Úrskurður yfirskattanefndar
- Skattsekt
- Skattrannsókn
- Sönnun
Úrskurður nr. 36/2005
Lög nr. 40/1988, 40. gr. 1. mgr. (brl. nr. 42/1995, 3. gr.) Lög nr. 4/1995, 22. gr. 2. mgr. Lög nr. 90/2003, 109. gr. 1. mgr.
Í sektarúrskurði yfirskattanefndar var talið fullsannað að A hefði fært eða látið færa til frádráttar í skattskilum sínum vegna sjálfstæðrar starfsemi, þ.m.t. virðisaukaskattsskilum, tilgreindar fjárhæðir samkvæmt tilhæfulausum reikningum sem A hefði aflað sér án þess að um væri að ræða kaup rekstraraðfanga. Þá var talið að meta yrði A til refsiábyrgðar að hafa ekki gætt að því að allir útgefnir sölureikningar kæmu til tekjufærslu í bókhaldi hans, en A hélt því fram að starfsmönnum endurskoðunarstofu hefðu orðið á þau mistök að tekjufæra ekki alla sölureikninga. Á hinn bóginn var skattrannsóknarstjóri ríkisins ekki talinn hafa sýnt fram á að A hefði sjálfur átt þátt í rangfærslum í bókhaldinu sem fólust í því að fjárhæðir voru rangar í Excel-skjölum. Kom fram í úrskurði yfirskattanefndar að ekki lægi annað fyrir en að um væri að ræða bókhald sem endurskoðunarstofan hefði fært fyrir A og að umræddar rangfærslur væru þess eðlis að ekki yrði talið að A hlyti að hafa orðið þeirra var eða að meta yrði honum til stórfellds gáleysis að hafa ekki gætt að mistökunum. Var A ekki gerð sekt vegna síðastgreinds annmarka á skattskilum hans.
I.
Með bréfi, dags. 23. febrúar 2004, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A fyrir brot á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, sbr. nú lög nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með áorðnum breytingum, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 1999 og 2000.
Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:
„A er gefið að sök eftirfarandi:
1. Skil á röngum skattframtölum og fylgigögnum þeirra. Vantaldar rekstrartekjur. Oftalin rekstrargjöld.
A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skattstjórunum í Reykjavík og Reykjanesumdæmi skil á efnislega röngum skattframtölum og fylgigögnum þeirra, þ.m.t. ársreikningum vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2000 og 2001 vegna rekstraráranna 1999 og 2000, með því að vantelja rekstrartekjur og oftelja rekstrargjöld vegna sjálfstæðrar starfsemi sinnar á gögnunum.
A var með sjálfstæða starfsemi á umræddum árum sem fólgin var í húsasmíði ... Gaf A út sölureikninga vegna þeirrar þjónustu sinnar án þess að gera skattyfirvöldum grein fyrir þeim rekstrartekjum nema að takmörkuðu leyti. Þá færði A til rekstrargjalda fjárhæðir fimm reikninga, útgefna af þremur aðilum, sem með öllu voru tilhæfulausir.
Nema vantaldar rekstrartekjur kr. 890.874 vegna rekstrarársins 1999 og kr. 2.330.382 vegna rekstrarársins 2000. Oftalin rekstargjöld nema kr. 1.106.726 vegna rekstarársins 1999 og kr. 1.902.832 vegna rekstrarársins 2000.
Þetta leiddi til ákvörðunar lægri tekjuskatts- og útsvarsstofna hjá A umrædd gjaldár en vera bar og þar með ákvörðunar lægri tekjuskatts og útsvars, svo sem hér segir:
Vegna rekstrarársins 1999:
Vantalinn tekjuskatts og útsvarsstofn: kr. 1.997.600
Vantalinn tekjuskattur: kr. 527.566 (26,41%)
Vantalið útsvar: kr. 239.512 (11,99%)
Vegna rekstrarársins 2000:
Vantalinn tekjuskatts og útsvarsstofn: kr. 4.233.214
Vantalinn tekjuskattur: kr. 1.264.052 (26,41%) (Vantalinn tekjuskattur árið 2000 var kr. 1.264.052 (26,41%). Tekjuskatts- og útsvarsstofn skv. framtali kr. 1.213.257. Hátekjuskattur 7% af stofni yfir kr. 3.359.899, eða af kr. 2.086.572.)
Vantalið útsvar: kr. 509.679 (12,04%)
...
Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 91. gr., sbr. B. lið 7. gr. og 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. nú 1. mgr. 90. gr., sbr. B. lið 7. gr. og 31. gr. laga nr. 90/2003, sbr. og 22. gr., sbr. 19. gr. og 1. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, hvorra tveggja með áorðnum breytingum.
Framanlýst háttsemi A varðar hann sekt samkvæmt 1. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 1. gr. laga nr. 42/1995, sbr. nú 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, að virtri 5. gr. almennra hegningarlaga.
2. Skil á röngum virðisaukaskattsskýrslum. Vantalin skattskyld velta og virðisaukaskattur. Oftalinn innskattur.
A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skattstjórunum í Reykjavík og Reykjanesumdæmi skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabilanna mars-apríl, júlí-ágúst og nóvember-desember vegna rekstrarársins 1999, og allra uppgjörstímabila rekstrarársins 2000, með því að ýmist vantelja eða oftelja virðisaukaskattsskylda veltu og útskatt á skýrslunum og/eða oftelja þar innskatt.
Vantalin/oftalin skattskyld velta, útskattur og oftalinn innskattur nema eftirfarandi fjárhæðum:
Samtals tekjuárin 1999 og 2000:
Skattskyld velta: kr. 3.221.269
Útskattur: kr. 789.172
Innskattur: (kr. 737.344)
Til greiðslu: kr. 1.526.516
Sú háttsemi A sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr., 1. mgr. 16. gr. og 1. mgr. 24. gr., sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt með áorðnum breytingum.
Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, að virtri 5. gr. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt vegna framangreindra brota.“
Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 24. febrúar 2004, sem fylgdi kröfugerðinni.
II.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 25. febrúar 2004, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 2. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, og 2. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Bréfið var endursent yfirskattanefnd þar sem þess var ekki vitjað, en komið var fram birtingu fyrir gjaldanda eftir ákvæðum b-liðar 1. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, með bréfi yfirskattanefndar, dags. 15. apríl 2004.
Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.
III.
1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 23. febrúar 2004, er þess krafist að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 107. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, nú 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.
2. Hinn 25. október 2001 hóf skattrannsóknarstjóri ríkisins rannsókn á bókhaldi og skattskilum gjaldanda vegna sjálfstæðrar starfsemi hans við húsasmíði árin 1999 og 2000. Rannsóknin átti sér þann aðdraganda að í skýrslutöku hjá ríkislögreglustjóra vegna rannsóknar á skattskilum annars skattaðila viðurkenndi gjaldandi að hafa keypt tilhæfulausa sölureikninga af B og gjaldfært fjárhæðir þeirra í bókhaldi sínu. Vegna rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins kom gjaldandi til skýrslutöku hjá því embætti dagana 29. október 2001 og 11. desember 2001. Að öðru leyti byggði rannsóknin einkum á bókhaldsgögnum gjaldanda vegna rekstraráranna 1999 og 2000, skattframtölum gjaldanda árin 2000 og 2001 og upplýsingum frá starfsmönnum endurskoðunarfyrirtækisins X hf. Með bréfi, dags. 13. febrúar 2002, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina, dags. 8. sama mánaðar, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar. Af hálfu gjaldanda voru engar athugasemdir gerðar við skýrsluna og tók skattrannsóknarstjóri í framhaldi af því saman nýja skýrslu um rannsóknina, dags. 4. júlí 2002, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri.
Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 4. júlí 2002, var gerð grein fyrir rannsókn embættisins á bókhaldi og skattskilum gjaldanda og voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman í lokakafla skýrslunnar. Þar sagði m.a. að vanframtalin skattskyld velta gjaldanda rekstrarárin 1999 og 2000 næmi 3.221.256 kr. og vangreiddur útskattur 789.216 kr. Vanframtaldar rekstrartekjur vegna sömu ára væru 3.221.256 kr. Þá hefði gjaldandi viðurkennt að sölureikningar sem hann hefði gjaldfært og innskattað í bókhaldi sínu fyrir rekstrarárin 1999 og 2000, útgefnir í nafni B, C og D, væru með öllu tilhæfulausir. Samkvæmt rannsókninni væru rekstrargjöld gjaldanda oftalin um 3.009.558 kr. og innskattur um 737.344 kr. rekstrarárin 1999 og 2000.
Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. m.a. 6. mgr. 102. gr. A laga nr. 75/1981, með bréfi, dags. 15. ágúst 2002, en samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð skattrannsóknarstjóra ríkisins til yfirskattanefndar, dags. 23. febrúar 2004, hefur ríkisskattstjóri ekki aðhafst af því tilefni.
3. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 4. júlí 2002, kemur fram að gjaldandi hafi hinn 26. október 2001 afhent tvær fylgiskjalamöppur með kostnaðargögnum og hinn 30. október 2001 hafi gjaldandi afhent möppu með afritum útgefinna sölureikninga sinna árin 1999 og 2000. Afrit sölureikninga hafi verið í númeraröð að frátöldum sölureikningi nr. 316 frá árinu 1999 sem hafi verið raðað fyrir framan sölureikninga frá árinu 2000. Skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi útbúið lista yfir útgefna sölureikninga gjaldanda á rannsóknartímabilinu og borið þær upplýsingar saman við skattskil gjaldanda. Við þann samanburð hafi komið í ljós mismunur á rekstrartekjum og skattskyldri veltu. Rekstrartekjur og skattskyld velta samkvæmt yfirliti skattrannsóknarstjóra nemi 6.945.879 kr. árið 1999 og 15.528.554 kr. árið 2000, en samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum gjaldanda sé skattskyld velta 6.055.005 kr. fyrra árið og 13.198.172 kr. síðara árið. Mismunur sé því 890.874 kr. árið 1999 og 2.330.382 kr. árið 2000.
Mismunur árið 1999 felist aðallega í tvennu. Í fyrsta lagi hafi sölureikningur nr. 316 að fjárhæð 781.360 kr. ekki verið tekjufærður. Í öðru lagi hafi fjárhæð annað hvort sölureiknings nr. 298 eða nr. 299 verið lækkuð í tekjuuppgjöri gjaldanda, sem hafi verið fært í Excel-skjali, úr 709.410 kr. í 386.527 kr. með því að skrá formúluna „709.401–322.874“ í Excel-skjalið. Engin gögn í bókhaldi gjaldanda geti skýrt þetta. Mismunur árið 2000 sé einnig aðallega af tveimur ástæðum. Annars vegar hafi sölureikningur nr. 363 eða nr. 364 að fjárhæð 856.928 kr. ekki verið tekjufærður. Hins vegar hafi skattskyld velta verið rangt reiknuð í tekjuuppgjöri gjaldanda fyrir uppgjörstímabilið mars-apríl 2000 með þeim hætti að samtala í Excel-skjali hafi aðeins tekið til þriggja af sjö sölureikningum gjaldanda í mars og apríl.
Vegna umrædds mismunar leitaði skattrannsóknarstjóri ríkisins eftir skýringum frá X hf., sem annaðist framtalsgerð fyrir gjaldanda, og er í skýrslu skattrannsóknarstjóra vísað til bréfs X hf., dags. 29. nóvember 2001. Þar er staðhæft að sölureikningur nr. 316 hafi ekki verið með í bókhaldsgögnum gjaldanda árið 1999 sem byggt hefði verið á við gerð skattframtals. Óreiða hafi verið á gögnum gjaldanda. Sölureikningur nr. 298 hafi verið lækkaður samkvæmt fyrirmælum frá gjaldanda eða að um algjöra slysavillu sé að ræða. Sölureikningur nr. 364 hafi ekki verið með í gögnum ársins 2000 og virðist vantalinn í tekjum þess árs. Er áréttað að óreiða hafi verið á gögnum gjaldanda og þau svör fengist að reikningseyðublað hefði eyðilagst eða verið ógilt. Staðfest er í bréfi X hf. að velta og virðisaukaskattur sé vantalinn uppgjörstímabilið mars-apríl 2000 vegna reiknivillu í vinnuskjali, en vinnuskjöl hafi gengið milli endurskoðunarstofunnar og gjaldanda í tölvupósti.
Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 11. desember 2001 staðfesti gjaldandi að hafa gefið út alla sölureikninga árin 1999 og 2000 sem tilgreindir væru í yfirliti skattrannsóknarstjóra. Gjaldandi kvaðst ekki hafa neina skýringu á því hvers vegna sölureikningur nr. 298 eða nr. 299 væri lækkaður með framangreindum hætti í Excel-skjali. Hann hefði ekki sett frádráttarformúluna í skjalið, enda hefði hann ekki næga þekkingu á Excel til þess. Þá kvaðst gjaldandi ekki vita hvers vegna sölureikningur nr. 316 væri ekki tekjufærður. Hann hefði farið með öll bókhaldsgögn sín til X hf. og væri viss um að sölureikningur nr. 316 hefði verið meðal þeirra gagna. Hann hefði ekki sett sölureikninginn í möppuna sem sölureikningarnir væru í, enda hefði hann ekki lagt til þessa möppu. Taldi gjaldandi að starfsmönnum X hf. hefðu orðið á þau mistök að tekjufæra ekki sölureikninginn. Hann hefði ekki skýringu á reiknivillu í Excel-skjali vegna uppgjörstímabilsins mars-apríl 2000. Rétt væri að hann hefði fengið uppgjörið sent með tölvupósti frá X hf., en ekki sent neitt varðandi það til baka þannig að villur gætu ekki verið frá sér komnar. Rétt væri að óreiða hefði verið á bókhaldsgögnum ársins 1999, en það ætti ekki við árið 2000, enda hefði bókhaldið það ár verið fært reglulega hjá X hf.
Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er gerð grein fyrir rannsókn embættisins á gjaldfærðri aðkeyptri þjónustu samkvæmt fimm sölureikningum, einum árið 1999 í nafni C og fjórum árið 2000 í nafni B og D. Ljósrit af greindum sölureikningum voru lögð fyrir gjaldanda við skýrslutöku 29. október 2001 og viðurkenndi gjaldandi að hann hefði keypt þá af B og að þeir væru með öllu tilhæfulausir. Kvaðst gjaldandi hafa staðið illa fjárhagslega á þessum tíma og verið að vinna sig út úr gjaldþroti. Hann hefði skuldað mikið í opinber gjöld og vörsluskatta og fallið í þá gryfju að gjaldfæra og innskatta framangreinda reikninga til að geta greitt af skuldum sínum.
Niðurstaða þessa þáttar rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins er sú að rekstrarkostnaður sé offærður um 1.106.726 kr. árið 1999 og um 1.902.832 kr. árið 2000 og innskattur sé offærður um 271.148 kr. fyrra árið og 466.196 kr. síðara árið.
4. Hér að framan er gerð grein fyrir niðurstöðum rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins á bókhaldi og skattskilum gjaldanda sem liggur til grundvallar sektarkröfu í máli þessu. Vegna þess þáttar málsins, sem varðar vanframtaldar rekstrartekjur og skattskylda veltu, byggir skattrannsóknarstjóri ríkisins eins og fyrr segir á fyrirliggjandi sölureikningum gjaldanda og leiddi rannsóknin í ljós að tveir sölureikningar höfðu ekki verið tekjufærðir í bókhaldi gjaldanda á rannsóknartímabilinu, þ.e. sölureikningur nr. 316 árið 1999 og annað hvort sölureikningur nr. 363 eða nr. 364 árið 2000. Þá var leitt í ljós með rannsókninni að tilteknar rangfærslur voru í bókhaldi gjaldanda, sem fært var í Excel, annars vegar þannig að fjárhæð sölureiknings í apríl 1999 var lækkuð með frádráttarfærslu í Excel-skjali vegna þess árs og hins vegar að samtala fyrir uppgjörstímabilið mars-apríl 2000 tók ekki til allra útgefinna sölureikninga það tímabil.
Ekki liggur annað fyrir en að umrædd Excel-skjöl hafi verið útbúin hjá X hf. og að hér sé um að ræða það bókhald sem endurskoðunarstofan hefur fært fyrir gjaldanda. Ekki hefur verið sýnt fram á að gjaldandi hafi sjálfur átt þátt í þeim rangfærslum sem um ræðir í málinu vegna uppgjörstímabilanna mars-apríl 1999 og mars-apríl 2000 og þær eru þess eðlis að vart verður talið að gjaldandi hafi hlotið að verða þeirra var eða að meta verði honum til stórfellds gáleysis að hafa ekki gætt að þessum mistökum. Því verður ekki talið að saknæmisskilyrðum sé fullnægt að því er varðar vantaldar tekjur og skattskylda veltu að fjárhæð 259.336 kr. árið 1999 og 1.649.027 kr. árið 2000 og verður gjaldanda því ekki gerð sekt vegna þessara annmarka á skattskilum hans.
Að öðru leyti voru rekstrartekjur og skattskyld velta gjaldanda vantalin af þeim sökum að sölureikningar nr. 316 árið 1999 og nr. 363 eða nr. 364 árið 2000 voru ekki tekjufærðir í bókhaldi og ársreikningi gjaldanda. Gjaldandi staðhæfði við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins að hann hefði afhent X hf. þessa sölureikninga ásamt öðrum gögnum til færslu í bókhald sitt, en af hálfu X hf. var því lýst yfir í bréfi til skattrannsóknarstjóra að þeir hefðu ekki verið meðal gagna gjaldanda. Hvað sem þessu líður liggur fyrir að umræddir sölureikningar voru ekki tilgreindir í yfirlitum um útgefna sölureikninga sem gjaldandi fékk send frá endurskoðunarstofunni í tengslum við framtalsgerð. Þá þykir hafa þýðingu að um ítrekuð tilvik er að ræða. Þegar til þessa er litið verður að meta gjaldanda það til refsiábyrgðar, þrátt fyrir fram komnar skýringar, að hafa ekki gætt að því að allir útgefnir sölureikningar kæmu til færslu í bókhaldinu. Vegna þessarar vanrækslu gjaldanda voru rekstrartekjur og skattskyld velta vantalin um 627.607 kr. rekstrarárið 1999 og 681.312 kr. rekstrarárið 2000 og er þá tekið tillit til offærðra tekna og skattskyldrar veltu 8.988 kr. í janúar-febrúar 2000 svo sem gert er í kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins.
Þá er í kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins gerð krafa um ákvörðun sektar vegna offærðra gjaldaliða í skattskilum gjaldanda fyrir rekstrarárin 1999 og 2000 að fjárhæð 1.106.726 kr. fyrra árið og 1.902.832 kr. síðara árið, sem leitt hafi til lægri álagningar tekjuskatts og útsvars en vera bar, svo og offærðs innskatts að fjárhæð 271.148 kr. fyrra árið og 466.196 kr. síðara árið. Af hálfu gjaldanda er viðurkennt að hann hafi fært þessar fjárhæðir til frádráttar rekstrartekjum og innheimtum útskatti á grundvelli skjala sem hann aflaði sér án þess að um væri að ræða kaup rekstraraðfanga. Að virtum gögnum málsins, m.a. framburði gjaldanda við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, þykir fullsannað að gjaldandi hafi fært eða látið færa fyrrgreindar fjárhæðir andstætt lögum til frádráttar í skattskilum sínum þannig að varði við þau refsiákvæði sem greinir í sektarkröfu.
Samkvæmt því sem að framan er rakið og að öðru leyti með stoð í gögnum málsins, m.a. framburði gjaldanda við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 29. október 2001 og 11. desember 2001, þykir fullsannað að gjaldandi hafi á saknæman hátt vanrækt að telja fram í skattframtölum sínum árin 2000 og 2001 tekjur af atvinnurekstri sínum eða sjálfstæðri starfsemi sem skattskyldar voru samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. og 19. og 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, er leiddi til lægri álagningar opinberra gjalda en vera bar, þannig að varði við 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Nánar tiltekið nam vanálagður tekjuskattur 458.037 kr. gjaldárið 2000 og 713.098 kr. gjaldárið 2001, og er þá ekki reiknað með skatti af álagi. Án skatts af álagi nam vanálagt útsvar 207.947 kr. gjaldárið 2000 og 309.839 kr. gjaldárið 2001.
Þá þykir sannað að gjaldandi, sem skyldur var til að greiða virðisaukaskatt samkvæmt ákvæðum laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, hafi með saknæmum hætti vanrækt að gera grein fyrir skattskyldri veltu að fjárhæð 627.607 kr. árið 1999 og 681.312 kr. árið 2000 og offært innskatt að fjárhæð 271.148 kr. fyrra árið og 466.196 kr. síðara árið. Vantalinn virðisaukaskattur til greiðslu nam því 424.911 kr. árið 1999 og 633.117 kr. árið 2000. Varðar þetta við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.
5. Ákvarða ber gjaldanda, A, sekt samkvæmt framangreindum ákvæðum 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995. Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Að þessu virtu og að teknu tilliti til skatts af álagi samkvæmt 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 og álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 4.000.000 kr. til ríkissjóðs og 900.000 kr. til borgarsjóðs Reykjavíkur.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 4.000.000 kr. til ríkissjóðs og 900.000 kr. til borgarsjóðs Reykjavíkur.