Úrskurður yfirskattanefndar
- Skattsekt
- Skattrannsókn
- Refsiábyrgð fyrirsvarsmanna lögaðila
Úrskurður nr. 265/2003
Lög nr. 50/1988, 40. gr. 6. mgr., sbr. 1. mgr. (brl. nr. 42/1995, 3. gr.) Lög nr. 45/1987, 30. gr. 7. mgr., sbr. 2. mgr. (brl. nr. 42/1995, 2. gr.) Lög nr. 138/1994, 44. gr.
A, sem var stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi X ehf., var með úrskurði yfirskattanefndar gerð sekt vegna vanskila félagsins á staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatti. Skattrannsóknarstjóri ríkisins krafðist þess að B yrði einnig gerð sekt þar sem hann hefði í raun verið framkvæmdastjóri X ehf. og bæri því ábyrgð á vanskilunum ásamt A. Í tilkynningu til hlutafélagaskrár kom fram að B væri „framkvæmdastjóri fjármála“. Með tilliti til skráninga varðandi stjórn og framkvæmdastjórn X ehf. og eindreginna staðhæfinga B um að hann hefði hvorki komið nálægt rekstri né fjármálum X ehf. var talið varhugavert að byggja á því að B hefði verið framkvæmdastjóri félagsins í skilningi laga um einkahlutafélög. Var B ekki gerð sekt í málinu.
I.
Með bréfi, dags. 12. nóvember 2002, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A og B fyrir brot á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum, framin vegna tekjuársins 2000, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna tekjuársins 2000.
Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:
„A, sem fyrrum stjórnarmanni og prókúruhafa X ehf., síðar þrotabú, sem var með skráð lögheimili að ... en nú að ... og B, sem fyrrum framkvæmdastjóra félagsins, er gefið að sök eftirfarandi:
1. Vangoldin afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda launamanna.
A er gefið að sök að hafa ekki staðið skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna X ehf. vegna greiðslutímabilanna janúar, febrúar, mars, apríl, júní, júlí, ágúst, september og október tekjuárið 2000. Vangoldin afdregin skilaskyld staðgreiðsla opinberra gjalda launamanna X ehf. vegna framangreindra greiðslutímabila nemur samtals kr. 729.814. B er gefið að sök að hafa ekki staðið skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna X ehf. vegna greiðslutímabilanna júní, júlí, ágúst, september og október tekjuárið 2000. Vangoldin afdregin skilaskyld staðgreiðsla opinberra gjalda launamanna X ehf. vegna framangreindra greiðslutímabila nemur samtals kr. 152.041. Fjárhæðirnar sundurliðast svo sem hér greinir:
...
Það er mat skattrannsóknarstjóra, byggt á gögnum málsins, að þetta hafi A og B gert á saknæman hátt, að því er frekast verður séð af ásetningi eða í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi.
Telst þessi háttsemi A og B brjóta í bága við ákvæði 1. og 2. mgr. 20. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 16. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum, sbr. aðalreglur 1.-3. gr., 1. tl. 5. gr., 1. mgr. 7. gr og 1. og 3. mgr. 8. gr. þeirra laga.
Framangreind háttsemi varðar A og B sektum samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995.
2. Vanskil á virðisaukaskattsskýrslum. Vangoldinn virðisaukaskattur.
A og B er gefið að sök að hafa ekki staðið innheimtumanni ríkissjóðs að fullu skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri X ehf. vegna uppgjörstímbilanna mars-apríl, maí-júní, júlí-ágúst og september-október tekjuárið 2000. Vangoldinn innheimtur virðisaukaskattur til innheimtumanns ríkissjóðs vegna framangreindra uppgjörstímabila nemur samtals kr. 1.564.560. Fjárhæðin sundurliðast svo sem hér greinir:
...
Er það mat skattrannsóknarstjóra ríkisins, byggt á gögnum málsins, að þetta hafi A og B gert á saknæman hátt, að því er frekast verður séð af ásetningi eða í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi.
Telst þessi háttsemi A og B brjóta í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr., sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. og 2. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.
Varðar framanlýst háttsemi A og B þá sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.
Þess er krafist að A og B verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“
Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 12. nóvember 2002, sem fylgdi kröfugerðinni.
II.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 13. nóvember 2002, var gjaldendum veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef þeir vildu ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál þeirra og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um það hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 2. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 2. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda, A, en gjaldandi, B, hefur lagt fram vörn í málinu með bréfi, dags. 10. janúar 2003. Kemur þar fram að öllum sem þekkingu hafi á bókhaldsmálefnum og jafnvægisáhrifum útskatts og innskatts í virðisaukaskatti megi vera ljóst að sú framkvæmd tekju- og kostnaðarskráningar bókhalds sem framkvæmd var hjá X ehf. hafi hvorki verið í samræmi við lög né gildandi lagafyrirmæli um slíkar skráningar. Hafi gjaldandi ekki haft nein afskipti af skráningu bókhalds né öðrum fjárreiðum félagsins en hann hafi hins vegar bent bókhaldaranum á þau rangindi sem hann væri að gera en hann hafi sagst vera að fara eftir fyrirmælum ríkisskattstjóra í þessum efnum. Það réttlæti ekki röng vinnubrögð að vísa til bréfs sem ekki hafi neina lagastoð að styðjast við. Telji gjaldandi sig hafa skýrt þau rangindi sem viðhöfð hafi verið og sýnt fram á að X ehf. hafi í raun átt inni ofgreiddan virðisaukaskatt. Þá lætur gjaldandi fylgja vörn sinni kafla um tilskipanir ríkisskattstjóra úr bók sinni „Stjórnkerfi fiskveiða í nærmynd“ sem sé væntanleg.
III.
Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 12. nóvember 2002, er gerð sú krafa að gjaldendum, A og B, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með því að gjaldendur hafi sem fyrirsvarsmenn X ehf., vanrækt að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launamanna félagsins tiltekin greiðslutímabil árið 2000 og virðisaukaskatti vegna þeirra uppgjörstímabila árið 2000 sem greinir í bréfinu. Ártöl eru ekki rétt tilgreind í töflum í kröfugerð skattrannsóknarstjóra, en telja verður að þar sé um augljósa misritun að ræða sem ekki getur hafa valdið gjaldendum réttarspjöllum.
Gjaldendur hafa átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda, A, en gjaldandi, B, hefur lagt fram vörn með bréfi, dags. 10. janúar 2003, svo sem fyrr greinir. Þar sem gjaldendur hafa ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að þeir mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.
Skattrannsóknarstjóri hóf í september 2001 rannsókn á skattskilum X ehf. er beindist að skilum á staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatti félagsins árið 2000 og lauk rannsókninni með skýrslu, dags. 5. júní 2002. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra kemur fram að rannsóknin hafi m.a. verið byggð á upplýsingum sem gjaldendur, A og B, hafi veitt við skýrslutökur hjá embættinu annars vegar 4. október 2001 og hins vegar 18. október 2001, gögnum og upplýsingum frá hlutafélagaskrá, staðgreiðsluskilagreinum fyrir greiðslutímabilin janúar, febrúar, mars, apríl, júní, júlí, ágúst, september og október 2000, virðisaukaskattsskýrslum félagsins uppgjörstímabilin mars-apríl til og með september-október 2000 svo og tekjubókhaldi ríkissjóðs, sbr. fylgiskjöl með skýrslunni, en þar er um að ræða yfirlit um greiðslur X ehf. vegna staðgreiðslu opinberra gjalda, virðisaukaskatts og opinberra gjalda.
Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins kemur fram að rannsókn embættisins á staðgreiðsluskilum X ehf. hafi m.a. falist í því að bera saman fjárhæðir afdreginnar staðgreiðslu samkvæmt innsendum staðgreiðsluskilagreinum félagsins og greiðslur þess til innheimtumans ríkissjóðs. Rannsókn á virðisaukaskattsskilum hafi m.a. verið fólgin í því að bera fjárhæðir innheimts virðisaukaskatts skattaðilans samkvæmt innsendum virðisaukaskattsskýrslum félagsins saman við greiðslur þess til innheimtumanns ríkissjóðs. Í skýrslunni er gerð grein fyrir þeirri niðurstöðu rannsóknarinnar að vangoldin staðgreiðsla opinberra gjalda vegna níu greiðslutímabila árið 2000 hafi numið 729.814 kr. og vangoldinn virðisaukaskattur vegna fjögurra uppgjörstímabila árið 2000 hafi numið 1.564.560 kr., hvort tveggja miðað við greiðslustöðu 4. október 2001. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að neinir annmarkar á grundvelli fyrirliggjandi virðisaukaskattsskýrslna og staðgreiðsluskilagreina X ehf. hafi verið leiddir í ljós við rannsóknina. Samkvæmt gögnum málsins var bú X ehf. tekið til gjaldþrotaskipta 26. janúar 2001.
Við skýrslutöku af gjaldanda, A, sem fram fór hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 4. október 2001, kom fram að hann hefði verið framkvæmdastjóri gjaldanda, í stjórn og með prókúru fyrir félagið. Við skýrslutökuna voru bornar undir gjaldanda tilkynningar til hlutafélagaskrár með upplýsingum um X ehf. og hann spurður hvort upplýsingar sem þar kæmu fram og miðuðust við samþykktir félagsins frá 13. ágúst 1999 og fund 16. maí 2000 væru réttar. Þá var hann beðinn að upplýsa nánar hvort breytingar hefðu orðið á rekstrinum og eignaraðild eftir umræddan tíma. Gjaldandi kvað upplýsingar þessar vera réttar að því frátöldu að B hefði í maí 2000 verið skráður framkvæmdastjóri fjármála hjá félaginu og prókúruhafi og frá desember 2000 hefði hann verið skráður einn í stjórn og framkvæmdastjóri. Við skýrslutökuna voru borin undir gjaldanda ljósrit af skilagreinum staðgreiðslu og virðisaukaskattsskýrslum vegna fyrrgreindra greiðslu- og uppgjörstímabila. Kvaðst gjaldandi ekki kannast við skýrslur þessar og skilagreinar en sagði þær varða félagið. Kannaðist hann við undirritun D á skilagrein vegna janúar 2000 og virðisaukaskattsskýrslu vegna mars-apríl 2000 og undirritun starfsmanns bókhaldsstofu á aðrar skilagreinar og virðisaukaskattsskýrslur sem lægju fyrir í málinu. Við skýrslutökuna var gjaldanda kynnt niðurstaða rannsóknarinnar um að vangreidd staðgreiðsla X ehf. umrædd greiðslutímabil næmi 729.814 kr. og var gjaldandi spurður hvort hann vildi tjá sig um þá fjárhæð. Gjaldandi svaraði því neitandi. Gjaldandi var spurður hvers vegna ekki hefðu verið staðin skil á afdreginni staðgreiðslu á lögmæltum tíma og sagði gjaldandi að það hefði verið vegna fjárhagsvandræða X ehf. Aðspurður sagði gjaldandi að laun hefðu verið greidd launamönnum að fullu samkvæmt launaseðlum og á réttum tíma. Þá var borin undir gjaldanda niðurstaða rannsóknarinnar um vangoldinn virðisaukaskatt að fjárhæð 1.564.560 kr. og hann spurður hvers vegna ekki hefðu verið staðin skil á innheimtum virðisaukaskatti á réttum tíma. Gjaldandi kvaðst ekki vilja tjá sig um fjárhæðina, en sagði að fjárhagsvandræði X ehf. hefðu valdið því að virðisaukaskatturinn hefði ekki verið greiddur á lögmæltum tíma. Aðspurður um það hver hefði tekið ákvörðun um og borið ábyrgð á því að ekki hefðu verið staðin skil á virðisaukaskatti og afdreginni staðgreiðslu svaraði gjaldandi við skýrslutökuna að hann teldi að B hefði átt að sjá um þessi mál, en hann hefði verið fjármálastjóri félagsins. Gjaldandi var spurður hvort skýrslur þær og skilagreinar sem lægju fyrir málinu gæfu rétta mynd af rekstri félagsins og öðru því sem þær bæru með sér og taldi gjaldandi svo vera.
Við skýrslutöku af gjaldanda, B, sem fram fór hjá skattrannsóknarstjóra 18. október 2001, kom fram að hann hefði komið inn í félagið sem framkvæmdastjóri fjármála í maí árið 2000 og starfað hjá því þar til félagið var úrskurðað gjaldþrota. Gjaldandi kvaðst þó ekki hafa starfað neitt sem framkvæmdastjóri fjármála og ekkert hafa komið nálægt rekstri eða fjármálum félagsins. Við skýrslutökuna voru bornar undir gjaldanda tilkynningar til hlutafélagaskrár með upplýsingum um X ehf. og hann spurður hvort upplýsingar sem þar kæmu fram og miðuðust við samþykktir félagsins frá 13. ágúst 1999 og fund 16. maí 2000 væru réttar. Kvaðst gjaldandi ekki hafa haft prókúruumboð þótt það kæmi fram í yfirliti frá hlutafélagaskrá. Þá hafi tilkynning til hlutafélagaskrár um breytingu á eignarhaldi og um nýja stjórn frá 8. desember 2000, þar sem A og D seldu hluti sína til B og E auk þess sem B yrði stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins með prókúru, aldrei tekið gildi þar sem forsendur breytinganna hefðu ekki verið fyrir hendi. Annars teldi hann gögnin vera rétt og engar aðrar breytingar verið gerðar. Við skýrslutökuna voru borin undir gjaldanda ljósrit af skilagreinum staðgreiðslu og virðisaukaskattsskýrslum vegna fyrrgreindra greiðslu- og uppgjörstímabila. Kvaðst gjaldandi ekki kannast við skýrslur þessar og skilagreinar, utan virðisaukaskattsskýrslur vegna mars-apríl og maí-júní 2000. Kannaðist hann við undirritun D á virðisaukaskattsskýrslu vegna mars-apríl 2000 og undirritun starfsmanns bókhaldsstofu á aðrar virðisaukaskattsskýrslur. Við skýrslutökuna var gjaldanda kynnt niðurstaða rannsóknarinnar um að vangreidd staðgreiðsla X ehf. umrædd greiðslutímabil næmi 729.814 kr. og var gjaldandi spurður hvort hann vildi tjá sig um þá fjárhæð. Gjaldandi svaraði því neitandi. Gjaldandi var spurður hvers vegna ekki hefðu verið staðin skil á afdreginni staðgreiðslu á lögmæltum tíma og sagði gjaldandi að hann hefði ekki hugmynd um það. Aðspurður hvort laun hefðu verið greidd launamönnum að fullu samkvæmt launaseðlum þrátt fyrir vanskil á staðgreiðslu svaraði gjaldandi að hann vissi ekkert um launagreiðslur félagsins. Þá var borin undir gjaldanda niðurstaða rannsóknarinnar um vangoldinn virðisaukaskatt að fjárhæð 1.564.560 kr. og hann spurður hvers vegna ekki hefðu verið staðin skil á innheimtum virðisaukaskatti á réttum tíma. Gjaldandi kvaðst ekki vita til þess að um skuld vegna virðisaukaskatts væri að ræða hjá félaginu. Aðspurður um það hver hefði tekið ákvörðun um og borið ábyrgð á því að ekki hefðu verið staðin skil á virðisaukaskatti og afdreginni staðgreiðslu svaraði gjaldandi við skýrslutökuna að hann hefði ekki hugmynd um það. Gjaldandi var spurður hvort skýrslur þær og skilagreinar sem lægju fyrir málinu gæfu rétta mynd af rekstri félagsins og öðru því sem þær bæru með sér. Gjaldandi kvaðst ekki vita hvort skilagreinarnar væru réttar en virðisaukaskattsskýrslurnar væru klárlega rangar vegna rangrar bókunar tekjuliða. Með því ætti hann við að ríkisskattstjóri hefði gefið út bréf, auðkennt nr. 157/90, þar sem hann undanskilji virðisaukaskatt af kvótaleigu. Allur rekstur félagsins hefði á því byggt að kvóti væri leigður þannig að bóka hefði átt hinn undanþegna rekstrarkostnað (kvótaleigu) sér en það hefði ekki verið gert og það væri ástæða þess að félagið væri í skuld við ríkissjóð.
Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, er refsivert ef skattskyldur maður afhendir eigi á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða honum borið að innheimta. Í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995, er með samsvarandi hætti lýst refsivert ef launagreiðandi innir ekki af hendi þær greiðslur vegna launamanna sem hann hefur haldið eftir eða honum borið að halda eftir. Samkvæmt fortakslausum ákvæðum nefndra laga og með stoð í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar 27. febrúar 1997 (H 1997:789), 25. september 1997 (H 1997:2446), 14. janúar 1999 (H 1999:79), 18. febrúar 1999 (H 1999:544 og 550), 10. júní 1999 (H 1999:2645) og 30. mars 2000 (H 2000:1422), geta fyrirsvarsmenn lögaðila unnið til refsingar með því einu að láta ógert að skila umræddum gjöldum í ríkissjóð á tilskildum tíma, enda sé huglægum refsiskilyrðum fullnægt.
Eins og fyrr greinir kemur fram í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 5. júní 2002, að hinn 4. október 2001 hafi vangreidd afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda X ehf. árið 2000 numið 729.814 kr. og vangreiddur virðisaukaskattur félagsins árið 2000 numið 1.564.560 kr. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra er byggð á niðurstöðum skýrslunnar. Af hálfu gjaldenda hafa ekki verið gerðar athugasemdir við niðurstöðu skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins um fjárhæð vangreidds skatts að öðru leyti en því að gjaldandinn, B, hefur mótmælt túlkun ríkisskattstjóra á því hvernig eigi að fara með virðisaukaskatt af svokallaðri „kvótaleigu“. Rétt þykir að taka fram að í skattframkvæmd hefur leiga aflaheimilda verið talin undanþegin skattskyldri veltu samkvæmt 6. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Hefur það í för með sér að seljandi skal ekki reikna útskatt á sölu eða leigu aflakvóta og því fellur ekki til innskattur vegna kaupa eða leigu aflakvóta hjá kaupanda. X ehf. hefur því ekki þurft að greiða virðisaukaskatt af leigu leigusala svokallaðs aflakvóta til félagsins og því er ekki um neinn innskatt að ræða hjá félaginu sem það hefði getað fært til frádráttar í virðisaukaskattsskilum sínum.
Tekið skal fram að í dómaframkvæmd og úrskurðum yfirskattanefndar í hliðstæðum málum hefur verið talið rétt að taka við tilteknar aðstæður tillit til greiðslna skattaðila sem innheimtumaður ríkissjóðs hefur ráðstafað til greiðslu álags, dráttarvaxta og kostnaðar vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts og eftir atvikum inn á aðrar skattskuldir, og hafa slíkar greiðslur þá komið til frádráttar við ákvörðun vangreiddrar skattfjárhæðar eða litið með hliðstæðum hætti til þeirra við ákvörðun viðurlaga.
Í gögnum málsins kemur fram að hinn 24. október 2002 höfðu alls verið greiddar til innheimtumanns ríkissjóðs 73.135 kr. vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og 1.266.017 kr. vegna virðisaukaskatts X ehf. frá því umræddar skuldir félagsins vegna vangoldinnar staðgreiðslu og virðisaukaskatts byrjuðu að myndast 15. febrúar 2000. Þar af var 60.199 kr. ráðstafað til greiðslu höfuðstóls staðgreiðslu og 1.218.305 kr. til greiðslu höfuðstóls virðisaukaskatts og hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins tekið tillit til þeirra greiðslna að því leyti sem þeim hefur verið ráðstafað inn á skattskuldir vegna greiðslu- og uppgjörstímabila sem málið varðar. Sá hluti greiðslna á umræddu tímabili, sem innheimtumaður ríkissjóðs hefur ráðstafað til greiðslu dráttarvaxta, álags og kostnaðar, nemur 12.936 kr. vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og 47.712 kr. vegna virðisaukaskatts. Í samræmi við þau sjónarmið, sem að framan greinir, þykir rétt að taka í máli þessu tillit til nefndra greiðslna á þann hátt sem skattaðila verður talið hagfelldast. Vegna athugasemda í greinargerð skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 12. nóvember 2002, þess efnis að hugsanleg tilmæli skattaðila um ráðstöfun greiðslu hafi þýðingu við ákvörðun þess hvort hann sé látinn njóta hennar með framangreindum hætti, skal tekið fram að ekki verður séð að við rannsókn máls gjaldenda hafi verið kannað viðhorf þeirra til þess hvernig einstökum greiðslum var ráðstafað. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki byggt á viðhorfum þess efnis sem skattrannsóknarstjóri reifar. Þá hefur verið greitt vegna félagsins í opinber gjöld og tryggingagjald á þessu tímabili inn á höfuðstól, dráttarvexti, álag og kostnað samtals 101.471 kr., þar af var 94.659 kr. ráðstafað til greiðslu á höfuðstól og 6.812 kr. til greiðslu á dráttarvöxtum, álagi og kostnaði. Í samræmi við framangreind viðhorf þykir rétt að taka tillit til greiðslna þessara með hliðstæðum hætti við ákvörðun sektarfjárhæðar.
Ekkert hefur komið fram af hálfu gjaldenda um aðrar greiðslur á umræddu tímabili, sem jafnframt beri að taka tillit til, né verður ráðið um það af gögnum málsins.
Samkvæmt gögnum málsins var afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda vegna launamanna X ehf. fyrir framangreind greiðslutímabil árið 2000 ekki greidd til innheimtumanns ríkissjóðs á tilskildum tíma, sbr. 1. og 2. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987. Þá var virðisaukaskattur félagsins framangreind uppgjörstímabil árið 2000 ekki greiddur innheimtumanni ríkissjóðs á tilskildum tíma, sbr. 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988. Með vísan til þess sem að framan er rakið um innborganir til innheimtumanns ríkissjóðs verður í máli þessu miðað við vangreidda staðgreiðslu og virðisaukaskatt samtals að fjárhæð 2.132.255 kr.
Gjaldandi, A, var stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi X ehf. á þeim tíma sem mál þetta varðar og bar sem slíkur ábyrgð á daglegum rekstri félagsins, þar á meðal fjárreiðum, og var til þess bær að taka ákvörðun um hvaða kröfur á hendur félaginu skyldu greiddar og hverjar ekki. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins bar gjaldandi því við að fjárskortur hafi valdið því að ekki voru gerð skil á staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatti. Samkvæmt framangreindu telst gjaldandi hafa borið ábyrgð á skilum staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatti X ehf. Ekki telst tæk varnarástæða að fé hafi ekki verið til í rekstri félagsins til að standa skil á umræddum gjöldum, sbr. m.a. fyrrnefndan dóm Hæstaréttar Íslands frá 30. mars 2000 (H 2000:1422).
Samkvæmt framansögðu verður talið að fullnægt sé í tilviki gjaldanda þeim huglægu refsiskilyrðum sem fram koma í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995, og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.
Sektarkrafa á hendur gjaldanda, B, er reist á því að hann beri sem framkvæmdastjóri X ehf. ábyrgð ásamt A á vanskilum þeim sem í málinu greinir.
Skattrannsóknarstjóri ríkisins byggir á því að gjaldandi, B, hafi í raun verið framkvæmdastjóri X ehf. á greindum tíma og skráning í hlutafélagaskrá hafi verið röng. Einkahlutafélag þetta var stofnað 13. ágúst 1999. Samkvæmt tilkynningu til hlutafélagaskrár um stofnun félagsins, sem móttekin var 16. ágúst 1999, var A tilgreindur sem formaður stjórnar og eini aðalstjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi. D var tilgreind sem varastjórnarmaður. Í tilkynningu til hlutafélagaskrár, dags. 15. maí 2000, er þess getið að gjaldandi, B, hafi þann dag gengið í félagið með kaupum á hlutafé. Á hluthafafundi þann sama dag hafi verið ákveðið að stjórn félagsins yrði óbreytt, en B „taki tímabundið að sér starf framkvæmdastjóra fjármálahliðar starfseminnar“. Þá er tekið fram að B hafi „fullt umboð stjórnar félagsins til allra nauðsynlegra aðgerða, sem lúta að fjármálahlið starfseminnar en hann skuldbindur ekki félagið. Slíkt er í höndum stjórnar þess“. Þess er getið í tilkynningunni að frá og með 16. maí 2000 sé stjórn félagsins þannig skipuð að A sé stjórnarformaður með prókúru og D sé í varastjórn. Tekið er fram að B sé „framkvæmdastjóri fjármála“. Samkvæmt fyrirliggjandi útskrift úr hlutafélagaskrá var stjórn félagsins samkvæmt fundi 16. maí 2000 skipuð þeim A og D sem jafnframt höfðu prókúruumboð. Þá er þar tilgreint að A sé framkvæmdastjóri. Þess eins er getið varðandi B að hann hafi haft prókúruumboð.
Í skýrslutöku kvaðst gjaldandi, B, hvorki hafa komið nálægt rekstri né fjármálum X ehf. Þá hefði hann ekki haft prókúru á greindum tíma. Í framburði sínum staðfesti A að hann hefði verið stjórnarmaður í einkahlutafélaginu, framkvæmdastjóri og prókúruhafi. B hefði verið framkvæmdastjóri fjármála með prókúru og haft þau afskipti af fjármálum félagsins sem fram koma í framburðinum.
Þegar það er virt, sem hér að framan er rakið, sérstaklega greindar skráningar varðandi stjórn og framkvæmdastjórn X ehf. og eindregnar staðhæfingar B, þykir varhugavert að byggja á því að hann hafi verið framkvæmdastjóri félagsins í skilningi IX. kafla laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, eða haft þau afskipti af fjármálum félagsins sem skattrannsóknarstjóri ríkisins telur. Þá þykir ekki full vissa fyrir því að hann hafi haft prókúru. Verður því ekki talið að sýnt hafi verið fram á það með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins að gjaldandi, B, beri refsiábyrgð vegna þeirra háttsemi sem greinir í kröfubréfi skattrannsóknarstjóra. Verður honum því ekki gerð sekt í máli þessu.
Með vísan til framanritaðs ber að ákvarða gjaldanda, A, sekt samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 42/1995, vegna vanrækslu á skilum staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts sem að framan greinir. Eins og lög nr. 45/1987 og nr. 50/1988 hljóða eftir breytingar, sem á þeim voru gerðar með lögum nr. 42/1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem vanrækt var greiðsla á, þó að teknu tilliti til álags. Við ákvörðun sektar ber að taka tillit til þess að ekki er annað komið fram en að vangreiðsla á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda hafi fyrst og fremst stafað af fjárhagserfiðleikum X ehf. og ekkert er komið fram um að gjaldandi hafi persónulega notið nokkurs hags af brotinu. Samkvæmt framangreindu og að teknu tilliti til álags samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 4.000.000 kr. til ríkissjóðs.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 4.000.000 kr. til ríkissjóðs. Gjaldanda, B, verður ekki gerð sekt í máli þessu.