Úrskurður yfirskattanefndar
- Skattsekt
- Skattrannsókn
- Refsiábyrgð fyrirsvarsmanna atvinnurekstrar
- Sektarlágmark
- Rannsókn máls áfátt
Úrskurður nr. 51/2004
Lög nr. 50/1988, 40. gr.1. mgr. (brl. nr. 42/1995, 3. gr.) Lög nr. 45/1987, 30. gr. 2. mgr. (brl. nr. 42/1995, 2. gr.) Lög nr. 19/1940, 74. gr. 1. mgr. 8. tölul.
Skattrannsóknarstjóri ríkisins krafðist þess að A og sambýlismanni hennar, B, yrði gerð sekt fyrir að hafa vanrækt að standa skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launamanna í atvinnurekstri A. Talið var upplýst að reksturinn hefði í raun verið í höndum B þrátt fyrir að A væri skráð fyrir rekstrinum. Voru A og B bæði talin bera ábyrgð að lögum á skattskilum vegna rekstrarins og þeim báðum gerð sekt vegna brota á lögum um virðisaukaskatt. Við skiptingu sektarfjárhæðar milli A og B var tekið tillit til þeirra aðstæðna að reksturinn var í raun ekki í höndum A og sekt hennar ákveðin lægri en sekt B. Vegna annmarka á rannsókn málsins var hins vegar ekki talið að sýnt hefði verið fram á grundvöll fyrir ákvörðun sektar á hendur A og B vegna vanrækslu á skilum staðgreiðslu.
I.
Með bréfi, dags. 7. apríl 2003, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A og B, fyrir brot á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum, framin vegna tekjuáranna 1999 og 2000, og brot á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna tekjuáranna 1999 og 2000.
Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:
„A, sem skráðum launagreiðanda og skráðum virðisaukaskattsskyldum aðila, og B, sem raunverulegum stjórnanda skráðs rekstrar A, er gefið að sök eftirfarandi:
1. Vangoldin afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda launamanna.
A og B er gefið að sök að hafa ekki staðið innheimtumanni ríkissjóðs skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna A vegna greiðslutímabilanna febrúar, mars, apríl, maí, júní, júlí, ágúst, september, október, nóvember og desember tekjuárið 1999 og janúar, febrúar og apríl tekjuárið 2000. Vangoldin afdregin skilaskyld staðgreiðsla opinberra gjalda launamanna A vegna framangreindra greiðslutímabila nemur samtals kr. 327.191. Fjárhæðin sundurliðast svo sem hér greinir:
...
Það er mat skattrannsóknarstjóra, byggt á gögnum málsins, að þetta hafi A og B gert á saknæman hátt, að því er frekast verður séð af ásetningi eða í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi.
Telst þessi háttsemi A og B brjóta í bága við ákvæði 1. og 2. mgr. 20. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 16. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum, sbr. aðalreglur 1.-3. gr., 1. tl. 5. gr., 1. mgr. 7. gr og 1. og 3. mgr. 8. gr. þeirra laga.
Framangreind háttsemi varðar A og B sektum samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995.
2. Vangoldinn virðisaukaskattur.
A og B er gefið að sök að hafa ekki staðið innheimtumanni ríkissjóðs að fullu skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri A vegna uppgjörstímbilanna maí–júní, júlí–ágúst og september–október tekjuárið 1999 og janúar–febrúar tekjuárið 2000. Vangoldinn innheimtur virðisaukaskattur til innheimtumanns ríkissjóðs vegna framangreindra uppgjörstímabila nemur samtals kr. 940.394. Fjárhæðin sundurliðast svo sem hér greinir:
...
Er það mat skattrannsóknarstjóra ríkisins, byggt á gögnum málsins, að þetta hafi A og B gert á saknæman hátt, að því er frekast verður séð af ásetningi eða í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi.
Telst þessi háttsemi A og B brjóta í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr., sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. og 2. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.
Varðar framanlýst háttsemi A og B sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.
Þess er krafist að A og B verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“
Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 7. apríl 2003, sem fylgdi kröfugerðinni.
II.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 9. apríl 2003, var gjaldanda, A, veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, og með bréfi, dags. 16. maí 2003, var gjaldanda, B, gefinn kostur á að skila vörn í tilefni af kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins.
Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldendum.
III.
Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 7. apríl 2003, er gerð sú krafa að gjaldendum, A og B, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þar sem þau hafi vanrækt að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launamanna í atvinnurekstri A tiltekin greiðslutímabil árin 1999 og 2000 og virðisaukaskatti vegna þeirra uppgjörstímabila árin 1999 og 2000 sem greinir í bréfinu. Gjaldendur hafa átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldendur hafa ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að þau mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.
Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf í september 2002 rannsókn á skattskilum gjaldanda, A, er beindist að skilum á staðgreiðslu opinberra gjalda árin 1999 og 2000 og virðisaukaskatti árin 1999 og 2000, og lauk rannsókninni með skýrslu, dags. 19. desember 2002. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi, A, til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 11. september 2002. Skýrsla var tekin af gjaldanda, B, hinn 17. september 2002.
Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 19. desember 2002, kemur fram að rannsókn embættisins á staðgreiðsluskilum gjaldanda, A, hafi m.a. falist í því að bera saman fjárhæðir afdreginnar staðgreiðslu samkvæmt innsendum staðgreiðsluskilagreinum skattaðilans og greiðslur hennar til innheimtumanns ríkissjóðs. Rannsókn á virðisaukaskattsskilum gjaldanda, A, var m.a. fólgin í því að bera fjárhæðir innheimts virðisaukaskatts samkvæmt innsendum virðisaukaskattsskýrslum gjaldanda saman við greiðslur hennar til innheimtumanns ríkissjóðs. Í skýrslunni er gerð grein fyrir þeirri niðurstöðu rannsóknarinnar að gjaldandi, A, hafi ekki staðið skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launamanna sinna greiðslutímabilin febrúar 1999 til og með apríl 2000, samtals að fjárhæð 338.028 kr., og virðisaukaskatti vegna uppgjörstímabilanna maí-júní, júlí-ágúst og september-október 1999 og janúar-febrúar 2000, samtals að fjárhæð 940.394 kr., auk álags, dráttarvaxta og kostnaðar, miðað við greiðslustöðu 11. september 2002. Í skýrslunni kemur fram að skilagreinum staðgreiðslu og virðisaukaskattsskýrslum hafi verið skilað vegna þeirra greiðslu- og uppgjörstímabila sem málið tekur til og var rannsókn málsins m.a. byggð á þessum skýrslum og upplýsingum úr tekjubókhaldi ríkissjóðs varðandi greiðslustöðu. Ekki er í skýrslunni gerð nein grein fyrir því að annmarkar á grundvelli umræddra skýrslna hafi verið leiddir í ljós við rannsóknina. Samkvæmt gögnum málsins var bú gjaldanda, A, tekið til gjaldþrotaskipta 7. apríl 2000.
Við skýrslutöku af gjaldanda, A, sem fram fór hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 11. september 2002, kom fram að starfsemin hefði falist í innflutningi ..., en sambýlismaður hennar, B, hefði alfarið stjórnað rekstrinum og hún aðeins lánað nafn sitt þar sem hann hafi verið gjaldþrota. Við skýrslutökuna voru borin undir gjaldanda ljósrit af skilagreinum staðgreiðslu og virðisaukaskattsskýrslum vegna fyrrgreindra greiðslu- og uppgjörstímabila og hún spurð hvort hún kannaðist við skýrslurnar og gæti staðfest áritanir á þær. Gjaldandi kvaðst kannast við skýrslurnar og staðfesti að hún hefði undirritað þær, en sambýlismaður sinn hefði unnið þær. Aðspurð kvaðst gjaldandi telja að skilagreinar og virðisaukaskattsskýrslur þessar gæfu rétta mynd af rekstrinum. Við skýrslutökuna var gjaldanda kynnt niðurstaða rannsóknarinnar um að vangreidd staðgreiðsla opinberra gjalda vegna launamanna gjaldanda næmi 530.312 (sic) kr. og að vangreiddur virðisaukaskattur gjaldanda næmi 940.394 kr. og kvaðst gjaldandi ekki vilja tjá sig um þær fjárhæðir. Gjaldandi var spurð hvers vegna afdreginni staðgreiðslu og innheimtum virðisaukaskatti hefði ekki verið skilað á lögmæltum tíma til innheimtumanns og svaraði gjaldandi að trassaskapur hefði valdið vanskilum á staðgreiðslu en kvaðst ekki vita hvers vegna virðisaukaskatti hefði ekki verið skilað. Aðspurð um það hver hefði tekið ákvörðun um og borið ábyrgð á því að ekki hefðu verið staðin skil á virðisaukaskatti og afdreginni staðgreiðslu svaraði gjaldandi að hún hefði lánað nafn sitt til sambýlismanns síns, B, og hann hefði tekið þessar ákvarðanir og bæri ábyrgð á því að þessum gjöldum hafi ekki verið skilað til ríkissjóðs. Gjaldandi var spurð hvort laun hefðu verið greidd launamönnum að fullu samkvæmt launaseðlum og á réttum tíma þrátt fyrir að staðgreiðslu opinberra gjalda væri ekki skilað til innheimtumanns og svaraði gjaldandi að hún vissi það ekki. Þá var gjaldandi spurð hvort greiðslum gjaldanda til innheimtumanns ríkissjóðs hefði verið ráðstafað í samræmi við vilja hennar. Gjaldandi kvaðst ekki hafa séð um reksturinn og gæti því ekki tjáð sig um þessar greiðslur.
Við skýrslutöku af gjaldanda, B, sem fram fór hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 17. september 2002, kom fram að hann væri sambýlismaður A og að hann hefði alfarið séð um atvinnurekstur í hennar nafni. Við skýrslutökuna voru borin undir gjaldanda ljósrit af skilagreinum staðgreiðslu og virðisaukaskattsskýrslum vegna fyrrgreindra greiðslu- og uppgjörstímabila og hann spurður hvort hann kannaðist við skýrslurnar og gæti staðfest áritanir á þær. Gjaldandi kvaðst kannast við skýrslurnar að frátöldum staðgreiðsluskilagreinum vegna febrúar til og með apríl 1999 sem endurskoðandi hlyti að hafa útbúið. Gjaldandi staðfesti að sambýliskona hans hefði undirritað umræddar skýrslur. Aðspurður kvaðst gjaldandi telja að skilagreinar og virðisaukaskattsskýrslur þessar gæfu rétta mynd af rekstrinum. Í svörum gjaldanda kom fram að afdregin staðgreiðsla samkvæmt umræddum skilagreinum væri vegna gjaldanda sjálfs og X tímabilið febrúar til og með ágúst 1999 en eingöngu vegna gjaldanda tímabilin september 1999 til og með apríl 2000. Staðhæfði gjaldandi að skilagreinarnar tækju m.a. til afdreginnar staðgreiðslu samkvæmt launaseðlum X sem fylgt hefðu umsókn hans til ríkisskattstjóra um leiðréttingu á afdreginni staðgreiðslu. Við skýrslutökuna var gjaldanda kynnt niðurstaða rannsóknarinnar um vangreidda staðgreiðslu opinberra gjalda að fjárhæð 313.720 (sic) kr. og að vangreiddur virðisaukaskattur næmi 940.394 kr. Gjaldandi vildi ekki tjá sig um fjárhæð vangreiddrar staðgreiðslu en sagðist ekki rengja fjárhæð vangreidds virðisaukaskatts. Gjaldandi var spurður hvers vegna afdreginni staðgreiðslu og innheimtum virðisaukaskatti hefði ekki verið skilað á lögmæltum tíma til innheimtumanns og svaraði gjaldandi að það hefði verið vegna fjárhagserfiðleika. Aðspurður um það hver hefði tekið ákvörðun um og borið ábyrgð á því að ekki hefðu verið staðin skil á virðisaukaskatti og afdreginni staðgreiðslu svaraði gjaldandi að hann hefði tekið um það ákvörðun og bæri ábyrgð á því. Gjaldandi var spurður hvort laun hefðu verið greidd launamönnum að fullu samkvæmt launaseðlum og á réttum tíma þrátt fyrir að staðgreiðslu opinberra gjalda væri ekki skilað til innheimtumanns og svaraði gjaldandi að laun hefðu verið greidd að fullu en ekki alltaf á réttum tíma. Þá var gjaldandi spurður hvort greiðslum gjaldanda til innheimtumanns ríkissjóðs hefði verið ráðstafað í samræmi við vilja hans og kvað gjaldandi svo hafa verið.
Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, er refsivert ef skattskyldur maður afhendir eigi á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða honum borið að innheimta. Í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995, er með samsvarandi hætti lýst refsivert ef launagreiðandi innir ekki af hendi þær greiðslur vegna launamanna sem hann hefur haldið eftir eða honum borið að halda eftir. Samkvæmt fortakslausum ákvæðum nefndra laga og með stoð í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar 27. febrúar 1997 (H 1997:789), 25. september 1997 (H 1997:2446), 14. janúar 1999 (H 1999:79), 18. febrúar 1999 (H 1999:544 og 550), 10. júní 1999 (H 1999:2645) og 30. mars 2000 (H 2000:1422), geta menn unnið til refsingar með því einu að láta ógert að skila umræddum gjöldum í ríkissjóð á tilskildum tíma, enda sé huglægum refsiskilyrðum fullnægt.
Eins og fyrr greinir kemur fram í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 19. desember 2002, að hinn 11. september 2002 hafi vangreidd afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda gjaldanda, A, árin 1999 og 2000 numið 338.028 kr. og vangreiddur virðisaukaskattur árin 1999 og 2000 numið 940.394 kr. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra er byggð á þessum niðurstöðum skýrslunnar að því frátöldu að ekki er gerð sektarkrafa vegna afdreginnar staðgreiðslu í mars 2000. Af hálfu gjaldenda hafa ekki verið gerðar athugasemdir við niðurstöðu skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins um fjárhæðir vangreidds virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda.
Eins og fyrr greinir var við rannsókn staðgreiðsluþáttar málsins einkum byggt á staðgreiðsluskilagreinum og samanburði þeirra við upplýsingar frá innheimtumanni ríkissjóðs. Við athugun kemur þó í ljós að ekki ber saman fjárhæðum vangreiddrar staðgreiðslu samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins vegna greiðslutímabilanna febrúar og júlí 1999 annars vegar, sbr. töflu 3.1 í skýrslunni, og fjárhæð staðgreiðslu samkvæmt skilagreinum vegna þessara tímabila hins vegar, sbr. fskj. nr. 4.1 og 4.6 með skýrslunni. Tekið skal fram að meðal fylgiskjala í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins eru einnig gögn varðandi umsókn X, til ríkisskattstjóra um leiðréttingu afdreginnar staðgreiðslu árið 1999, m.a. launaseðlar frá einkafirma gjaldanda, A, vegna febrúar til og með ágúst 1999. Í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins var gjaldandi, B, sérstaklega spurður um staðgreiðsluskil vegna þessa starfsmanns og kom fram í svörum hans að gerð væri grein fyrir afdreginni staðgreiðslu hans í viðkomandi skilagreinum. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er ekkert fjallað um staðgreiðsluskil vegna umrædds launamanns og verður á engan hátt ráðið hvort greindur mismunur vegna febrúar og júlí 1999 kunni að einhverju leyti að stafa af skattskilum vegna hans.
Þá er þess að geta að samkvæmt yfirliti í töflu 3.1 í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins var öllum staðgreiðsluskilagreinum gjaldanda, A, fyrir staðgreiðsluárið 1999 skilað í einu lagi til innheimtumanns ríkissjóðs hinn 20. júlí 2000. Ljóst er að þá var um garð gengin skráning gagna vegna almennrar álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2000, sbr. 1. mgr. 98. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og auglýsingu um lok álagningar sem birt var í 79. tbl. Lögbirtingablaðs 2000. Við athugun á skráningu umræddra skilagreina í tölvukerfi ríkisskattstjóra kemur í ljós að sundurliðun launatekna og staðgreiðslu, sem launagreiðanda ber að gera grein fyrir á sérstöku eyðublaði, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 753/1997, um mánaðarleg skil á staðgreiðslu og tryggingagjaldi, hefur ekki fylgt skilagreinunum. Ljóst er því að ekki var um fullnægjandi skilagreinar að ræða sem leiddi m.a. til þess að ekki var unnt að ákvarða með réttum hætti greiðslustöðu viðkomandi launamanna gjaldanda til frádráttar álögðum tekjuskatti og útsvari gjaldárið 2000 samkvæmt ákvæðum 34.–36. gr. laga nr. 45/1987. Samkvæmt þessu þykir varhugavert, þrátt fyrir framburð gjaldenda við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, að ganga út frá því við úrlausn máls þessa að réttar upplýsingar um laun og afdregna staðgreiðslu hafi komið fram á umræddum skilagreinum árið 1999. Þá verður ekki betur séð en að sömu annmarkar hafi verið á staðgreiðsluskilum að því er varðar greiðslutímabilin janúar til og með apríl 1999.
Samkvæmt framansögðu verður að telja að tilefni hafi verið til þess að skattrannsóknarstjóri ríkisins rannsakaði nánar en gert var grundvöll umræddra skilagreina gjaldanda, A. Með hliðsjón af þessum annmörkum á rannsókn máls þessa, svo og vegna fyrrgreindra tölulegra annmarka, verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á grundvöll fyrir ákvörðun sektar á hendur gjaldendum samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, sbr. fyrri lið í kröfubréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins. Samkvæmt því þykir bera að vísa þeim þætti sektarkröfunnar frá yfirskattanefnd. Víkur þá að kröfu um sektarákvörðun vegna vangreidds virðisaukaskatts.
Umræddar skuldir vegna virðisaukaskatts gjaldanda, A, byrjuðu að myndast 5. ágúst 1999. Frá þeim tíma og til 13. febrúar 2003 voru alls greiddar 367.156 kr. til innheimtumanns ríkissjóðs vegna virðisaukaskatts gjaldanda. Þar af var 199.286 kr. ráðstafað til greiðslu höfuðstóls virðisaukaskatts og hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins tekið tillit til þeirra greiðslna að því leyti sem þeim hefur verið ráðstafað inn á skattskuldir vegna uppgjörstímabila sem málið varðar. Sá hluti greiðslna á umræddu tímabili, sem innheimtumaður ríkissjóðs hefur ráðstafað til greiðslu dráttarvaxta, álags og kostnaðar, nemur 167.870 kr. Þá kemur fram í gögnum málsins að greiðslur til innheimtumanns ríkissjóðs vegna opinberra gjalda, þ.m.t. tryggingagjalds, á þeim tíma sem hér skiptir máli, námu 236.151 kr. og var innborgunum að hluta varið til greiðslu dráttarvaxta og kostnaðar. Með dómi Hæstaréttar Íslands 2. október 2003, sem varðar hliðstætt mál, var því hafnað að greiðslur, sem innheimtumaður hefur ráðstafað upp í álag, dráttarvexti og kostnað, geti haft áhrif á sakarmat og komið með beinum hætti til frádráttar skattskuld sem viðurlagaákvörðun tekur til. Af dómi þessum og öðrum dómum Hæstaréttar í hliðstæðum málum, m.a. H 2000:2387, verður hins vegar ályktað að taka beri tillit til greiðslna viðkomandi aðila á skattskuldum við ákvörðun refsingar. Verður ekki annað séð en það geti einnig átt við um fjárhæðir sem innheimtumaður hefur ráðstafað inn á álag, dráttarvexti og kostnað. Geta umtalsverðar greiðslur skattaðila þá við ákveðnar aðstæður haft í för með sér að færa megi fésekt niður fyrir lögbundið lágmark sektarrefsingar, sbr. 8. tölul. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. H 2000:2387.
Samkvæmt gögnum málsins var virðisaukaskattur gjaldanda, A, uppgjörstímabilin maí-júní, júlí-ágúst og september-október 1999 og janúar-febrúar 2000 ekki greiddur innheimtumanni ríkissjóðs á tilskildum tíma, sbr. 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins kom fram af hálfu gjaldanda að hún hefði ekki séð um rekstur einkafirma síns heldur hefði hún lánað sambýlismanni sínum, B, nafn sitt og hefði hann alfarið séð um reksturinn. Sömu upplýsingar komu fram við skýrslutöku af gjaldanda, B, og viðurkenndi hann jafnframt að hafa tekið ákvarðanir um að standa ekki skil á virðisaukaskatti sem í málinu greinir. Samkvæmt framansögðu verður að telja upplýst að reksturinn hafi í raun verið í höndum gjaldanda, B. Hins vegar var gjaldandi, A, skráð fyrir rekstrinum. Er hér um sömu aðstöðu að ræða og m.a. í refsimáli því sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 16. janúar 1998 (mál nr. S-724/1997), en sá dómur var staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands 28. maí 1998, sbr. H 1998:2173, að því er varðar refsiábyrgð þess aðila sem skráður var fyrir starfseminni. Með vísan til þessarar dómaframkvæmdar, sbr. einnig dóm Héraðsdóms Norðurlands eystra 18. febrúar 1997 (mál nr. S-111/1996), sjá ST 1997:24, verður að telja gjaldendur báða bera ábyrgð að lögum á skattskilum vegna rekstrarins.
Samkvæmt framanrituðu þykir nægilega komið fram með stoð í gögnum málsins og framburði gjaldenda við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 11. og 17. september 2002 að gjaldendur hafi vanrækt skyldur sínar, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, til að standa á tilskildum tíma skil á virðisaukaskatti vegna þeirra uppgjörstímabila árin 1999 og 2000 sem greinir í kröfubréfi skattrannsóknarstjóra. Af hálfu gjaldenda hafa sem fyrr segir engar athugasemdir komið fram um skattfjárhæðir sem standa bar skil á samkvæmt innsendum virðisaukaskattsskýrslum og verður því byggt á þeim. Af hálfu gjaldenda hafa ekki komið fram aðrar skýringar en að fjárhagsvandræði hafi valdið þeim vanskilum á virðisaukaskatti sem í málinu greinir. Af þessu tilefni skal tekið fram að ekki telst tæk varnarástæða að fé hafi ekki verið til í rekstrinum til að standa skil á umræddum gjöldum, sbr. m.a. fyrrnefndan dóm Hæstaréttar Íslands frá 30. mars 2000 (H 2000:1422).
Með vísan til þess sem rakið hefur verið telst fullnægt þeim huglægu refsiskilyrðum sem fram koma í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, og ber að ákvarða gjaldendum sekt samkvæmt þessum lagaákvæðum vegna vanrækslu á skilum virðisaukaskatts sem að framan greinir. Eins og lög nr. 50/1988 hljóða eftir breytingar, sem á þeim voru gerðar með lögum nr. 42/1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem vanrækt var greiðsla á, þó að teknu tilliti til álags. Eins og fyrr greinir hefur í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands í hliðstæðum málum verið tekið tillit til greiðslna til innheimtumanns ríkissjóðs sem inntar hafa verið af hendi eftir gjalddaga og talið að við vissar aðstæður megi fara niður fyrir lögbundið sektarlágmark, sbr. H 2000:2387. Í tilviki gjaldenda er um að ræða greiðslur samtals að fjárhæð 404.021 kr. sem aðallega voru inntar af hendi á árunum 1999 og 2000, þ.e. á svipuðum tíma og vanskil áttu sér stað, og telja verður að nemi verulegu hlutfalli skattfjárhæðar sem í málinu greinir. Með vísan til 8. tölul. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir við þessar aðstæður mega fara niður fyrir sektarlágmark 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988. Þegar höfð eru í huga lagarök, sem búa að baki framangreindum ákvæðum um lágmarks- og margfeldissektir, með tilliti til háttsemi gjaldenda og afleiðinga hennar, þykir rétt að ákveða sektarfjárhæð í máli þessu heildstætt en með tiltekinni skiptingu milli gjaldenda. Í því sambandi er til þess að líta, að því er varðar þátt gjaldanda, A, að eins og fyrr greinir var reksturinn í raun ekki í höndum hennar. Þykir rétt að taka nokkurt tillit til þeirra aðstæðna við skiptingu sektarfjárhæðar milli gjaldenda, sbr. m.a. sjónarmið í fyrrgreindum dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra frá 18. febrúar 1997 (ST 1997:24). Samkvæmt framangreindu og að teknu tilliti til álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 þykir sekt gjaldenda hæfilega ákveðin 1.350.000 kr. til ríkissjóðs sem skiptist þannig milli þeirra að gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 350.000 kr. og gjaldandi, B, greiði sekt að fjárhæð 1.000.000 kr.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 350.000 kr. til ríkissjóðs. Gjaldandi, B, greiði sekt að fjárhæð 1.000.000 kr. til ríkissjóðs.