Úrskurður yfirskattanefndar
- Launauppgjöf
- Skilyrði frádráttar greiðslna fyrir vinnu
- Innskattur
Úrskurður nr. 116/2004
Gjaldár 2002
Virðisaukaskattur 2001
Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul. 2. mgr. (brl. nr. 147/1994, 3. gr.), 92. gr. Lög nr. 50/1988, 16. gr. 1. mgr.
Skattstjóri lækkaði gjaldfærðan kostnað og innskatt kæranda á þeim forsendum að hann hefði ekki orðið við áskorun skattstjóra um að leggja fram upplýsingar um greiðslur vegna aðkeyptrar þjónustu. Yfirskattanefnd benti á að í lögum um virðisaukaskatt væri ekki hliðstæð heimild og greindi í 2. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981 til að synja um frádrátt innskatts á þeim grundvelli einum saman að ekki hefði verið fullnægt skyldu til að afhenda skattstjóra þargreindar upplýsingar. Að því virtu og þar sem skattstjóri hafði ekki vefengt réttmæti innskatts að öðru leyti var hinni kærðu lækkun innskatts hnekkt.
I.
Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 27. september 2002, óskaði skattstjóri eftir því með vísan til 92. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að kærandi legði fram verktakamiða vegna greiðslna til verktaka á árinu 2001. Gat skattstjóri þess að samtala fjárhæða í rekstrarframtali (RSK 1.04) vegna verktakagreiðslna væri hærri en uppgefnar greiðslur samkvæmt launamiðum. Vísaði skattstjóri ennfremur til þess að í 31. gr. laga nr. 75/1981 kæmi fram að skattstjóra væri heimilt að synja um frádrátt ef skattstjóra væru ekki afhentar upplýsingar um launagreiðslur eða verktakasamninga vegna vinnu. Af hálfu kæranda var bréfi skattstjóra ekki svarað og með bréfi, dags. 21. nóvember 2002, sbr. ítrekun í bréfi, dags. 26. mars 2003, boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun opinberra gjalda félagsins gjaldárið 2002 og virðisaukaskatts árið 2001 þar sem fyrirhugað væri að fella niður gjaldfærðan kostnað vegna aðkeypts aksturs og annars flutningskostnaðar 85.308 kr. og ýmissrar aðkeyptrar þjónustu 265.009 kr. í skattskilum kæranda árið 2002 og jafnframt að lækka innskatt um 85.828 kr. vegna þessara útgjalda að viðbættu álagi samkvæmt 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Tók skattstjóri fram að ekkert svar hefði borist við fyrirspurn hans frá 27. september 2002. Af hálfu kæranda var ekki brugðist við boðunarbréfi skattstjóra og með úrskurði um endurákvörðun, dags. 5. maí 2003, hratt skattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd. Felldi skattstjóri niður gjaldfærðan kostnað að fjárhæð samtals 350.317 kr. í skattskilum kæranda árið 2002 og lækkaði innskatt um 85.828 kr. vegna sömu útgjalda. Þá beitti skattstjóri álagi samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 vegna lækkunar innskatts.
II.
Með kæru, dags. 25. maí 2003, hefur kærandi skotið úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 5. maí 2003, til yfirskattanefndar. Í kærunni er þess krafist að lækkun gjaldfærðs kostnaðar 350.317 kr. í skattskilum kæranda árið 2002 verði felld niður og gjaldaliðir færðir til fyrra horfs í samræmi við skattframtal félagsins umrætt ár. Er tekið fram í kærunni að engin rök hafi verið færð fyrir breytingum skattstjóra. Þá er greint frá sundurliðun hins umdeilda kostnaðar vegna aðkeypts aksturs og flutningskostnaðar og aðkeyptrar þjónustu. Kemur fram að um sé að tefla greiðslur til B 1.694 kr., C 80.498 kr., D 24.016 kr., E hf. 262.369 kr. og F 67.567 kr., í öllum tilvikum með virðisaukaskatti.
III.
Með bréfi, dags. 15. ágúst 2003, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Með kæru sinni til yfirskattanefndar hefur kærandi sundurliðað þann kostnað sem felldur var niður í hinum kærða úrskurði skattstjóra. Ekki er unnt að fallast á að með þessari sundurliðun hafi kærandi fullnægt skilyrðum fyrir frádrætti rekstrarkostnaðar, en samkvæmt 92. gr. laga nr. 90/2003 skulu allir þeir sem inna af hendi greiðslur til verktaka fyrir efni og vinnu afhenda skattstjóra skýrslu um greiðslur þessar í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 19. ágúst 2003, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
IV.
Eins og greinir hér að framan lutu breytingar skattstjóra á skattframtali kæranda árið 2002 samkvæmt hinum kærða úrskurði um endurákvörðun, dags. 5. maí 2003, að niðurfellingu tiltekinna gjaldaliða í rekstrarreikningi með skattframtalinu. Voru forsendur skattstjóra þær að kærandi hefði ekki orðið við áskorun skattstjóra um að leggja fram upplýsingar um greiðslur vegna aðkeypts aksturs og annars flutningskostnaðar og aðkeyptrar þjónustu, sbr. ákvæði 2. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 147/1994, þar sem fram kemur að hafi skyldu til að afhenda skattstjóra upplýsingar um launagreiðslur og/eða verktakasamninga vegna vinnu, sbr. 92. gr. laganna, að aðgættum ákvæðum 96. gr., eigi verið fullnægt sé skattstjóra heimilt að synja um frádrátt vegna þeirra greiðslna eða hlunninda. Á sömu forsendum tók skattstjóri sér fyrir hendur með úrskurðinum að endurákvarða virðisaukaskatt kæranda árið 2001 vegna lækkunar á áður ákvörðuðum innskatti, þ.e. innskatti vegna þeirra útgjalda sem um er að ræða. Af því tilefni skal tekið fram að í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er ekki hliðstæð heimild og greinir í 2. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981 til að synja um frádrátt innskatts á þeim grundvelli einum saman að ekki hafi verið fullnægt skyldu til að afhenda skattstjóra þargreindar upplýsingar. Að því virtu og þar sem ekki verður séð að skattstjóri hafi vefengt réttmæti hins umdeilda innskatts að öðru leyti verður að hnekkja hinni kærðu lækkun innskatts kæranda árið 2001.
Að því er varðar breytingar skattstjóra á gjaldfærðum kostnaði í rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 2001 eru kröfur kæranda studdar upplýsingum um greiðslur til verktaka á árinu 2001 sem ekki lágu fyrir á skattstjórastigi og skattstjóri hefur þannig ekki tekið neina afstöðu til. Að því athuguðu og með hliðsjón af þeim lagarökum sem búa að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, þykir rétt að vísa kærunni til skattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs úrskurðar.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Hin kærða lækkun innskatts kæranda árið 2001 er felld úr gildi. Að öðru leyti er kærunni vísað til skattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs úrskurðar.