Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður
  • Viðhaldskostnaður ábúanda

Úrskurður nr. 343/2003

Gjaldár 1998-2001

Lög nr. 64/1976, 27. gr.   Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr.   Lög nr. 36/1994, 1. gr., 2. gr., 19. gr.  

Kærandi var sameignarfélag og hafði með höndum búrekstur. Í málinu krafðist kærandi gjaldfærslu kostnaðar vegna viðhalds útihúsa og annarra rekstrareigna á jörð sem félagið hafði á leigu samkvæmt samningi við jarðareigendur, en í samningnum var kveðið á um að kæranda bæri að annast allt viðhald húsakosts og ræktunar á jörðinni. Yfirskattanefnd féllst á kröfu kæranda og vísaði m.a. til þess að viðeigandi ákvæði leigusamningsins væru í samræmi við almenn ákvæði ábúðarlaga nr. 64/1976 sem giltu um réttarsamband aðila þar sem um væri að ræða leigu bújarðar.

I.

Með kæru, dags. 21. janúar 2003, hefur kærandi skotið úrskurði skattstjóra, dags. 2. febrúar 2002, til yfirskattanefndar vegna þeirrar breytingar skattstjóra á innsendum skattframtölum kæranda árin 1998, 1999, 2000 og 2001 að fella niður gjaldfært viðhald útihúsa að fjárhæð 482.690 kr. í ársreikningi fyrir árið 1997, 286.860 kr. í ársreikningi fyrir árið 1998, 268.971 kr. í ársreikningi fyrir árið 1999 og 227.969 kr. í ársreikningi fyrir árið 2000.

Af hálfu kæranda er þess krafist að breytingum skattstjóra verði hnekkt og að kæranda verði ákvarðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.

II.

Kærandi er sameignarfélag og hefur með höndum búrekstur. Af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests gjaldárin 1998, 1999, 2000 og 2001 og sætti kærandi því áætlun skattstjóra á skattstofnum, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Hinn 13. febrúar 2002 barst ríkisskattstjóra erindi kæranda þess efnis að meðfylgjandi skattframtöl árin 1998, 1999, 2000 og 2001 yrðu lögð til grundvallar álagningu opinberra gjalda í stað áætlunar skattstjóra og með bréfi, dags. 10. apríl 2002, fól ríkisskattstjóri skattstjóra afgreiðslu erindis kæranda, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981.

Í framhaldi af bréfaskiptum, sbr. bréf skattstjóra, dags. 19. júní 2002 og 17. september 2002, og svarbréf kæranda, dags. 26. september 2002, féllst skattstjóri með hinum kærða úrskurði á að leggja innsend skattframtöl kæranda árin 1998, 1999, 2000 og 2001 til grundvallar álagningu opinberra gjalda greind ár, en með þeim breytingum að gjaldfært viðhald útihúsa að fjárhæð 482.690 kr. í ársreikningi fyrir árið 1997, 286.860 kr. í ársreikningi fyrir árið 1998, 268.971 kr. í ársreikningi fyrir árið 1999 og 227.969 kr. í ársreikningi fyrir árið 2000 var fellt niður sem leiddi til lækkunar á yfirfæranlegu rekstrartapi í skattframtölum kæranda sem þessu nam. Til stuðnings þessu vísaði skattstjóri til ákvæða 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981 og tók fram að í tilviki kæranda væri um að ræða kostnað vegna eignar sem væri í eigu annars aðila. Viðhaldskostnaður útleigðra húseigna væri kostnaður sem félli á leigusala, sbr. ákvæði húsaleigulaga. Kærandi hefði ekki lagt fram nein gögn varðandi viðhaldskostnað útihúsa eða skýrt hvers vegna slíkur kostnaður væri greiddur af leigjanda. Eðli máls samkvæmt ættu slíkar greiðslur að teljast til leigukostnaðar sem síðan tekjufærðist hjá leigusala.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 21. janúar 2002, er þess krafist að skattframtöl kæranda verði látin standa óhögguð að því er varðar gjaldfærðan viðhaldskostnað. Tekið er fram að kærandi reki fjárbúskap og ferðaþjónustu og leigi bújörð fyrir starfsemi sína. Samkvæmt leigusamningi beri kæranda að sjá um allt viðhald á hinu leigða og þá sé ekkert undanskilið. Einnig sé kæranda heimilt að gera endurbætur á húsum á eigin kostnað. Þessi viðhaldskostnaður sé vegna öflunar tekna félagsins, bæði tekna viðkomandi ára og komandi ára, og sé ótvírætt að kæranda sé heimilt að gjaldfæra hann, enda beri viðkomandi eignir arð í rekstri kæranda þótt þær séu ekki í eigu félagsins.

IV.

Með bréfi, dags. 14. febrúar 2003, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram kröfugerð í máli þessu þar sem segir m.a.:

„Kærandi leigir bújörð undir starfsemi sína sem er rekstur fjárbúskapar og ferðaþjónusta. Fer kærandi fram á að fá að gjaldfæra í rekstri sínum viðhaldskostnað vegna hins leigða húsnæðis. ... Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 gilda þau lög bæði um íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði. Í IV. kafla laganna er fjallað um viðhald leiguhúsnæðis og kemur þar fram í 19. gr. laganna að leigusali annist viðhald hins leigða, innan húss sem utan, sbr. þó 3. mgr. laganna (sic). Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. húsaleigulaga eru ákvæði laganna um atvinnuhúsnæði frávíkjanleg og gilda þau því aðeins um slíkt húsnæði að ekki sé á annan veg samið. Kærandi hefur ekki sýnt fram á að samið hafi verið á annan veg en mælt er fyrir um í húsaleigulögum og hefur hann til dæmis ekki lagt fram leigusamning í því skyni. Þykir kærandi því ekki hafa sýnt fram á að kostnaður vegna viðhalds hins leigða húsnæðis sé kostnaður sem kærandi hafi borið og að sá kostnaður sé frádráttarbær í rekstri hans skv. 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Með bréfi, dags. 28. mars 2003, hefur kærandi gert athugasemdir við kröfugerð ríkisskattstjóra. Bréfi kæranda fylgir ljósrit af ódagsettum leigusamningi um jörðina X og er tekið er fram í bréfi kæranda að samningurinn hafi verið gerður við upphaf starfsemi félagsins en sé því miður ódagsettur. Jafnframt fylgi umboð, dags. 16. maí 1995, sem heimili undirritun samningsins. Í samningnum komi fram að kærandi skuli annast allt viðhald húsa svo og viðbyggingar og endurbætur.

Með bréfi, dags. 2. maí 2003, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda framhaldskröfugerð:

„Kærandi hefur nú lagt fram leigusamning og umboð til stuðnings kröfu sinni. Þar sem kærandi hefur lagt fram ný gögn og rökstuðning í máli þessu og með hliðsjón af þeim lagarökum er búa að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, er þess krafist að kærunni verði vísað til skattstjóra til uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.“

V.

Vegna framhaldskröfugerðar ríkisskattstjóra, dags. 2. maí 2003, skal tekið fram að ekkert tilefni er til að líta svo á, eins og mál þetta liggur fyrir, að sjónarmið þau sem búa að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, eigi við þannig að vísa beri kærunni til skattstjóra til uppkvaðningar nýs úrskurðar.

Í máli þessu eru í ágreiningi þær ákvarðanir skattstjóra að fella niður með öllu gjaldfærðan viðhaldskostnað útihúsa á jörðinni X sem kærandi hefur á leigu samkvæmt samningi við jarðareigendur að því er virðist frá árinu 1995. Byggði skattstjóri á því að kostnaður þessi tilheyrði ekki kæranda sem leigutaka og gæti þar af leiðandi ekki talist frádráttarbær rekstrarkostnaður kæranda samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, enda væri viðhaldskostnaður útleigðra húseigna almennt kostnaður sem félli á leigusala, sbr. ákvæði húsaleigulaga nr. 36/1994, en engin gögn hefðu komið fram af hálfu kæranda sem styddu það að annað gilti í hans tilviki. Þá kom fram í úrskurði skattstjóra að eðli máls samkvæmt ætti þátttaka leigutaka í viðhaldskostnaði að teljast til leigukostnaðar sem síðan tekjufærðist hjá leigusala. Tekið skal fram að þrátt fyrir síðastgreint viðhorf sitt hækkaði skattstjóri ekki gjaldfærða leigu í skattskilum kæranda.

Eins og fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra, dags. 14. janúar 2003, gilda ákvæði húsaleigulaga nr. 36/1994 bæði um íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði. Í IV. kafla laganna er fjallað um viðhald leiguhúsnæðis og kemur þar fram í 19. gr. laganna að leigusali annist viðhald hins leigða, innan húss sem utan, sbr. þó 3. mgr. lagagreinarinnar. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. húsaleigulaga eru ákvæði laganna um atvinnuhúsnæði hins vegar frávíkjanleg og gilda þau því aðeins um slíkt húsnæði að ekki sé á annan veg samið. Þá er þess að geta að húsaleigulög gilda ekki um samninga um afnot húsnæðis sem sérstakar reglur gilda um samkvæmt öðrum lögum, sbr. lokamálsgrein 1. gr. laganna. Í máli þessu er um að tefla leigu bújarðar og fer því um réttarsamband aðila eftir ábúðarlögum nr. 64/1976. Samkvæmt 27. gr. þeirra laga er meginregla að leiguliði skal halda við húsum jarðar og öllu sem þeim fylgir þannig að þau gangi ekki úr sér umfram eðlilega fyrningu. Einnig ber honum að halda við öðrum mannvirkjum, ræktun og hlunnindum. Þá skal leiguliði á sinn kostnað annast viðhald heimreiðar, ræktunar, girðinga, framræsluskurða og lokræsa þannig að þessi mannvirki gangi ekki úr sér umfram eðlilega fyrningu.

Af hálfu kæranda er á því byggt að félaginu beri samkvæmt ákvæðum leigusamnings um jörðina, sem fylgdi bréfi kæranda til yfirskattanefndar, dags. 28. mars 2003, að annast allt viðhald húsakosts og ræktunar á jörðinni. Samkvæmt ákvæðum umrædds leigusamnings skal kærandi sem leigutaki jarðarinnar X „annast allt viðhald allra húsa í eigu okkar bæði útihúsa, íbúðarhúsa, sumarhúsa þetta nær einnig til viðbygginga og endurbóta á viðkomandi húsum bæði úti og inni. Einnig sjái [kærandi] um endurnýjun og viðhald girðinga, allra tækja, bíla, túns og um nýjar girðingar vegna matjurtagarða, skrúðgarða, skógræktar og túns, beitilanda ofl.“

Óumdeilt er að kostnaður sem í máli þessu greinir hafi talist viðhald útihúsa eða annarra rekstrareigna á jörðinni X, en að engu leyti hefur því verið haldið fram af hálfu skattstjóra að um endurbætur hafi verið að ræða. Samkvæmt þessu og með vísan til fyrirliggjandi leigusamnings aðila, sem er að því er ágreiningsefni málsins varðar í samræmi við almenn ákvæði ábúðarlaga nr. 64/1976, svo sem að framan greinir, er krafa kæranda tekin til greina.

Af hálfu kæranda er gerð krafa um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Kærandi, sem rekið hefur mál sitt sjálfur á öllum stigum þess, hefur hvorki gert grein fyrir útlögðum kostnaði sínum við meðferð málsins með framlagningu reikninga eða á annan hátt né verður ráðið að um slíkan kostnað hafi verið að ræða. Þykja því ekki lagaskilyrði til að úrskurða kæranda málskostnað til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt framangreindu ákvæði. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda um gjaldfærslu viðhaldskostnaðar gjaldárin 1998, 1999, 2000 og 2001. Kröfu kæranda um greiðslu málskostnaðar er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja