Úrskurður yfirskattanefndar
- Virðisaukaskattur
- Innskattur
Úrskurður nr. 159/2005
Virðisaukaskattur 2004
Lög nr. 50/1988, 16. gr. 1. mgr. Reglugerð nr. 192/1993, 6. gr.
Kærandi, sem hafði með höndum útgáfu á bæjarblaði sem dreift var ókeypis, var skráð í grunnskrá virðisaukaskatts vegna sölu á auglýsingum sem birtust í blaðinu. Skattstjóri féllst ekki á að tilfærður innskattur vegna kaupa kæranda á ljósritunarvél væri eingöngu vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi hennar þar sem efni blaðsins væri ekki eingöngu fólgið í auglýsingum. Mat skattstjóri það svo að þáttur auglýsinga í blaðinu væri 50% á móti öðru efni og lækkaði hinn umdeilda innskatt til samræmis. Yfirskattanefnd taldi að forsendur skattstjóra í þessu sambandi fengju ekki staðist þar sem skattskyld starfsemi kæranda væri gagngert fólgin í útgáfu umrædds auglýsingablaðs. Af þeim sökum og þar sem ekki var dregið í efa að ljósritunarvél hefði eingöngu verið keypt til að ljósrita blaðið til dreifingar var fallist á kröfu kæranda.
I.
Með kæru, dags. 25. nóvember 2004, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði skattstjóra, dags. 27. ágúst 2004, vegna ákvörðunar virðisaukaskatts kæranda uppgjörstímabilið janúar-febrúar 2004. Kæruefnið er nánar tiltekið sú ákvörðun skattstjóra, sem hann tók að undangengnum bréfaskiptum við kæranda, sbr. bréf skattstjóra, dags. 19. apríl, 18. maí og 8. júní 2004, og bréf kæranda og umboðsmanns hennar, dags. 25. maí og 29. júní 2004, að lækka tilfærðan innskatt samkvæmt innsendri virðisaukaskattsskýrslu kæranda umrætt uppgjörstímabil um 50% eða úr 131.847 kr. í 65.924 kr. Um er að ræða virðisaukaskatt samkvæmt reikningi frá Pennanum hf., dags. 10. febrúar 2004, vegna kaupa á ljósritunarvél ásamt fylgihlutum. Til stuðnings ákvörðun sinni vísaði skattstjóri til ákvæða 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, og rökstuddi ákvörðunina að öðru leyti með eftirfarandi hætti, sbr. tilkynningu skattstjóra, dags. 26. júlí 2004:
„Skv. gögnum málsins svo sem tilkynningu yðar um virðisaukaskattsskylda starfsemi, RSK 10.22, dags. þann 15. mars 2004 og svarbréfi yðar, dags. þann 25. maí sl., felst skattskyld starfsemi yðar í sölu á auglýsingum í vikublaðið X. Vikublaðinu er síðan dreift án endurgjalds til lesenda. Þar sem annað efni í blaðinu en auglýsingar tengist ekki skattskyldri starfsemi yðar telur skattstjóri eðlilegt að telja hluta virðisaukaskatts vegna sameiginlegs kostnaðar við útgáfu blaðsins til innskattsfrádráttar eða þann hluta sem auglýsingar eru á móti öðru efni blaðsins. Í því eintaki sem er meðfylgjandi svarbréfi yðar eru auglýsingar 50% hluti á móti öðru efni sem ekki er selt með virðisaukaskatti.
Ofangreindur reikningur, útgefinn af Pennanum hf., meðfylgjandi umræddri virðisaukaskattsskýrslu yðar, er að öllu leyti vegna sameiginlegs kostnaðar við útgáfu blaðsins og því telur skattstjóri eðlilegt að einungis 50% hlutfall virðisaukaskatts vegna þess reiknings verði nýtt til innskattsfrádráttar á skýrslunni.
Í svarbréfi yðar þann 29. júní sl. rökstyðjið þér kröfu yðar um að geta nýtt allan virðisaukaskatt ofangreinds reiknings til innskattsfrádráttar þannig að annað efni blaðs yðar sé ekki einkanot, sbr. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 192/1993, heldur til að auka auglýsingagildi blaðsins. Ekki er um frekari rökstuðning að ræða í svarbréfi yðar. Í 1. mgr. 6. gr. nefndrar reglugerðar er fjallað um innkaup vegna sölu skattaðila á vörum og þjónustu til einkanota eða annarra nota sem ekki varða rekstur hans. Skattstjóri telur að ekki hafi verið sýnt fram á að annað efni í blaði yðar en auglýsingar varði virðisaukaskattskylda starfsemi yðar. Aðeins megi því nýta innskattsfrádrátt vegna þess hluta blaðsins sem seldur er með virðisaukaskatti. Annað efni, hvort sem það sé vegna persónulegra upplýsinga rekstraraðila, þ.e. einkanota, eða annars sem ekki snertir sölu auglýsinganna, varðar ekki virðisaukaskattsskyldan rekstur og því megi ekki nýta innskattsfrádrátt vegna kostnaðar við þann hluta.“
Af hálfu kæranda var breytingu skattstjóra á innsendri virðisaukaskattsskýrslu kæranda mótmælt með kæru til hans, dags. 25. ágúst 2004, en með kæruúrskurði, dags. 27. sama mánaðar, ákvað skattstjóri að fyrri ákvörðun skyldi standa óhögguð.
II.
Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 25. nóvember 2004, kemur fram að kærandi hafi ekki aðrar tekjur af útgáfu X en tekjur af sölu auglýsinga í blaðið, enda sé blaðinu dreift ókeypis til íbúa N-bæjar. Í blaðinu sé að finna greinar og fréttir til fróðleiks og sé því efni ætlað að auka auglýsingagildi blaðsins, enda væri vonlaust að selja auglýsingar í blaðið ef ekki væri um að ræða annað efni. Þar sem allar tekjur af útgáfu blaðsins beri virðisaukaskatt (útskatt) séu vandséð rök sem réttlæti einhvers konar skiptingu á innskatti vegna útgáfunnar. Þá vísar umboðsmaður kæranda til leiðbeininga ríkisskattstjóra um virðisaukaskatt af útgáfustarfsemi. Í þeim leiðbeiningum komi fram að útgáfa bóka, tímarita, dagblaða, landsmálablaða og annarra rita sé skráningarskyld starfsemi ef útgáfan sé talin vera í atvinnuskyni, þó með þeim skilyrðum að tekjur séu yfirleitt hærri en gjöld og að tekjur af auglýsingum og sölu blaðs séu umfram tilgreinda fjárhæð. Ekki hafi verið sýnt fram á annað en að starfsemi kæranda, þ.e. útgáfa X, sé rekin í hagnaðarskyni og sé ekki kunnugt um annan tilgang hennar. Sé þess því krafist að allur innskattur vegna útgáfunnar verði viðurkenndur sem frádráttarbær innskattur.
III.
Með bréfi, dags. 30. desember 2004, hefur ríkisskattstjóri krafist þess fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 3. janúar 2005, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og henni gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
IV.
Eins og fram er komið ákvarðaði skattstjóri með bréfi sínu, dags. 26. júlí 2004, virðisaukaskatt kæranda uppgjörstímabilið janúar-febrúar 2004 til samræmis við innsenda virðisaukaskattsskýrslu kæranda fyrir umrætt uppgjörstímabil, með þeirri breytingu að skattstjóri lækkaði tilfærðan innskatt 131.847 kr. samkvæmt skýrslunni um helming eða í 65.924 kr. Sá innskattur sem um ræðir er samkvæmt reikningi frá Pennanum hf., dags. 10. febrúar 2004, vegna kaupa á ljósritunarvél og fylgihlutum. Samkvæmt skýrslunni var ekki um að ræða neina skattskylda veltu í starfsemi kæranda greint uppgjörstímabil. Framangreinda ákvörðun sína staðfesti skattstjóri með hinum kærða úrskurði, dags. 27. ágúst 2004. Voru forsendur skattstjóra þær að hin umdeildu kaup ljósritunarvélar væru bæði vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi kæranda og til einkanota eða annarra nota sem ekki vörðuðu virðisaukaskattsskyldan rekstur kæranda og því væri kæranda einungis heimilt að telja virðisaukaskatt af kaupunum til innskatts að því leyti sem þau teldust varða rekstur kæranda, sbr. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, sem skattstjóri vísaði til í þessu sambandi.
Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, telst til innskatts á hverju uppgjörstímabili, sbr. 24. gr. sömu laga, virðisaukaskattur af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum sem eingöngu varða sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Kemur fram í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi því er varð að lögum nr. 50/1988, að eftir því væri t.d. óheimill frádráttur innskatts sem varðar byggingu sem aðeins að hluta sé notuð í skattskyldri starfsemi fyrirtækis. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar er fjármálaráðherra heimilað að setja reglur um að til innskatts megi telja ákveðinn hluta af virðisaukaskatti innkaupa sem ekki varða eingöngu sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Gildandi reglur um þessi atriði er að finna í reglugerð nr. 192/1993, um innskatt, sem sett er með stoð í 2. mgr. 16. gr., sbr. 49. gr. laga nr. 50/1988. Vegna aðila með blandaða starfsemi, þ.e. starfsemi sem er að hluta virðisaukaskattsskyld og að hluta undanþegin virðisaukaskatti, er megininntak þessara reglna, sbr. 3.–5. gr. reglugerðarinnar, að aðila er heimilt að færa að fullu sem innskatt þann virðisaukaskatt sem eingöngu er vegna virðisaukaskattsskyldu starfseminnar, enginn innskattsfrádráttur er heimill vegna kostnaðar sem er eingöngu vegna undanþegnu starfseminnar, en virðisaukaskatt af kostnaði sem er vegna beggja þátta starfseminnar má færa til innskatts í sama hlutfalli og virðisaukaskattsskyld sala er af heildarveltu, en sérreglur eru um ýmis innkaup í 7.–9. gr. Í 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar kemur fram að séu innkaup skattaðila bæði vegna sölu hans á skattskyldum vörum og þjónustu og til einkanota eða annarra nota sem ekki varða rekstur hans megi telja virðisaukaskatt af slíkum innkaupum til innskatts að því leyti sem þau teljast varða virðisaukaskattsskyldan rekstur. Skal skattstjóri taka mið af þeim reglum og þeirri framkvæmd sem mótast hefur við tekjuskattsálagningu þegar hann leggur mat á hvort innkaupum sé réttilega skipt milli skattskylds reksturs og einkanota, sbr. 2. mgr. sömu greinar.
Kærandi hefur með höndum útgáfu á blaðinu X sem dreift er ókeypis á öll heimili í N-bæ og nærsveit. Er kærandi skráð í grunnskrá virðisaukaskatts vegna sölu á auglýsingum sem birtar eru í blaðinu. Af hálfu kæranda er komið fram að ljósritunarvél hafi verið keypt til þess eingöngu að ljósrita blaðið til dreifingar og hafa þær skýringar út af fyrir sig ekki verið dregnar í efa af hálfu skattstjóra. Með hliðsjón af þessu verður að fallast á með umboðsmanni kæranda að um sé að ræða innkaup sem eingöngu varða virðisaukaskattsskylda starfsemi kæranda, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988. Þykja forsendur skattstjóra í þessu sambandi engan veginn fá staðist, enda er skattskyld starfsemi kæranda gagngert fólgin í útgáfu umrædds auglýsingablaðs. Er krafa kæranda því tekin til greina.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Fallist er á kröfu kæranda.