Úrskurður yfirskattanefndar
- Vaxtabætur
Úrskurður nr. 27/2005
Gjaldár 2003
Lög nr. 90/2003, 68. gr. B-liður
Kærandi og B, fyrrverandi eiginmaður hennar, voru eigendur íbúðarhúsnæðis að jöfnu og bæði skuldarar að lánum við Íbúðalánasjóð vegna öflunar húsnæðisins. Engu að síður færði kærandi vaxtagjöld af lánunum og eftirstöðvar þeirra að fullu í skattframtali sínu. Kæruefni málsins var sú ákvörðun skattstjóra að lækka umrædd vaxtagjöld og skuldir í skattframtali kæranda um 50% til samræmis við eignarhlutdeild hennar í húsnæðinu. Af hálfu kæranda var bent á að samkvæmt samkomulagi við B hefði kærandi tekið að sér að greiða af lánunum að öllu leyti gegn því að hafa afnot íbúðarinnar svo lengi sem hún teldi þörf á. Yfirskattanefnd taldi að hinar umdeildu greiðslur kæranda af lánunum hefðu ekki verið vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota í skilningi lagareglna um vaxtabætur, enda væri því ekki haldið fram að kærandi hefði að neinu leyti verið að kaupa eignarhlut B í húsnæðinu með greiðslum þessum. Var kröfu kæranda hafnað.
I.
Kæruefnið í máli þessu er sú ákvörðun skattstjóra samkvæmt úrskurði um endurákvörðun, dags. 24. febrúar 2004, að lækka tilfærð vaxtagjöld af lánum vegna öflunar íbúðarhúsnæðis í reit 87 í skattframtali kæranda árið 2003 og eftirstöðvar skulda í reit 45 í skattframtalinu til samræmis við eignarhlutdeild kæranda í viðkomandi húsnæði er skattstjóri taldi 50%. Kærandi hafði fært vaxtagjöld og eftirstöðvar skulda að fullu í skattframtali sínu. Við þessa breytingu skattstjóra lækkuðu tilfærð vaxtagjöld í reit 87 úr 333.417 kr. í 166.708 kr. og eftirstöðvar skulda í reit 45 úr 5.370.534 kr. í 2.685.267 kr.
Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 7. maí 2004, er þess krafist af hálfu umboðsmanns kæranda að greindum breytingum skattstjóra verði hnekkt, enda skuldi kærandi umrædd lán samkvæmt samkomulagi við fyrrverandi eiginmann sinn þó svo að eignarhlutdeild hennar sé aðeins helmingur viðkomandi húsnæðis, eins og skattstjóri hafi vísað til og byggt á.
II.
Málavextir eru þeir að samkvæmt skattframtali kæranda árið 2003 námu vaxtagjöld af lánum vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota 333.417 kr., sbr. reit 87 í skattframtalinu, og eftirstöðvar skulda í reit 45 námu 5.370.534 kr. Um var að ræða þrjú lán frá Íbúðalánasjóði sem höfðu verið tekin eða yfirtekin á árinu 1998 vegna öflunar íbúðarhúsnæðis að X í Reykjavík. Í skattframtalinu færði kærandi sér til eignar helming greinds húsnæðis. Í athugasemdadálki skattframtalsins kom fram að kærandi hefði yfirtekið öll lánin frá Íbúðalánasjóði, en fyrrverandi eiginmaður aðrar skuldir.
Með bréfi, dags. 3. febrúar 2004, boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun opinberra gjalda hennar gjaldárið 2003, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Í bréfi skattstjóra var vísað til þess að kærandi hefði fært vaxtagjöld og eftirstöðvar skulda vegna X að fullu í skattframtal sitt árið 2003. Um væri að ræða íbúðarhúsnæði sem kærandi hefði keypt á árinu 1998 ásamt B, fyrrverandi eiginmanni sínum, og væri eignarhlutur jafn eða 50% hjá hvoru um sig, sbr. skrá Fasteignamats ríkisins. Skattstjóri tók fram að útreikningur vaxtabóta færi eftir ákvæðum B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003. Rétt þætti að lækka tilfærð vaxtagjöld og eftirstöðvar skulda vegna öflunar íbúðarhúsnæðisins um helming og miða við að eignarhlutur kæranda í íbúðarhúsnæðinu næmi helmingi.
Umboðsmaður kæranda andmælti boðuðum breytingum skattstjóra með bréfi, dags. 12. febrúar 2004. Fram kom í bréfinu að kærandi og sameigandi hennar að íbúðarhúsnæðinu, B, væru skilin, en kærandi byggi þar ásamt dætrum þeirra. Hefði kærandi yfirtekið áhvílandi skuldir á íbúðarhúsnæðinu og greiddi af þeim samkvæmt samkomulagi við B. Í skattframtali B kæmi fram að hann tilgreindi þar ekki umræddar skuldir vegna íbúðarhúsnæðisins og vaxtagjöld af þeim. Það væri því viðhorf kæranda að hún ætti fullan rétt á að telja áhvílandi lán og vaxtagjöld af þeim að fullu fram í sínu skattframtali enda þótt B ætti helmingshlut í íbúðarhúsnæðinu. Væri þess óskað að fallið yrði frá fyrirhuguðum breytingum á skattframtali kæranda árið 2003, enda greiddi hún sannanlega af þessum lánum og skuldaði þau að fullu.
Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 24. febrúar 2004, hratt skattstjóri í framkvæmd hinum boðuðu breytingum á skattframtali kæranda árið 2003, sbr. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Rakti skattstjóri efni andmælabréfs umboðsmanns kæranda, dags. 12. febrúar 2004, og tók fram að útreikningur vaxtabóta færi eftir ákvæðum B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, en þar segði meðal annars í 2. mgr. að vaxtagjöld, sem mynduðu rétt til vaxtabóta, væru vaxtagjöld vegna fasteignaveðlána til a.m.k. tveggja ára eða lána við lánastofnanir með sjálfskuldarábyrgð til a.m.k. tveggja ára, enda væru lánin sannanlega til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Kærandi hefði fært vaxtagjöld og eftirstöðvar lána vegna íbúðarhúsnæðis að X að fullu í skattframtal sitt árið 2003. Íbúðarhúsnæði þetta hefði kærandi keypt á árinu 1998 ásamt B og væri eignarhluti hvors um sig 50%, sbr. skrá Fasteignamats ríkisins. Í andmælabréfi umboðsmanns kæranda, dags. 12. febrúar 2004, hefði komið fram að kærandi hefði yfirtekið skuldirnar og greiddi af þeim samkvæmt samkomulagi við fyrrverandi eiginmann sinn, B. Ennfremur hefði verið upplýst að B hefði ekki tilgreint neina hlutdeild í umræddum lánum í skattframtali sínu árið 2003. Samkvæmt þessu væri það skoðun umboðsmanns kæranda að kærandi skuldaði þessi lán að fullu. Skattstjóri tók fram að ekki skipti máli þótt fyrrverandi eiginmaður kæranda hefði ekki tilgreint umræddan helmingshlut af íbúðarlánum og vaxtagjöld af þeim í sínu skattframtali, enda ætti hann ekki rétt á vaxtabótum þar sem hann byggi ekki í umræddu íbúðarhúsnæði. Væri um að ræða þrjú lán frá Íbúðalánasjóði sem kærandi væri „50% ábyrgur aðili að á móti 50% ábyrgð“ eiginmannsins fyrrverandi, eins og það var orðað. Ekki yrði séð að eignarhluti kæranda hefði breyst miðað við skrár Fasteignamats ríkisins eða að skuldaraskipti (nafnbreyting) hefði orðið á lánunum. Kærandi hefði ekki lagt fram gögn er sýndu fram á að eignarhluti hennar í íbúðarhúsnæðinu væri meiri en 50%. Yrði ekki fallist á að kærandi gæti fært í skattframtal sitt vaxtagjöld og eftirstöðvar skulda vegna lána annars einstaklings. Með vísan til þessa væri hinum boðuðu breytingum hrundið í framkvæmd og kröfum kæranda þannig hafnað.
III.
Með kæru, dags. 7. maí 2004, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 24. febrúar 2004, til yfirskattanefndar. Þess er krafist að breytingum skattstjóra á tilfærðum vaxtagjöldum og eftirstöðvum skulda samkvæmt reitum 87 og 45 í skattframtali kæranda árið 2003 verði hnekkt.
Umboðsmaður kæranda ítrekar skýringar sínar og rök. Kemur fram að umrætt íbúðarhúsnæði að X sé í sameign kæranda og fyrrverandi eiginmanns hennar að jöfnu. Eftir skilnað þeirra í millum hafi þau greitt til helminga af lánum tilheyrandi íbúðarhúsnæðinu, en kærandi hafi síðan yfirtekið lánin samkvæmt samkomulagi við B. Lánunum hafi ekki verið nafnbreytt, en fyrir liggi að kærandi greiði af lánunum en ekki fyrrverandi eiginmaður hennar. Telur umboðsmaðurinn að skattstjóri geti ekki ákvarðað að fyrrverandi hjón geti ekki samið um lán sem þau skuldi sameiginlega, þ.e. að annað þeirra yfirtaki lánin, enda þótt ekki verði breytingar á eignarhlutdeild. Kærandi og fyrrverandi eiginmaður hennar eigi tvö börn saman og hafi samkomulag þeirra gengið út á að kærandi gæti búið í húsnæðinu svo lengi sem hún teldi þörf á og eiginmaðurinn myndi styrkja börnin í námi. Í staðinn hafi kærandi yfirtekið lán sem hvíldu á eigninni og greitt af þeim. Þegar eignin verði seld verði lánin tekin af hennar eignarhlut en ekki hans. Á þessum grundvelli telur umboðsmaðurinn að kærandi sé eini skuldari lána þessara þótt eignarhald sé óbreytt. Sé þess því krafist að tekið verði tillit til þess að kærandi skuldi lánin samkvæmt greindu samkomulagi við fyrrverandi eiginmann sinn. Því til staðfestingar megi benda á að fyrrverandi eiginmaður hafi ekki talið umrædd lán að neinu leyti til skuldar í skattframtali sínu.
IV.
Með bréfi, dags. 11. júní 2004, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra. Kærandi hefur ekki lagt fram nein gögn er sýna fram á umrætt samkomulag milli hennar og fyrrverandi eiginmanns hennar um greiðslufyrirkomulag lánanna. Samkvæmt staðfestingu Íbúðalánasjóðs bera þau bæði 50% ábyrgð á lánunum.“
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 7. september 2004, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og henni gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar.
Með bréfi, dags. 16. september 2004, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Vegna athugasemda ríkisskattstjóra í kröfugerð embættisins tekur umboðsmaður kæranda fram að engir pappírar séu til vegna skiptingar kæranda og fyrrverandi eiginmanns hennar á greiðsluskyldu áhvílandi lána. Hafi þau samið um þetta sín á milli. Þá hafi skattstjóri lagt eignarskatt á fyrrverandi eiginmann kæranda þar sem ekki sé tekið tillit til hins umdeilda hluta lánanna og hafi hann því greitt fullan eignarskatt af eignum sínum þar sem hann búi erlendis. Telji umboðsmaðurinn að með því sé skattstjóri að samþykkja að hann skuldi ekki þennan hluta lánanna. Enda þótt nafnbreyting hafi ekki farið fram hjá Íbúðalánasjóði staðfesti það hins vegar ekki að kærandi sé ekki skuldbundin til að greiða af lánunum að fullu. Er þess farið á leit að yfirskattanefnd skoði skattframtal fyrrverandi eiginmanns kæranda og fái þannig staðfest að hann telji ekki fram hinn umdeilda hluta af lánunum. Bendir umboðsmaðurinn ennfremur á að skattstjóri hafi ekki breytt skattframtali fyrrverandi eiginmanns kæranda til samræmis við breytingar á skattframtali hennar.
V.
Ágreiningsefni máls þessa varðar það hvort telja beri vaxtagjöld af lánum frá Íbúðalánasjóði vegna X í Reykjavík og eftirstöðvar þeirra lána að fullu hjá kæranda við ákvörðun vaxtabóta gjaldárið 2003, eins og kærandi krefst, eða einungis helming vaxtagjalda og skulda þessara svo sem skattstjóri hefur miðað við. Byggði skattstjóri á því að kærandi ætti ekki umrætt íbúðarhúsnæði nema að helmingi, þ.e. að jöfnu á móti fyrrverandi eiginmanni sínum. Af hálfu kæranda er hins vegar á því byggt að þar sem hún greiði af umræddum lánum að fullu samkvæmt samkomulagi við fyrrverandi eiginmann sinn beri að reikna umrædd vaxtagjöld og eftirstöðvar skulda að fullu hjá henni við ákvörðun vaxtabóta.
Samkvæmt 1. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, á maður sem skattskyldur er samkvæmt 1. gr. laganna og ber vaxtagjöld af lánum, sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, þar með talin kaup á eignarhlut í almennri kaupleiguíbúð samkvæmt 76. gr. laga nr. 97/1993, rétt á sérstökum bótum, vaxtabótum, enda geri hann grein fyrir lánum og vaxtagjöldum af þeim í sérstakri greinargerð með skattframtali í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Samkvæmt 2. mgr. sama stafliðar eru vaxtagjöld, sem mynda rétt til vaxtabóta, vaxtagjöld vegna fasteignaveðlána til a.m.k. tveggja ára eða lána við lánastofnanir með sjálfskuldarábyrgð til a.m.k. tveggja ára, enda séu lánin sannanlega til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Sama á við þegar um er að ræða lán frá Íbúðalánasjóði sem tekin eru vegna verulegra endurbóta á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Vaxtagjöld vegna lána, sem tekin eru til skemmri tíma en tveggja ára, er einungis heimilt að telja með á næstu fjórum árum talið frá og með kaupári ef um er að ræða kaup á íbúð til eigin nota. Sé um nýbyggingu að ræða er heimilt að telja þau með á næstu sjö árum talið frá og með því ári þegar bygging hefst, eða til og með því ári sem húsnæði er tekið til íbúðar ef það er síðar.
Óumdeilt er að kærandi og fyrrverandi eiginmaður hennar, B, voru eigendur umrædds íbúðarhúsnæðis að X að jöfnu á árinu 2002, en húsnæðið keyptu þau á árinu 1998. Í samræmi við það tilgreindi kærandi umrædda fasteign að hálfu til eignar í skattframtali sínu árið 2003 og fram er komið að fyrrverandi eiginmaður kæranda hafi með sama hætti eignfært fasteignina að sínum hluta. Samkvæmt gögnum málsins voru þau bæði skuldarar umræddra þriggja lána við Íbúðalánasjóð, sbr. fyrirliggjandi bréf frá sjóðnum, dags. 17. febrúar 2004. Eins og fram er komið færði kærandi engu að síður vaxtagjöld af lánunum og eftirstöðvar þeirra að fullu í reitum 87 og 45 í skattframtali sínu árið 2003. Vísar kærandi til samkomulags milli hennar og fyrrverandi eiginmanns hennar um greiðslu af lánunum og bendir jafnframt á að í skattframtali sínu árið 2003 hafi hann að engu leyti tilfært vaxtagjöld og eftirstöðvar lánanna. Kærandi hefur upplýst að hún hafi samkvæmt samkomulaginu tekið að sér að greiða af lánunum að öllu leyti gegn því að hafa afnot íbúðarinnar svo lengi sem hún telji þörf á, sbr. kæru til yfirskattanefndar, dags. 7. maí 2004.
Samkvæmt framansögðu þykir ljóst að hinar umdeildu greiðslur kæranda, þar með talin vaxtagjöld, af lánum vegna X samkvæmt samkomulagi við fyrrverandi eiginmann kæranda, voru ekki vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota, sbr. áskilnað 1. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, enda er því ekki haldið fram að kærandi hafi verið að neinu leyti að kaupa eignarhlut fyrrverandi eiginmanns með greiðslum þessum. Kemur ekki annað fram en að með greiðslunum hafi kærandi verið að tryggja sér afnot af öllu húsnæðinu. Að svo vöxnu máli verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.