Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðagjald
  • Undanþága frá gjaldskyldu

Úrskurður nr. 337/2003

Bifreiðagjald 2000-2002

Lög nr. 39/1988, 4. gr. a-liður (brl. nr. 37/2000, 4. gr.)   Lög nr. 117/1993, 48. gr. 1. mgr.  

Með úrskurði Tryggingastofnunar ríkisins frá 16. júlí 2002 voru kæranda reiknaðar örorkubætur frá 1. júní 2000 og þær greiddar aftur í tímann til þess dags. Kærandi taldi að miða bæri rétt hans til undanþágu frá bifreiðagjaldi vegna örorku við 1. júní 2000 en ríkisskattstjóri leit svo á að miða bæri við þann dag sem úrskurður Tryggingastofnunar ríkisins var kveðinn upp, þ.e. 16. júlí 2002. Talið var að tilgangur undanþágunnar mælti eindregið gegn túlkun ríkisskattstjóra, enda hefði sú túlkun í reynd í för með sér að markmið undanþágunnar næðist ekki að öllu leyti. Var fallist á kröfu kæranda.

I.

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik með þeim hætti að Tryggingastofnun ríkisins leitaði til ríkisskattstjóra vegna kæranda hinn 23. september 2002 og fór fram á að bifreiðagjald af bifreiðinni X yrði fellt niður vegna örorku kæranda, sbr. a-lið 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, sbr. 4. gr. laga nr. 37/2000, um breyting á þeim lögum. Í erindinu kom fram að Tryggingastofnun ríkisins hefði kveðið upp úrskurð hinn 16. júlí 2002 um varanlega örorku kæranda og væri „gildistími“ frá 1. júní 2000. Þá kom fram að kærandi hefði fengið bótagreiðslur aftur í tímann eða frá 1. júní 2000. Með bréfi, dags. 26. september 2002, tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda að hann hefði fallist á erindið og fellt niður bifreiðagjald af bifreiðinni X vegna gjaldtímabilsins 1. júlí til 31. desember 2002.

Með kæru til ríkisskattstjóra, dags. 21. október 2002, gerði kærandi athugasemdir við ákvörðun ríkisskattstjóra. Kom fram í kærunni að niðurfelling bifreiðagjalds virtist miðuð við þann dag sem úrskurðað hefði verið í máli kæranda en ekki miðað við örorku hans. Krafðist kærandi þess að ákvörðun ríkisskattstjóra yrði „samræmd þeim degi sem ég var úrskurðaður öryrki af þar til bærum yfirvöldum“, eins og sagði í kærunni. Með kæruúrskurði, dags. 14. nóvember 2002, synjaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda. Kom fram í upphafi úrskurðarins að krafa kæranda lyti að niðurfellingu bifreiðagjalds af bifreiðinni X frá og með 1. júní 2000. Þá kom fram að samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins hefði verið kveðinn upp úrskurður um örorku kæranda hinn 16. júlí 2002 og væri gildistími úrskurðar frá 1. júní 2000. Hefðu örorkubætur verið greiddar kæranda aftur í tímann eða frá 1. júní 2000. Ríkisskattstjóri tók fram að við mat á því hvenær fella bæri niður bifreiðagjald samkvæmt 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, hefði ríkisskattstjóri m.a. haft til hliðsjónar verklagsreglur fjármálaráðuneytisins, sbr. bréf ráðuneytisins, dags. 1. ágúst 1995, þar sem fram kæmi að réttur til niðurfellingar bifreiðagjalds miðaðist við úrskurðardag örorku og að bifreiðagjald yrði því ekki fellt niður vegna fyrri gjaldtímabila. Verklagsreglur þessar hefðu verið settar í tíð reglugerðar nr. 590/1987, um bifreiðagjald, sbr. 4. gr. reglugerðarinnar, en hliðstætt ákvæði væri nú í a-lið 4. gr. laga nr. 39/1988 þar sem fram kæmi m.a. að bifreiðir í eigu þeirra sem fengju greiddan örorkustyrk, örorkulífeyri, bensínstyrk eða umönnunargreiðslur vegna örorku barna frá Tryggingastofnun ríkisins skyldu vera undanþegnar bifreiðagjaldi. Ekki væri skýrt nánar út í lögunum við hvaða tímamörk ætti að miða rétt til niðurfellingar, hvorki í eldri né yngri reglum. Ef litið væri til orðalags í reglunum, annars vegar í eldri reglum þar sem rætt væri um bifreiðir í eigu þeirra sem „njóta örorkustyrks“ og hins vegar í gildandi reglum þar sem rætt væri um bifreiðir í eigu þeirra sem „fá greiddan örorkustyrk“, væri þó ljóst að þrátt fyrir að greiðslur væru úrskurðaðar aftur í tímann þá væri það ekki ljóst fyrr en á úrskurðardegi hvort og þá hversu langt aftur í tímann greiðslur væru úrskurðaðar. Með hliðsjón af framangreindu teldi ríkisskattstjóri að miða bæri rétt til niðurfellingar bifreiðagjalds við úrskurðardag. Erindi kæranda um niðurfellingu bifreiðagjalds frá 1. júní 2000 væri því synjað.

II.

Með kæru, dags. 12. febrúar 2003, hefur kærandi skotið úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 14. nóvember 2002, til yfirskattanefndar. Kæran er svohljóðandi:

„Hér með kæri ég til breytingar meðfylgjandi ... úrskurð ríkisskattstjóra, dags. 14. nóvember 2002, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að hugtakið „úrskurðardagur“ beri að skilja svo sem um sé að ræða dag þann sem úrskurður er upp kveðinn, en ekki þann dag sem réttaráhrif miðast við. Þess er krafist að sá skilningur verði lagður í hugtakið að „úrskurðardagur“ sé sá dagur sem réttaráhrif miðast við, í því tilfelli sem um ræðir 1. júní árið 2000. Nánari rökstuðning telur undirritaður óþarfan, þar sem engin rök eru til annars. Þó er áskilinn réttur til að koma að slíkum rökstuðningi á síðari stigum málsins og óski yfirskattanefnd eftir lögfræðilegum leiðbeiningum um skilning þann sem hér er sagður réttur, skal ég fúslega koma þeim á framfæri.“

III.

Með bréfi, dags. 21. mars 2003, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að synjunarúrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Ríkisskattstjóra barst erindi frá Tryggingastofnun þann 23. september 2002, þar sem óskað var eftir niðurfellingu bifreiðagjalds af ökutækinu X vegna örorku kæranda. Meðfylgjandi erindinu var yfirlýsing frá Tryggingastofnun sem staðfesti rétt kæranda til niðurfellingar bifreiðagjalds.

Ríkisskattstjóri felldi niður bifreiðagjald af ökutækinu fyrir 2. gjaldtímabil 2002 með bréfi dags. 26. september 2002, tilvísun 200203613 8382 og var þá miðað við úrskurðardag um örorku þann 16. júlí 2002. Ákvörðun þessi var kæranleg til ríkisskattstjóra. Þann 22. október 2002 barst ríkisskattstjóra kæra dags. 21. október 2002 þar sem þess var krafist að réttaráhrif yrðu ekki miðuð við úrskurðardag heldur samræmd þeim degi sem kærandi var úrskurðaður öryrki. Ríkisskattstjóri kvað upp synjunarúrskurð þann 14. nóvember 2002, tilvísun 200204324 9081 og var sá úrskurður kæranlegur til yfirskattanefndar.

Athugasemdir kæranda dags. 12. febrúar 2003 voru mótteknar hjá yfirskattanefnd þann 12. febrúar 2003 og mótteknar hjá ríkisskattstjóra 21. febrúar 2003. Í athugasemdunum er þess krafist að sá skilningur verði lagður í hugtakið „úrskurðardagur“ að það sé sá dagur sem réttaráhrif miðist við, í tilfelli kæranda 1. júní 2000.

Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun var kveðinn upp úrskurður um örorku kæranda þann 16. júlí 2002 og er gildistími úrskurðar frá 1. júní 2000 og er hann varanlegur. Örorkubætur voru greiddar aftur í tímann eða frá 1. júní 2000. Við mat á því hvenær fella beri niður bifreiðagjald skv. 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, hefur ríkisskattstjóri m.a. haft til hliðsjónar verklagsreglur sem er að finna í dreifibréfi frá fjármálaráðuneytinu til innheimtumanna ríkissjóðs dags. þann 1. ágúst 1995 en þar kemur fram í 5. lið um örorkubætur. „Réttur til niðurfellingar bifreiðagjalds miðast við úrskurðardag örorku og verður bifreiðagjald því ekki fellt niður vegna fyrri gjaldtímabila.“ Þegar fyrrgreindar verklagsreglur fjármálaráðuneytisins voru sendar út var í gildi svohljóðandi ákvæði í 4. gr. reglugerðar nr. 590/1987, um bifreiðagjald: „Af bifreiðum í eigu þeirra, sem njóta örorkustyrks, styrks vegna örorku barna eða örorkubóta frá Tryggingarstofnun ríkisins, skal ekki greiða bifreiðagjald samkvæmt þessari reglugerð“. Núgildandi ákvæði er í 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, sbr. síðari breytingar, þar eru taldir upp þeir sem eru undanþegnir gjaldskyldu og í a. lið segir m.a. „Bifreiðir í eigu þeirra sem fá greiddan örorkustyrk, örorkulífeyri, bensínstyrk eða umönnunargreiðslur vegna örorku barna frá Tryggingastofnun ríkisins“.

Ekki hefur verið skýrt nánar út við hvaða tímamörk eigi að miða rétt til niðurfellingar, hvorki í þágildandi né núgildandi reglum. Ef litið er á orðalag, annars vegar í eldri reglum „njóta örorkustyrks“ og hins vegar „fá greiddan örorkustyrk“ í núgildandi lögum, er ljóst að þó svo að greiðslur séu úrskurðaðar aftur í tímann þá liggur það ekki fyrir fyrr en á úrskurðardegi hvort og þá hve langt aftur í tímann greiðslur eru úrskurðaðar.

Með hliðsjón af framangreindu telur ríkisskattstjóri að miða beri rétt til niðurfellingar bifreiðagjalds við úrskurðardag þann 16. júlí 2002 og krefst staðfestingar á synjunarúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 14. nóvember 2002, tilvísun 200204324 9081. Engin gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið hafa komið fram sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 24. mars 2003, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Með bréfi, dags. 8. apríl 2003, hefur kærandi gert grein fyrir athugasemdum sínum og ítrekað fyrri röksemdir sínar í málinu. Kemur fram að kærandi þekki engin dæmi þess að réttaráhrif úrskurðar miðist við annan dag en þann dag sem efnisleg áhrif úrskurðarins taki gildi. Þá bendir kærandi á að vilji löggjafans með lagasetningu þeirri sem málið varði hafi greinilega verið sá að auka réttindi öryrkja frá því sem áður hafi verið, sbr. ummæli í greinargerð með lagafrumvarpi sem kærandi rekur. Þá krefst kærandi þess að honum verði úrskurðaður málskostnaður úr ríkissjóði vegna meðferðar málsins, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Tekur kærandi fram að þótt hann sé í vinnu fyrir sjálfan sig telji kærandi sig jafnframt vera að vinna að hagsmunum allra öryrkja.

IV.

Eins og að framan greinir leitaði Tryggingastofnun ríkisins hinn 23. september 2002 til ríkisskattstjóra vegna kæranda um undanþágu frá gjaldskyldu til bifreiðagjalds vegna bifreiðarinnar X, sbr. a-lið 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með áorðnum breytingum. Samkvæmt ákvæði þessa stafliðar greinarinnar eru bifreiðir í eigu þeirra sem fá greiddan örorkustyrk, örorkulífeyri, bensínstyrk eða umönnunargreiðslur vegna örorku barna frá Tryggingastofnun ríkisins undanþegnar bifreiðagjaldi. Með bréfi, dags. 26. september 2002, féllst ríkisskattstjóri á að fella niður bifreiðagjald af bifreið kæranda fyrir gjaldtímabilið 1. júlí til 31. desember 2002. Kærandi gerði athugasemdir við ákvörðun ríkisskattstjóra með kæru til embættisins, dags. 21. október 2002, þar sem efnislega kom fram að kærandi teldi að réttur hans til undanþágu frá bifreiðagjaldi tæki til alls þess tímabils sem úrskurður Tryggingastofnunar ríkisins frá 16. júlí 2002 í máli kæranda varðaði. Samkvæmt gögnum málsins voru bætur til kæranda samkvæmt úrskurði þessum reiknaðar frá 1. júní 2000 og voru kæranda í kjölfarið greiddar bætur aftur í tímann til þess dags, sbr. 1. mgr. 48. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum, þar sem m.a. kemur fram að bætur skuli reiknaðar frá þeim degi sem umsækjandi um þær hafi uppfyllt skilyrðin til bótanna. Með kæruúrskurði sínum, dags. 14. nóvember 2002, synjaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda þar sem ríkisskattstjóri taldi að miða bæri rétt til undanþágu frá bifreiðagjaldi vegna örorku við þann dag sem úrskurður Tryggingastofnunar ríkisins í máli umsækjanda væri kveðinn upp, þ.e. 16. júlí 2002 í tilviki kæranda. Þeirri ákvörðun ríkisskattstjóra hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar og verður að telja að umrædd ákvörðun sé kæranleg samkvæmt almennum reglum laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, svo sem ekki er deilt um, sbr. til hliðsjónar sjónarmið í úrskurði yfirskattanefndar nr. 462/1998, sem birtur er í 2. hefti Skatta- og tollatíðinda 1998 (ST 1998:131) og á vefsíðu yfirskattanefndar (www.yskn.is). Verður litið svo á samkvæmt framansögðu að krafa kæranda sé sú að bifreiðagjald af bifreiðinni X verði fellt niður vegna tímabilsins 1. júní 2000 til 30. júní 2002, þ.e. vegna gjaldtímabilsins 1. janúar til 30. júní 2000 að hluta og gjaldtímabilin 1. júlí til 31. desember 2000, 1. janúar til 30. júní 2001, 1. júlí til 31. desember 2001 og 1. janúar til 30. júní 2002.

Innheimtu bifreiðagjalds var upphaflega komið á fót með bráðabirgðalögum nr. 68/1987, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sbr. I. kafla þeirra laga. Var ákvæði í 4. mgr. 3. gr. laganna þar sem fjármálaráðherra var heimilað að endurgreiða, lækka eða fella niður bifreiðagjald af bifreiðum í eigu öryrkja er notið hefðu styrks til bifreiðakaupa samkvæmt þágildandi reglugerð nr. 170/1987, um þátttöku almannatrygginga í bifreiðakaupum fatlaðra. Ákvæðum um bifreiðagjald í I. kafla bráðabirgðalaganna var síðar komið fyrir í sérlögum sem urðu lög nr. 39/1988, um bifreiðagjald, sbr. frumvarp til þeirra laga sem lagt var fyrir Alþingi á 110. löggjafarþingi 1987-88. Í athugasemdum með frumvarpinu var tekið fram að það væri efnislega samhljóða I. kafla bráðabirgðalaganna að öðru leyti en því að ráðherra væru veittar rýmri heimildir en gert væri í gildandi ákvæðum til þess að undanþiggja bifreiðagjaldi bifreiðir í eigu öryrkja og björgunarsveita (Alþt. 1987-88, A-deild, bls. 3366). Var svo mælt fyrir í 5. mgr. 3. gr. laga nr. 39/1988 að fjármálaráðherra væri heimilt að endurgreiða, lækka eða fella niður bifreiðagjald af bifreiðum í eigu öryrkja og björgunarsveita, svo og bifreiðum sem væru eldri en 25 ára í upphafi gjaldárs. Gæti ráðherra í reglugerð kveðið nánar á um hverjir féllu undir undanþáguheimild þessa og önnur skilyrði sem hann teldi nauðsynleg. Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 590/1987, um bifreiðagjald, sem sett var á grundvelli heimildar í 8. gr. bráðabirgðalaga nr. 68/1987, skyldi ekki greiða bifreiðagjald af bifreiðum í eigu þeirra sem nytu örorkustyrks, styrks vegna örorku barna eða örorkubóta frá Tryggingastofnun ríkisins. Hliðstæð ákvæði voru í reglugerðum um bifreiðagjald allt til þess að ákvæði laga nr. 39/1988 um heimild ráðherra til að endurgreiða, lækka eða fella niður bifreiðagjald voru afnumin með lögum nr. 37/2000, um breyting á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með síðari breytingum, og mælt fyrir um skyldubundna undanþágu frá gjaldskyldu vegna bifreiða í eigu öryrkja, sbr. a-lið 3. gr. reglugerðar nr. 381/1994 og a-lið 5. gr. reglugerðar nr. 359/1998. Með 4. gr. nefndra laga nr. 37/2000 komst umrætt undanþáguákvæði í núverandi horf.

Hið umdeilda ákvæði upphafsmálsliðar a-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988, sbr. 4. gr. laga nr. 37/2000, tiltekur ekki berum orðum hvenær undanþága frá gjaldskyldu vegna bifreiðar í eigu öryrkja stofnast við þær aðstæður sem greinir í tilviki kæranda. Fallast verður hins vegar á það með kæranda að tilgangur undanþágunnar mælir eindregið gegn þeim skýringarkosti sem fram kemur í hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra, enda hefur túlkun ríkisskattstjóra í reynd í för með sér að markmið undanþágunnar næst ekki að öllu leyti. Að virtu markmiði ákvæðis a-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988 þykja rök standa til þess að skýra ákvæðið að þessu leyti til samræmis við almenn ákvæði laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, sbr. þá reglu um bótarétt sem fram kemur í 1. mgr. 48. gr. þeirra laga, sbr. hér að framan. Þá þykir orðalag 2. málsl. a-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988, þar sem mælt er fyrir um rétt öryrkja, sem notið hafa niðurfellingar bifreiðagjalds samkvæmt 1. málsl. greinarinnar, til niðurfellingar gjaldsins ef þeir hafa „öðlast rétt til ellilífeyrisgreiðslna“ eða dveljast á stofnun, sbr. 43. gr. laga nr. 117/1993, frekast styrkja þá niðurstöðu að miða beri rétt til niðurfellingar bifreiðagjalds vegna örorku við upphaf bótaréttar samkvæmt úrskurði Tryggingastofnunar ríkisins þar að lútandi. Samkvæmt framansögðu er fallist á kröfu kæranda í máli þessu, þó þannig að miða verður niðurfellingu bifreiðagjalds vegna bifreiðarinnar X, sem krafa kæranda tekur til, við eignarhaldstíma kæranda á bifreið þessari, þ.e. frá 6. nóvember 2001.

Með bréfi sínu til yfirskattanefndar, dags. 8. apríl 2003, hefur kærandi krafist þess að honum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Kærandi, sem rekið hefur mál sitt sjálfur á öllum stigum þess, hefur hvorki gert grein fyrir útlögðum kostnaði sínum við meðferð málsins með framlagningu reikninga eða á annan hátt né verður ráðið að um slíkan kostnað hafi verið að ræða. Þykja því ekki lagaskilyrði til að úrskurða kæranda málskostnað til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt framangreindu ákvæði. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Krafa kæranda í máli þessu er tekin til greina. Málskostnaðarkröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja