Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Öflun vélsleða

Úrskurður nr. 179/2004

Virðisaukaskattur 2002

Lög nr. 50/1988, 2. gr. 2. mgr. og 3. mgr. 6. tölul., 16. gr.   Reglugerð nr. 192/1993, 9. gr.  

Kærandi, sem var einkahlutafélag um hótelrekstur á landsbyggðinni, mótmælti þeirri ákvörðun skattstjóra að fella niður innskatt vegna kaupa félagsins á tveimur vélsleðum. Benti kærandi á að stefnt væri að útleigu sleðanna til hótelgesta og annarra ferðamanna auk þess sem vísað var almennt til erfiðra samgangna á svæðinu yfir vetrarmánuði. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að notkun sleðanna við síðastnefndar aðstæður hlyti bæði að vera vegna rækslu erinda í þágu rekstrar og vegna persónulegra þarfa og yrði trauðla greint þar á milli. Vegna skýringa kæranda sem lutu að fyrirhugaðri notkun vélsleðanna við flutning hótelgesta og vegna útleigu sleðanna til ferðamanna benti yfirskattanefnd á að undanþága virðisaukaskattslaga vegna fólksflutninga tæki m.a. til vélsleðaferða sem skipulagðar væru undir leiðsögn fararstjóra. Þóttu skýringar kæranda ekki bera eindregið með sér að notkun sleðanna yrði bundin við virðisaukaskattsskylda starfsemi. Var kærandi ekki talinn hafa sýnt fram á að notkun vélsleðanna uppfyllti skilyrði 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993 og var ákvörðun skattstjóra látin standa óbreytt.

I.

Með kæru, dags. 15. maí 2003, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 27. febrúar 2003, til yfirskattanefndar. Kæruefnið er sú breyting skattstjóra á virðisaukaskattsskýrslu kæranda fyrir uppgjörstímabilið september-október 2002 að fella niður tilfærðan innskatt 393.574 kr. vegna kaupa tveggja vélsleða samkvæmt sölureikningi, dags. 30. september 2002. Af hálfu kæranda er þess krafist að fallist verði á tilfærðan innskatt.

II.

Málavextir eru þeir að kærandi er einkahlutafélag um hótelrekstur í X í Y-hreppi. Í framhaldi af móttekinni virðisaukaskattsskýrslu kæranda fyrir uppgjörstímabilið september-október 2002 krafði skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 13. desember 2002, um hreyfingalista innskatts fyrir nefnt uppgjörstímabil. Svarbréfi kæranda, dags. 18. desember 2002, fylgdi ljósrit úr færslubók virðisaukaskatts fyrir greint tímabil og reikningur frá C hf., dags. 30. september 2002, vegna kaupa á tveimur vélsleðum fyrir samtals 2.000.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti að fjárhæð 393.574 kr. Var tekið fram í bréfi kæranda að þetta væri sá reikninganna sem mest munaði um. Með bréfi, dags. 3. janúar 2003, óskaði skattstjóri eftir því að kærandi sýndi fram á tengsl kostnaðar samkvæmt umræddum reikningi við rekstur sinn. Í svarbréfi kæranda, dags. 7. janúar 2003, kom fram að það væri viðurkennd staðreynd að Vegagerðin áskildi sér rétt til að kosta ekki til fé til að halda opnum vegasamgöngum í Y-hreppi nema brýna nauðsyn bæri til. Þá væri ekki heldur opnaður vegur innansveitar til X. Því hefðu íbúar í X einatt orðið að annast sjálfir sínar samgöngur og af þessum sökum væri allur rekstur og tilverugrundvöllur kæranda byggður á útgerð tækja af því tagi er reikningurinn varðaði. Forsvarsmenn kæranda hefðu átt fund með fjármálaráðherra áður en ráðist hefði verið í kaup vélsleðanna og hefði hann sagt að vegna hinnar sérstæðu aðstöðu, er um væri að ræða, og með því að tækin kæmu í stað snjóruðnings, sem ríkinu sparaðist, væri virðisaukaskattur af sleðunum frádráttarbær. Ferðamenn treystu á þjónustu kæranda og hefðu yfirvöld viðurkennt það á fyrstu árum rekstrar kæranda með því að úthluta styrk af fjárlögum til vetrargistingar, en hann væri nú aflagður, enda þótt af hálfu kæranda væri litið svo á að skyldur til að skjóta skjólshúsi yfir fólk í vetrarferðum væru óbreyttar. Umrædd vélsleðakaup væru liður í því að laða gesti til X, en til þess þyrfti farartæki sem dygðu til að sækja fólk út á flugvöll ef vegir væru lokaðir. Þá væri nú hægt að koma til móts við óskir ferðalanga um að vera sóttir yfir T-heiði. Auk þess hefðu ferðaþjónustuaðilar á svæði kæranda rætt sín í milli um að reyna að auka möguleika á móttöku ferðamanna að vetri til.

Með bréfi, dags. 16. janúar 2003, tilkynnti skattstjóri kæranda um þá breytingu á virðisaukaskattsskýrslu fyrir uppgjörstímabilið september-október 2002 að innskattur væri lækkaður úr 447.386 kr. í 53.812 kr. eða um 393.574 kr. Væri innskatti vegna öflunar þeirra vélsleða, er að ofan getur, hafnað. Þessu til stuðnings vísaði skattstjóri til 3. tölul. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, og til 2. mgr. sömu greinar þar sem fram kæmi að ekki væri heimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt vegna öflunar torfærutækja, þar á meðal vélsleða, nema þau væru eingöngu notuð í virðisaukaskattsskyldri starfsemi, þ.e. vegna sölu á vörum eða skattskyldri þjónustu.

Með kæru, dags. 27. janúar 2003, mótmælti kærandi breytingu skattstjóra og gerði þá kröfu að innskattur vegna öflunar greindra tveggja vélsleða yrði viðurkenndur. Sagði í kærunni að vélsleðar þeir, sem um væri að tefla, hefðu eingöngu verið keyptir til nota í virðisaukaskattsskyldri starfsemi, svo sem til útleigu til gesta hótelsins. Fyrirsvarsmenn kæranda væru komin á sextugsaldur og því væri fjarri lagi að þau ætluðu að nota umrædd tæki sér til skemmtunar. Ættu þau sleða til einkanota sem keyptur hefði verið notaður fyrir nokkrum árum, en þau hjón legðu ekki stund á sleðaferðir sér til skemmtunar. Virðisaukaskattsskýrslur undangenginna ára sýndu ekki nein viðskipti yfir vetrarmánuðina en ekki væri þar með sagt að svo yrði til frambúðar og hefðu nú orðið gleðileg umskipti í þessu efni, svo sem fram myndi koma á virðisaukaskattsskýrslu fyrir uppgjörstímabilið nóvember-desember 2002. Sleðakaupin væru hugsuð sem fjárfesting til frambúðar og væri þeim ætlað að auka afþreyingarmöguleika vetrargesta. Kaup sleðanna hefðu að mörgu leyti verið áhættufjárfesting þar sem veðurfar yrði aldrei fyrirséð, svo sem sannast hefði á yfirstandandi vetri er að líkindum yrði talinn hinn óheppilegasti um árabil til vélsleðakaupa. Kröfur varðandi afþreyingarkosti ferðamanna hefðu aukist mjög hin síðari ár og yrðu allir, sem að ferðaþjónustu störfuðu, að reyna að koma til móts við þær. Væri til þess vonast af hálfu kæranda að umræddir sleðar myndu á komandi árum laða gesti til hótelsins.

Með bréfi, dags. 12. febrúar 2003, óskaði skattstjóri eftir frekari upplýsingum frá kæranda vegna kærunnar. Var farið fram á að tilgreint yrði skráningarnúmer þess vélsleða sem væri í eigu fyrirsvarsmanna kæranda, A og B. Tók skattstjóri fram að samkvæmt ökutækjaskrá ættu þau ekki vélsleða, en B væri skráður eigandi afskráðs vélsleða með skráningarnúmerinu Z. Einnig var óskað afrita sölureikninga vegna uppgjörstímabilsins nóvember-desember 2002, eftir reikningum vegna innskatts 9.099 kr. á sama tímabili og eftir afriti af verðlista hótelsins þar sem leiguverð vélsleða kæmi fram. Ennfremur skyldi kærandi upplýsa hvort gerðar hefðu verið áætlanir um væntanlegar leigutekjur af sleðunum áður en þeir voru keyptir og að afrit áætlananna yrðu send skattstjóra ef svo væri. Ef slíkar áætlanir hefðu ekki verið gerðar væri óskað eftir að upplýst yrði hversu mikilla leigutekna væri vænst af sleðunum.

Í svarbréfi kæranda, dags. 20. febrúar 2003, kom fram að umræddur vélsleði með númerinu Z væri sleðinn sem til hefði verið vísað í bréfi kæranda, dags. 27. janúar 2003, en kosið hefði verið að hafa hann ekki á skrá þegar engin not væru fyrir hann. Þá mætti taka fram að hinir nýju sleðar, sem keyptir hefðu verið til hótelsins, hefðu ekki enn verið skráðir heldur lægju númeraspjöld þeirra inni hjá Skráningarstofu þar sem þau myndu verða þar til eitthvað yrði fyrir þá að gera. Vísað var til meðfylgjandi afrita umspurðra reikninga og einnig til meðfylgjandi verðskrár vegna útleigu vélsleða með þeim orðum að af hálfu kæranda væri talið að full ástæða væri til bjartsýni varðandi leigu sleðanna. Í verðskránni, sem var gefin út í janúar 2003, kom fram að gjald fyrir útleigu vélsleða með fararstjóra væri 9.000 kr. á mann á klst. en 7.000 kr. á mann á klst. ef tveir væru saman á einum sleða en að sólarhringsleiga væri 55.000 kr. og að virðisaukaskattur væri innifalinn í þessum fjárhæðum. Í bréfi kæranda sagði að skrifleg áætlun hefði ekki verið gerð um væntanlegar leigutekjur af sleðunum, en svo sem fram væri komið væri litið á kaup sleðanna sem áhættufjárfestingu sem ætlað væri að skila sér á mörgum árum. Veðurfar líðandi vetrar sýndi og að mjög örðugt hlyti að vera að gera áætlanir um væntanlegar tekjur af vélsleðaútgerð en slíkur rekstur hlyti ætíð að vera undir veðurfari og snjóalögum kominn. Af hálfu kæranda væri ekki talið unnt að slá neinu föstu um væntanlegar tekjur af útleigu í framtíðinni, en talið væri að áreiðanleg áætlun hefði verið gerð um fjármögnun kaupanna og að þau hefðu verið vel undirbúin. Forráðamenn félagsins hefðu m.a. farið á fund fjármálaráðherra og fullvissað sig um rétt til endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna kaupa vélsleðanna. Hið sama hefði fengist staðfest í samtali við lögfræðing fjármálaráðuneytisins og einnig í samtali við lögfræðing embættis ríkisskattstjóra sem báðir hefðu talið að landfræðileg og samgönguleg aðstaða rekstrar kæranda væru nægileg röksemd til endurgreiðslu.

Skattstjóri tók kæruna til meðferðar með kæruúrskurði, dags. 27. febrúar 2003, og hafnaði kröfu kæranda. Skattstjóri vísaði til þeirra upplýsinga í bréfi kæranda, dags. 20. febrúar 2003, að hinn afskráði vélsleði væri sá vélsleði sem nefndur hefði verið í kæru. Samkvæmt upplýsingum Umferðarstofu skyldi aðeins afskrá ökutæki ef ólíklegt teldist að það yrði tekið í notkun að nýju og væru afskráð ökutæki ótryggð og mætti því ekki nota þau. Svo virtist sem greindur vélsleði hefði verið eignfærður í efnahagsreikningi kæranda og í fyrningarskýrslu félagsins kæmi fram að keyptur hefði verið vélsleði árið 1994. Bréfi kæranda, dags. 20. febrúar 2003, hefðu fylgt afrit þriggja reikninga vegna gistingar þar sem að fram kæmi að þrjú svefnpokapláss hefðu verið seld dagana 15. til 17. nóvember, tvær gistinætur 21. til 22. desember og sex gistinætur 26. desember til 1. janúar. Þannig hefðu vélsleðarnir ekkert verið leigðir út frá því að þeir voru keyptir hinn 30. september 2002. Ekkert væri minnst á vélsleðaleigu í kafla um afþreyingu á heimasíðu kæranda. Þá vísaði skattstjóri til bréfs kæranda, dags. 7. janúar 2003, þar sem fram kæmi að vélsleðar væru nauðsynlegir vegna afstöðu Vegagerðarinnar til snjóruðningsmála. Á árunum 1994 til 2002 hefðu virðisaukaskattsskyldar tekjur kæranda verið í bilinu 1,7 til rúmlega 3 milljónir króna og hefðu aðallega myndast á tímabilinu frá maí til ágúst.

Með vísan til 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, sem skattstjóri gerði efnislega grein fyrir, væri það mat skattstjóra að kærandi hefði ekki sýnt fram á að vélsleðarnir væru eingöngu notaðir í virðisaukaskattsskyldri starfsemi. Í þessu sambandi væri einna helst litið til þess að rekstur kæranda hefði svo til eingöngu verið bundinn við sumartímann og ekkert benti til þess að stórfelld breyting hefði orðið þar á síðastliðinn vetur, en tekjur af rekstrinum í nóvember og desember 2002 hefðu eingöngu verið 48.686 kr. Þá væri eignfærður í efnahagsreikningi kæranda vélsleði sem keyptur hefði verið árið 1994 og hefði ekkert komið fram um að sá sleði hefði verið leigður út. Kaupverð sleðanna væri nálægt heilsársveltu félagsins og eigið fé hefði verið neikvætt um 14.690.133 kr. hinn 31. desember 2001. Engar rekstraráætlanir hefðu verið gerðar varðandi útleigu sleðanna og vélsleðaleigan virtist ekki hafa verið auglýst. Eigendur félagsins ættu ekki skráðan vélsleða og þeir hefðu í fyrri bréfaskriftum sínum rætt um að ætlunin væri að nota vélsleðana til að komast leiðar sinnar þar sem vegum væri ekki haldið opnum. Þá sagði skattstjóri að það væri og mat sitt að ekki væri hægt að taka tillit til landfræðilegrar og samgöngulegrar aðstöðu rekstrar við ákvörðun um hvort heimilt teldist að telja til innskatts virðisaukaskatt af öflun vélsleða.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 15. maí 2003, krefst umboðsmaður kæranda þess að úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi og að fallist verði á innskatt vegna nefndra vélsleðakaupa. Í kærunni segir að kærandi hafi keypt vélsleðana til að skjóta styrkari stoðum undir rekstur félagsins yfir vetrarmánuðina. Svo hafi viljað til að kaupin hafi borið upp á þann vetur er snjór hafi nánast enginn verið. Að öðru leyti er í kærunni vísað til bréfa kæranda til skattstjóra.

IV.

Með bréfi, dags. 25. júlí 2003, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans og eftirfarandi athugasemda, enda hafa ekki komið fram nein gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra. Kærandi hefur hvorki, þrátt fyrir fyrirspurnir skattstjóra, sýnt fram á að hann hafi haft tekjur af útleigu sleðanna, né þeir hafi verið notaðir til aðdráttar aðfanga fyrir reksturinn.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 7. ágúst 2003, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra og gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og að leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 25. ágúst 2003, hefur umboðsmaður kæranda sent yfirskattanefnd athugasemdir kæranda. Í bréfi kæranda segir að sleðar þeir sem um ræði í málinu hafi ekki verið notaðir enn, hvorki til útleigu né til aðdráttar aðfanga fyrir reksturinn. Sleðarnir hafi verið keyptir í október 2002, en þá hafi farið í hönd einn snjóléttasti vetur sem um geti. Skattstjóri setji einkum fyrir sig ætluð einkanot eigenda kæranda, en það sé rökleysa þar sem á staðnum séu fyrir hendi tveir vélsleðar til einkanota. Vandséð sé þó hvernig að hálfu kæranda sé unnt að koma við sönnun eða afsönnun í málinu og standi orð forsvarsmanna kæranda gegn staðhæfingum skattstjóra.

V.

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, telst til innskatts á hverju uppgjörstímabili, sbr. 24. gr. sömu laga, virðisaukaskattur af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum sem eingöngu varða sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Kemur fram í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi því er varð að lögum nr. 50/1988 að eftir því væri t.d. óheimill frádráttur innskatts sem varðar byggingu sem aðeins að hluta sé notuð í skattskyldri starfsemi fyrirtækis. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar er fjármálaráðherra heimilað að setja reglur um að til innskatts megi telja ákveðinn hluta af virðisaukaskatti innkaupa sem ekki varða eingöngu sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Þá eru talin upp í 3. mgr. greinarinnar nokkur tilvik, þar sem ekki er heimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af þar til greindum aðföngum, þar á meðal hlunnindum til eiganda eða starfsmanna. Segir m.a. í athugasemdum með þeirri málsgrein að það leiði þegar af ákvæðum 1. mgr. að frádráttur innskatts á vörum, sem keyptar séu til einkaneyslu eigandans, sé óheimill, og varði slík innkaup ekki sölu skattaðila á skattskyldum vörum og þjónustu.

Nánar er kveðið á um frádrátt virðisaukaskatts (innskatts) í reglugerð nr. 192/1993, um innskatt, sem sett er með stoð í 2. mgr. 16. gr., sbr. 49. gr. laga nr. 50/1988. Samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar er að meginstefnu til heimilt að telja til innskatts hluta virðisaukaskatts af innkaupum sem einungis varða að hluta sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Þó er í 9. gr. reglugerðarinnar, sbr. breytingu með 2. gr. reglugerðar nr. 18/2001, gerð sú undantekning að því er varðar ökutæki af tilteknu tagi, þar á meðal torfærutæki, þ.e. vélsleða, tví-, þrí-, fjór-, fimm- og sexhjól, að óheimilt er að telja til innskatts virðisaukaskatt vegna öflunar eða leigu þeirra nema þau séu eingöngu notuð vegna sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu, sbr. upphafsmálslið 2. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar. Tekið er fram að öll önnur notkun ökutækja þessara, svo sem einkanot eiganda rekstrar og starfsmanna hans og notkun í þágu starfsemi er falli utan skattskyldusviðs virðisaukaskatts, valdi því að óheimilt sé að telja til innskatts virðisaukaskatt af öflun ökutækjanna. Þá er tekið fram í ákvæðinu að akstur eiganda eða starfsmanns til og frá heimili teljist í öllum tilvikum til einkanota í þessu sambandi og það eins þótt aksturinn sé jafnframt í þágu starfseminnar eða á annan hátt að kröfu rekstraraðila.

Deiluefnið í máli þessu er hvort umrætt skilyrði í 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993 fyrir frádrætti virðisaukaskatts af kaupverði tveggja vélsleða kæranda, sem hann keypti í september 2002, sé uppfyllt eða ekki. Af hálfu kæranda hefur komið fram að vélsleðar þessir, sem samkvæmt reikningi seljanda eru með skráningarnúmerunum Þ og Æ, hafi sökum snjóleysis veturinn 2002-2003 ekkert verið notaðir, þeir hafi ekki enn verið skráðir og séu skráningarnúmer þeirra geymd hjá Skráningarstofu. Nánar tiltekið var til skýringar á innskattsfrádrætti vegna vélsleðakaupa vísað til þess í bréfi kæranda, dags. 7. janúar 2003, að innansveitarvegir væru ekki ruddir og því þyrftu íbúar í X sjálfir að sjá um samgöngumál sín og væru vélsleðar nauðsynlegir í því sambandi. Þá var og vísað til þýðingar búsetu og rekstrar kæranda fyrir fólk er væri á faraldsfæti á veturna. Í bréfinu var þó einnig tekið fram að kaup vélsleðanna væru jafnframt liður í því að laða að vetrargesti. Var nefnt að þeir gerðu kleift að sækja gesti á flugvöll eða yfir T-heiði, auk þess sem vísað var til umræðna um viðleitni ferðaþjónustuaðila á svæði kæranda um að auka umferð vetrargesta. Í kæru til skattstjóra, dags. 27. janúar 2003, kom síðan fram að sleðarnir hefðu m.a. verið keyptir til útleigu og að kaup þeirra hefðu verið gerð með það fyrir augum að laða að vetrargesti. Var og tekið fram að kaup sleðanna hefðu verið hugsuð sem fjárfesting til framtíðar og að um áhættufjárfestingu væri að ræða, en að líðandi vetur, þ.e. veturinn 2002-2003, hefði sakir snjóleysis reynst einkar óheppilegur til vélsleðakaupa. Var og frá því greint að hinir nýkeyptu vélsleðar hefðu ekkert verið notaðir og að þeir væru ekki á skrá. Ennfremur var tekið fram að forsvarsmenn kæranda stunduðu ekki ferðir á vélsleðum sér til skemmtunar.

Skattstjóri taldi að af hálfu kæranda hefði ekki verið sýnt fram á að eingöngu væri um slíka notkun að ræða sem félli innan skilyrðis 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988. Í kæruúrskurði vísaði skattstjóri til þess að rekstrartekjur kæranda yfir vetrartímann væru smávægilegar en hins vegar væri um verulega fjárfestingu að ræða vegna umræddra vélsleðakaupa miðað við umsvif kæranda. Engar rekstraráætlanir lægju fyrir og vélsleðaleiga hefði ekki verið auglýst. Þá tiltók skattstjóri að eigendur kæranda ættu ekki skráðan vélsleða og að þær skýringar hefðu komið fram af hálfu kæranda að ætlunin væri að nota vélsleðana til að komast leiðar sinnar þar sem vegum væri ekki haldið opnum. Ljóst er að skattstjóri hefur talið að vegna einkanota væri framangreint skilyrði ekki uppfyllt.

Vegna umfjöllunar í málinu um aðgang fyrirsvarsmanna kæranda að öðrum vélsleðum skal tekið fram að í ökutækjaskrá er skráð að skráningarnúmer vélsleðanna Þ og Æ hafi verið innlögð af eiganda hinn 8. október 2002. Í bréfi kæranda, dags. 27. janúar 2003, sagði að fyrirsvarsmenn kæranda ættu vélsleða til einkanota og í kæru til skattstjóra, dags. 20. febrúar 2003, var staðfest að um væri að ræða afskráðan vélsleða með skráningarnúmerið Z. Samkvæmt ökutækjaskrá hefur síðastgreindur vélsleði verið skráður eign B, annars fyrirsvarsmanns kæranda, frá því 1. desember 1994. Jafnframt kemur fram í ökutækjaskrá að vélsleði þessi var afskráður 21. febrúar 2002 og að hann hefur verið afskráður síðan. Í kæruúrskurði skattstjóra, dags. 27. febrúar 2003, sagði um þetta að svo virðist að umræddur vélsleði Z væri eignfærður í efnahagsreikningi kæranda en í fyrningarskýrslu félagsins kæmi fram að keyptur hefði verið vélsleði árið 1994. Ekki dró skattstjóri sérstakar ályktanir af þessu. Í bréfi kæranda til yfirskattanefndar, er barst með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 25. ágúst 2003, kemur fram að fyrirsvarsmenn kæranda hafi tvo vélsleða tiltæka til einkanota. Ökutækjaskrá sýnir að í eigu kæranda er auk vélsleðanna Þ og Æ vélsleðinn Ö, nýskráður 6. janúar 1994, hinn sama dag og hann var skráður í eigu kæranda. Ennfremur kemur fram í ökutækjaskrá að skráningarnúmer sleðans Ö hafi verið innlögð hinn 15. mars 2000. Verður að ætla að það sé síðastnefndur vélsleði sem staðið hefur í bókum kæranda en ekki Z svo sem skattstjóri hefur talið. Hvað sem þessu líður er ljóst að hvorugur þeirra vélsleða, sem vísað er til í kæru til yfirskattanefndar, bar skráningarnúmer.

Svo sem mál þetta liggur fyrir verður að taka afstöðu til kröfu kæranda um innskattsfrádrátt vegna vélsleðakaupa hans á grundvelli þess sem fram er komið um fyrirhugaða notkun sleðanna. Þar hefur þrennu verið til tjaldað, svo sem fram er komið. Í fyrsta lagi sé stefnt að útleigu vélsleðanna til hótelgesta og annarra ferðamanna og liggur fyrir í málinu verðskrá kæranda frá janúar 2003 vegna útleigu á vélsleðum, en verðskrá þessi fylgdi svarbréfi kæranda, dags. 20. febrúar 2003, vegna fyrirspurnar skattstjóra frá 12. sama mánaðar. Í öðru lagi hefur kærandi greint frá því að fyrirhugað sé að nýta vélsleðana til að sækja vetrargesti á flugvöll eða yfir T-heiði séu vegir lokaðir. Í þriðja lagi hefur af hálfu kæranda almennt verið skírskotað til erfiðra samgangna í Y-hreppi yfir vetrarmánuðina sökum stefnu Vegagerðarinnar í snjóruðningsmálum. Um þetta sagði í bréfi kæranda, dags. 7. janúar 2003, að íbúar í X væru þannig í sveit settir „að til okkar er heldur ekki opnaður vegur innansveitar. Þess vegna höfum við ávallt þurft að sjá um okkar samgöngur sjálf og allur okkar rekstur og tilverugrundvöllur byggist þ.a.l. á því að gera út svona tæki sem hér eru til umræðu.“

Síðastnefnda röksemd kæranda, sem var þungamiðja í bréfi félagsins, dags. 7. janúar 2003, þykir verða að skilja þannig að vegna þeirra aðstæðna í samgöngumálum, sem lýst er í bréfinu, séu vélsleðar nauðsynleg tæki til samgangna bæði vegna rekstrar kæranda og almennra samgönguþarfa eigenda félagsins og annarra íbúa í X, þótt ekki hafi á það reynt veturinn 2002-2003, svo sem kærandi hefur skýrt frá. Ekki er ástæða til að draga þessa skýringu kæranda í efa, en við blasir á hinn bóginn að notkun vélsleða við þessar aðstæður hlýtur bæði að vera vegna rækslu erinda í þágu rekstrar og vegna persónulegra þarfa og verður trauðla greint þar á milli. Miðað við það sem fyrir liggur um umsvif kæranda yfir vetrartímann verður raunar að ætla að notkun í einkaþágu vegi þungt í þessu sambandi. Svo sem fyrr greinir er tekið fram í 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993 að öll önnur notkun ökutækja, sem ákvæðið tekur til, en vegna sölu á vörum og skattskyldri þjónustu, svo sem einkanot eiganda rekstrar og starfsmanna hans, valdi því að óheimilt sé að telja virðisaukaskatt af öflun þeirra til innskatts. Akstur eiganda eða starfsmanns til og frá heimili teljist í öllum tilvikum til einkanota í skilningi ákvæðisins og það eins þótt aksturinn sé jafnframt í þágu starfseminnar eða á annan hátt að kröfu rekstraraðila. Skírskotun kæranda til almennra aðstæðna í samgöngumálum í Y-hreppi þykir því síst styðja það að vélsleðar hafi eingöngu verið keyptir til nota vegna sölu hans á vörum eða skattskyldri þjónustu, sbr. skilyrði í greindu reglugerðarákvæði. Upplýsingar kæranda um tvo aðra tiltæka vélsleða þykja ekki hagga þessu, enda hafði annar þeirra staðið afskráður um nokkurra ára skeið og hinn verið án skráningarmerkja í tvö ár þegar kærandi keypti vélsleða þá sem í málinu greinir.

Vegna skýringa kæranda um fyrirhugaða notkun vélsleða sem beinlínis lúta að notkun þeirra vegna hótelgesta eða ferðamanna, þ.e. annars vegar flutningur gesta m.a. að og frá flugvelli og hins vegar útleiga vélsleða, er til þess að líta að útleiga vélsleða telst sala á virðisaukaskattsskyldri þjónustu, sbr. meginreglu 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, en í skattframkvæmd hefur á hinn bóginn verið talið að undanþáguákvæði 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna, sem kveður á um undanþágu fólksflutninga, taki m.a. til vélsleðaferða sem skipulagðar eru undir leiðsögn fararstjóra, sbr. kafla 2.3.3.7 í Handbók um virðisaukaskatt, útg. 1988, og bréf ríkisskattstjóra sem þar er vísað til. Skýringar kæranda um fyrirhugaða útleigu vélsleða til ferðamanna hafa verið frekar almenns eðlis, enda þessi rekstrarþáttur ekki kominn til framkvæmda, en miðað við upplýsingar í verðskrá kæranda vegna útleigu á vélsleðum, sem fylgdi bréfi til skattstjóra, dags. 20. febrúar 2003, verður þó að ætla að bæði sé ráðgerð útleiga vélsleða án fararstjóra og með fararstjóra. Að þessu virtu þykja skýringar kæranda ekki bera eindregið með sér að notkun sleðanna verði bundin við virðisaukaskattsskylda starfsemi.

Með vísan til framanritaðs verður verður ekki talið að kærandi hafi sýnt fram á að notkun vélsleðanna Þ og Æ, sem kærandi keypti árið 2002, uppfylli skilyrði 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993. Því verður ákvörðun skattstjóra varðandi innskatt af öflun umræddra tveggja vélsleða látin standa óbreytt.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja