Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Innskattur, öflun og rekstur bifreiða
  • Bifreiðakostnaður
  • Fyrning
  • Stofnverð

Úrskurður nr. 251/2003

Gjaldár 2000 og 2001

Virðisaukaskattur 1999

Lög nr. 75/1981, 10. gr. 2. mgr., 31. gr. 1. tölul. 1. mgr., 32. gr.   Lög nr. 50/1988, 16. gr.   Reglugerð nr. 192/1993, 9. gr.  

Í máli þessu var deilt um hvort bifreið kæranda gæti talist fyrnanleg eign í atvinnurekstri hans. Því var hafnað, m.a. þar sem fyrir lá að bifreiðin var notuð jöfnum höndum í þágu rekstrarins og í einkaþágu. Þá var hafnað kröfu kæranda um að litið yrði á breytingar hans á bifreiðinni, sem fólust m.a. í lengingu á palli hennar, sem sérstakan fyrningargrunn, enda var kostnaður vegna breytinganna talinn hluti af stofnverði. Talið var að breytingar kæranda á bifreiðinni vörðuðu öflun hennar í skilningi 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993 og yrði því að fara með virðisaukaskatt sem til féll vegna kostnaðar við breytingarnar eftir reglum um innskattsfrádrátt vegna öflunar sendibifreiða.

I.

Með kæru, dags. 13. febrúrar 2002, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar úrskurði skattstjóra, dags. 27. nóvember 2001, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2000 og 2001 og virðisaukaskatts árið 1999. Með hinum kærða úrskurði synjaði skattstjóri um innskattsfrádrátt 254.144 kr. árið 1999 vegna breytinga á bifreiðinni X. Þá felldi skattstjóri niður gjaldfærða fyrningu nefndrar bifreiðar, þar á meðal vegna kostnaðar við breytingar á bifreiðinni, samtals 657.265 kr. í ársreikningi kæranda fyrir árið 1999 og 684.739 kr. í ársreikningi fyrir árið 2000, svo og felldi skattstjóri niður eignfærslu bifreiðarinnar í ársreikningum kæranda en færði hana til eignar í persónuframtali með 3.540.467 kr. gjaldárið 2000 og 3.186.420 kr. gjaldárið 2001. Jafnframt ákvarðaði skattstjóri frádráttarbæran bifreiðakostnað í rekstri kæranda 535.791 kr. gjaldárið 2000 og 200.000 kr. gjaldárið 2001, þar á meðal vegna hlutdeildar í reiknaðri afskrift, í stað gjaldfærðs bifreiðakostnaðar 421.370 kr. fyrra árið og 239.819 kr. síðara árið.

Í kæru til yfirskattanefndar er krafist innskattsfrádráttar í samræmi við innsenda leiðréttingarskýrslu kæranda fyrir árið 1999. Þá er öllum breytingum skattstjóra á skattframtölum kæranda árin 2000 og 2001 mótmælt, þó þannig að fallist er á að fyrning bifreiðar og breytinga verði lækkuð úr 100% í 70% til samræmis við skiptingu rekstrarkostnaðar milli atvinnurekstrar og einkanota. Verði kröfu um innskattsfrádrátt hafnað er þess krafist til vara að fjárhæð virðisaukaskatts verði bætt við kostnað vegna breytinga á bifreiðinni og fyrnd í sömu hlutföllum og bifreiðin og breytingar á henni. Einnig er gerð krafa um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði í samræmi við framlögð gögn um kostnað kæranda af málinu.

II.

Málavextir eru þeir að kærandi, sem hefur með höndum útgerð handfærabáts, eignfærði í skattskilum sínum fyrir árin 1999 og 2000 bifreiðina X af gerðinni Toyota Hilux og fyrndi almennri fyrningu. Þá færði kærandi sérstaklega til eignar og fyrndi almennri fyrningu liðinn „lenging palls og tilheyrandi“. Gjaldfærð fyrning í rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1999 nam 449.800 kr. vegna bifreiðar og 207.465 kr. vegna lengingar palls o.fl. og 468.602 kr. vegna bifreiðar og 216.137 kr. vegna lengingar palls o.fl. í rekstrarreikningi fyrir árið 2000. Fyrra árið gjaldfærði kærandi jafnframt liðinn „rekstur bifreiðar, 50%“ að fjárhæð 421.370 kr. og síðara árið færði kærandi til gjalda liðinn „rekstur bifreiðar, 70%“ að fjárhæð 239.819 kr. Andvirði selds afla nam 4.751.254 kr. árið 1999 og 3.127.263 kr. árið 2000, en auk þess hafði kærandi tekjur af leigu aflamarks 3.127.500 kr. fyrra árið og 5.578.016 kr. síðara árið. Í innsendri leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts (RSK 10.25) fyrir árið 1999 gerði kærandi grein fyrir viðbótarinnskatti að fjárhæð 217.310 kr., en auk annarra leiðréttinga var þar tilfærður sem innskattur virðisaukaskattur að fjárhæð 254.144 kr. vegna fyrrgreindra breytinga á bifreiða kæranda.

Við meðferð málsins hjá skattstjóra kom fram að bifreiðin X væri skráð sem sendibifreið samkvæmt bifreiðaskrá, sbr. bréf umboðsmanns kæranda, dags. 12. september 2001 og 18. október 2001. Notkun bifreiðarinnar væri blönduð og mæti kærandi einkanot og atvinnurekstrarnot til helminga. Bifreiðin væri þó eignfærð í rekstri og afskrifuð þar sem 100% eign rekstrarins. Kynni það að vera umdeilanlegt fyrirkomulag, en einnig gæti verið erfitt að staðfesta hver nýting vegna atvinnurekstrar væri nákvæmlega. Þar sem ekki væri um fólksbifreið að ræða og hluti rekstrarkostnaðar því innskattaður hefði eyðublað RSK 4.03 ekki verið sent með skattframtali. Ráðist hefði verið í kostnað við búnað og breytingar á bifreiðinni, sbr. meðfylgjandi reikning frá P. Samúelssyni ehf., til að auka flutningsgetu hennar. Sú fjárfesting væri alfarið vegna atvinnurekstrar kæranda en nýttist að engu leyti til persónulegra þarfa. Því væri talið að hér væri ekki um öflun flutningstækis að ræða í skilningi 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, heldur ætti að skoða þessa eign sem búnað alfarið tengdan atvinnurekstri og því fyrningar- og innskattshæfan.

Í framhaldi af bréfi, dags. 23. október 2001, þar sem skattstjóri boðaði kæranda endurákvörðun opinberra gjalda hans gjaldárin 2000 og 2001 og virðisaukaskatts árin 1999 og 2000, og að fengnum andmælum umboðsmanns kæranda í bréfi, dags. 9. nóvember 2001, tilkynnti skattstjóri kæranda með úrskurði um endurákvörðun, dags. 27. nóvember 2001, um hinar kærðu breytingar á skattframtölum hans og virðisaukaskatti fyrrgreind ár. Eins og fyrr greinir synjaði skattstjóri um innskattsfrádrátt 254.144 kr. árið 1999 vegna breytinga á bifreiðinni X. Þá felldi skattstjóri niður gjaldfærða fyrningu bifreiðarinnar og breytinga á bifreiðinni, samtals 657.265 kr. í ársreikningi kæranda fyrir árið 1999 og 684.739 kr. í ársreikningi fyrir árið 2000, svo og felldi skattstjóri niður eignfærslu bifreiðarinnar og breytinga í ársreikningum kæranda en færði hana til eignar í persónuframtali með 3.540.467 kr. fyrra árið og 3.186.420 kr. síðara árið. Jafnframt ákvarðaði skattstjóri frádráttarbæran bifreiðakostnað 535.791 kr. gjaldárið 2000, þar á meðal vegna hlutdeildar í reiknaðri afskrift, í stað gjaldfærðs bifreiðakostnaðar 421.370 kr., svo og áætlaði skattstjóri bifreiðakostnað 200.000 kr. gjaldárið 2001 í stað gjaldfærðs kostnaðar 239.819 kr. Hreinar tekjur af atvinnurekstri hækkuðu þannig samkvæmt úrskurði skattstjóra um 542.844 kr. gjaldárið 2000 og 724.558 kr. gjaldárið 2001.

Í úrskurði skattstjóra kom fram að bifreið kæranda væri fimm manna bifreið með farangursskúffu sem eftir breytingar væri 1.850 cm (sic) að lengd og uppfyllti að því leyti skilyrði 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993. Bifreiðin væri hins vegar aðeins nýtt að hluta til í rekstri en að öðru leyti til einkanota, og uppfyllti ekki skilyrði 2. mgr. 9. gr. nefndrar reglugerðar. Þá kvaðst skattstjóri túlka heimild til að eignfæra og afskrifa bifreiðar í eigu sjálfstætt starfandi manns þröngt og telja það forsendu slíkrar meðferðar í skattskilum að viðkomandi bifreið væri eingöngu notuð í þágu atvinnurekstrar. Þessi afstaða væri staðfest af ríkisskattstjóra í áliti frá 14. mars 2000 svo sem skattstjóri gerði nánari grein fyrir. Umræddar breytingar á bifreiðinni hefðu verið gerðar í beinu framhaldi af kaupum kæranda á bifreiðinni og falið í sér verulegar breytingar á eiginleikum bifreiðarinnar og afkastagetu, m.a. lengingu milli hjóla, og yrðu ekki aðskildar frá bifreiðinni. Þótt ekki væri hafnað þeirri skýringu kæranda að breytingarnar ættu sér rekstrarlegar forsendur yrði að skoða kostnað við þær sem hluta af kostnaði við öflun bifreiðarinnar. Þá yrði viðbótarkostnaðurinn ekki talinn geta staðið einn og sér sem fjárfesting.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 13. febrúar 2002, er gerð grein fyrir málavöxtum og færð rök fyrir meðferð bifreiðar og endurbóta á henni í skattskilum kæranda. Hafi endurbætur verið gerðar í þeim tilgangi að bifreiðin þjónaði rekstrinum með fullnægjandi hætti. Fjárfestingin hafi verið fyrnd og innsköttuð þar sem um stofnkostnað vegna vöruflutninga hafi verið að ræða en ekki fólksflutninga. Vísar umboðsmaður kæranda í þessu sambandi til 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, og 6. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt. Viðbótarkostnaðurinn nýtist ekki sjálfstætt sem ökutæki og geti því ekki fallið undir 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993. Þá verði þetta tilvik ekki fellt undir 11. gr. reglugerðar nr. 483/1994. Þá færir umboðsmaður kæranda rök að því að kæranda hafi ekki verið skylt að standa skil á eyðublaði RSK 4.03 vegna gjaldfærðs bifreiðakostnaðar, enda megi ljóst vera af fyrirsögn eyðublaðsins að það skuli notað til að reikna hluta af rekstrarkostnaði eigna sem fyrri málsliður a-liðar 1. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 483/1994 taki til, þ.e. eigna sem tilheyri ekki atvinnurekstri. Í tilviki kæranda sé um að ræða bifreið sem hann hafi keypt undir lok árs 1999 og hafi nýst honum betur við atvinnurekstur en fyrri bifreið. Því hafi hlutfall rekstrar í rekstrarkostnaði bifreiðarinnar verið aukið úr 50% í 70%. Skattstjóri viðurkenni að ekki sé um fólksbifreið að ræða, heldur pallbíl sem uppfylli skilyrði sem gerð séu til svonefndra virðisaukaskattsbíla. Þar af leiðandi telji kærandi að óumdeilanlega sé um fyrnanlega eign að ræða. Bíllinn sé notaður við akstur á fiskkörum og ýmsum öðrum búnaði vegna útgerðar og slíti sú notkun bifreiðinni langt umfram það sem gerist við venjuleg einkanot manna. Sé því sanngjarnt að reksturinn taki á sig fyrningu og þar með verðfall á bifreiðinni í tilsvarandi hlutföllum.

Þá gerir umboðsmaður kæranda m.a. þá athugasemd við málsmeðferð skattstjóra að hann hafi ekki enn leitað með beinum hætti eftir þeim gögnum sem máli skipti, þ.e. bókhaldi eða fylgiskjölum kæranda, þar sem fram komi hvernig farið hafi verið með útreikning innskatts og skiptingu á rekstrarkostnaði milli einkanota og atvinnnurekstrar. Þá sé ekki samræmi í þeim forsendum skattstjóra að líta á bifreið kæranda sem fólksbifreið og viðurkenna innskattsfrádrátt vegna rekstrar. Einnig tekur umboðsmaður kæranda fram að skattstjóri hafi ekki vefengt að endurbætur kæranda á nýkeyptri bifreið árið 1999 hafi komið til vegna atvinnurekstrar hans.

IV.

Með bréfi, dags. 13. september 2002, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Virðisaukaskattur.

Með vísan til þess sem kemur fram í úrskurði skattstjóra og kæru kæranda til yfirskattanefndar er ljóst að enginn ágreiningur er um innskatt á fyrstu fimm uppgjörstímabilum rekstrarársins 1999. Það er einungis ágreiningur um innskatt á uppgjörstímabilinu nóvember-desember 1999. Samkvæmt upphaflegri skýrslu sem lögð var óbreytt til grundvallar skattákvörðun var innskattur kr. 105.592. Í leiðréttingarskýrslu tilgreindi gjaldandi innskatt kr. 319.902. Krafa gjaldanda samkvæmt leiðréttingarskýrslu var því;

áður samþykktur innskattur kr. 105.592

hækkun vegna breytinga á bifreiðinni X kr. 254.144

lækkun vegna offærðs innskatts kr. -39.834

Samtals kr. 319.902

Skattstjóri samþykkti lækkunina en féllst ekki á kröfu um hækkun á innskatti og ákvarðaði því innskatt uppgjörstímabilsins nóvember-desember 1999 kr. 65.758 (319.902-254.144). Skattstjóri gerði engar breytingar á innskatti rekstrarársins 2000.

Ríkisskattstjóri gerir kröfu um að úrskurður skattstjóra um virðisaukaskatt verði staðfestur með vísan til forsenda hans og eftirfarandi athugasemda enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er meginreglan sú að til innskatts á hverju uppgjörstímabili skuli telja virðisaukaskatt af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum sem eingöngu varða sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. 6. tölul. 3. mgr. 16. gr., sbr. 1. málsl. 7. mgr., geymir sérreglu sem gengur framar meginreglunni. Í 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, er fjallað nánar um þessa sérreglu.

Sérreglan mælir fyrir um það að óheimilt sé að telja til innskatts virðisaukaskatt af öflun sendi- og vörubifreiðar með leyfða heildarþyngd 5.000 kg eða minna nema hún uppfylli skilyrði um burðargetu og lengd farmrýmis, sé eingöngu notuð í virðisaukaskattsskyldum rekstri og sé búin sérstökum skráningarmerkjum með rauðum stöfum á hvítum grunni. Bifreið kæranda, X, uppfyllir ekki framangreind skilyrði enda er hún ekki eingöngu notuð í virðisaukaskattsskyldum rekstri og hún er ekki auðkennd rauð/hvítum skráningarmerkjum. Innskattur af öflun er því ekki tækur.

Það er álit ríkisskattstjóra að áðurnefndar breytingar, sem kærandi lét framkvæma á bifreiðinni X og fólu í sér verulegar breytingar á eiginleikum hennar, sbr. boðunarbréf skattstjóra, dags. 23. október 2001, teljist hluti af öflun hennar og þar með sé óheimilt að telja virðisaukaskatt vegna þeirra til innskatts. Ríkisskattstjóri fellst ekki á það að breytingarnar teljist sjálfstæð eining sem óháð er bifreiðinni enda ljóst að breytingarnar vörðuðu bifreiðina, eru óaðskiljanlegur hluti af henni og auka verðgildi hennar eins og kærandi tekur fram í kæru til yfirskattanefndar (liður 3, bls.2).

Kærandi heldur því fram að skattstjóri hafi ekki ennþá leitað með beinum hætti eftir þeim gögnum sem máli skipta, þ.e. bókhaldi eða fylgiskjölum framteljanda, þar sem séð verða frumgögn og hvernig farið hefur verið með útreikning innskatts. Þessu mótmælir ríkisskattstjóri sem ósönnu og órökstuddu. Skattstjóri hafði undir höndum fullnægjandi upplýsingar um innskattsfærslu vegna þeirra breytinga sem gerðar voru á bifreiðinni enda sendi kærandi inn ljósrit af þeim sölureikningi sem innskattskrafan var byggð á, sbr. bréf kæranda til skattstjóra dags. 12. september 2001.

Fallast má á það með kæranda að bifreiðin X, telst ekki fólksbifreið í skilningi 6. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 6. tölul. 2. gr. og 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993. Að sama skapi má fallast þá það með kæranda að skattstjóri fór rangt með innanmál á palli bifreiðarinnar, og telst pallurinn því vera 1.850 mm en ekki 1.850 cm.

Opinber gjöld.

Aðalkrafa kæranda:

Ríkisskattstjóri gerir þær kröfur að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra. Fram hefur komið að bifreiðin X er notuð jöfnum höndum í rekstri kæranda og sem einkabifreið. Þar sem bifreiðin er ekki eingöngu og alfarið notuð við rekstur kæranda verður hún ekki talin fyrnanleg eign samkvæmt 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. einnig úrskurð yfirskattanefndar nr. 995/1998.

Með kæru til yfirskattanefndar fylgdi yfirlit yfir rekstrarkostnað bifreiðar árið 2000. Ríkisskattstjóri telur að fallast megi á þær tölur sem þar koma fram. Í hinum kærða úrskurði féllst skattstjóri á gjaldfærslu 50% rekstrarkostnaðar bifreiðar í rekstri kæranda árið 1999 og þykir ríkisskattstjóra því mega fallast á gjaldfærslu 50% heildarkostnaðar bifreiðar í rekstri kæranda árið 2000. Auk þess fellst ríkisskattstjóri á gjaldfærslu 50% af reiknaðri árlegri afskrift bifreiðar skv. RSK 3.04 sem var 259.832 kr. með framtali 2001. Ríkisskattstjóri fellst því á gjaldfærslu samtals 301.201 kr. í rekstri kæranda árið 2000 vegna rekstrarkostnaðar bifreiðar.

Varakrafa kæranda:

Ríkisskattstjóri fellst á kröfu kæranda um að virðisaukaskatti verði bætt við kostnað vegna breytinga á bifreiðinni. Kröfu kæranda um fyrningu í sömu hlutföllum og bifreiðin og breyting hennar er hafnað enda er þar um fasta reiknaða fyrningu bifreiðar að ræða en ekki sérstaka fyrningu breytinganna. Lítur ríkisskattstjóri svo á að breytingin teljist hluti bifreiðarinnar en ekki sjálfstæður eignarhluti.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 1. október 2002, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 10. október 2002, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Áréttað er að hvorki skattstjóri né ríkisskattstjóri hafi vefengt þá staðreynd að breyting á flutningatækinu hafi komið til vegna atvinnurekstrar kæranda. Með vísan til þess að breytingar þessar nýtist nánast eingöngu í rekstrarlegum tilgangi, sbr. 16. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 192/1993, sé um að ræða kostnað sem færa beri til innskatts uppgjörstímabilið nóvember-desember 1999. Þá bendir umboðsmaður kæranda á að ríkisskattstjóri fallist í kröfugerð sinni á gjaldfærslu 50% heildarkostnaðar flutningatækisins í rekstri kæranda gjaldárið 2000. Auk þess fallist ríkisskattstjóri á gjaldfærslu 50% af reiknaðri árlegri afskrift samkvæmt RSK 3.04 sem hafi verið 259.832 kr. með framtali 2001. Í kæru til yfirskattanefndar komi fram að hlutdeild rekstrar hafi verið aukin úr 50% í 70% vegna breytingarinnar. Með vísan til þessa ítreki kærandi þá kröfu að reksturinn taki á sig afskriftir í samræmi við þetta, þ.e. 70%. Þá sé varakrafa ítrekuð, svo og krafa um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði.

Með bréfi, dags. 18. október 2002, hefur umboðsmaður kæranda lagt fram ljósrit reikninga til stuðnings málskostnaðarkröfu.

V.

Eins og fram er komið eignfærði kærandi bifreiðina X, sem er af gerðinni Toyota Hilux, og fyrndi almennri fyrningu í ársreikningum sínum vegna útgerðar rekstrarárin 1999 og 2000. Þá eignfærði kærandi sérstaklega liðinn „lenging palls og tilheyrandi“, sbr. fyrningarskýrslur árin 1999 og 2000, og fyrndi á sama hátt. Bifreið þessa og breytingar á henni viðurkenndi skattstjóri ekki sem fyrnanlega eign samkvæmt 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og felldi niður gjaldfærðar almennar fyrningar. Þá féllst skattstjóri ekki á umkrafinn innskattsfrádrátt vegna lengingar palls og annarra breytinga á bifreiðinni sem kærandi lét framkvæma þegar eftir kaup sín á henni.

Eftir því sem fram er komið í málinu fólust umræddar breytingar á bifreið kæranda m.a. í lengingu á palli bifreiðarinnar þannig að hún teldist sendibifreið í skilningi reglna um gerð og búnað ökutækja, sbr. þágildandi reglugerð nr. 411/1993, um gerð og búnað ökutækja. Að gerðum þessum breytingum á bifreiðinni taldist jafnframt fullnægt skilyrðum til að reikna virðisaukaskatt af rekstrarkostnaði bifreiðarinnar til innskatts í samræmi við ákvæði lokamálsgreinar 9. gr. reglugerðar nr. 193/1993, um innskatt, með áorðnum breytingum. Tekið skal fram að samkvæmt upplýsingum úr ökutækjaskrá var bifreiðin X forskráð í ökutækjaskrá 25. október 1999 og nýskráð 28. október 1999. Í nóvember og desember 1999 voru skráðar gerðarbreytingar á bifreiðinni sem lutu m.a. að lengd og breidd bifreiðarinnar og hjólastærð og var bifreiðin skráð sem breytt torfærubifreið. Flokkur var skráður sendibifreið og notkunarflokkur almenn notkun. Samkvæmt skattframtali kæranda árið 2000 seldi hann einkabifreiðina Y um líkt leyti og hann festi kaup á bifreið þeirri sem fjallað er um í máli þessu, en ekki var um aðrar bifreiðar að ræða í eigu kæranda á umræddum tíma.

Óumdeilt er í málinu að umrædd bifreið var jöfnum höndum notuð í þágu atvinnurekstrar kæranda og í einkaþágu. Að þessu virtu og þegar litið er til þeirrar starfsemi sem kærandi hefur með höndum og umfangs rekstrarins verður að fallast á það með skattstjóra að bifreiðin geti ekki talist til fyrnanlegrar eignar samkvæmt 32. gr. laga nr. 75/1981. Af því leiðir að staðfesta ber niðurfellingu bifreiðarinnar af efnahagsreikningi og færslu hennar til eignar í skattframtali svo og niðurfellingu gjaldfærðrar almennrar fyrningar. Kostnaður við þær breytingar á bifreiðinni, sem að framan greinir, telst hluti af stofnverði bifreiðarinnar, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 75/1981, og standa þannig engin rök til þess að verða við kröfu kæranda um að líta á breytingar þessar sem sérstakan fyrningargrunn, sbr. 35. gr. laganna. Kröfum kæranda sem að því lúta, m.a. varakröfu í kæru til yfirskattanefndar, er því hafnað. Þá verður einnig að telja að umræddar breytingar varði öflun bifreiðarinnar í skilningi 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, enda framkvæmdar í beinum tengslum við kaup kæranda á bifreiðinni, og verður því að fara með virðisaukaskatt sem til féll vegna þeirra eftir reglum um innskattsfrádrátt vegna öflunar sendibifreiða. Bifreið kæranda var ekki eingöngu notuð vegna sölu hans á vörum og skattskyldri þjónustu og var því ekki uppfyllt skilyrði fyrir frádrætti virðisaukaskatts vegna öflunar, sbr. upphafsákvæði 9. gr. reglugerðarinnar. Því er ekki fallist á kröfu kæranda um hækkun innskatts árið 1999.

Skattstjóri ákvarðaði frádráttarbæran bifreiðakostnað 535.791 kr. í skattframtali 2000 og byggði í því sambandi á framlagðri sundurliðun bifreiðakostnaðar árið 1999 sem fylgdi bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 9. nóvember 2001, sem tók mið af því að helmingur kostnaðar við rekstur bifreiðarinnar væri vegna útgerðar, auk þess sem skattstjóri færði til gjalda 50% hlutdeild í fastri afskrift 114.421 kr. Ekki verður séð að sérstakur ágreiningur sé um þessa ákvörðun skattstjóra. Af hálfu kæranda er hins vegar mótmælt áætlun skattstjóra um bifreiðakostnað að fjárhæð 200.000 kr. í skattframtali 2001 og krefst þess að byggt verði á framlögðu yfirliti um rekstrarkostnað bifreiðar árið 2000, sem fylgdi kæru til yfirskattanefndar, og að lagt verði til grundvallar að bifreiðin hafi verið notuð að 7/10 hlutum í þágu atvinnurekstrar. Fram kom þegar í skattframtali kæranda árið 2001 að nefnt hlutfall bifreiðakostnaðar væri gjaldfært í rekstrarreikningi og hefur skattstjóri á engu stigi málsins gert athugasemdir við hækkun kæranda á hlutfalli rekstrar í bifreiðanotkun milli ára. Að þessu virtu þykir rétt að taka kröfu kæranda til greina að þessu leyti og hækkar bifreiðakostnaður í skattframtali 2001 þannig úr 200.000 kr. í 421.681 kr.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins, sem gengið hefur kæranda í hag að hluta, þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Með hliðsjón af upplýsingum kæranda um kostnað hans af málinu og með vísan til lagaskilyrða fyrir greiðslu slíks kostnaðar úr ríkissjóði þykir málskostnaður kæranda hæfilega ákvarðaður 20.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Bifreiðakostnaður í skattframtali 2001 hækkar úr 200.000 kr. í 421.681 kr. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákvarðast 20.000 kr. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja