Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag á virðisaukaskatt

Úrskurður nr. 153/2004

Virðisaukaskattur 2003

Lög nr. 50/1988, 27. gr. 1. og 6. mgr.  

Kærandi, sem var einkahlutafélag, sætti álagsbeitingu skattstjóra vegna síðbúinna skila á virðisaukaskatti uppgjörstímabilið maí-júní 2003. Samkvæmt skýringum kæranda dróst greiðsla virðisaukaskattsins fram yfir gjalddaga vegna mistaka starfsmanns félagsins þar sem staðgreiðsla fyrir júlímánuð 2003 var greidd í stað virðisaukaskatts á gjalddaga 5. ágúst 2003. Ekki var talið að um væri að ræða gildar ástæður sem leyst gætu kæranda undan greiðslu álags. Hins vegar var fallist á varakröfu kæranda sem laut að því að álag yrði ekki reiknað af þeirri fjárhæð sem kærandi stóð skil á hinn 5. ágúst 2003. Var fjárhæð álags lækkuð til samræmis.

I.

Með kæru, dags. 14. nóvember 2003, hefur kærandi kært ákvörðun skattstjóra, dags. 12. nóvember 2003, varðandi beitingu álags að fjárhæð 300.188 kr. uppgjörstímabilið maí-júní 2003 vegna síðbúinna skila á virðisaukaskatti, sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Krefst kærandi þess að álag verði fellt niður, sbr. 6. mgr. sömu lagagreinar, en til vara að álag verði aðeins reiknað af mismuni fjárhæðar innborgaðrar staðgreiðslu og fjárhæðar vangreidds virðisaukaskatts.

II.

Málavextir eru þeir að kærandi stóð skil á virðisaukaskattsskýrslu og virðisaukaskatti vegna uppgjörstímabilsins maí-júní árið 2003 hinn 12. ágúst 2003. Hinn 13. ágúst 2003 greiddi kærandi jafnframt álag vegna síðbúinna skila virðisaukaskatts miðað við gjalddaga 5. ágúst 2003, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, með fyrirvara um niðurstöðu kæru sem fyrirhugað væri að senda skattstjóra.

Með kæru til skattstjóra, dags. 13. ágúst 2003, fór kærandi fram á niðurfellingu álags á grundvelli 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Voru málavextir raktir á þá leið að hinn 24. júlí 2003 hefði verið útbúin virðisaukaskattsskýrsla fyrir uppgjörstímabilið maí-júní 2003 vegna virðisaukaskatts að fjárhæð 4.288.394 kr. með gjalddaga 5. ágúst 2003. Í lok júlí hefði einnig verið útbúin skilagrein vegna staðgreiðslu opinberra gjalda launþega fyrir júlí 2003, og hefði skilaskyld fjárhæð numið 2.483.515 kr. með gjalddaga 15. ágúst 2003. Gjaldkeri hefði verið í fríi á þessum tíma og fyrir mistök hefði bókari farið með ranga skilagrein, þ.e. staðgreiðsluskilagreinina, í banka og greitt á grundvelli hennar. Mistökin hefðu uppgötvast þegar gjaldkeri kom úr sumarleyfi þann 12. ágúst 2003 og hefði vangoldinn virðisaukaskattur þá verið greiddur ásamt álagi. Meðfylgjandi væru afrit greiðsluseðla og útskrift af bankareikningi kæranda sem sýndi að fjárskortur hefði ekki valdið vanskilum heldur hefði verið um mistök að ræða. Fór kærandi fram á að álag yrði fellt niður á þeim grundvelli að um gildar ástæður vanskilanna hefði verið að ræða. Til vara var farið fram á að álag yrði ekki reiknað af þeirri fjárhæð sem greidd hefði verið 5. ágúst 2003 þannig að álag yrði 126.342 kr. Að lokum var ítrekað að kærandi hefði aldrei lent í vanskilum við skattyfirvöld og væri greiðslusaga félagsins þess vegna til enn frekari stuðnings því að um mistök hefði verið að ræða. Ættu því í þessu tilviki að teljast vera gildar ástæður til niðurfellingar álags.

Með kæruúrskurði, dags. 12. nóvember 2003, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda. Skattstjóri vísaði til þess að samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988 skyldi skila virðisaukaskatti ásamt virðisaukaskattsskýrslu eigi síðar en á fimmta degi annars mánaðar eftir lok hvers uppgjörstímabils. Skattyfirvöld hefðu jafnan beitt álagi á vangreiddan virðisaukaskatt vegna mistaka starfsmanna og hefði yfirskattanefnd ítrekað staðfest það í úrskurðum sínum að mistök af hálfu gjaldenda eða starfsmanna þeirra þætti ekki réttlæta niðurfellingu álags á grundvelli 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, sbr. m.a. úrskurði yfirskattanefndar nr. 524/1999, 312/2000 og 55/2003. Fyrir lægi að vegna mistaka starfsmanns hefði kærandi ekki greitt virðisaukaskatt á gjalddaga. Að mati skattstjóra og með vísan til úrskurðaframkvæmdar yfirskattanefndar væri um að ræða atriði sem kærandi bæri einn ábyrgð á en yrðu ekki talin til óviðráðanlegra eða utanaðkomandi atvika. Það að kærandi hefði greitt staðgreiðslu opinberra gjalda tíu dögum fyrir gjalddaga hennar hefði ekki áhrif til lækkunar á ákvörðuðum virðisaukaskatti og þar með álagi á vangreiddan virðisaukaskatt, enda hvergi kveðið á um slíkt í lögum um virðisaukaskatt.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 17. nóvember 2003, er þess krafist af hálfu kæranda að úrskurði skattstjóra verði hrundið og breytt á þá leið að aðal- eða varakrafa kæranda fyrir skattstjóra verði tekin til greina. Vísar kærandi til meðfylgjandi gagna, m.a. kæru til skattstjóra varðandi málsástæður og lagarök. Kærandi ítrekar jafnframt að fyrir liggi í málinu að ekki hefði verið um fjárskort að ræða, heldur hrein mistök. Sé því vandséð hvaða rök hnígi til þess að samþykkja ekki a.m.k. varakröfu kæranda, en réttlætissjónarmið hnígi til hennar.

IV.

Með bréfi, dags. 9. janúar 2004, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

V.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal aðili, sem ekki greiðir virðisaukaskatt á tilskildum tíma, sæta álagi til viðbótar skatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu eða til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á, sbr. 19. gr. laganna. Sama gildir ef virðisaukaskattsskýrslu hefur ekki verið skilað eða verið ábótavant og virðisaukaskattur því áætlaður eða endurgreiðsla samkvæmt 25. gr. sömu laga hefur verið of há. Samkvæmt 6. mgr. sömu lagagreinar má fella niður álag ef aðili færir gildar ástæður sér til málsbóta og geta skattyfirvöld metið það í hverju tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.

Fyrir liggur að kærandi stóð ekki í tæka tíð skil á greiðslu virðisaukaskatts fyrir uppgjörstímabilið maí-júní 2003, þannig að lagaskilyrði voru til beitingar álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Samkvæmt skýringum kæranda dróst greiðsla virðisaukaskattsins fram yfir gjalddaga þessa uppgjörstímabils, sem var 5. ágúst 2003, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, vegna mistaka starfsmanns kæranda þar sem staðgreiðsla fyrir júlímánuð 2003 var greidd í stað virðisaukaskatts þennan dag. Því er borið við til stuðnings kröfu um niðurfellingu álags að málsbætur séu til staðar þar sem ljóst sé að til hafi staðið að greiða virðisaukaskatt á gjalddaga og að mistökin hafi verið leiðrétt strax og þau hafi uppgötvast. Þá er vísað til þess að um einstakt tilvik sé að ræða. Þegar virt eru atvik að þeim drætti á virðisaukaskattsskilum, sem í málinu greinir, eins og þeim er lýst samkvæmt skýringum kæranda, verður að telja að hér sé um að ræða atriði sem kærandi ber einn ábyrgð á og verða ekki að neinu leyti kennd utanaðkomandi og óviðráðanlegum atvikum. Samkvæmt þessu þykir kærandi ekki hafa fært fram gildar ástæður er geti leyst hann undan greiðslu álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Aðalkröfu kæranda er því hafnað.

Varakrafa kæranda lýtur að því að álag verði ekki reiknað af þeirri fjárhæð sem kærandi stóð skil á hinn 5. ágúst 2003. Ljóst er að umrædd fjárhæð 2.483.515 kr. var greidd á grundvelli staðgreiðsluskilagreinar fyrir júlímánuð 2003 sem var á eindaga 15. ágúst 2003, sbr. 3. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Fyrir liggur á hinn bóginn að um greiðslu til viðkomandi innheimtumanns var að ræða. Að þessu virtu og með hliðsjón af málavöxtum að öðru leyti þykir mega taka varakröfu kæranda til greina. Samkvæmt því lækkar álag í 126.342 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Álag á vangreiddan virðisaukaskatt uppgjörstímabilið maí-júní 2003 lækkar í 126.342 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja