Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðagjald
  • Undanþága frá gjaldskyldu

Úrskurður nr. 310/2003

Bifreiðagjald 1999-2003

Lög nr. 39/1988, 3. gr. 3. mgr., 4. gr. a- og d-liður (brl. nr. 37/2000, 4. gr.)  

Kærandi krafðist niðurfellingu bifreiðagjalds af bifreið sinni á þeim forsendum að hún hefði ekki verið í notkun um tiltekið árabil vegna bilana. Skráningarmerki bifreiðarinnar voru ekki afhent skráningaraðila til varðveislu og fyrir lá að bifreiðin var ekki ónýt. Var ekki talið að lagaheimild væri fyrir hendi til þess að fella niður bifreiðagjald á þeim grundvelli einum saman að bifreið hefði ekki verið í notkun um tiltekið tímabil. Þar sem kærandi var skráður eigandi bifreiðarinnar í ökutækjaskrá kom ennfremur ekki til álita að fella niður bifreiðagjald af henni vegna örorku föður kæranda, en kærandi hélt því fram að hann væri raunverulegur eigandi bifreiðarinnar.

I.

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik með þeim hætti að kærandi leitaði til ríkisskattstjóra hinn 28. október 2002 og fór fram á að bifreiðagjöld af bifreiðinni X yrðu felld niður frá og með ágúst 1999 þar sem ökutækið hefði ekki verið í ökuhæfu ástandi. Með erindi kæranda fylgdi yfirlýsing frá réttingaverkstæðinu Z, dags. 25. október 2002, þar sem fram kom að ökutækið hefði ekki verið í notkun vegna bilana og ekki verið ökuhæft frá 28. ágúst 1999. Einnig fylgdi yfirlýsing frá Sjóvá-Almennum tryggingum hf., dags. 28. október 2002, þar sem staðfest var að bifreiðin hefði verið tryggð hjá félaginu til 1. október 2001 en þá hefði tryggingin verið felld úr gildi vegna vanskila á iðgjöldum. Með úrskurði, dags. 30. október 2002, synjaði ríkisskattstjóri erindi kæranda. Í úrskurðinum gat ríkisskattstjóri þess að skráningarnúmer bifreiðarinnar X hefðu aldrei verið lögð inn og væri ökutækið enn á skrá. Þá stæði ekki til að afskrá bifreiðina heldur ætti að gera við hana. Vísaði ríkisskattstjóri til 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, og tók fram að samkvæmt ákvæði d-liðar þeirrar lagagreinar væri ekki heimilt að fella niður bifreiðagjald nema skráningarmerki bifreiðar hefðu verið lögð inn eða sýnt hefði verið fram á að bifreið væri ónýt og sannanlega ekki verið í notkun á gjaldtímabili. Þá sagði svo í úrskurði ríkisskattstjóra:

„Við mat á því hvenær bifreið [telst] ónýt og sannanlega ekki í notkun er stuðst við verklagsreglur frá fjármálaráðuneytinu, sbr. bréf, dags. 1. ágúst 1995. Þar segir að gera verði strangar kröfur til eiganda um sönnun á þessu atriði. Orðrétt segir: „Þau atriði sem talin hafa verið orka til sönnunar á fullyrðingu eiganda eru einkum upplýsingar um að bifreið hafi eyðilagst í umferðarslysi (t.d. lögregluskýrsla) og yfirlýsing bílapartasölu um viðtöku bifreiðar, enda styðji önnur gögn fullyrðingu eiganda, einkum yfirlýsing tryggingafélags um að trygging hafi fallið niður af bifreiðinni og upplýsingar úr bifreiðaskrá varðandi aldur bifreiðar og það hvenær bifreið var síðast skoðuð. Meta verður sönnunargildi framkominna gagna í hverju tilviki fyrir sig en almennt verður að gera ríkar kröfur til eiganda um sönnun fullyrðingar um að bifreið sé ónýt. Heimild þessi miðast við að bifreið hafi verið afskráð.“

Þrátt fyrir að innsend gögn beri með sér að ökutækið hafi sennilega ekki verið í ökuhæfu ástandi er ekki hægt að fallast á erindi yðar. Forsenda niðurfellingar er ekki bara sú að bifreið hafi verið óökuhæf heldur einnig ónýt og afskráð. Þar sem bifreiðin er augljóslega ekki ónýt þar sem stendur til að koma henni í ökuhæft ástand á ný, er erindi yðar um niðurfellingu bifreiðagjalds synjað.“

II.

Með kæru, dags. 28. janúar 2003, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 30. október 2002, til yfirskattanefndar. Í kærunni er tekið fram að með henni sé kærð synjun ríkisskattstjóra á niðurfellingu bifreiðagjalda „tímabilið 28/8 1999 til dags dato“ af bifreiðinni X. Þá kemur fram að bifreiðin sé skráð eign kæranda en sé raunverulega í eigu B, föður kæranda. B hafi orðið gjaldþrota en leyst til sín búið og þar með nefnda bifreið, en bústjóri hafi gert að skilyrði að bifreiðin yrði skráð á son B. Sé svo enn en bifreiðin verði hins vegar skráð á réttan eiganda eftir fyrirhugaða viðgerð. Umboðsmaður kæranda tekur fram í kærunni að ekki sé mótmælt rökum ríkisskattstjóra í hinum kærða úrskurði en vísað til eðlis máls „og farið fram á að það verði látið gilda umfram formsatriði“, eins og þar segir. Greinir umboðsmaðurinn frá aðstæðum B á liðnum árum, m.a. veikindum og fjárhagserfiðleikum, og tekur fram að B hafi á síðasta ári leyst til sín bú sitt og þannig komist hjá gjaldþroti. Hafi honum þannig tekist að eignast á ný umrædda bifreið sem verið hafi óökufær um nokkurra ára skeið og í geymslu frá ársbyrjun 1999. Bifreiðin hafi síðast verið skoðuð í maí 1999. Bifreiðin sé af gerðinni ..., árgerð 1985, og sé lítils virði, en B sé tengdur henni tilfinningaböndum. B sé öryrki að hluta og tekjulágur og af hans hálfu sé farið fram á að hann verði ekki krafinn um opinber gjöld af bifreiðinni fyrir tímabil þegar hún hafi sannanlega ekki verið í notkun.

III.

Með bréfi, dags. 21. mars 2003, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að synjunarúrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Ríkisskattstjóra barst erindi frá kæranda þar sem farið var fram á niðurfellingu bifreiðagjalda frá ágúst 1999 þar sem ökutækið X hafi ekki verið í ökuhæfu ástandi. Meðfylgjandi erindinu var yfirlýsing frá verkstæðinu Z, þar sem fram kom að ökutækið hafi ekki verið í notkun vegna bilana frá 28. ágúst 1999. Þá fylgdi með yfirlýsing frá Sjóvá-Almennum hf. þar sem staðfest er að X hafi verið tryggð hjá þeim til 1. október 2001 en þá var trygging felld úr gildi vegna vanskila á iðgjöldum.

Ríkisskattstjóri synjaði erindi kæranda með úrskurði dags. 30. október 2002, tilvísun 200204178 8919. Í synjunarúrskurði ríkisskattstjóra kemur fram að skráningarnúmer ökutækisins hafa aldrei verið lögð inn og ökutækið er enn á skrá þar sem ekki stendur til að afskrá bílinn heldur á að gera við hann.

Athugasemdir umboðsmanns kæranda dags. 28. janúar 2003 voru mótteknar hjá yfirskattanefnd þann 30. janúar 2003 og mótteknar hjá ríkisskattstjóra 10. febrúar 2003. Í athugasemdunum er rökum í kærðum úrskurði ríkisskattstjóra ekki mótmælt, heldur vísað til eðlis máls og farið fram á að það verði látið gilda umfram formsatriði.

Þegar tilvik er ólögákveðið, þ.e. engar réttarheimildir eru tiltækar, er gripið til eðlis máls sem réttarheimild. Er þá leyst úr ágreiningi eftir því sem telst skynsamlegast, réttlátast og eðlilegast eftir öllum málavöxtum og fundin regla sem hagkvæmust er á þjóðfélagslega vísu. Ljóst er að faðir kæranda hefur gengið í gegnum mikla erfiðleika, en í tilviki þessu liggja fyrir lagaákvæði og verklagsreglur sem ekki er hægt að sniðganga vegna eðli málsins.

Í 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, sbr. síðari breytingar, eru taldar upp þær bifreiðir sem eru undanþegnar gjaldskyldu bifreiðagjalds og segir þar í d. lið greinarinnar: „Bifreiðir þegar skráningarmerki hafa verið afhent skráningaraðila til varðveislu. Undanþága þessi miðast við dagsetningu innlagnar skráningarmerkja. Jafnframt skal ríkisskattstjóri fella niður bifreiðagjald af ónýtum bifreiðum sem sannanlega hafa ekki verið í notkun á gjaldtímabilinu.“

Skv. framangreindu ákvæði er ekki heimilt að fella niður bifreiðagjald nema númer hafi verið lögð inn eða sýnt fram á að bifreið hafi verið ónýt og sannanlega ekki verið í notkun á gjaldtímabilinu. Við mat á því hvenær bifreið telst vera ónýt og sannanlega ekki í notkun er stuðst við verklagsreglur frá fjármálaráðuneytinu sbr. bréf dags. 1. ágúst 1995. Þar segir að gera verði strangar kröfur til eiganda um sönnun á þessu atriði. Orðrétt segir „Þau atriði sem talin hafa verið orka til sönnunar á fullyrðingu eiganda eru einkum upplýsingar um að bifreið hafi eyðilagst í umferðaslysi (t.d. lögregluskýrsla) og yfirlýsing bílapartasölu um viðtöku bifreiðar, enda styðji önnur gögn fullyrðingu eiganda, einkum yfirlýsing tryggingarfélags um að trygging hafi fallið niður af bifreiðinni og upplýsingar úr bifreiðaskrá varðandi aldur bifreiðar og það hvenær bifreið var síðast skoðuð. Meta verður sönnunargildi framkominna gagna í hverju tilviki fyrir sig en almennt verður að gera ríkar kröfur til eiganda um sönnun fullyrðingar um að bifreið sé ónýt. Heimild þessi miðast við að bifreið hafi verið afskráð.“

Þrátt fyrir að innsend gögn beri með sér að ökutækið hafi sennilega ekki verið í ökuhæfu ástandi getur ríkisskattstjóri ekki fallist á rök kæranda. Forsenda niðurfellingar er ekki bara sú að bifreið hafi verið óökuhæf heldur einnig ónýt og afskráð. Þar sem bifreiðin er augljóslega ekki ónýt og þar sem til stendur að koma henni í ökuhæft ástand á ný, er krafist staðfestingar á synjunarúrskurði ríkisskattstjóra dags. 30. október 2002, tilvísun 200204178 8919. Engin gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið hafa komið fram sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Það skal tekið fram að ef skráður eigandi bifreiðar eða umráðamaður bifreiðar samkvæmt eignarleigusamningi fær greiddan örorkustyrk, örorkulífeyri eða bensínstyrk er hann undanþeginn greiðslu bifreiðagjalds, sbr. a. lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, sbr. síðari breytingar. Í kæru kemur fram að B sé öryrki, en sonur hans, A, er skráður eigandi bifreiðarinnar og því kemur undanþágan ekki til álita í máli þessu.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 24. mars 2003, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Með bréfi, dags. 25. apríl 2003, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Í bréfi umboðsmannsins er í upphafi tekið fram að B sé kærandi í málinu, enda sé hann umráðamaður og raunverulegur eigandi bifreiðarinnar X. Aðkoma A að málinu sé því í raun engin, enda hafi hann einungis lánað nafn sitt samkvæmt kröfu bústjóra í þrotabúi föður síns. Í bréfinu áréttar umboðsmaðurinn að allar forsendur séu til þess að líta til eðlis málsins umfram formsatriði þess, enda sé ástæða þess að umráðamaður og raunverulegur eigandi bifreiðarinnar X hafi ekki sinnt formsatriðum varðandi innlagningu skráningarmerkja bifreiðarinnar sú að hann hafi á greindum tíma átt við alvarleg veikindi að stríða. Vegna athugasemdar í kröfugerð ríkisskattstjóra varðandi undanþáguákvæði a-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988 tekur umboðsmaðurinn fram að umrætt ákvæði eigi við í málinu, enda sé raunverulegur eigandi bifreiðarinnar, B, varanlegur öryrki. Í niðurlagi bréfs umboðsmannsins kemur eftirfarandi fram:

„Þegar mál þetta er heildstætt virt er efni þess það, að umrædd bifreið var ekki í ökuhæfu ástandi og var ekki í notkun á því tímabili sem greinir í bréfi okkar í janúar s.l. Þetta er óumdeilt. Hægt er því að fella niður bifreiðagjöld hennar á þeim forsendum einum. En til vara gerum við þá kröfu að farið verði að ákvæðum a-liðar 1. mgr. 4. gr. laga 39/1988 um niðurfellingu bifreiðagjalda af bifreiðum öryrkja.“

IV.

Eins og að framan greinir varðar kæra í máli þessu úrskurð ríkisskattstjóra, dags. 30. október 2002, þar sem ríkisskattstjóri synjaði kæranda, A, um niðurfellingu bifreiðagjalds af bifreiðinni X. Samkvæmt því sem fram kemur í úrskurði ríkisskattstjóra laut beiðnin að niðurfellingu bifreiðagjalds frá og með ágúst 1999, þ.e. vegna gjaldtímabilsins 1. júlí til 31. desember 1999 að hluta og vegna síðari gjaldtímabila, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með síðari breytingum. Beiðni A byggði á því að bifreiðin X hefði ekki verið í notkun vegna bilana, sbr. yfirlýsingu frá réttingaverkstæðinu Z, dags. 25. október 2002, sem fylgdi erindinu. Ríkisskattstjóri synjaði beiðni A með þeim rökum að undanþága frá gjaldskyldu til bifreiðagjalds samkvæmt d-lið 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, sbr. 4. gr. laga nr. 37/2000, um breyting á þeim lögum, væri bundin við afskráðar bifreiðar og ónýtar bifreiðar sem sannanlega hefðu ekki verið í notkun á gjaldtímabilinu. Telja verður að umrædd ákvörðun ríkisskattstjóra sé kæranleg til yfirskattanefndar samkvæmt almennum reglum laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, svo sem ekki er deilt um, sbr. til hliðsjónar sjónarmið í úrskurði yfirskattanefndar nr. 462/1998, sem birtur er í 2. hefti Skatta- og tollatíðinda 1998 (ST 1998:131) og á vefsíðu yfirskattanefndar (www.yskn.is).

Erindi um niðurfellingu bifreiðagjalds af bifreiðinni X var borið upp við ríkisskattstjóra af skráðum eiganda bifreiðarinnar, A. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 39/1988 skal sá greiða bifreiðagjald sem er skráður eigandi á gjalddaga. Hvað sem líður raunverulegu eignarhaldi að bifreiðinni X verður því að telja að nefndur A sé réttur aðili málsins sem skráður eigandi bifreiðarinnar og skattaðili í skilningi 1. mgr. 3. gr. laga nr. 30/1992. Þar sem kærandi er skráður eigandi bifreiðarinnar kemur ennfremur ekki til álita að fella niður bifreiðagjald af henni á grundvelli ákvæðis í a-lið 4. gr. laga nr. 39/1988 vegna örorku föður kæranda, enda er réttur til niðurfellingar bifreiðagjalds af bifreiðum þeirra sem fá greiddan örorkustyrk, örorkulífeyri eða bensínstyrk bundinn því skilyrði að bóta- eða styrkhafi sé í ökutækjaskrá annaðhvort skráður eigandi bifreiðar eða umráðamaður bifreiðar samkvæmt eignarleigusamningi, sbr. 4. málsl. þessa stafliðar greinarinnar. Verður krafa kæranda ekki tekin til greina á þeim grundvelli.

Að öðru leyti er krafa kæranda um niðurfellingu bifreiðagjalds af bifreiðinni X reist á ákvæði d-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988, sbr. 4. gr. laga nr. 37/2000. Samkvæmt því ákvæði eru bifreiðir undanþegnar bifreiðagjaldi þegar skráningarmerki hafa verið afhent skráningaraðila til varðveislu og miðast undanþágan við dagsetningu innlagnar skráningarmerkja. Jafnframt skal ríkisskattstjóri fella niður bifreiðagjald af ónýtum bifreiðum sem sannanlega hafa ekki verið í notkun á gjaldtímabilinu. Þess er að geta að umrædd ákvæði voru tekin upp í lög um bifreiðagjald með 4. gr. laga nr. 37/2000 sem öðluðust gildi 1. júlí 2000, sbr. 10. gr. þeirra. Fram til þess tíma voru efnislega hliðstæð ákvæði í d-lið 5. gr. reglugerðar nr. 359/1998, um bifreiðagjald, með síðari breytingum, en reglugerðin féll úr gildi við gildistöku laga nr. 37/2000.

Óumdeilt er að skráningarmerki bifreiðarinnar X voru ekki afhent skráningaraðila til varðveislu. Þá liggur fyrir að bifreiðin er ekki ónýt, enda hefur því verið lýst af hálfu kæranda að til standi að gera við bifreiðina og koma henni í ökuhæft ástand, sbr. kæru til yfirskattanefndar. Samkvæmt þessu eru skilyrði undanþágu frá gjaldskyldu samkvæmt d-lið 4. gr. laga nr. 39/1988, sbr. 4. gr. laga nr. 37/2000, sbr. áður d-lið 5. gr. reglugerðar nr. 359/1998, ekki uppfyllt í tilviki bifreiðarinnar X. Með vísan til þess og þar sem lagaheimild er ekki fyrir hendi til þess að fella niður bifreiðagjald á þeim grundvelli einum saman að bifreið hafi ekki verið í notkun um tiltekið tímabil verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja