefur á framtölum 2000 og 2001 sótt um lækkun vegna framfærslu ungmenna við nám skv. 4. tölul. 1. mgr. 66. gr. tilvitnaðra laga um tekjuskatt og eignarskatt. Ívilnun vegna framfærslu er veitt eftir að barnabætur falla niður við 16 ára aldur ungmennis á tekjuárinu.

Synir kæranda eru báðir yfir 16 ára aldri á tekjuárinu 2000 og skv. skilgreiningum hér að framan og gagnályktunum frá þeim má ljóst vera að gjaldandi er ekki einstætt foreldri í skilningi ákvæða laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Kæranda hafa verið ákvarðaðar vaxtabætur í samræmi við ákvæði B-liðar 69. gr. tilvitnaðra laga og réttilega sem einstaklingi skv. því sem að framan greinir.

Ákvæði lögræðislaga, sem kærandi vísar m.a. til um rökstuðning, hafa ekki þýðingu í þessu máli.“

II.

Með kæru, dags. 5. desember 2001, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 2. október 2001, til yfirskattanefndar. Er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi og að kæranda verði ákvarðaðar vaxtabætur gjaldárið 2001 sem einstæðu foreldri. Þá er krafist málskostnaðar til greiðslu úr ríkissjóði.

Í kæru umboðsmanns kæranda kemur fram að samkvæmt lögum séu einstaklingar börn til 18 ára aldurs, sbr. 1. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, 1. gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992 og 29. og 30. gr. barnalaga nr. 20/1992, sem umboðsmaður kæranda vísar til í því sambandi. Þá vísar umboðsmaður kæranda til 1. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna), sbr. auglýsingu nr. 18/1992 í C-deild Stjórnartíðinda. Bendir umboðsmaðurinn á að foreldri, sem fari með forsjá barns, beri skyldur samkvæmt barnalögum til 18 ára aldurs barnsins. Synir kæranda, sem fæddir séu á árunum 1983 og 1984, hafi þannig báðir talist börn á árinu 2000 og þar sem kærandi sé skilin og búi ein með drengjunum teljist hún einstætt foreldri lögum samkvæmt. Eigi kærandi því rétt á vaxtabótum miðað við þá fjárhæð sem tilgreind sé í 4. mgr. B-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981 í tilviki einstæðra foreldra. Þótt fram komi í lögum nr. 75/1981 að barn innan 16 ára aldurs sé ekki sjálfstæður skattaðili og að barnabætur sé einungis greiddar með börnum innan sama aldurs þá vefengi lögin í heild sinni ekki að einstaklingar sem eldri séu, þ.e. 17 og 18 ára, teljist börn. Ekki fái staðist að einstaklingur verði fullorðinn 16 ára í skilningi skattalaga en 18 ára í skilningi annarra laga. Þá séu engin ákvæði í lögum nr. 75/1981 þess efnis að ekki beri að skattleggja einstæða foreldra sem slíka þótt þeir eigi börn sem eru sjálfstæðir skattaðilar, þ.e. á aldrinum 16-18 ára. Þótt foreldrar geti að uppfylltum vissum skilyrðum sótt um ívilnun vegna náms barna sinna eldri en 16 ára þá tengist það á engan hátt rétti einstæðra foreldra til vaxtabóta. Ennfremur sé bent á að þótt löggjafinn hafi ákveðið að greiða ekki barnabætur með börnum eldri en 16 ára sé ekki þar með sagt að einstaklingur eldri en 16 ára sé ekki barn. Í ákvæði B-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981 sé ekki um að ræða aldursviðmiðanir heldur sé einungis rætt um einstætt foreldri. Kveðst umboðsmaður kæranda byggja á því að lagarök fyrir þeirri ákvörðun löggjafans að ákveða hærri vaxtabætur til einstæðra foreldra séu þau að lögum samkvæmt sé þeim sem fara með forsjá barna sinna skylt að sjá þeim fyrir húsnæði, eða allt til þess að barn verður 18 ára. Á grundvelli framanritaðs sé þess krafist að kæranda verði ákvarðaðar vaxtabætur gjaldárið 2001 sem einstæðu foreldri.

III.

Með bréfi, dags. 4. janúar 2002, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Málavextir eru þeir að kærandi kærði álagningu opinberra gjalda 2001 með bréfi til skattstjóra, dags. 27. ágúst 2001. Þess var krafist að kæranda yrðu reiknaðar vaxtabætur sem einstæðu foreldri enda hefði hún tvö börn á framfæri sínu, fædd árið 1983 og 1984. Vísað var til þess að samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997 væri litið á einstaklinga sem börn þar til þau næðu 18 ára aldri. Með úrskurði skattstjóra, dags. 2. október 2001, var kæru kæranda vísað frá sem tilefnislausri þar sem samkvæmt 65. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, væri litið svo á að einstaklingur væri barn fram að 16 ára aldri og hefðu vaxtabætur til kæranda sem einstaklingi því verið ákvarðaðar réttilega.

Samkvæmt 1. mgr. 65. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skulu tekjur barns, sem er innan 16 ára aldurs á tekjuári, teljast með tekjum foreldris eða framfæranda þess. Jafnframt skulu eignir barns, sem er innan 16 ára aldurs á tekjuári, teljast með eignum foreldra eða framfæranda þess, sbr. 1. mgr. 82. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er þannig kveðið á um að barn, sem er innan 16 ára aldurs á tekjuári, sé ósjálfstæður skattaðili og ber að telja tekjur og eignir þess hjá foreldri eða framfæranda þess. Þegar einstaklingur er 16 ára á tekjuári eða eldri er hann hins vegar orðinn sjálfstæður skattaðili og ber hann þá allar þær sömu skyldur samkvæmt lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sem fullorðinn væri og um leið fær hann öll þau réttindi sem kveðið er á um í lögunum. Einstaklingar sem eru 16 ára og eldri eiga því, svo dæmi sé nefnt, sjálfir rétt á vaxtabótum uppfylli þeir að öðru leyti skilyrði B-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Kærandi telst ekki einstætt foreldri samkvæmt lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem kærandi á ekki börn innan 16 ára aldurs á tekjuári. Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 7. janúar 2002, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og henni gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 21. janúar 2002, kemur fram að því sjónarmiði ríkisskattstjóra, að foreldri geti verið einstætt samkvæmt einum lögum en ekki einstætt samkvæmt öðrum lögum, sé mótmælt. Ef um einhverja mismunun í þessu efni ætti að vera að ræða, þannig að einstætt foreldri nyti ekki réttinda sem kveðið væri á um í lögum, yrði að taka slíkt skýrt fram í lögunum sjálfum. Hugtakið einstætt foreldri megi skilgreina þannig að um sé að ræða einstakling, sem ekki sé giftur eða í sambúð, sem hafi barn á framfæri sínu. Samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997, barnaverndarlögum nr. 58/1992 og barnalögum nr. 20/1992 sé barn sá einstaklingur sem er yngri en 18 ára. Lög nr. 75/1981 séu í eðli sínu íþyngjandi og beri því að skýra þau þröngt samkvæmt orðanna hljóðan. Í lögunum sé ekkert tekið fram um að aðrar reglur eigi að gilda um einstætt foreldri samkvæmt skattalögum en almennt gildi samkvæmt öðrum lögum. Sé andstætt lögskýringarsjónarmiðum að draga þá ályktun að kærandi sé ekki einstætt foreldri samkvæmt lögum nr. 75/1981 með samanburði við önnur ákvæði þeirra laga.

Með bréfi, dags. 8. febrúar 2002, hefur ríkisskattstjóri ítrekað fyrri kröfugerð og þær athugasemdir sem þar koma fram.

IV.

Í 1. mgr. B-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, er kveðið á um að maður sem skattskyldur er samkvæmt 1. gr. laganna og ber vaxtagjöld af lánum, sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, þar með talin kaup á eignarhlut í almennri kaupleiguíbúð skv. 76. gr. laga nr. 97/1993, eigi rétt á sérstökum bótum, vaxtabótum, enda geri hann grein fyrir lánum og vaxtagjöldum af þeim í sérstakri greinargerð með skattframtali í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Samkvæmt upphafsákvæði 3. mgr. stafliðarins miðast vaxtagjöld til útreiknings vaxtabóta skv. 4. mgr. við fjárhæð vaxtagjalda, sbr. 2. mgr., hjá hverjum framteljanda en geta þó ekki orðið hærri en sem nemur 7% af skuldum sem stofnað hefur verið til vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota eins og þær eru í árslok. Þá kemur fram í 3. málslið málsgreinarinnar að vaxtagjöld geti þó ekki verið hærri en 442.827 kr. hjá einstaklingi, 581.338 kr. hjá einstæðu foreldri og 719.847 kr. hjá hjónum eða sambýlisfólki. Í 4. mgr. stafliðarins eru ákvæði um útreikning vaxtabóta. Samkvæmt 10. málslið þeirrar málsgreinar geta vaxtabætur aldrei verið hærri en 151.738 kr. fyrir hvern mann, 195.146 kr. fyrir einstætt foreldri og 250.931 kr. fyrir hjón eða sambýlisfólk sem uppfyllir skilyrði fyrir samsköttun, sbr. 3. mgr. 63. gr., í lok tekjuárs.

Krafa kæranda í máli þessu er sú að henni verði ákvarðaðar vaxtabætur gjaldárið 2001 sem einstæðu foreldri. Vísar umboðsmaður kæranda til þess að kærandi hafi haft tvö börn sín á framfæri sínu á árinu 2000, þ.e. G, sem fæddur er árið 1983 og varð því 17 ára á árinu 2000, og Þ, sem fæddur er árið 1984 og varð því 16 ára á árinu 2000. Telur umboðsmaður kæranda að skýra beri framangreind ákvæði 3. og 4. mgr. B-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981 er taka til einstæðra foreldra þannig að maður, sem býr einn með barni sínu sem er yngra en 18 ára, teljist einstætt foreldri í skilningi þeirra. Þá túlkun byggir umboðsmaður kæranda m.a. á samanburði við ákvæði annarra laga þar sem einstaklingar innan 18 ára aldurs séu taldir börn, sbr. t.d. 2. mgr. 1. gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992, með síðari breytingum. Þá hefur umboðsmaður kæranda vísað til 1. gr. í alþjóðasamningi um réttindi barnsins sem gerður var í New York 20. nóvember 1989 og Ísland er aðili að, en samningurinn öðlaðist gildi að því er Ísland varðar þann 27. nóvember 1992 og er birtur í C-deild Stjórnartíðinda, sbr. auglýsingu nr. 18, 2. nóvember 1992. Ennfremur er sérstaklega vísað til þess í kæru til yfirskattanefndar að samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 verði menn lögráða, þ.e. sjálfráða og fjárráða, við 18 ára aldur. Er tekið fram í kærunni að lagarök fyrir því að löggjafinn hafi ákveðið hærri vaxtabætur til einstæðra foreldra en til einstaklinga séu þau að foreldrar séu forsjárskyldir við börn sín uns þau ná 18 ára aldri, sbr. 2. mgr. 29. gr. barnalaga nr. 20/1992, en í forsjá felist m.a. að foreldri beri að veita barni sínu húsaskjól. Af hálfu skattstjóra og ríkisskattstjóra er þessum skilningi umboðsmanns kæranda hafnað og bent á að sjálfstæð skattskylda barna samkvæmt skattalögum hefjist við 16 ára aldur, sbr. 6., 65. og 82. gr. laga nr. 75/1981. Beri einstaklingur frá þeim tíma allar skyldur samkvæmt lögunum og njóti jafnframt allra réttinda sem þar sé kveðið á um og geti þannig sjálfur átt rétt á vaxtabótum sem einstætt foreldri að uppfylltum skilyrðum B-liðar 69. gr. laganna. Í hinum kærða úrskurði skattstjóra, dags. 2. október 2001, er vísað til þess að barnabætur séu greiddar með börnum innan 16 ára aldurs á tekjuári, sbr. ákvæði A-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981. Að því er varðar mál kæranda er þess sérstaklega getið í úrskurðinum að kærandi hafi í skattframtölum sínum árin 2000 og 2001 sótt um ívilnun til skattstjóra vegna framfærslu barna sinna á grundvelli ákvæðis í 4. tölul. 66. gr. laga nr. 75/1981 og er tekið fram að slík ívilnun sé veitt eftir að barnabætur falli niður við 16 ára aldur ungmennis á tekjuári.

Ákvæði um vaxtabætur voru upphaflega tekin í lög um tekjuskatt og eignarskatt með lögum nr. 79/1989, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og leystu af hólmi reglur sem áður giltu um svonefndar húsnæðisbætur og vaxtaafslátt. Réttur til húsnæðisbóta og vaxtaafsláttar var bundinn við öflun íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Voru húsnæðisbætur föst fjárhæð á ári fyrir hvern mann sem keypti eða byggði íbúðarhúsnæði til eigin nota en vaxtaafsláttur fól í sér skattafslátt vegna frádráttarbærra vaxtagreiðslna af íbúðarlánum. Ekki giltu neinar sérreglur um ákvörðun húsnæðisbóta og vaxtaafsláttar til einstæðra foreldra. Lög nr. 79/1989 gerðu hins vegar ráð fyrir því að fjárhæð vaxtabóta tæki mið af fjölskyldustöðu rétthafa með því að hámark bóta réðist af því hvort um var að ræða einstakling, einstætt foreldri eða hjón eða sambýlisfólk, sbr. 6. málsl. 2. mgr. C-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981 eins og greininni var breytt með 1. gr. laga nr. 79/1989. Hefur ákvæðið upp frá því staðið svo til óbreytt í lögum um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. nú 10. málsl. 4. mgr. B-liðar laga nr. 75/1981, að öðru leyti en því að fjárhæðir hafa breyst. Í athugasemdum við frumvarp það, sem varð að lögum nr. 79/1989, var ekki vikið sérstaklega að ástæðum fyrir umræddri tilhögun. Hins vegar fólu ákvæði laganna í heild í sér að fjárhæð vaxtabóta réðist í mun ríkari mæli af fjárhags- og fjölskyldustöðu rétthafa en gilt hafði samkvæmt eldra kerfi. Í almennum athugasemdum með frumvarpinu var m.a. tekið fram að sú tilhögun húsnæðisbótakerfisins, að gera engan greinarmun á fjárhagsstöðu einstaklinga, orkaði tvímælis og að ástæðulaust og óeðlilegt væri að greiða vaxtabætur til þeirra sem ekki þyrftu á lánum að halda, þ.e. þeirra sem ættu verulegar eignir. Auk þess þyrfti að hafa að leiðarljósi að vaxtabæturnar nýttust betur hinum tekjulægri en hinum tekjuhærri. Í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins var þess getið að fjárhæð vaxtabóta samkvæmt frumvarpsgreininni réðist m.a. af fjölskyldustöðu viðkomandi rétthafa (Alþt. 1988-89, A-deild, bls. 2521-2523).

Í A-lið 69. gr. laga nr. 75/1981 er mælt fyrir um greiðslu barnabóta. Kemur fram í upphafsákvæði 1. mgr. stafliðarins að með hverju barni innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, sem heimilisfast er hér á landi og er á framfæri þeirra sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr. laganna, skuli ríkissjóður greiða barnabætur til framfæranda barnsins. Um fjárhæð barnabóta er fjallað í 3. og 4. mgr. A-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981 og er annars vegar um að ræða fasta fjárhæð barnabóta, sbr. 3. mgr., og hins vegar tekjutengdar barnabætur, sbr. 4. mgr. Samkvæmt ákvæðum síðarnefndu málsgreinarinnar taka hinar tekjutengdu bætur mið af fjölskyldustöðu framfæranda og er gert ráð fyrir því að barnabætur með börnum einstæðra foreldra séu hærri en með börnum annarra, þ.e. börnum hjóna og sambúðarfólks sem uppfyllir skilyrði samsköttunar samkvæmt 63. gr. laga nr. 75/1981. Barnabætur voru upphaflega lögfestar með lögum nr. 11/1975, um ráðstafanir í efnahagsmálum og fjármálum til þess að stuðla að jafnvægi í þjóðarbúskapnum og treysta undirstöðu atvinnu og lífskjara, en með þeim lögum var öll barnaívilnun til framfæranda barns, þ.e. fjölskyldubætur, persónufrádráttur vegna barna og afsláttur frá tekjuskatti vegna barna, sameinuð í einn afslátt, barnabætur. Samkvæmt 9. gr. laga nr. 11/1975, sem breytti þágildandi ákvæðum 25. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, voru barnabæturnar föst fjárhæð án tillits til fjölskyldustöðu framfæranda og voru greiddar með börnum sem voru fullra 16 ára í byrjun þess almanaksárs þegar skattur var lagður á. Með greindum lögum nr. 11/1975 var hins vegar tekin upp sérregla um persónuafslátt einstæðs foreldris, sem hélt heimili og framfærði þar barn sitt innan 16 ára aldurs, sbr. 3. tölul. 1. mgr. B-liðar 9. gr. þessara laga, þar sem kveðið var á um að einstætt foreldri skyldi njóta sama persónuafsláttar og hjón. Umrædd sérregla um persónuafslátt einstæðra foreldra var felld brott með lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt. Samkvæmt 69. gr. þeirra laga voru barnabætur föst fjárhæð er greiddist með hverju barni innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, sem heimilisfast var hér á landi og á framfæri þeirra manna sem skattskyldir voru samkvæmt 1. gr. laganna. Samkvæmt 4. málsl. 1. mgr. 69. gr. laganna var síðan gert ráð fyrir því að einstæðir foreldrar nytu hærri barnabóta en aðrir. Hefur sú regla haldist í lögum um tekjuskatt og eignarskatt æ síðan, sbr. nú ákvæði 4. mgr. A-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981. Gilti hliðstæð regla m.a. um svonefndan barnabótaauka sem fyrst var tekinn í lög með lögum nr. 43/1984, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, peninga- og lánsfjármálum 1984, og leið undir lok með lögum nr. 65/1997, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sem fólu í sér sameiningu almennra barnabóta og tekjutengds barnabótaauka í eitt tekjutengt barnabótakerfi undir heitinu barnabætur.

Þegar ákvæði um vaxtabætur voru tekin upp í lög um tekjuskatt og eignarskatt með lögum nr. 79/1989, og ákvörðun slíkra bóta m.a. látin ráðast af fjölskyldustöðu rétthafa þeirra á þann hátt sem í málinu greinir, giltu samkvæmt framansögðu hliðstæðar viðmiðanir varðandi ákvörðun barnabóta samkvæmt reglum þágildandi A-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981. Barnabætur hafa frá öndverðu einungis verið greiddar með börnum innan 16 ára aldurs á tekjuári. Að þessu athuguðu og með hliðsjón af því sem rakið hefur verið hér að framan þykir ekki leika vafi á því að viðhorf löggjafans hefur verið að sömu aldursmörk giltu að þessu leyti varðandi rétt manns til vaxtabóta eftir reglum um einstæða foreldra. Skýra verður ákvæði 3. og 4. mgr. B-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981 um hámark vaxtagjalda og vaxtabóta í tilviki einstæðra foreldra til samræmis við þennan tilgang löggjafans og hafa í huga forsögu hliðstæðra ákvæða í lögum um tekjuskatt og eignarskatt samkvæmt því sem áður greinir. Jafnframt verður að líta til ríkrar efnissamstöðu umræddra ákvæða við ákvæði 4. mgr. A-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981. Verður því að telja að réttur manns til vaxtabóta eftir reglum um einstæða foreldra sé háður því að barn sé innan 16 ára aldurs á tekjuári, svo sem við á um rétt til barnabóta. Samkvæmt þessu verður að fallast á með ríkisskattstjóra að vaxtabætur kæranda hafi verið réttilega ákvarðaðar við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2001. Ekki verður talið að þær reglur á sviði barnaréttar sem umboðsmaður kæranda hefur vísað til breyti neinu í þessu sambandi. Er til þess að líta að úrlausnarefni málsins varðar rétt kæranda sjálfrar til vaxtabóta vegna öflunar hennar á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Þá verður ekki talið að sú lagabreyting sem varð með gildistöku lögræðislaga nr. 71/1997 hinn 1. janúar 1998 og fól í sér hækkun sjálfræðisaldurs úr 16 árum í 18 ár, sbr. 1. mgr. 1. gr. nefndra laga, geti leitt til annarrar niðurstöðu um deiluefni málsins, enda voru engar breytingar gerðar á almennum aldursmörkum laga um tekjuskatt og eignarskatt með umræddum lögum nr. 71/1997. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 71/1997, var þess raunar sérstaklega getið að kæmi til hækkunar sjálfræðisaldurs væri eðlilegt, með tilliti til markmiða þeirrar breytingar, að taka til athugunar hvort ekki væru samsvarandi efnisrök til breytinga á ákvæðum annarra laga, m.a. hvort breyta bæri 6. gr. laga nr. 75/1981 á þann veg að börn yrðu sjálfstæðir skattaðilar við 18 ára aldur í stað 16 ára og 69. gr. sömu laga þannig að foreldrum yrðu greiddar barnabætur til 18 ára aldurs barns (Alþt. 1996-97, A-deild, bls. 3679).

Með vísan til framanritaðs er kröfu kæranda hafnað.

Umboðsmaður kæranda hefur í kæru til yfirskattanefndar gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins eru ekki lagaskilyrði til að ákvarða kæranda málskostnað. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja