Úrskurður yfirskattanefndar
- Reiknað endurgjald
Úrskurður nr. 24/2005
Gjaldár 2003
Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul. 2. mgr., 58. gr. Lög nr. 45/1987, 6. gr. Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald árið 2002
Kæruefni í máli þessu var ákvörðun skattstjóra á reiknuðu endurgjaldi kæranda vegna aksturs í þágu ferðaþjónustu. Í úrskurði yfirskattanefndar var talið að kærandi hefði vanmetið vinnuframlag sitt við starfsemina og lagði nefndin mat á vinnuframlagið að álitum með hliðsjón af upplýsingum um umfang og eðli starfsins, afkomu rekstrarins og tekjur af útseldri þjónustu. Að þessum atriðum virtum þótti vinnuframlag kæranda hæfilega metið miðað við 40% af fullu ársstarfi á árinu 2002.
I.
Málavextir eru þeir að kærandi taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 2003 og sætti af þeim sökum áætlun skattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2003, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattframtal kæranda barst skattstjóra hinn 18. júní 2003 samkvæmt gögnum málsins og tók skattstjóri það til meðferðar sem kæru, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 99. gr. sömu laga. Umboðsmaður kæranda mótmælti álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2003 með kæru, dags. 28. ágúst 2003, og óskaði eftir því að álagning opinberra gjalda gjaldárið 2003 yrði byggð á hinu innsenda skattframtali kæranda í stað áætlunar. Með skattframtalinu fylgdi rekstrarreikningur vegna sjálfstæðrar starfsemi kæranda við fólksflutninga. Samkvæmt rekstrarreikningnum tilfærði kærandi 1.953.800 kr. í tekjur og 1.349.037 kr. í gjöld, þar af nam reiknað endurgjald 400.000 kr. Hagnaður ársins nam því 604.763 kr.
Áður en skattstjóri tók kæruna til afgreiðslu ritaði hann kæranda bréf, dags. 11. september 2003, og krafði kæranda um hreyfingalista til staðfestingar á tilgreindum rekstrartekjum í rekstrarreikningi fyrir árið 2002 og gögn til staðfestingar nokkrum gjaldaliðum samkvæmt rekstrarreikningnum. Þá vísaði skattstjóri til ákvæða 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um að manni sem ynni við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi bæri að telja sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starf sitt og hefði hann innt það af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila. Krafðist skattstjóri með vísan til þess að kærandi hefði haft í heildartekjur 1.953.800 kr. og reiknað sér endurgjald að fjárhæð 400.000 kr. að hann gerði grein fyrir eðli starfseminnar, vinnutíma sem lægi að baki tekjuöfluninni og að hann legði fram gögn um tímaskráningu. Vakti skattstjóri athygli kæranda á viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra varðandi ákvörðun reiknaðs endurgjalds í þessu sambandi.
Umboðsmaður kæranda greindi frá því í bréfi, dags. 24. september 2003, að kærandi hefði áður starfað sem ... en orðið að hætta því starfi sökum aldurs. Á síðari árum hefði hann verið að reyna að afla sér tekna með fólksflutningum á ... bifreið sem hann hefði áður notað í fyrra starfi. Kærandi hefði annast fólksflutninga 51 dag á árinu 2002, vinnan hefði numið að meðaltali átta klukkustundum á dag og reiknað hefði verið með launataxta 980 kr. pr. klst. en lágmarkstaxti væri innan við 700 kr. Þá greindi umboðsmaðurinn frá vandræðum kæranda við að afla sér vinnu eftir að hann hætti að starfa sem X og ýmsum erfiðleikum sem af því stöfuðu.
Með kæruúrskurði, dags. 7. nóvember 2003, féllst skattstjóri á að leggja skattframtal kæranda árið 2003 til grundvallar álagningu opinberra gjalda hans gjaldárið 2003 að gerðum þeim breytingum að reiknað endurgjald kæranda var hækkað í 900.000 kr. og stofn til tryggingagjalds var hækkaður samsvarandi. Skattstjóri rakti bréfaskipti í málinu og ákvæði 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. og 58. gr. laga nr. 90/2003 og vék jafnframt að viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra til ákvörðunar á reiknuðu endurgjaldi tekjuárið 2002. Kvaðst skattstjóri ekki fallast á að byggja á fram komnum útreikningi um reiknað endurgjald kæranda og tímataxta 980 kr., enda yrði að telja afar ólíklegt að í þeirri starfsemi sem kærandi stundaði væri greitt samkvæmt þeim tímataxta ef unnið væri fyrir „ótengdan eða óskyldan aðila“, sbr. orðalag 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. og 1. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt reglum ríkisskattstjóra um viðmiðunarfjárhæðir reiknaðs endurgjalds tekjuárið 2002 bæri kæranda að reikna sér endurgjald samkvæmt viðmiðunarflokki E. Sá flokkur fjallaði um ýmsa starfsemi ófaglærðra einyrkja og vélstjórnenda. Tók skattstjóri fram að til þess flokks teldust bifreiðastjórar. Af framtalsgögnum kæranda yrði ekki annað ráðið en um væri að ræða fullt starf hjá kæranda. Samkvæmt flokki E-2 næmu árslaun 1.920.000 kr. og mánaðarlaun 160.000 kr. Ef miðað væri við þennan flokk hefði kærandi reiknað sér endurgjald vegna 2,5 mánaða vinnuframlags. Þegar skoðað væri yfirlit yfir olíukaup kæranda og daga sem reikningsfært væri fyrir væri ljóst að ákvörðun reiknaðs endurgjalds kæranda væri of lág. Samkvæmt afritum af útgefnum reikningum hefði kærandi farið ferðir í öllum mánuðum ársins nema maí, október og desember, en olía væri tekin í öllum mánuðum ársins. Tekin væri olía 10. september, 23. október og 20. nóvember, en reikningsfært vegna 23. nóvember. Um væri að ræða fulla vinnu í febrúar, mars, apríl og júlí en að auki vinnu í janúar, júní, ágúst, september og nóvember. Tók skattstjóri fram að svo sem málið lægi fyrir yrði að meta reiknað endurgjald kæranda út frá reikningsfærslu og úttekt á olíu en jafnframt yrði að gera ráð fyrir að einhver vinna hefði fallið til vegna reksturs og viðhalds bifreiðarinnar auk orlofs. Svo sem málið lægi fyrir væri skattstjóri bundinn af ákvæðum 3. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003 varðandi myndun taps og þætti að virtum málavöxtum rétt að hækka reiknað endurgjald kæranda í 900.000 kr. umrætt ár. Kvað skattstjóri gjaldfært tryggingagjald hækka samkvæmt þessu í 51.570 kr. og hagnað ársins verða 72.913 kr. sem kæmi til frádráttar yfirfæranlegu tapi en ónotað tap til næsta árs yrði 622.522 kr. Var álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2003 hagað í samræmi við þetta.
II.
Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra, dags. 7. nóvember 2003, verið skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 5. febrúar 2004. Er gerð krafa um að úrskurði skattstjóra verði hnekkt. Lætur umboðsmaðurinn fylgja kærunni afrit af kauptaxta Eflingar, stéttarfélags, fyrir árið 2003, sem hann vísar til, þar sem fram komi að kauptaxti hópferðabifreiðastjóra eftir átta ára starfsaldur sé 685,67 kr. í dagvinnu og 1.234,23 kr. í yfirvinnu. Því megi vera ljóst að útreikningur, sbr. bréf umboðsmanns kæranda til skattstjóra, dags. 24. september 2003, standist fyllilega. Kveður umboðsmaðurinn það vitað að menn, sem komnir séu yfir fimmtugt, eigi erfitt með að fá vinnu og megi því þakka fyrir ef þeir fái greitt „samkvæmt strípuðum töxtum“. Færir umboðsmaðurinn nánari rök fyrir skýringum sínum og mótmælir því að mönnum séu áætluð laun „uppúr öllu valdi“ án þess að tekið sé tillit til raunverulegra aðstæðna. Varðandi meint olíukaup kæranda utan beinna ferðadaga kveður umboðsmaðurinn kæranda hafa á stundum tekið það ráð að vera á ferðinni í kringum ferðaþjónustufyrirtækin til að sýna sig og einstaka sinnum hafi það borið árangur. Ömurlegt sé að hanga heima og bíða eftir því að vinna bjóðist.
III.
Með bréfi, dags. 16. apríl 2004, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Samkvæmt 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, (áður laga nr. 75/1981) ber þeim manni, sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, að telja sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starf sitt og hefði hann innt það af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila. Í hinum kærða úrskurði hefur skattstjóri miðað við að kæranda beri að reikna sér endurgjald miðað við flokk E(2) í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra varðandi ákvörðun reiknaðs endurgjalds. Af hálfu kæranda hefur því ekki verið borið við sérstaklega að byggja bæri á öðrum viðmiðunarflokki í umræddum viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra, heldur hefur því einungis verið haldið fram að þau viðmið sem þar eru sett fram séu víðsfjarri veruleikanum og bent á kauptaxta Eflingar því til stuðnings. Verður að telja að viðmiðunarflokkurinn sé samkvæmt þessu ágreiningslaus og ber því að byggja á honum.
Í 6. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, er fjallað um ákvörðun og meðferð reiknaðs endurgjalds í staðgreiðslu samkvæmt þeim lögum, sbr. 2. tölul. 4. gr. og 2. tölul. 5. gr. laganna. Í 58. gr. laga nr. 90/2003 eru ákvæði um vefengingu skattstjóra á tilfærðu reiknuðu endurgjaldi af hendi skattaðila, ákvarðanir skattstjóra í því sambandi, viðmiðanir og skorður sem þessu ákvörðunarvaldi eru settar. Skattstjóri hefur við mat á aðstæðum kæranda litið heildstætt á mál hans svo sem nauðsynlegt er vegna takmarkana á breytingarheimild skattstjóra skv. 58. gr. laga nr. 90/2003. Hefur skattstjóri þannig m.a. gætt þess að mynda ekki tap í rekstrinum, sbr. takmörkun þá sem skattstjóra er sett í 3. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003. Er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 26. apríl 2004, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar.
Með bréfi, dags. 4. maí 2004, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Er þar sérstaklega áréttað að viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra til ákvörðunar á reiknuðu endurgjaldi eigi naumast við vegna aldurs kæranda þar sem atvinnumöguleikar séu takmarkaðir þegar komið sé yfir miðjan aldur, eins og nánar er lýst.
IV.
Eins og fram hefur komið taldi kærandi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 2003 og sætti því áætlun skattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2003, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattframtal kæranda árið 2003 barst skattstjóra hinn 18. júní 2003 eða að liðnum framtalsfresti en áður en álagningu var lokið og tók skattstjóri það réttilega sem kæru samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003 og kvað upp kæruúrskurð, dags. 7. nóvember 2003, að undangengnum bréfaskriftum, sbr. bréf skattstjóra, dags. 11. september, og svarbréf umboðsmanns kæranda, dags. 24. september 2003, þar sem hann féllst á að leggja hið innsenda skattframtal til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2003 með tilteknum breytingum. Eins og skattframtalið bar að samkvæmt þessu var skattstjóri ekki bundinn af fyrirspurnar- og tilkynningarákvæðum 96. gr. laga nr. 90/2003, hygðist hann breyta skattframtalinu eða vefengja það í heild sinni eða hluta. Skattstjóra bar hins vegar að rökstyðja kæruúrskurð sinn, þar með talda þá breytingu sem hann gerði á skattframtalinu, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003 og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um efni rökstuðnings, og sjá til þess samkvæmt rannsóknarreglu, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að málið væri nægjanlega upplýst, væru ákvarðanir teknar sem krefðust slíks.
Ágreiningsefni málsins er sú ákvörðun skattstjóra að hækka reiknað endurgjald kæranda vegna vinnu við eigin atvinnurekstur, þ.e. akstur í tengslum við ferðaþjónustu, um 500.000 kr. eða úr 400.000 kr. í 900.000 kr. Samkvæmt því sem fram kom af hálfu kæranda í bréfi til skattstjóra, dags. 24. september 2003, var um að ræða 51 akstursdag, eins og þar sagði, á árinu 2002 og vinnuframlag kæranda átta klukkustundir að meðaltali hvern dag eða sem svaraði til 408 stunda. Hefði reiknað endurgjald að fjárhæð 400.000 kr. verið miðað við þetta. Á þetta féllst skattstjóri ekki og mat það svo að af framtalsgögnum yrði ekki annað ráðið en að um fullt starf kæranda hefði verið að ræða, svo sem segir í kæruúrskurði skattstjóra. Taldi skattstjóri að kæranda bæri að miða reiknað endurgjald sitt við flokk E-2 í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra til ákvörðunar á reiknuðu endurgjaldi, sem skattstjóri vísaði til, eða sem svaraði 1.920.000 kr. árslaunum tekjuárið 2002. Skattstjóri tók fram að þegar skoðað væri yfirlit yfir olíukaup kæranda og þá daga sem reikningsfært væri fyrir, eins og það er orðað, væri ljóst að reiknað endurgjald kæranda hefði verið ákvarðað of lágt. Útgefnir reikningar sýndu að kærandi hefði farið í ferðir alla mánuði ársins nema maí, október og desember en olía hefði verið tekin alla mánuði ársins. Um hefði verið að ræða fulla vinnu í febrúar, mars, apríl og júlí og auk þess vinnu í janúar, júní, ágúst, september og nóvember. Vegna ákvæða 3. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003, þar sem kveðið er á um að skattstjóri megi ekki mynda tap umfram það sem nemur samanlögðum almennum fyrningum samkvæmt 37. gr. laganna með ákvörðun sinni, ákvarðaði skattstjóri reiknað endurgjald kæranda 900.000 kr., þrátt fyrir viðhorf sitt um fullt starf.
Skilja verður kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar á þann veg að bæði séu gerðar athugasemdir við ákvörðun skattstjóra varðandi kaupviðmið og umfang starfs kæranda, þótt ekki hafi komið fram með beinum hætti athugasemdir varðandi niðurstöðu skattstjóra um viðmiðunarflokk í reglum ríkisskattstjóra um ákvörðun reiknaðs endurgjalds.
Grundvallarákvæðið um reiknað endurgjald og sköttunarheimild þess til tekjuskatts er 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, að því er varðar útsvar. Samkvæmt nefndu ákvæði laga nr. 90/2003 ber þeim manni, sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, að telja sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starf sitt og hefði hann innt það af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila. Í 6. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum, er fjallað um ákvörðun og meðferð reiknaðs endurgjalds í staðgreiðslu samkvæmt þeim lögum, sbr. 2. tölul. 4. gr. og 2. tölul. 5. gr. laganna. Í 58. gr. laga nr. 90/2003 eru ákvæði um vefengingu skattstjóra á tilfærðu reiknuðu endurgjaldi af hendi skattaðila, ákvarðanir skattstjóra í því sambandi, viðmiðanir og skorður sem þessu ákvörðunarvaldi eru settar. Kemur fram í 1. mgr. greinarinnar að fjármálaráðherra setji árlega við upphaf tekjuárs reglur um reiknað endurgjald að fengnum tillögum ríkisskattstjóra. Við ákvörðun lágmarksendurgjalds skuli höfð hliðsjón af raunverulegum tekjum fyrir sambærileg störf. Í 2. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003 er tekið fram að færi maður sér til tekna á framtali lægra endurgjald en áskilið sé í reglum fjármálaráðherra, sbr. 1. mgr., skuli skattstjóri hækka endurgjaldið, óháð ákvörðun á staðgreiðsluári, enda hafi framteljandi ekki lagt fram fullnægjandi gögn og rökstuðning með skattframtali sem honum beri að gera ótilkvöddum. Skattstjóra sé heimilt að fallast á lægra endurgjald en viðmiðunarreglur fjármálaráðherra kveði á um, enda liggi fyrir viðhlítandi gögn og rökstuðningur framteljanda og eftir atvikum launagreiðanda sem réttlætt geti slíka ákvörðun. Skuli framteljandi m.a. láta í té upplýsingar um umfang og eðli starfs og starfsemi, afkomu rekstrarins, fjármagn bundið í rekstri og upplýsingar um útselda vinnu eftir því sem það eigi við.
Samkvæmt auglýsingu ríkisskattstjóra nr. 4/2002 um reiknað endurgjald tekjuárið 2002, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda sem auglýsing nr. 39, 17. janúar 2002, falla undir flokk E-2 í viðmiðunarreglunum þeir sem vinna einir og greiða ekki fyrir aðkeypta aðstoðarþjónustu og falla ekki undir flokk A til D. Til þessa flokks teljist t.d. bifreiðastjórar, og nema árslaun samkvæmt reglunum 1.920.000 kr. Miðað við þá launafjárhæð sem um er að tefla samkvæmt flokki E-2 í umræddum viðmiðunarreglunum tekjuárið 2002, þ.e. árslaun að fjárhæð 1.920.000 kr., verður ekki séð að út af fyrir sig sé neinn ágreiningur uppi varðandi þennan þátt málsins, enda verður ekki annað ráðið af viðmiðunarreglunum en að þar sé átt við lágmarkslaun fyrir fullt starf, sbr. skýringar á viðmiðunarfjárhæðum í upphafi 4. kafla greindra viðmiðunarreglna, og verður tímakaup samkvæmt því mjög sambærilegt við það sem kærandi hefur miðað við samkvæmt þeim skýringum sem fram eru komnar, sbr. bréf umboðsmanns kæranda, dags. 24. september 2003. Samkvæmt þessu og þar sem ekki verður annað séð en að ákvörðun skattstjóra varðandi viðmiðunarflokk sé í samræmi við starfsemi kæranda er einungis ágreiningur uppi í málinu um umfang starfs kæranda, þ.e. vinnumagn. Rétt er hins vegar að fram komi að skattstjóra var heimilt að fallast á lægra reiknað endurgjald en viðmiðunarreglur kváðu á um væru lagaskilyrði uppfyllt, sbr. 2. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003, sbr. áður einstaklingsbundin viðmið samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem m.a. bar að taka tillit til aldurs.
Samkvæmt þeim gögnum sem kærandi lagði fram hjá skattstjóra er um að ræða útseldan akstur í 51 dag tekjuárið 2002 og dreifist sú vinna á níu mánuði ársins, þ.e. ekkert er útselt í maí, október og desember. Hefur málatilbúnaður umboðsmanns kæranda gengið út á það að umfang starfsemi kæranda hafi verið lítið, enda hafi kærandi átt erfitt uppdráttar við öflun tekna af fólksflutningum svo sem nánar er lýst. Eins og fram er komið taldi skattstjóri að um fullt starf hefði verið að ræða. Vísaði skattstjóri m.a. til þess að úttektir á olíu hefðu farið fram alla mánuði ársins 2002, sbr. samanburð við útgefna reikninga, og ennfremur að um aðra vinnu við bifreiðina hefði verið að ræða. Þá virðist skattstjóri hafa litið til þess að kærandi stundaði ekki aðra vinnu en greinda starfsemi sína. Vekur reyndar athygli að þrátt fyrir þetta sjónarmið skattstjóra hefur hann í reynd ekki byggt ákvörðun sína um fjárhæð reiknaðs endurgjalds fullum fetum á því að um fullt starf hafi verið að ræða, enda ákvarðaði skattstjóri reiknað endurgjald kæranda 900.000 kr. þótt heimilt hefði verið að hækka það í 1.136.636 kr. án tillits til breytinga á tryggingagjaldi, sbr. rekstrarreikning kæranda og ákvæði 3. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003. Miðað við umfang rekstrar kæranda, sbr. fyrirliggjandi rekstrarreikning, og framkomnar skýringar kæranda um stopul verkefni, sem ekki þykja efni til að vefengja, enda fá þær stuðning í tilfærðum tekjum samkvæmt rekstrarreikningnum, verður ekki talið að nein rök hafi staðið til þess að virða umrætt starf kæranda sem fullt ársstarf eins og skattstjóri gerði.
Á hinn bóginn verður að telja að kærandi hafi vanmetið vinnuframlag sitt við reksturinn, enda verður að gera ráð fyrir að það hafi ekki einvörðungu verið bundið við hina tilgreindu akstursdaga. Af hálfu kæranda hefur ekkert nánar komið fram um vinnuframlag utan þeirra daga sem gera verður þó ráð fyrir að verið hafi til staðar vegna umrædds rekstrar sem var eina starf kæranda á árinu. Að þessu athuguðu og eins og málið liggur fyrir þykir verða að leggja mat á vinnuframlagið að álitum. Við það mat eru hafðar í huga upplýsingar og skýringar um umfang og eðli starfsins svo og fyrirliggjandi upplýsingar um afkomu rekstrarins og tekjur af útseldri þjónustu, sbr. niðurlagsákvæði 2. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003. Að þessum atriðum virtum þykir vinnuframlag kæranda hæfilega metið miðað við 40% af fullu ársstarfi á árinu 2002. Samkvæmt því og viðmiðunarflokki E-2 í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra ákvarðast reiknað endurgjald kæranda 768.000 kr. gjaldárið 2003 sem leiðir til þess að stofn til tryggingagjalds og gjaldfærsla tryggingagjalds í rekstrarreikningi lækkar samsvarandi.
Það er að athuga við málsmeðferð skattstjóra að í kæruúrskurði hans, dags. 7. nóvember 2003, þar sem vísað er til viðmiðunarreglna ríkisskattstjóra til ákvörðunar á reiknuðu endurgjaldi, kemur ekki fram heiti reglnanna, númer þeirra, dags- og ársetning svo og birtingarstaður, en eins og fram er komið er hér um að ræða auglýsingu ríkisskattstjóra nr. 4/2002 um reiknað endurgjald 2002 sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda sem auglýsing nr. 39, 17. janúar 2002. Var því um að ræða annmarka á rökstuðningi skattstjóra að þessu leyti, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003 og 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Reiknað endurgjald kæranda ákvarðast 768.000 kr. gjaldárið 2003.